laugardagur, 26. apríl 2008

Viðsnúningur Magasin du Nord

Uppáhalds stórverslun íslendinga í útlöndum hefur án efa lengst verið Magasin du Nord við kóngsins nýja torg í Kaupmannahöfn. Það er ekki ofsagt að staða, útlit og álit á versluninni, og útibúum hennar hér og hvar í danaveldi, hafi verið orðið frekar dapurt þegar íslenskir athafnamenn með Baug í broddi fylkingar keyptu verslunina árið 2004.

Þau kaup voru á þeim tíma hluti af hinni óforskömmuðu íslensku "innrás" í danskt viðskiptalíf.

Reyndar var ekki skortur á bolsýnismönnum sem sögðu fyrirætlanir um viðsnúning og endurreisn á fyrri glæsileik og virðingu verslunarinnar borna von.

Á þeim rúmlega þremur árum sem liðin eru frá hinni al-íslensku yfirtöku á Magasin hefur verslunin, og útbú hennar, tekið miklum breytingum til hins betra. Hún hefur endurheimt sinn fyrri virðingarsess.

Þessi viðsnúningur kemur núna fram í rekstrarstöðu verslunarinnar, en þar er um að ræða byltingu frá fyrri tíð. Í Berlingske Business í dag er sagt frá því í frétt undir fyrirsögninni "Magasin du Nord vender skuden".

Í greininni kemur m.a. greinilega fram að viðsnúningur á rekstri Magasin byggir á grunni breyttra viðskiptahátta í rekstri verslunarinnar. Á nútímamáli myndi það útleggjast þannig að áhersla á kjarnastarfsemi Magasin hafi skilað árangri. Viðsnúningurinn byggir s.s. ekki á tilfærslum milli efnahags- og rekstrarreiknings, heldur á árangri í grunnrekstri fyrirtækisins - fleiri og ánægðari viðskiptavinir sem versla meira en áður. Enda kemur fram í greininni að á síðustu þremur mánuðum síðasta árs varð um 10% veltuaukning hjá Magasin m.v. árið áður, á meðan að 2% samdráttur varð á sama tíma í þessum anga verslunar- og þjónustugeirans.

Full ástæða er til að óska eigendum og stjórnendum Magasin til hamingju með þennan árangur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.