fimmtudagur, 8. júlí 2010

Merk grein Árna Páls

Ástæða er til að mæla með grein Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, í Fréttablaðinu í morgun. Þar fjallar hann um stöðu mála í kjölfar gengisdóms Hæstaréttar og er ekki annað hægt en að fagna sérstaklega niðurlagi greinar ráðherrans, en þar segir:

Skilaboðin til fjármálafyrirtækjanna eru skýr:

Þau verða að axla byrðarnar af eigin verkum og við munum ekki ríkisvæða það tjón. Þau þurfa að vinna með fólki en ekki í stríði við fólk. Þau þurfa að laga skuldir einstaklinga og fyrirtækja að greiðslugetu. Þau þurfa að snúa baki við starfsháttum fortíðarinnar – lánveitingum með þriðjamannsábyrgðum, gylliboðum og skrumi. Þau þurfa að læra að verðmeta áhættu og að bera hana sjálf, gegn eðlilegu endurgjaldi, en ekki velta henni yfir á þá sem hvorki eru í stakk búnir til að meta hana eða bera hana. Fjármálakerfi er til fyrir fólk – en ekki fólk fyrir fjármálakerfi.

Skýrt og skorinort. Það eru hins vegar fleira sem vekur athygli í grein ráðherrans. Í annarri málsgrein segir t.d. “Ríkisstjórnin segir ekki SÍ eða FME fyrir verkum. Þvert á móti tryggja lög sjálfstæði þessara stofnana. Hrunið kennir okkur að við eigum að virða sjálfstæði þeirra, en líka gera til þeirra ríkar kröfur. Atburðir síðustu daga sýna okkur líka að tilmælin voru misráðin og ótímabær...”

Vart er hægt að túlka orð ráðherrans öðruvísi en svo að í þeim felist áfellisdómur á aðgerðir þessara tveggja stofnanna í kjölfar gengislánadóms Hæstaréttar. “Misráðin og ótímabær” eru þung orð þegar um jafn alvarlega hluti er að ræða. Hafa ber jafnframt í huga að í þessu felst ekki pólitísk gagnrýni af hálfu ráðherrans á hendur stofnananna, heldur fagleg. Enda er það svo að Samtök fjármálafyrirtækja og fjármálastofnanir landsins hafa valið þann kost að virða tilmæli æðstu fjármálastofnanna hins opinbera að vettugi.

Í raun endurpeglar þannig grein ráðherrans og viðbrögð fjármálafyrirtækja vantraust í garð Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Til að bæta þar salti í sárin ákváðu fjármálafyrirtækin heldur að fara að tilmælum, eða leiðbeiningum, eins manns embættis Talsmanns neytenda. Þessar stofnanir njóta því að því er virðist hvorki faglegs né pólitísks trausts í málinu.

Þessu tengt hlýtur þessi staða að setjaspurningu við stöðu hins faglega viðskiptaráðherra, sem studdi aðgerðir SÍ og FME. Viðskiptaráðherra ber enga pólitíska ábyrgð á verkum sínum. Hún er í reynd borin af pólitískum samráðherrum hans og þingmönnum stjórnarflokkanna. Hver er staða slíks ráðherra þegar hann nýtur að því er virðist hvorki pólitísks trausts samráðherra né faglegs traust fjármálafyrirtækja?

Í þriðju málsgrein segir ráðherrann eftirfarandi: “Dómstólar eru líka sjálfstæðir og munu kveða upp úr um niðurstöðu málsins. Við skipum ekki frændur og vini í Hæstarétt og segjum honum ekki heldur fyrir verkum. Ágreining um samninga á að leiða til lykta fyrir dómi og það verður gert í þessu tilviki.” Sneiðin í miðsetningunni fer ekki fram hjá neinum, en athyglisvert er að engu að síður ber ráðherrann augljóslega fullt traust til dómskerfisins sem skipað er “frændum og vinum”. Er jákvætt að skaðinn af skipun “frænda og vina” er þá ekki meiri en svo.

Fjórða málsgrein hefst svo: “Óvissa er vissulega þungbær, en mikilvægt er að farið sé að réttum leikreglum. Ótímabær inngrip ríkisins geta valdið því að við léttum byrðum af fjármálafyrirtækjum og ríkisvæðum tjón þeirra. Það má aldrei verða.”

Þetta er kannski merkilegasta yfirlýsingin í grein ráðherrans. Í Viðskiptablaðinu er því haldið fram að um 100 milljarðar muni falli á ríkið, og þ.a.l. skattborgarana, ef dómur hæstaréttar gangi yfir öll gengislán og samningsvextir látnir gilda. Er það vegna endurfjármögnunarþarfar þeirra fjármálafyrirtækja sem eru að mestu eða öllu leyti í eign ríkisins. Ekki er hægt að skilja orð ráðherrans öðru vísi en svo að sú pólitíska ákvörðun liggi fyrir að það verði ekki gert. Ergo, þeim fjármálafyrirtækjum sem ekki ráða við afleiðingar dóma hæstaréttar verður ekki bjargað.

Yrði það þá væntanlega næsti kafli í grisjun og einföldun íslenska fjármálakerfisins.

7 ummæli:

 1. Það er vissulega merkilegt ef að ráðherrann sé að ýja því að þau fjármálafyrirtæki, og þar með talin innlánastofnanir, sem ekki ráði við afleiðingar dómsins verði ekki bjargað. Er hann þá að segja að full ábyrgð ríkisins á innistæðum gildi ekki í bönkum á borð við Arion og Íslandbanka?

