sunnudagur, 20. apríl 2008

Villur Seðlabankans

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er í heilsíðu viðtali í Fréttablaðinu í dag. Þar kallar hann eftir því að Seðlabankinn viðurkenni villu sína í ofmati á skuldastöðu þjóðarbúsins. Vísar hann í niðurstöðu úttektar Daníels Svavarssonar, hagfræðings á hagfræðisviði Seðlabankans sem birt er í síðustu útgáfu peningamála bankans í greininni “Áætlað markaðsverðmæti erlendra eigna og skulda og
áhrif breytinga á ytri skilyrðum á hreina erlenda stöðu”.


Hér er einn hængur á. Greinin er vissulega skrifuð af einum af hagfræðingum bankans og birt í riti bankans. Hins vegar er jafnframt tekið fram að skoðanir sem fram komi í greininni séu höfundar og þurfi þannig ekki endilega að enduspegla skoðanir bankans.

Það hangir s.s. ekkert í loftinu að Seðlabankinn muni hér eftir beita þeirri aðferð sem kynnt er til sögunnar í greininni.

En það er full ástæða til þess að beina því til Seðlabankans að taka til í tölfræðinni hjá sér. Eins og m.a. Alan Greenspan bendir á sinni ágætu bók The Age of Turbulence að þá er mjög mikilvægt fyrir seðlabanka að beita tölfræðilíkönum þannig að hægt sé að aðlaga þau sem mest þeim efnahagslega veruleika sem búið er við.

Sumpart er þetta eins og veðrið – spárnar og staðreyndirnar eru oft ekki alveg í takt!

Það er því full ástæða til þess Seðlabankinn viðurkenni villur sínar, eins og Vilhjálmur kemst að orði, en það á ekki einungis við um erlenda stöðu þjóðarbúsins.

Seðlabankinn mætti líka viðurkenna villu sína í því að hafa miðað við verðgbólgumælingu sem tekur fullt tillit til verðþróunar á húsnæðismarkaði – einn vestrænna Seðlabanka. Helst ætti að leiðrétta þá villu svona u.þ.b. fimm ár aftur í tímann. (Hagstofa Íslands þyrfti að vera hluti af þessari verðbólguleiðréttingu).

Jafnhliða þeirri leiðréttingu ætti Seðlabankinn að viðurkenna villu sína hvað varðar ákvörðun skammtímavaxta. Verðbólgan var vitlaust mæld, þ.a.l. voru vaxtaákvarðanirnar teknar á röngum forsendum. Þetta hefur verið bent á áður. Ég gerði það í grein í Fréttablaðinu vorið 2005, og sama gerði Illugi Gunnarsson, nú alþingismaður nokkrum vikum síðar. Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur bankans ritaði í kjölfarið svargrein þar sem hann lýsti flotgengisstefnunni sem tilraun. Um þá staðreynd að húsnæðisverðið væri tekið beint í verðbólguna svaraði hann til að innri rannsóknir bankans bentu til að þróun húsnæðisverðs gæfu ákveðna vísbendingu um framtíðarþróun verðbólgu, ef ég man rétt. Það eru hins vegar ekki rök fyrir því að telja verðið beint inn í verðbólgu.

Rétt er að minnast á í tengslum við þetta atriði að í fréttaskýringaþættinum Kompás þar sem fjallað var um efnahagsmálin (í janúar sl. að mig minnir) var Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri spurður um þetta atriði. Hann svaraði þessari gagnrýni ekki efnislega en sagði með þjósti að hægt væri að taka alla liði úr verðbólgunni og þá myndi ekki mælast nein verðbólga!

Seðlabankinn ætti jafnframt að viðurkenna að vaxtastefna þeirra hefur ýtt undir ójafnvægi í þjóðarbúskapnum með því að laða að óhemjumikið skammtíma áhættufjármagn til vaxtamunaviðskipta. Það leiddi m.a. til ofursterkrar krónu sem var úr takti við raunstöðu íslensks efnahagslífs og ýtti þannig undir bæði einkaneyslu og viðskiptahalla. Skemmst er að minnast þess þegar að tilkynnt var um verulegan niðurskurð aflaheimilda á síðasta ári að þá styrktist krónan.

Seðlabankinn ætti jafnframt að horfast í augu við það að núverandi hávaxtastefna þeirra hefur snúist upp í andhverfu sína – ofurvextirnir hafa aukið svo rekstrarkostnað fyrirtækjanna að vextirnir ýta beinlínis undir verðbólgu.

Seðlabankinn ætti jafnframt að viðurkenna að hávaxtastefna – hvers tilgangur er að draga úr aðgengi á lausafé – getur ekki gengið upp á sama tíma og lausafjárþurrð ríkir á mörkuðum. Að þessu leyti er Seðlabankinn í núverandi aðgerðum sínum í hróplegu ósamræmi við sjálfan sig.

Viðurkenning á mistökum er fyrsta skrefið í átt að bata.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.