föstudagur, 20. júní 2008

Framsóknar-Nína

Það er sárt að sakna einhvers. Lífið heldur áfram. - Til hvers?
(úr Nínu, höf. Eyjólfur Kristjánsson)

Nostalgía virðist vera farin að heltaka margan sjálfstæðismanninn. Það brýst út með ýmsum hætti eins og berlega má sjá í færslu þeirra andríkis-liða í gær ("...líklega hefði verið sterkara bein í nefinu á einum Framsóknarmanni en öllum þingflokki Samfylkingarinnar") og leiðara ritstjóra Fréttablaðsins í dag ("Framsóknarflokkurinn... [er] eini orkunýtingarflokkurinn sem fylgir á því sviði sömu stefnu á Alþingi og í borgarstjórn og hefur þar af leiðandi sömu viðhorf varðandi hlutverk tveggja stærstu orkufyrirtækjanna sem bæði eru alfarið í opinberri eigu. Það opnar flokknum óneitanlega ýmis pólitísk sóknarfæri.").

Meira að segja iðnaðarráðherrann virtist gripinn sambærilegri nostalgíu í bloggfærslu fyrir viku síðan þegar hann sagði að það væri "...Hanna Birna sem beri mesta pólitíska ábyrgð á því að slitnaði upp úr prýðilega starfhæfum og öflugum meirihluta Framsóknar og íhalds".

Er það jafnframt pínulítið íronískt að til þessa hafa allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, seint og um síðir, komið úr hugmyndasmiðjum Framsóknarflokksins.

Þó Framsóknarflokkurinn standi óneitanlega höllum fæti í skoðanakönnunum virðist fátt annað blasa við en að eftir því sem lengra líður frá því að flokkurinn hvarf úr stjórn, fyrst landsmálanna og síðan borgarmálanna, verði söknuðurinn meiri. Það á ekki bara við um mótleikara flokksins í pólitík heldur og einnig hjá kjósendum. Framsóknarflokkurinn er jú, þrátt fyrir allt spott og spé sem flokkurinn hefur mátt þola og að mestu tekið með góðlátlegu jafnaðargeði, stjórnmálaflokkur sem hefur þjóðarhagsmuni ávalt í fyrirrúmi og lætur þá hagsmuni ganga framar öðrum, þ.m.t. eigin skammtímafylgishagsmunum.

Í því ljósi má gera ráð fyrir, þrátt fyrir að það geti verið skynsamlegast fyrir flokkinn til uppbyggingar fylgis (og aukinnar nostalgíu!) að standa áfram utan stjórnar lands og borgar, að Framsóknarmenn geti tæpast vikist undan verði til þeirra leitað.

Pólitísk sóknarfæri?

"Þegar þú í draumum mínum birtist allt er ljúft og gott..."

3 ummæli:

 1. Hinir síðustu munu fyrstir verða. Þegar kreppan skellur hér á af fullum þunga í haust verða mikil pólitísk sóknarfæri í stóriðjustefnu Framsóknarflokksins. Þrátt fyrir að vera fyrst og fremst pólitískur hentistefnuflokkur mun samfylkingin lenda í vandræðum í kreppunni og einhverjir munu áfram krefjast þess að haldið verði fast við þvættinginn um "fagra Ísland" sem annálaðir vitleysingar settu saman.
  Lifi ríkisstjórnin kjörtímabilið - sem ástæða er til að efast um - verður ramsóknarflokkurinn í sterkri stöðu fyrir næstu kosningar. Geir Haarde mun horfa til þess flokks enda nýtur sú skoðun vaxandi fylgir innan D-lista að stjórn með samfylkingu hafi verið mikil mistök.
  Samfylkingin er augljóslega ekki samstarfshæf.

  SvaraEyða
 2. Fyrst maður er í Nínu-lögunum að þá er nú kannski líka vert að hafa í huga hvernig fór í laginu um Nínu og Geira. Þegar Geiri loksins náði áttum og fór aftur heim til Nínu var það um seinan. "Geiri elskan gráttu ei..." en því miður, um seinan og "...því varð ég að eiga vin þinn Jón!"

  SvaraEyða
 3. Láttu þig dreyma! Þjóðin er fyrir löngu búin að fá upp í kok af þessum sérkennilega hópi manna, sem hefur of lengi komist upp með að blekkja fólk með því að kalla sig stjórnmálaflokk, sem framsókn er alls ekki. Eftir næstu kosningar fær Samfylking nefnilega ein meirihluta á Alþingi og þá verður gaman að lifa.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.