  SvaraEyða
 2. Magnús Björgvinsson8. júlí 2010 kl. 09:50

  Bara svona að velta upp nokkrum vangaveltum varðandi þennan pistil.
  1. Þó að fjármálafyritækin ráði ekki við afleiðingar þessa dóms. Þá hverfa skuldir fólks ekki. Þær verða væntanlega í þrotabúinu og þaðan seldar hæstbjóðanda eða kröfuhafar eignast þær. Er ekki viss um að það sé betra fyrir fólk.
  2. Þeir sem hugsanlega eiga orðið inni hjá þessum fyrirtækjum vegna ofgreiddra afborgana tapa væntanlega öllu sínu. Því þeir lenda held ég ekki fremst í forgangi að eignum fyrirtækjana.
  3.Þau fjármálafyrirtæki sem lifa þetta af þurfa væntanlega að bæta sér upp tapið þó ekki væri nema til að komast upp í ásættanlega eiginfjárstöðu. Og það geta þau væntanlega ekki gert nema að rukka hærri greiðslur af öðrum lánum og nýjum lánaum eins og þau geta. Sem og að þau lána þá ekki út mikið fé fyrstu árinn á eftir nema á okur vöxtum.
  4. Algjörlega sammála að ábyrðarleysi þessara fyrirtækjavarðandi útlán hefur verið með afbrigðum. En er ekki viss um að hugsunin um láta þessa banka bara rúlla sé okkur í hag.
  5. Eins þá er ljóst að ef að ríkð þarf að bæta Landsbankanum og fleirum upp 100 milljarða eða meira ofan á allt sem þarf að borga núna þýðir eins og segir í fréttum í dag:
  "Blaðið segir, að í vinnugögnunum komi fram að stjórnvöld telji sig þurfa að hækka tekjuskatt, virðisaukaskatt og skera enn frekar niður, verði þessi eignayfirfærsla að veruleika. Þar segi einnig að kostnaður við alla almenna fjármálaþjónustu myndi líklega stórhækka ef samningsvextir lánanna yrðu látnir standa."

  SvaraEyða
 3. Ok. þá ætti fólk sem á innistæður í Landsbankanum einfaldlega að drífa sig niður í Landsbanka útibú, og hreinsa innistæður sínar út af sparireikningunum þar. Fólk ætti líka að losa sig við ríkisskuldabréfin sín, því fjárbinding íslenska ríkisins í fjármálastofnunum er líklega 170-200 milljarðar. Ríkið klífur það aldrei. Lífeyrissjóðirnir, sem hafa verið "guðs blessun" fyrir þá sem hafa þurft að ná sér í ódýrt lánsfé, jafnvel peninga sem aldrei hefur átt að borga til baka, þeim er líka óhætt að hreinsa sína innlánsreikninga í bönkunum ef þetta er stefna ríkisstjórnarinnar.

  Reyndar tala ráðherrarnir hver í sína áttina, ekkert mark á þeim takandi. Árni Páll hefur sýnt það og sannað að hann er ekki traustsins verður.

  Össur sagði að Icesave og ESB aðild væri ekki tengd mál, annað kom nú í ljós í fyrradag hjá evrópuráðinu.

  Kosningaloforð ríkisstjórnaflokkanna eru bara húmbúkk.

  Þessi ríkisstjórn þarf að fara frá. Hún verður að fara frá.

  SvaraEyða
 4. Mjög sammála nafnlausum hér fyrir ofan.

  Árni Páll er ekki traustsins verður.

  Gleymum ekki að hann er einn "styrkþeganna".

  Þessi ríkisstjórn "styrkþega" og öfgamanna verður að fara frá hið fyrsta.

  Þá gefst færi á þeim pólitísku hreinsunum sem eru nauðsynlegar í öllum flokkum.

  Allt tal um "nýtt Ísland" er bara bull á meðan "styrkþegar" sitja á þingi eða í ríkisstjórn.

  Þakka síðan fyrir skrif Friðriks sem mér þykja alltaf áhugaverð og ég fylgist grannt með.

  SvaraEyða
 5. Ríkisstjórnin var nú að falla frá enn einu kosningaloforðinu sínu, Fyrningaleiðinni. Það heyrist lítið í rektornum að vestan, Ólínu Þorvarðardóttur þessa dagana?

  Það væri örugglega fljótlegra að telja upp loforðin sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa reynt að standa við, en þau loforð sem hafa blákalt verið svikin. Aldrei hafa kjósendur verið plataðir jafn mikið og þeir sem kusu VG og Samfylkingu fyrir rúmu ári síðan. Þar kusu menn svo sannarlega epli, en eru að fá skemmdar kartöflur.

  SvaraEyða
 6. Aldrei áður hefur ríkisstjórn í þessu landi þurft að glíma við annan eins vanda og þessi. Mér sýnist hún vera að reyna að gera sitt besta. Gefum henni þann tíma sem þarf til að koma málum í lag. Eitt er alveg víst að ástandið verður ekki betra með skaðvaldana Framsókn of Íhaldið við völd. Þeir mega alls ekki komast að kjötkötlunum næstu áratugina.

  SvaraEyða
 7. Lánin voru dæmd ólögleg .
  Fólkið skuldar ekki þessi stökkbreyttu lán .
  Ríkið/Bankarnir á ekki þessa peninga .

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.