mánudagur, 14. mars 2011

Krónur og Norður-Kórea

Minn ágæti skólabróðir úr Hagaskóla og MR, Gylfi Magnússon, linkaði "af engu sérstöku tilefni" þessa frétt inn á Facebook hjá sér í gær. Segir hún af aftöku yfirmanns fjármála Norður-Kóreu, en það var refsingin sem hann hlaut fyrir að hafa klúðrað upptöku nýs gjaldmiðils í landinu.

Ég gat ekki stillt mig um að skjóta á Gylfa að öðruvísi hefði farið fyrir þjóðverjum og setti í athugasemd tengil á grein um þýska efnahagsundrið og gjaldmiðilsskiptin 1948.

Í kjölfarið á því hófust orðaskipti okkar Gylfa um þýsku leiðina og hvort hún gæti átt við hér, kosti hennar og galla. Með góðfúslegu leyfi Gylfa birti ég megnið hér fyrir neðan, en ég vara við því að þetta er langt, en að mörgu leyti ágætt debat. Kannski eru þarna fróðleiksmolar sem aðrir geta haft gagn og gaman af:

(Hef reynt að leiðrétta sem flestar innsláttarvillur og fjarlægt kumpánleg ávörp okkar Gylfa á hvorn annan.)

Gylfi: "Bráðavandi krónunnar (fyrir utan allan króníska vandann) er að útlendingar eiga of margar krónur sem þeir vilja losna við. Þú leggur í grundvallaratriðum til að þær verði bara gerðar upptækar. Ég er til í að skoða það ef við töpum ...einhvern tíma heimsstyrjöld, stór hluti þjóðarinnar deyr eða örkumlast, minni hlutahópar eru sviptir eigum sínum og síðan sendir í útrýmingarbúðir, framleiðslutæki og innviðir eru meira eða minna sprengd í loft upp og stór hluti íbúðarhúsnæðis sömuleiðis, hungursneyð vofir yfir, landið hertekið, smækkað og því skipt í tvennt."

Friðrik: "Þjóðverjar gerðu þetta líka 1990 þegar þeir tóku yfir Ostmark. 4000 Ostemark fóru á genginu 1:1, en restin á 1:2. Þetta felur ekki í sér endilega upptöku, heldur frekar að færa krónueigur ALLRA nær raunvirði. Eða telur þú að núverandi gengi sé raunhæft án hafta? Tæpast, því þá þyrfti ekki höftin.

Það sem ég "legg til", eða réttara hreyfi við til umræðu, er að hægt er að fara í þetta með öðrum hætti með upptöku nýrrar myntar. Það má fara þýskuleiðina með fyrirfram ákveðnum mis-gengjum, eða það má fara þá leið að taka upp jafnhliða gjaldmiðil, samhliða núverandi og færa raunhagkerfið yfir í hann, þ.e. laun, ný lán, osfrv, en láta verð skuldbindinga ráðast hreinlega af markaði. Það mun þurfa að gera hvort eð er, með einum eða öðrum hætti, þegar að höftin verða afnumin.

Hingað til hef ég ekki heyrt mikið um með hvaða hætti það á að fara fram, öðru vísi en svo að gera það í áföngum, sem þýðir að einhver ætklar að taka að sér að velja sigurvegarana. Þ.e. hverjir fá að fara fyrst úr krónunni, og þá væntanlega á skársta genginu.

Einhvern veginn þurfum við að komast úr þessum vítahring. Þetta er ein leið. Ekki sú eina, en sýndu endilega spilin um hvað þú vildir leggja til. Bottom-line-ið er það að peningarstjórnunarstefnulega eigum við við sama vanda að glíma og þjóðverjar eftir stríð, of margar krónur í umferð í formi peninga og annarra fjárskuldbindinga. Vandi þjóðverja var vissulega mun meiri og af hrikalegri ástæðum, en hagfræðilegi vandinn var í eðli sínu sá sami.

Yfir til þín..."

