föstudagur, 13. júní 2008

Hví hverfur Baugur? (kannski!)

Það var athyglisverð fréttasyrpan sl. fimmtudag um hugsanlegt brotthvarf Baugs og tengdra fyrirtækja úr landi. Fréttavefurinn visir.is (í eigu Baugs) reið á vaðið með frétt þar sem áreiðanlegar heimildir voru hafðar fyrir því að Baugur væri á leið úr landi. Skömmu síðar kom frétt hjá Rúv þar sem forstjóri Baugs sagði lítið hæft í frétt visir.is. Í markaðnum á Stöð 2 um kvöldið var hinsvegar höggvið í sama knérum og hjá visir.is fyrr um daginn og fullyrt að brottflutningur Baugs gæti verið yfirvofandi. Næstu skref í málinu yrðu ákveðin á stjórnarfundi í næstu viku.

Þessi tíðindi voru öll sett í samhengi við niðurstöðu hæstaréttar í Baugsmálinu þar sem staðfestur var 3 mánaða skilorðsbundin dómur yfir stjórnarformanni og aðaleiganda Baugs, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.

Þetta er í sjálfu sér ágætis vangavelta um hugsanlegar ástæður mögulegs brottflutnings Baugs og tengdra fyrirtækja úr landi. Hins vegar hefur einn stjórnarmanna í Baugi nýlega tjáð sig mjög skýrt um möguleikan á því að hverfa með fyrirtæki úr landi og hvaða ástæður myndu liggja þar að baki. Sagði stjórnarmaðurinn m.a. eftirfarandi:

"Ekki er víst að fyrirtækin geti starfað áfram við óbreyttar aðstæður. Þá gæti þeim orðið nauðugur sá kostur að færa sig úr landi. Það er ekki flókin aðgerð. Flest eiga þau dótturfélög í útlöndum, sem lítill vandi er að breyta í móðurskip."

Við sama tilefni sagði stjórnarmaðurinn einnig eftirfarandi:

"Það sér hver maður, að það gengur ekki til lengdar að hér búi menn við verðbólgu, sem stefnir í tveggja stafa tölu, 15 komma 5 prósenta stýrivexti og gjaldeyrisskort."

Og þetta:

"... ótæpilegar vaxtahækkanir Seðlabankans undanfarið hafa ekki unnið á verðbólgu heldur verið undirrót ójafnvægis og gengissveiflna sem hafa valdið íslensku atvinnulífi miklum skaða..."

"Fyrirtækin eru að sligast, hvort sem litið er til verðbólgu, vaxta eða gengis gagnvart öðrum gjaldmiðlum."

"Við getum ekki haldið úti galopnu hagkerfi með flöktandi örmynnt."

"Við náum ekki þeim stöðugleika sem þarf með krónunni."

"Hvernig getum við brugðist við þessu ástandi? ...við eigum að horfa til Evrunnar og aðildar að Evrópusambandinu."

Hver mælti svo djarft? Það gerði Kristín Jóhannesdóttir á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þann 18. apríl síðastliðinn. Samkvæmt þessu þarf ekki þriggja mánaða skilorð stjórnarformannsins til þess að aðrir stjórnarmenn velti upp möguleikanum á brotthvarfi úr landi. Sá möguleiki var skýrt settur fram fyrir tveimur mánuðum síðan og allar ástæðurnar tilgreindar. Það þurfti ekki að nefna skilorð.

2 ummæli:

  1. Eins og venjulega þá yfirgefa rotturnar skipið fyrstar.

    B

    SvaraEyða
  2. Takk Friðrik fyrir að benda á þetta. Það er alveg nauðsynlegt að þessi staðreynd og umæli Kristínar liggi fyrir sérstaklega þar sem sumir fjölmiðlar virðast af einhverjum sökum vilja setja ákveðinn spuna á málið.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.