laugardagur, 27. júní 2009
Alger prófessor!
Ætli prófessor Vandráður úr Tinna-bókunum sé ekki sá prófessor heimsbókmenntanna sem endurspeglar þessa samlíkingu einna best?
Nú hafa fjórir prófessorar í lögum, tveir núverandi og tveir fyrrverandi, stigið fram og kallað eftir að farin verði dómstólaleiðin í ICESAVE málinu.
Enginn þeirra getur reyndar útskýrt með hvaða hætti það ætti að geta átt sér stað, enda endurpeglar málflutningur þeirra þá staðreynd að enginn þeirra hefur neinn bakgrunn á sviði alþjóðaréttar, enginn þeirra hefur neina reynslu á sviði alþjóða milliríkjasamskipta og sannarlega hefur enginn þeirra nokkurn tíma setið öðru hvoru megin við borðið í erfiðum samningaviðræðum ríkja í millum.
Nú má vel skilja hins vegar hina fræðilegu greddu að vilja fá lögfræðilega "fixídeu" um að Ísland þurfi ekki að bera ábyrgð vegna ICESAVE rædda og metna fyrir framan einhverskonar dómstól. Í þessu samhengi er kannski rétt fyrir prófessorana að hafa í huga þessi orð Yogi Berra: "In theory, there is no difference between theory and practice. In practice, there is."
En engum af þessum prófessorum hefur hins vegar tekist að sýna fram á með óyggjandi hætti að lögfræðilega sé málstaður þeirra það sterkur að hann sé áhættunnar virði.
Sumir þeirra eru reyndar orðnir hressilega tvísaga í málinu, en starfandi prófessorinn við Háskóla Íslands hefur þegar orðið uppvís af því að hafa a.m.k. tvær skoðanir hvað varðar það hvort Ísland beri ábyrgð að lögum. Sama gildir um prófessor Emerítus, sem fyrr í vikunni lét hafa eftir sér að það hlyti nú að vera hægt að koma sér saman um einhvern dómstól í málinu, en lætur svo hafa eftir sér í fjölmiðlum í gær að samþykkt samninganna sér eini kosturinn í stöðunni.
"I used to be indecisive, but now I'm not so sure!"
Hinn starfandi prófessorinn gerði siðferði að umtalsefni í blaðagrein og taldi það síðlaust að neyða Ísland til að standa við gerða samninga, og væntanlega þannig siðlegt að hlaupast undan skuldbindingum sínum og fría sig ábyrgð á þjófnaði sem fram fór á okkar vakt. Merkileg siðfræði það.
Og fyrrverandi prófessorinn og núverandi hæstaréttardómarinn fabúleraði eins og aðrir um óskilgreinda dómstólaleið, jafnframt sem hann fullyrti að siðaðar þjóðir leystu nú fyrst og fremst úr sínum ágreiningsmálum frammi fyrir dómstólum. Ekkert er eins fjarri sanni. "Siðaðar" þjóðir leysa fyrst og fremst úr sínum ágreiningsmálum með samningum. Dómstólaleiðin, ef hún er þá yfirhöfuð fær eða í boði, er jafnan næst síðasti kosturinn í úrlausn milliríkjadeilna.
Fari svo að Alþingi hafni ríkisábyrgð vegna ICESAVE, mun ekki fyrir kraftaverk falla af himnum ofan einhver dómstóll til að skera úr um málið.
Eini kosturinn væri að setjast aftur að samningaborðinu.
sunnudagur, 21. júní 2009
Ríkisstjórn Ronald Reagan
Það er ótrúlegt, en fyrsta "hreina" vinstristjórn lýðveldisins virðist vera íhaldsstjórn af verstu sort.
Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist okkur nú á síðustu dögum og vikum endurspeglar þetta.
