miðvikudagur, 14. júlí 2010

Engin hætta á þjóðargjaldþroti

Það er kannski fjarlægðin, en þegar maður í eftirmiðdaginn lítur á fréttir á netinu að heiman, finnst manni oft hysteríubragurinn á sumum fréttunum vera full mikill.

Gott dæmi er þessi frétt á visir.is:

Ísland aftur á topp tíu listanum yfir hættu á þjóðargjaldþroti

Því miður er enginn tengill úr frétt visir.is yfir í heimildina sem sögð er vera gagnaveitan CMA. Þó þykist ég vita að hér sé um að ræða lista yfir þjóðir þar sem hætta er á “debt default”. “Debt default” þýðir að hætta sé á greiðslufalli lána, sem er töluvert annað og mildara vandamál en ÞJÓÐARGJALDÞROT!!!

Í þessu samhengi er líka ágætt að benda á frétt pressan.is, sem unnin er upp úr frétt af bloomberg.com.

Gengislánadómar: Ísland andspænis nýju bankahruni - Fjárfestar snúa baki við landinu

Nýtt bankahrun er jú viss áhætta í kjölfar dóms hæstaréttar, en ekki er horft til þess hvaða efnahagslegu áhrif það hefur þegar skuldastaða tugþúsunda fjölskylda breytist til hins betra á einni svipan, og sömuleiðis hugsanlega rekstrarstaða hundruða fyrirtækja. Tilhneigingin til þess að horfa alltaf á hið neikvæða er óheppileg, og verst að sjá hvað stjórnvöld eru öflu í þess konar niðurrifsstarfsemi.

Og hvaða fjárfestar eru að snúa baki við landinu. Það hefur allavega farið framhjá mér að einhverjir hafi verið komnir. Þessi eini, sá kanadíski með Ikea-skúffuna, hann er hér enn. Það eru hins vegar öfl á fullu við að henda honum út, en það hefur lítið með Hæstarétt og gengislán að gera.

Það kemur að auki fram í frétt Bloomberg að hjá Íslandsbanka eru menn bara nokkuð brattir og telja sig hafa borð fyrir báru. Þó mjög sé í tísku að skammast í skilanefndum þá virðist sú sem tók yfir Glitni og Íslandsbanka hafa gengið hvað vasklegast fram í að búa til nýjan alvöru banka.

Arion banki er einhversstaðar milli heims og helju og gæti brugðið til beggja vona.

Hins vegar er Landsbankinn líkast til í verstri stöðu og í raun eftirá að hyggja kannski illskiljanlegt af hverju þeim banka var yfirhöfuð bjargað, eða endurreistur sem afleitur sparisjóður í ríkiseigu á veikum grunni. Bankinn hefur verið milli heims og helju frá hruni.

Reyndar skal ég játa fávisku mína og viðurkenna að ég skil ekki hvers vegna Landbankinn er yfirhöfuð með skilanefnd. Það var strax ljóst að heildareignir bankans dugðu ekki upp í kröfur kröfuhafa númer eitt, Tryggingasjóð innistæðueigena, þ.a. til hvers var sett upp skilanefndarleikrit í kringum þá brunarúst?

Nær hefði verið að gera sjoppuna upp strax, afhenda Tryggingasjóði allar eignir bankans og senda öðrum kröfuhöfum kurteisislegt bréf um að ekkert fengist upp í kröfur þeirra. Sorrý! Tryggingasjóður gæti þá a.m.k. farið að byrja að borga bretum og hollendingum eitthvað upp í ICESAVE.

En ég er farinn að fjasa út og suður.

Megin punkturinn er þessi: Það er enginn hætta á “ÞJÓÐARGJALDÞROTI” sama hvernig fer um gengislánin, og nýtt bankahrun er ekkert nýtt, þar er bara framhald af þessari lönguvitleysu sem hófst 2008. Því fyrr sem hún fær að klárast, því betra.

4 ummæli:

 1. En það er verið að reka þetta þjóðfélag á hræðsluáróðri og hefur lengi verið stundað. Manstu ekki eftir „Álver eða dauði“?

  Kv.
  Þorsteinn Úlfar

  SvaraEyða
 2. Ef að Landsbankinn, sem skuldar TIF sem fyrsta skuldara miklar fjárhæðir, væri ekki í ríkiseigu er næstum öruggt að hollendingar og bretar hefðu gengið mun harðar eftir að fá afhenta greiðslu á lánafyrirgreiðslunni til TIF.

  SvaraEyða
 3. Friðrik, veð í kvótanum. Lb. má ekki rúlla
  út af veðsettum fiski í sjónum.

  SvaraEyða
 4. Þetta sagði einmitt Geir gúnga Haarde korteri fyrir hrun. Afsakaðu að ég taki þessari "engin hætta.." með fyrirvara jafnt sem ég tek "hætta á..." með fyrirvara.
  -Ari

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.