Gylfi: "Þú misskilur alveg endalok austur-þýska marksins. Það var ekkert gert upptækt eða "fært nær raunvirði". Skiptigengið (sem var ýmist 1:1, 1:2 eða 1:3) var í öllum tilfellum afar hagstætt fyrir þá sem áttu austur-þýsk mörk, raunhæft gengi hefði verið u.þ.b. 1:5. Í þessu fólst því styrkveiting, frá Vestur-Þjóðverjum til Austur-Þjóðverja. Vanhugsað þó því að sá böggull fylgdi skammrifi að laun voru eftir þetta of há austanmegin m.v. framleiðni þar. Íslenska krónan er hins vegar nær örugglega talsvert undir eðlilegu gengi núna sem sést best á því að hagkerfið framleiðir jafnvirði 2-3 milljarða króna af gjaldeyri - nettó - í hverri viku. Það er auðvitað lykilatriði þegar rætt er um afnám haftanna."

Friðrik: "Yfirtaka austur-þýska marksins var vissulega gjafgjörningur Vestur-Þýskalands gagnvart austrinu, en breytir ekki því að beitt var misjöfnu gengi. Austur-þjóðverjum fannst sumum að vísu að sér vegið, en það er önnur saga. Fyrir ónýtan gjaldmiðil er náttúrlega fínt að hafa fengið að skipta á því gengi sem boðið var. Rétt eins og það er óskaplega þægilegt að geta skipt heima á gervigengi Seðlabankans. En eins og við báðir vitum þá er það gengi ekki "sustainable" til lengri tíma. Ef allt væri svona "hönkí-dorí" í gjaldeyrismálum þá þyrfti engin höft. En í stað þess hefur ekkert annað gerst en að höftin er styrkt og efld.

Vissulega er jákvætt að hagkerfið framleiði þetta af gjaldeyri, en það breytir því ekki að skuldbindingar í íslenskum krónum hanga yfir okkur eins og Damóklesarsverð. Heildar innlendar skuldir íslensks banka- og peningakerfis hafa vaxið úr tæpum 500 milljörðum 2001 í næstum 3.500 milljarða undir lok nóvembers síðastliðinn. Í lok árs 2001 var M3 peningamagn (samtala M2 (peningamagn og almenns sparifjár) og bundinna innlána) tæpir 343 milljarðar króna. M4 peningamagn (peningamagn og sparifé (M3) að viðbættri innlendri verðbréfaútgáfu) 392,6 milljarðar. Í lok árs 2007 voru gildin fyrir sömu mælingar peningamagns orðnar 1.230 milljarðar fyrir M3 og tæpir 1.637 milljarðar fyrir M4. Eftir hrun, í lok árs 2009 var staðan þannig að M3 stóð í 1.606 milljörðum. M4 var í lok árs 2008 komið í um 1.943 milljarða, en mér sýnist að sú tala hafi lækkað í um 1.626 milljarða undir lok árs 2009 sem endurspeglar væntanlega afskrift innlendrar verðbréfaeignar í kjölfar hrunsins.

Það eru of miklar skuldbindingar í íslenskum krónum innan okkar peningakerfis, eða það eru a.m.k. mínar áhyggjur. Of miklar til þess að standa undir núverandi gengisskráningu. Aftur, einhvern veginn þurfum við að brjótast út úr þessum vítahring. Hvað leggur þú til minn kæri?"

Gylfi: "Þetta eru háar tölur en minnst af þessu er eitthvað sérstakt vandamál. Það sem flækir afnám haftanna er tvennt, annars vegar krónueignir sem líklegt er að menn (erlendir sem innlendir) vilji skipta í aðra gjaldmiðla þegar höftin eru afnumin og hins vegar krónur sem eru fastar úti og munu streyma heim. Það síðara er raunar mun minna vandamál en hið fyrra. Hið fyrra þarf einfaldlega að leysa með því að afnema höftin í skrefum, hleypa eignum út í skynsamlegri röð og hafa gjaldeyrisforða sem stuðpúða. Það er í grundvallaratriðum ekkert sérstaklega flókið eða óviðráðanlegt. Hve hratt þetta getur gerst fer fyrst og fremst eftir því hve mikið streymi gjaldeyris verður í hina áttina, annars vegar vegna viðskiptajafnaðar og hins vegar vegna fjárfestinga.

Það er allt annað mál að án hafta verður gjaldmiðillinn fyrirsjáanlega hér eftir sem hingað til óstöðugur, bæði gengi og verðlag. Eignaupptaka með nafnbreytingu nú myndi engu breyta um það, a.m.k. ekki til batnaðar."

