mánudagur, 3. mars 2008

Eilífðarverðbólga?

Hagstofa Íslands, ein opinberra tölfræðistofnanna innan OECD, mælir verðbólgu þannig að blandað er saman ólíkum stofnþáttum til að mynda vísitölu neysluverðs. Annars vegar er um að ræða hefðbundnar verðmælingar á neysluþáttum, s.s. þróun á verði matvæla, eldsneytis og annarra aðfanga. Þessir þættir eiga það sameiginlegt að vera eignarýrandi þættir, þ.e. hækkun þeirra hefur raunáhrif á ráðstöfunarfé þ.a. minna verður til sparnaðar. Eignir (sparnaður) aukast ekki, rýrna jafnvel að raungildi og í verstu tilfellum verður hrein rýrnun þar sem sparifjáreigendur verða að ganga á sparnaðinn til að mæta kostnaðaraukningu aðfanga.

Hins vegar er um að ræða mælingu á eignamyndandi þætti, þ.e. þróun húsnæðisverðs. Hækkun á húsnæðisverði ætti að öllu jöfnu að teljast jákvæð þar sem hún er eignamyndandi verðbólga. Hún er því algerlega eðlisólík hefðbundinni verðbólgu og er blöndun þeirra hrein hugsanavilla og rökleysa.

Eðlilegt er að reglulegir útgjaldaliðir tengdir húsnæði komi inn í verðbólgumælingu, t.d verðþróun byggingakostnaðar, leiguverð og jafnvel fjármögnunarkostnaður húsnæðis (sem þó væri ákveðin tvítalning þar sem fjármögnunarkostnaður húsnæðis í venjulegu þjóðfélögum endurspeglar verðbólguvæntingar að verulegu leyti).

Verðþróun húsnæðisins sjálfs er, eins og áður sagði, annað mál, enda er það svo að flest okkar kaupa húsnæði eflaust ekki nema tvisvar til þrisvar sinnum um ævina. Við kaupum á hverjum degi eitthvað í matinn.

Reyndar er það oftast þannig í öðrum löndum að við lága verðbólgu hækkar húsnæðisverð, og öfugt. Það á sér þá einföldu meginskýringu að við lága verðbólgu er aðgengi að lánsfjármagni auðveldar og fjármögnun ódýrari. Það ýtir undir eftirspurn eftir fasteignum, sem aftur skapar verðþrýsting.

Aukin verðbólga leiðir af sér hærri fjármögnunarkostnað, sem dregur úr lánaeftirspurn og þ.a.l. dregur úr eftirspurn eftir fasteignum og verð stendur í stað eða jafnvel lækkar. Ekki þarf að horfa lengra en til Bandaríkjanna og Bretlands í dag til að sjá dæmi um þetta.

Í okkar kerfi þar sem haldast í hendur verðtrygging lána og hin séríslenska verðbólgumæling er komið í veg fyrir þessa jafnvægislist eigna og eyðslu. Í okkar kerfi, sérstaklega eftir innkomu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn, aukningu lánshlutfalls og hækkun á lánum, þrýstir hvað á annað, og verðbólgan er líklega að verða eilíf nema til komi grunvallarkerfisbreyting.

Verðbólga undanfarinna ára byggðist svo að segja algerlega á sprengingu í húsnæðisverði sem varð vegna innkomu bankanna á þann markað. Að kenna um 90% lánum íbúðalánasjóðs fyrir fyrstu íbúð að hámarki 9 milljónir, sem ekki voru einu sinni komin til framkvæmda þegar að bankarnir komu inn á markaðinn er í besta falli kjánalegt.

Nú þegar fasteignamarkaðurinn hefur hægt verulega á og íbúðaverð virðist vera að ná jafnvægi, er hin hefðbundna verðbólga hins vegar farin í fullan gang. M.a. er það afleiðing gífurlegrar hækkunar á rekstarkostnaði fyrirtækja sem er bein afleiðing hávaxtastefnu Seðlabankans, auk að sjálfsögðu vegna ástands á alþjóðamörkuðum.

Þetta þýðir að hin séríslenska verðbólga heldur áfram að vera há. Hún getur ekki lækkað. Við erum föst í verðbólguvítahring og hún er orðin okkar efnahagslega gereyðingarvopn.

Það mun ekki breytast nema til komi grundvallarkerfisbreyting.

1 ummæli:

  1. Mjög skilmerkilega framsett greining á því vandræðaástandi sem hér ríkir. Ef farið er inn á vef Hagstofunnar má sjá að samræmd vísitala neysluverðs var að meðaltali 2,3% í ESB ríkjunum, en 3,6% á Íslandi. Þetta er hinn raunverulegi mælikvarði verðbreytinga, hin raunverulega mæling verðbólgu, líkt og kom svo vel fram í grein þinni. Þess má svo í framhjáhlaupi geta að við vorum árið 2007 0,4 prósentustigum frá því að standast verðbólguviðmið aðildar að Evrópska myntbandalaginu.

    Stjórnvöldum er í lófa lagið að taka á verðbólguvandanum með því í fyrsta lagi að samræma mælingu við það sem tíðkast erlendis og í öðru lagi að sýna sveigjanleiga í opinberum álögum á nauðsynjavörur. Þannig mætti lækka tímabundið gjald á eldsneyti og aðrar nauðsynjavörur, svo dæmi sé tekið, með það að markmiði að "skrúfa" niður verðhækkanir.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.