þriðjudagur, 15. apríl 2008

Þvælan í Þorvaldi

Þorvaldur Gylfason skrifar fyrir stuttu grein á voxeu.org. Vox býður lesendum upp á “research based policy analysis and commentary from leading economists” og er Þorvaldi þannig sýnd nokkur virðing. Hvernig hann notfærir sér það í pólitísku neðanbeltisboxi er prófessornum hins vegar ekki til hróss.

Í greininni kveðst prófessorinn vilja setja atburði undanfarinna vikna í pólitískt samhengi, eða í hans eigin orðum “A bit of political history may help illuminate recent developments.”

Það er athyglisvert að lesa þessa grein og ekki síður langan lista athugasemda frá Friðriki Má Baldurssyni, prófessors við Háskólann í Reykjavík. Greinin grautar saman misgóðum fræðilegum athugasemdum við pólitískar samsæriskenningar sem saman gera lítið til að varpa ljósi á stöðuna í íslenskum efnahagsmálum.

Athugasemdir nafna míns í HR taka vel á fræðilegu göllunum á röksemdafærslum Þorvaldar. Í fyrstu undirmálsgrein slær Þorvaldur hins vegar tóninn þegar hann líkir einkavæðingu bankanna við einkavæðingar í Rússlandi Jeltsíns.

Þetta er þreytt, klisjukennd og kjánaleg samsæriskenning sem aldrei hefur verið hægt að færa vitræn rök fyrir. Rökin hafa öll verið í ”mér finnst” og ”aþþíbara” stílnum. Margoft hefur verið farið yfir þess einkavæðingu bankanna, m.a. annars af ríkisendurskoðun og aldrei nokkuð komið fram sem hefur stutt við samsæriskenningarnar. Meira að segja hinn ágæti Egill Helgason, konungur pólitískra spjallþátta á Íslandi, sem öllu jöfnu er ekki ginnkeyptur fyrir samsæriskenningum tönglast á þessari eins og þar fari hið heilaga orð. Einkavæðing bankanna er alls ekki yfir gagnrýni hafin, en að hún hafi verið ”hreinræktað SPILLINGARMÁL” eins og Egill heldur fram heldur ekki vatni.

Í þessari grein Þorvaldar er ekki, frekar en fyrri daginn, boðið upp á haldbær rök fyrir því að eitthvað hafi verið athugavert við einkavæðingu bankanna. Vitnað er í ríkisendurskoðun að verðið á bönkunum hafi verið ”modest”. Já það var og!

Það er nú reyndar svo í hagfræðinni að rétt verð er einfaldlega það verð sem einn er til í að selja á og annar til í að kaupa! Bankarnir voru seldir á réttu verði á þeim tíma sem þeir voru seldir og á því verði sem markaðurinn var til í að greiða. Eftir-á-vit að hugsanlega hefði verðið geta verið eitthvað öðruvísi er til lítils. Reyndar má færa fyrir því rök að verðið hafi síst verið of hátt þar sem það varð ekki það íþyngjandi fyrir nýja eigendur að þeir gætu ekki tekið bankana á flug í vexti og hagnaði. Bankasalan frá sjónarhóli ríkissjóðs var t.d. gríðarlega vel heppnuð í ljósi þess hvað hún hefur skilað bæði í tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti frá bönkunum sjálfum og starfsmönnum þeirra í kjölfar einkavæðingar.

Sama verður t.d. varla sagt um einkavæðingu símans, sem var seldur háu verði, en hugsanlega það dýrt að þess verður mun lengra að bíða að hinn einkavæddi sími skili viðlíka tekjuaukningu í ríkissjóð og einkavæðing bankanna hefur gert.

En aftur að Þorvaldi. Viðbótarskandallinn sem Þorvaldur telur til, auk þess að verðið hafi verið ”modest”, er að tveir að þeim sem komu kaupunum hafi verið einhverskonar skúrkar. Af hverju voru þeir skúrkar? Jú af því að annar var fyrrverandi pólitíkus sem hafði unnið í nokkra mánuði á prjónastofum og hinn lét Elton John syngja í afmælinu sínu. Þetta nægir fyrir Þorvald til að sanna að Ísland hafði breyst í Rússland!

Með vini eins og Þorvald þarf íslenska hagkerfið líkast til ekki óvini, eða hver var annars punkturinn?

Þessi skrif Þorvaldar eru í raun á lítið merkilegra plani en skrif Extra blaðsins þess danska um Kaupþing. Og í ljósi þess að þessar aðdróttanir eru skrifaðar á ensku er kannski full ástæða fyrir þá sem fyrir barðinu verða að fara í meiðyrðamál í Bretlandi...! Þorvaldur nefnir að vísu engin nöfn, en ekki þarf mikið hugmyndarflug til að sjá við hverja er átt. Kannski íslenska ríkið ætti að fara í mál við hann líka?

2 ummæli:

  1. frábært að lesa þetta svona 2 og hálfu ári eftir hrun. Þú friðrik, ert einstaklega gáfaður.

    SvaraEyða
  2. Já netið gleymir engu. Maður roðnar bara! :-)

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.