Friðrik: "Afnám hafta í skrefum er í sjálfu sér ekkert annað en það sem ég er að leggja til, nema með öfugum formerkjum! Þá velur þú einhverja sigurvegara sem fá að fara út á hærra gengi. Þannig mun það ganga koll af kolli, þar til að eftir situr almenningur og fær loks að skipta, en á versta genginu, þar sem ekkert bendir jú til annars en að við afnám hafta muni gengið falla jafnt og þétt. Það er og verður umframeftirspurn eftir gjaldeyri héðan í frá.

Öllu heiðarlegra væri þá að rífa gjaldeyrishaftaplásturinn af og leyfa markaðnum að ráða þessu, en á því er sá galli á gjöf Njarðar að við sitjum jú uppi með verðtryggingu, sem veitir einum hluta hagkerfisins alltaf óeðlilegt skjól. Ef markaðurinn ræður verði gjaldmiðilsins getur enginn kvartað um eignaupptöku. Eignaupptaka er síðan ekki raunveruleg, þar sem hún byggir á því að menn telji núverandi gengi endurspegla raunvirði gjaldmiðilsins. Ef það væri svo þyrfti engin höft. Seðlabankinn viðurkenndi það í reynd með kaupum sínum á krónuskuldbindingunum af Lúx í fyrra á aflandsgengi. Skv. þínum rökum fór þar fram "eignaupptaka"... eða hvað?"

Gylfi: "Gjaldeyrishöft eru í eðli sínu íþyngjandi og að einhverju marki hægt að jafna við eignaupptöku því að krónan er svipt hluta af greiðsluhæfi sínu (þ.e. það er t.d. ekki hægt að nota hana til að kaupa erlend verðbréf). Fyrir almenning á Íslandi er þetta yfirleitt ekki mjög íþyngjandi, það er hægt að nota krónuna óhindrað innanlands og til að kaupa vörur og þjónustu frá útlöndum sem er það sem skiptir íbúa landsins mestu. Fyrir erlenda fjárfesta sem sitja uppi með krónur er þetta mun meira íþyngjandi enda skiptir það greiðsluhæfi sem krónan missir vegna haftanna þá lykilmáli. Þeir sem eiga aflandskrónur eru svo í verstri stöðu því að þær krónur eru til skamms tíma nær algjörlega án greiðsluhæfis - m.a. þess vegna er aflandsgengið mjög lágt og ekki góð vísbending um framtíðargengi krónunnar án hafta.

Á móti kemur síðan að fyrir þá sem eiga krónur, bæði innlenda og erlenda aðila, er akkur í því að það takist að ná stöðugleika á gengið og leysa vandann vegna uppsafnaðra króna sem langar að verða evrur eða dollarar með skipulegum hætti. Það vill enginn þurfa að troðast út um stíflaða neyðarútganga.

Skipulagt afnám haftanna felur í sér að einhverjir fá að fara á undan öðrum en það þarf ekki að vera svo slæmt fyrir þá sem fara síðastir, sérstaklega ekki í ljósi þess að krónan mun nær örugglega styrkjast á næstu árum. Þess vegna m.a. er allt eins víst að sumir þeirra sem fá að fara snemma munu frekar bíða (sem sést nú þegar á því að ekki fer nándar nærri allt það fé úr landi sem má gera það skv. núverandi reglum). Það auðveldar auðvitað afnám haftanna og gerir það allt eins líklegt að hægt sé að afnema þau tiltölulega hratt.

Það er svo allt annað mál að færa má ágæt rök fyrir því að það hefði verið betra að sleppa höftunum alveg, fara í kalda sturtu (ofan á allt annað sem dundi á landanum) haustið 2008. Það hefði verið óþægilegt til skamms tíma en að öllum líkindum gengið tiltölulega hratt yfir. Sú leið var hins vegar ekki farin og úr því sem komið er kemur vart annað til greina en að afnema höftin í nokkrum áföngum."

