miðvikudagur, 4. júní 2008

Eftiröpunarskjall o.fl.

"Imitation is the highest form of flattery"...!!!

Fréttastofa Stöðvar 2 var með þessa frétt í kvöld. Óneitanlega kunnuglegt, alveg upp á krónu!

Góður félagi vakti athygli mína á því að hin hliðin á þessum peningi væri sú staðreynd að vextir án verðtryggingar á húsnæðislánum hefði verið upp undir 18% og þannig hefði vaxtakostnaðurinn verið svipaður ef ekki hærri. Þá hefði lántakandi þurft að greiða þá vexti samstundis, en með verðtryggða láninu fæst í raun greiðslufrestur á verðbólguáhrifunum.

Þetta er að sjálfsögðu kórrétt athugasemd, en hún vekur upp tvennt í mínum huga, annars vegar áhrif verðtryggingar á kostnaðar- og verðbólguvitund, þ.e. við finnum ekki fyrir áhrifunum þar sem verðtryggingin og "greiðsludreifing" hennar í verðtryggðu lánunum er eins og nokkurs konar efnahagslegt deyfilyf. Þá má velta fyrir sér hvort það sé náttúrulögmál að verðbótaþátturinn sé geymdur. Hvað ef hann væri greiddur samstundis, eins og ef um fasta vexti væri að ræða?

Hitt er svo hið augljósa, það er íslenska krónan með verðtryggingu og því sem því tilheyrir samanborið við það sem viðgengst í löndunum í kringum okkur stenst engan samanburð. Þar verður almenningur ekki jafn illilega fyrir barðinu á verðbólgunni (nú eða alþjóðlegu lausafjárkreppunni) og hér þar sem ekki er verðtryggingu fyrir að dreifa.

Almenningur erlendis er ekki að horfa upp á að eigið fé þeirra í fasteignum brenna upp frá báðum endum, þ.e. bæði lækkun húsnæðisverðs OG hækkun á höfuðstóli lána eins og hér verður með verðtryggingunni.

Segja má að með verðtryggingunni sé útlánastofnunum jafnframt gefið ákveðið ábyrgðarleysisvottorð þar sem í sinni útlánastefnu þurfa þær ekki lengur að hafa áhyggjur af því að útlán þeirra brenni upp á verðbólgubáli.

Reyndar má færa fyrir því sterk rök að einmitt verðbólgusamsetningin hafi verkað sem hvati fyrir bankanna að koma með þeim hætti inn á íbúðalánamarkaðinn og þeir gerðu 2004 með 100% lánum og 285% hærri lánum en Íbúðalánasjóður. Stærðfræðin var einföld, meira aðgengi að lánsfé => hækkun íbúðaverðs => hærri verðbóga => hækkun á höfuðstóli/vöxtum.

Ef bankar hér hefði verið að bjóða upp á fasta vexti án verðtryggingar 2004 á 25 ára lánum má gera ráð fyrir að útlánahegðan þeirra hefði verið með allt öðrum hætti.

4 ummæli:

 1. Mjög athyglisverðir punktar. Hefur íslenskur almenningur kannske tekið á sig of mikla ábyrgð á hagkerfinu? Sitjum við uppi með afleiðingar þjóðarsáttarinnar (eins góð og hún var á sínum tíma) þar sem íslenskur almenningur tók á sig ábyrgð á erfiðri efnahagsstöðu, en þegar hagur vænkaðist sættu þeir sem afstöðu höfðu (bankarnir) lagi, núna þegar harðnar aftur í ári þurfum við að horfa upp á massífa eignarupptöku bankanna á eigum almennings?

  Manni finnst það allavegana skjóta mjög skökku við að bankarnir séu allir að skila tltölulega góðri afkomu þegar almenningur horfir á skuldirnar hækka samhliða greiðslubyrðinni.

