laugardagur, 19. apríl 2008

Hrátt mat

Í forundran hlustar maður, horfir og les formann Framsóknarflokksins og lénsvein hans Bjarna Harðarson skrifa um inntöku matvælareglugerðar Evrópusambandsins í íslensk lög í gegnum bókun við EES-samninginn.

Hrært er upp gamaldags hræðsluáróðri um áhættu af innflutningi erlendra matvæla - heilbrigði manna og dýra standi hér veruleg ógn af. Viðbúið sé að matvælaframleiðsla í landinu leggist af. Ísland skal vera lokað innan verndar- og tollamúra hvað sem það kostar.

O.s.frv.

Það kostulega í þessu er síðan sú staðreynd að allur undirbúningur málsins var unnin í tíð Guðna Ágústssonar sem landbúnaðarráðherra eins og ritstjóri 24 stunda bendir réttilega á í leiðara sínum í dag.

Hættan af erlenda matnum, þ.e.a.s. hrávörunni er líkast til hverfandi og tæpast meiri en er af innlendri framleiðslu nú þegar. Þar fyrir utan er engin að fara að flytja inn hrátt kjöt til þess að gefa það íslenskum kúm eða sauðfé.

Ótti kjötvinnslunnar er án efa ofmetinn – reyndar felast í þessu ný tækifæri þar sem íslensk matarvinnsla mun geta flutt inn hrávöru til fullvinnslu hér á landi. Höfum jafnframt í huga að ekki er verið að draga úr tollverndinni á sama tíma, hvað sem síðar verður.

Heilbrigðisáhættan er því stórlega ofmetin og reyndar er það svo að umbætur á sviði matvælaheilbrigðisreglna hér á landi má að miklu leyti rekja til áhrifa frá Evrópu. Einnig eru í hinum nýju reglum varnaglar hvað varðar heilbrigðismál og heimildir til viðeigandi aðgerða.

Staðreyndin er einnig sú að tími innflutningsverndar landbúnaðarins er að líða hjá og tollverndin mun á endanum fara sama veg. Viðgangur heillar atvinnugreinar eins og landbúnaðarins getur ekki byggt framtíð sína á slíku verndarumhverfi til framtíðar.

Í stað þess að hanga í örvæntingu í úreltu verndarkerfi ætti núverandi forysta bændasamtakanna (og þeirra sem starfa að kjötvinnslu) að vinna ötullega að því að koma með hugmyndir um hvernig íslenskur landbúnaður getur dafnað við breyttar aðstæður. Til þess hafa þeir alla burði. Það ætti að vera hlutverk slíkra hagsmunasamtaka að greina fyrir um framtíðarþróun og hvernig megi bregðast við henni. Það á ekki að stinga við og berjast á móti því óumflýanlega, heldur finna tækifæri og auðkenna nýjar leiðir að því sameiginlega markmiði allra að á Íslandi fái þrifist landbúnaður með þeirri aðstoð sem til þarf, en þannig að flestir geti verið sáttir.

Slíkt verkefni ættu þeir Guðni og Bjarni að geta stutt líka.

Það var hins vegar athyglisvert að fylgjast með formanni Framsóknarflokksins í þinginu að skammast út af þessum málum brúnn og sællegur, nýkominn frá Kanarí. Hin augljósa spurning í ljósi málflutningsins er hvort að þegar hann flaug þangað - tók hann með sér nesti?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.