Friðrik: "Bjartsýni þín er upplífgandi. Vona að þú hafir rétt fyrir þér þar sem ég tel littlar líkur á því að róttækninni verði beitt. Ég því miður er ekki jafn bjartsýnn. Um of finnast mér rökin byggjast á von en vissu - að þetta reddist. En þetta kemur allt í ljós. Vissulega er síðan alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. En þakka spjallið. Alltaf gaman að taka þátt í vitrænum umræðum. Svo segja menn að Norður Kórea láti aldrei neitt gott af sér leiða...!"

Svo mörg voru þau orð. Sýnir að meira að segja róttækar hugmyndir er eftir allt saman hægt að ræða á grundvelli staðreynda og án upphrópanna, jafnvel þó menn séu ekki endilega sammála og takist ekki að sannfæra hvorn annan um "hið eina rétta" enda er ekkert svoleiðis til...!

20 ummæli:

  1. Ég ætla að mæla með því að Seðlabankinn setji á fót uppboð á gjaldeyri fyrir ákveðna upphæð á td. tveggja mánaða fresti.

    Þessi upphæð gæti verið 10-30 milljarðar í hvert skipti eftir því hvað SÍ mundi treysta sér í. Þeir sem bjóða best gætu síðan farið með gjaldeyrinn úr landi.

    Með þessu móti kæmi í ljós hvað erlendir eða innlendir aðilar eru tilbúnir að greiða fyrir evrurnar og gæti SÍ hagnast verulega ef mikil afföll yrðu. Þessi uppboð væru gerð til hliðar við skráð gengi og þyrfti ekki að hafa áhrif á það.

    Ef þetta væri gert mundi koma í ljós hver þrýstinguninn er á krónuna og ef hann er mikill þá mundi smá létta á honum eftir því sem fleiri uppboð væru haldin.

    Þórhallur K

    SvaraEyða
  2. Gylfi hefur algjörlega rétt fyrir sér í þessari rökræðu, eins og raunar oftast.

    Varðandi það að "velja sigurvegara" þá snýrð þú að mínu mati því dæmi öfugt. Menn myndu alltaf setja upp afléttingu hafta með þeim hætti að þeir sem fara fyrst fengju óhagstæðustu kjörin, síðan smábatna þau eftir því sem prógramminu vindur fram.

    SvaraEyða
  3. Uppboðsmarkaður með gjaleyri var reyndar hluti af efnahagstillögum Framsóknarflokksins frá því í febrúar 2009, saman með 20% leiðinni. Þá, eins og nú, var keppst við að úthrópa tillögurnar, af því að þær voru óhefðbundnar og komu frá Framsóknarflokknum (en reyndar unnar fyrir flokkinn m.a. af óflokksbundnum hagfræðingum eins og Jóni Daníelssyni), á grunni uppnefninga og útúrsnúninga, í stað þess að ræða þær "on the merits"...

    SvaraEyða
  4. Vilhjálmur, Gylfi færir ágæt rök fyrir máli sínu, en sleppir hins vegar alveg að svara nokkrum lykilspurningum. Eins og t.d. þeirri hvað gera eigi við offframboð krónuskuldbindinga í hagkerfinu. Hann segir það ekki skipta máli, og þið báðir virðist á því að við losun haftanna verði ekki fall á gengi krónunnar frá því sem núer, a.m.k. ekki verulegt.

    Fyrir mér er þetta "counter-intuitive" því höftin eru einmitt til vegna offramboðs krónuskuldbindinga og gríðarlegs uppsafnaðs þrýstings frá eigendum þeirra skuldbindinga (allir sem eiga krónur eða skuldabréf í íslenskum krónum) til þess að koma þeim eignum yfri í ruanverulegar eignir, þ.e. í öðrum gjaldmiðli.

    Ef, eins og þú nefnir, að gera á þeim sem fyrst sleppa það óhagstæðara en að bíða, þá ertu farinn að rukka útgöngugjald. Það er allt í lagi, en effektíf afleiðing af því er sú að þú ert farinn að beita misjöfnu gengi á því að taka á vandanum. Það er í grunninn sami hluturinn og ég hef sett fram, þ.a. allar leiðir virðast liggja til Rómar... ;-)

    Hitt er svo annað, að sama hvaða leið er farin þá eru það alltaf tímabundin fix. Eigin gjaldmiðill mun alltaf verða veikur fyrir komi til efnahagsáfalla, nú eða bara að currency trader einhversstaðar á vondan dag og ákveður að taka það út á örmynt smáþjóðar. Raunhæft varanlegt skjól verður aldrei nema með aðild að stærra myntsvæði.