  SvaraEyða
 2. Þetta er hrikalegt! Ég vona sannarlega að þegar dætur mínar feta sín spor inn á húsnæðismarkaðinn eftir svo sem áratug heyri þessi ósvinna sögunni til. Þá verðum Ísland orðið aðili að Evrópusambandinu og þær munu geta fjármagnað sín húsnæðiskaup í heilbrigri samkepnni evrópskra lánastofnana en ekki hjá okurfyrirtækjum í fákeppnisumhverfi.

  SvaraEyða
 3. Eftirfarandi grein skrifaði ég og byrtist í Morgunblaðinu þann 27/11/2006.

  Í verðtryggðu samfélagi eins og á Íslandi er það enginn hvatnig fyrir lánastofnanir að vera Seðlabanka og ríkisstjórn til aðstoðar í baráttuni við verðbólgu og er það vegna þess að þeir fá altaf sitt og að auki vexti.

  Með öðrum orðum það er enginn ástæða fyrir þá að vera að ómaka sig með þessu og halda niðri verðbólgu, þeir eru öruggir með sitt. Þegar samfélag er ekki verðtyggt þá fá lánastofnanir ekki verðbætur og svo vexti þar á ofan heldur bara vexti, þetta þýðir að þegar verðlag fer hækkandi og þar með verðbólgan þá byrja lánastofnanir strax að tapa og þá draga þær strax úr lánveitingum og þar með kaupgetu fólks og fyrirtækja.

  Þetta hefur þau áhrif að verðbólgan hjaðnar fljótt og lánastofnanir halda sinni álagnigu (vöxtum). En í nútíma markaðshagkerfi er það vilji til að kaupa og aðgangur almennings og fyrirtækja að fjármagni en ekki seðlabanki og ríkisvald sem stjórna, þar sem opinberir aðilar eru orðnir peð í krónum og aurum talið.

  Þegar verðtrygging var sett á var ekki svoleiðis umhorfs á fjármálamarkaði. Þá réðu misvitrir stjórnmálamenn ferðinni og áttu þeir auðvelt með að draga úr framboði peninga með einföldu pennastriki.

  Þetta er hagfræði í sinni einföldustu mynd og lítur að framboði og eftirspurn. Áhrif þessara breytinga myndi helst koma fram í mun jafnari og minni hagsveiflum sem eru til mikila bóta fyrir alla, en það er aðalmálið.

  Tregða við að breyta þessu kerfi strax er bara en ein byritingarmynd vanþekkingar alþingismanna á markaðshagkerfi. Það er ekki ástæða til að hafa áhyggur af bönkunum þeir eru með sérfræðinga í þessum málum sem passa þá, og vita þetta allt saman nú þegar.

  Þegar verðtrygging er afnumin þá er það bara á nýjum lánum. Eldri lán njóta strax verndar þess umhverfis sem þá kemst á það er óverðtryggðra lána. Þau eldri hækka ekki mikið þar sem verðbólga verður strax minni og jafnari. Þessi lán verða svo greidd upp á einhverjum ótilteknum tíma sem er styttri en lánstímin ef þau eru lántakanda óhagstæð af einhverjum ástæðum.

  Þetta er ferli sem þarf að undirbúa vel en þegar það kemst á þurfa umskiptin að vera hröð og örugg til að fjármálamarkaðurinn verði ekki fyrir höggi.

  Magnús Orri Einarsson

  SvaraEyða
 4. Það sem ég ætlaði að segja með mínu fyrra "commenti" sem var sent of snemma er að þetta er það sem málið er í hnotskurn. Það er hægt að hverfa frá verðtryggingu og laga í leiðinni mjög margt í fjármálakerfinu (en ekki allt).

  Þetta er meira spurning um hugrekki en nokkuð annað. Verðtrygging er nefnilega öflugt deyfilif sem hefur þá aukaverknun að magna upp verkina til langstíma.

  Það er mun betra að fá mikla hækkun á vöxtum til skams tíma en dreyfa þessu að tæp 40 ár. Þetta er ein meigin forsenda þess að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans virkar ekki sem skyldi.

  Það er nefnilega þannig að það er fátt sem er sér-Íslenskt nema þá er búnar eru til sérstakar aðstæður með handafli.

  Magnús Orri Einarsson

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.