    SvaraEyða
  5. Friðrik hvað telur þú eðlilegt skiptigengi á krónu fyrir evru ? Værir þú tilbúinn að fá þau laun sem þú fékkst þegar þú varst hér heima í ráðuneytinu skipt yfir í evrur á gengi Seðlabanka Evrópu um 260 kr á evruna ? Gætir þú lifað sómasamlegu lífi í Norður-Evrópu á slíkum evrulaunum ? Annað, hann Gylfi Magnússon sem þú varst að skrifast á við sýndi og sannaði meðan hann var rekkjunautur krata og komma í pólitíkinni að hann var alveg út á túni, gerði tóman blönder. Skelfilegt að vita svona menn að kenna ungviði landsins hagfræði.

    SvaraEyða
  6. Nafnlaus, ég vildi gjarnan að núverandi gengi, og helst töluvert hærra væri eðlilegt skiptigengi. Hins vegar hefur massíf eiginleg seðlaprentun bæði prívatsins og hins opinbera gert það að verkum að verðgildi krónunnar hefur verið eyðilagt. Þess vegna hef ég viljað skoða þessa hugmynd að skipta um gjaldmiðil á mismunandi gengi. Launin okkar á einu og hærra gengi, froðu- og bólupappírar á öðru og mun lægra gengi.

    Gylfi var og er ekkert úti á túni. Það er hægt að vera sammála honum eða ósámmála, en hann er fínn hagfræðingur, með þeim kostum og göllum sem því fylgja ;-)

    SvaraEyða
  7. Friðrik - ég óttast dálítið þetta viðhorf sem Gylfi kemur fram með, því þess gætir einnig hjá Má. En, þ.e. eins og þeir séu að leitast við að sannfæra sig um, að allt sé í goody að losa um höft.

    En, að sjálfsögðu eins og þú réttilega bendir honum ítrekað á, þá eru höftin ekki af ástæðulausu. Ég verð að segja, að röksemd Más í skýrslu sem fylgir með Icesave frumvarpinu þ.s því er haldið fram og leitast við að rökstyðja, að krónan sé ekki líkleg til að falla - heldur ekki vatni.

    En, þ.e. talað um það að raungengi krónu sé óvenju lágt - so what - skuldir Íslands eru einnig óvenju miklar einkaskuldir sem og opinberar, auk þess að deilan við Breta o Hollendinga skaðar sennileg að einhverju leiti einnig.

    En, punkturinn er að raungengið er líklega ekki undarlega lágt miðað við aðstæður og vegna þess að svo er, þá segir samanburður á raungengi í gegnum árin ekkert til um líkurnar á frekara gengisfalli.

    Þvert á móti er ég alveg sannfærður að, frekara gengisfall sé líklegt.
    ---------------

    Ég er sammála þér, að sú aðferð sem þeir kumpánar virðast stefna að, þ.e. að velja sigurvegara eins og þú kallar það - og er það akkúrat rétt orðalag, og auðvitað mun grunur um pólit. tengsl koma upp á yfirborðið varðandi val.

    Þá er auðvitað mögulegt, að opna einfaldlega allt upp á gátt - losa um flóðgáttina.

    **Það krefst þess þó að algeru lágmarki, að vísitala neysluverð verði fryst um 1. ár.

    Þá lækka lán heimila í stað þess að hækka - sem þá ætti að gegna því hlutverki að vinda aðeins ofan skuldastafla heimila og auðvitað einnig Lífeyriskerfinu sem er einnig orðið of stórt fyrir innanlandshagkerfið.

    Ég vildi þó helst ekki gera þetta, nema að semja fyrst við krónubréfa hafa. T.d. gá hvort hægt er að sannfæra þá um, að samþykkja að umbreita bréfum sínum í lán.

    Síðan má alls ekki verja gengið falli. Þá er smá möguleiki að jafnvægi náist fyrir einhverja rest, án þess að gjaldeyris klárist alveg.
    ----------------

    En, mér lýst betur á þína hugmynd.

    Kv.

    SvaraEyða
  8. Andri Haraldsson15. mars 2011 kl. 03:48

    Friðrik-

    Ég veit ekki alveg hvort að Gylfi skuldar þér sérstaklega svar við spurningunni um hvað muni gerast ef höftunum verður aflétt. Það verður gengisfall og spurningin er því óþörf. Það sem þarf að gera er að sjá hvort raunhæft sé að eitthvað af þeim peningum sem vilja flýja land gætu dokað við ef gengið fellur mjög skarpt -- ekki að það sé á það bætandi fyrir landsmenn.

    En mér finnst þú ekki alveg hafa svarað spurningunni sem Gylfi og Þorsteinn eru að spyrja (beint og óbeint): hvernig sérðu fyrir þér að Ísland komist upp með stórtæka eignaupptöku og einhverja teknókratíska lausn til að kalla sig ekki greiðsluþrota?

    Hætt við að þessi leið myndi leyfa útgefendum að gjaldfella öll önnur erlend lán ríkissjóðs og lán AGS. Ekki myndi það leysa vandann.

    Að svo sé ekki nefnt að þetta leysir ekki krónuvandann--bara greiðsluvanda Íslendinga sem hafa sem þjóð prentað fleiri krónur en hún á innistæður fyrir.

    SvaraEyða
  9. Andri, Gylfi segir sjálfur að með afnámi hafta í áföngum verði hægt að koma í veg fyrir gengishrun. Ég er ekki sammála því.

    En varðandi eignaupptökuna. Í fyrsta algi er ég ekki að tala fyrir því að menn fái ekki neitt fyrir krónubréfin sín, frekar að þeir fái nær raunvirði. Ef þú átt í dag ca 160 millur íslenskar, þá telur þú þig eiga, m.v. núverandi gengi, jafngildi einni milljón evra.

    Málið er hins vegar að þessi verðmiði er að mínu mati ekki í neinu sambandi við raunveruleikan. Ef höftin væru afnumin væri gengið hvað?

    Aflandsgengið var síðast um 290 krónur. Skv. því væri evrueignin þín nær 500 þúsund, en ekki milljón. Er það eignaupptaka? Nei, það er réttara verð. Ef höftin væru afnumin og gengið félli í, segjum, 480 krónur. Þá væri evrueignin þín þriðjungur af því sem þú HELDUR að hún sé í dag. Eignaupptaka? Nei. Feels like it? You betcha!

    SvaraEyða
  10. Höftin eru ekki lengur vegna skorts á gjaldeyri eða hættu á gengisfalli krónunnar. Þau eru fyrst og fremst til að sjá til þess að ríkið, sem fær ekki lán á erlendum fjármálamörkuðum, geti fjármagnað sig með innlendum sparnaði á lágum vöxtum.

    Ef höftin verða afnumin og sparnaður leitar út þá minnkar framboð af lánsfé í kerfinu og þeir vextir sem ríkið þarf að greiða af lánum hækkar.

    SvaraEyða
  11. Lúðvík - á hverju byggir þú þá afstöðu? Það eru ekki gild rök, að raungengi sé sögulega lágt - því þ.e. einfaldlega í samhengi við óvenju erfiða skuldastöðu ríkis og hagkerfis, ásamt óvissri stöðu bankakerfis.

    Ef skuldastaða versnar, getur því krónan fallið frekar. Hagvaxtarlega, lítur staðan ekki vel út.

    Mér sýnist raungengi alls ekki of lágt miðað við núverandi aðstæður.

    Síðan, hefjast greiðslur af AGS pakka á næsta ári, sem er e-h á milli 50-60 ma.kr. í viðbótarvaxtagjöld fyrir ríkið. Mér sýnist, tekjuborð varðandi gjaldeyristekjur, einfaldlega ekki mega vera minna.

    Lítið borð sé fyrir báru, ef verða frekari áföll. Krónan falli þá að sjálfsögðu.

    Kv.

    Kv.

    SvaraEyða
  12. Andri Haraldsson15. mars 2011 kl. 15:22

    Friðrik-

    Ég er ekki með innanhússupplýsingar um þetta mál, en nokkurn veginn svona skilst mér að eigi að leysa málin:

    Í stað þess að fella gengið um (kannski) 50% og skapa mikla óvissu í hagkerfinu, þá er hugmyndin að semja fyrirfram við (sérstaklega) erlenda fjárfesta sem vilja losa sig frá Íslandi. Með því að bjóða þeim einhvers konar smá bónus á það sem þeir gætu búist við á frjálsum markaði, þá væri hugsanlega hægt að leysa pressuna á gengið.

    Þetta grundvallast á því að megin þorri innlendra krónueigenda eru ekki að fara að selja krónur sínar fyrir erlenda mynt. En ef glundroði skapast þá myndu fleiri gera þetta -- í raun áhlaup á krónuna sem myndi neyða stjórnvöld til að endurinnleiða gjaldeyrishöft.

    Þessi leið er ekki jafn dramatísk og það sem þú talar um, en hún hefur þann plús að vera lögleg...

    SvaraEyða
  13. Lúðvik, þetta tel ég of einfalt. Krónuskuldbindingar eru að mínu mati svo miklar að það sligar gjaldmiðilinn, auk þess sem það hefu enginn trú á gjaldmiðlinum. Hvað myndir þú sjálfur gera með þinn sparnað í dag, ef þú hefðir val? Hafa hann í krónum eða erlendum gjaldmiðli?

    SvaraEyða
  14. Það er ágætis hugmynd að semja við krónubréfahafa - sérstaklega ef hægt væri að umbreyta þeirra bréfum í lán, sem hefði afborganir.

    Þetta auðvitað minnkar útflæðið, svo fræðilega getur það rúmast innan gjaldeyrisvarasjóðs, ef höft væru tekin af.

    Kv.

    SvaraEyða
  15. Andri, er ekki búið að vera að tala um að semja við eigendur krónubréfa eiginlega frá hruni? Krónubréfaeigendur eru svo eitt, almennir sparifjáreigendur annað, en svo er líka, eins og ég er alltaf að reyna að benda á, heildarskuldbindingarnar í hagkerfinu sem eru gríðarmiklar og að mínu mati ekki sjálfbærar. Gylfi vinur minn er því ekki sammála. Gott og vel. Ég dáist að þeirri bjartsýni og vona að hann hafi rétt fyrir sér, en...

    SvaraEyða
  16. Friðrik, svo lengi sem krónan er í höftum þá er ljóst að eftirspurn eftir gjaldeyri verður meiri en að öllu jöfnu. Höftin skapa pressu á krónuna.

    Höftin skapa líka pressu á krónueigendur þar sem þeir vilja fara úr landi vegna haftanna, en ef höftin verða afnumin þá er það ekki lengur ástæða.

    Það er kannski ekki ástæða til að ræða þetta svona djúpt hér. Fljótlega kemur út áætlun Seðlabankans á afnámi haftanna. Þá loksins verður vonandi tækifæri til að ræða raunhæfar praktískar leiðir og aðferðir.

    SvaraEyða
  17. Jú jú, Lúðvík, þetta kemur svo sem allt í ljós. En eru þessi mál ekki of mikilvæg til þess að láta í hendurnar á meintum sérfræðingum? Er track record Seðlabanka Íslands, ja frá lýðveldisstofnun, ekki þannig að það sé um að gera að veita honum aðhald í almennri umræðu?

    SvaraEyða
  18. Friðrik, auðvitað er gott að ræða þetta. Það er hins vegar svolítið erfitt þegar vandinn hefur ekki verið skilgreindur og "kostnaður" við leiðirnar skoðaður. Til dæmis eru notaðar tölur frá 200 til 600 milljörðum þegar talað er um krónueigendur. Vonandi er þetta vel skilgreint í áætluninni svo það verði hægt að bera kostnaðinn saman við raunhæfar leiðir, jafnvel myntbreytingu.

    Friðrik... ég er búinn að kvarta yfir störfum Seðlabankans til Umboðsmanns Alþingis og er að skrifa kæru til ESA. Ég er að sýna honum aðhald ;) jafnvel þó málin séu ekki nógu "djössuð" til að komast í almenna umræðu.

    SvaraEyða
  19. Mikið er gaman að lesa fróðleg og málefnaleg samskipti manna um þessi efni. Takk fyrir það.

    kv. Björn J Friðbjörnsson

    SvaraEyða
  20. Björn, það er hægt ef menn bara vilja...!

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.