Í mestu niðursveiflu sögunnar þar sem öll eftirspurn í hagkerfinu hefur hrunið, fylgir ríkisstjórnin blindandi og gagnrýnislaust tillögum sértrúarsafnaðar í efnahagsmálum sem virðast ráða lögum og lofum annars vegar í Seðlabanka Íslands og hins vegar hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
Sértrúarsafnaðar peningahyggjumanna sem blint horfa á niðurstöðutölur klessukeyrðra hagmódela byggðum á sundurtættri tölfræði.
Staða íslenskra efnahagsmála er þannig að öll eftirspurn í hagkerfinu er hrunin. Fyrirtæki og heimili velflest mjatla áfram á sjálfsbjargarhvötinni einni saman.
Við aðstæður sem þessar er tímabundinn halli á rekstri ríkissjóðs ekki það vandamál sem á að vera í forgangi að leysa.
Við þessar aðstæður er halli á ríkissjóði, fjármagnaður fyrst og fremst með lánum frá Seðlabanka Íslands, beinlínis nauðsynlegur á meðan vörn er snúið í sókn.
Halli, sem nýta á til að ýta undir innlenda eftirspurn og koma gangverki hagkerfisins af stað á ný.
Niðurskurður ríkisframkvæmda í þessu árferði er ekki skynsamlegur, þvert á móti, þarf að stórauka þær. Sérstaklega eiga arðbærar stórframkvæmdir eins og Sundabraut og Suðurlandsvegur að vera í algerum forgangi. Setja ætti bæði verkefnin af stað strax á morgun.
Í eftirspurnarkreppu verður að lækka vexti. Sérstaklega verður að færa innlánsvexti niður í núllið til þess að einhver hvati myndist fyrir þó það fjármagn sem er til að verða nýtt til uppbyggingar í atvinnulífinu.
Núverandi ástand er þannig að fjármagnseigandi, hvort sem hann eða hún á milljón eða milljarð, geymir það fé frekar á bankareikning eða í ríkisskuldabréfum, á meðan að sú fjárfesting getur skilað tryggum fimm til fimmtán prósent vöxtum.
Áætlun um að ná hér fram hallalausum ríkisfjárlögum á þremur árum er óraunhæf og beinlínis hættuleg langtíma lífslíkum hagkerfisins.
Samkeppni ríkisins við markaðinn um fjármagn í formi útgáfu ríkisskuldabréfa til að fjármagna hallann eykur á vandann.
Rétt er að hafa í huga að við hrunið síðastliðið haust brunnu upp veruleg verðmæti. Vissulega brunnu þar upp verðmæti sem engin raunveruleg innistæða var fyrir - bólupeningar hlutabréfa- og fasteignamarkaðarins. Hrunið var hins vegar það afgerandi að raunveruleg verðmæti brunnu einnig upp og það þarf að bæta fyrir það innan peningakerfisins með einum eða öðrum hætti.
Ekkert slíkt er verið að gera. Þvert á móti eru meira að segja gerviskuldir gerðar að alvöruskuldum, án þess að nokkur ástæða sé til.
Í stað þess að læra nú af kreppureynslu sögunnar og leita í smiðju Keynes (og Krugman), er einblínt á Friedman og Hayek.
Og hvað varðar niðurskurð í almannaþjónustu og menntun, í smiðju Ronald Reagan.
Öðruvísi mér áður brá!
miðvikudagur, 17. júní 2009
Beðið eftir ICESAVE
Það er vonandi að biðin eftir að fá að sjá ICESAVE-samkomulagið verði ekki eins og biðin eftir Godot.
Á meðan að beðið er, heldur umræðan áfram, á að borga, á ekki að borga, ef á að borga á þá að borga eins og samið hefur verið um, eða á að borga einhvern veginn öðruvísi. Var samninganefndin góð eða slæm, og svo framvegis.
Eins og áður hefur komið fram hef ég ákveðnar skoðanir í þessu máli. Það breytir því ekki að ýmsu má velta fyrir sér í þessu samhengi.
T.d. hvort þeim valkosti hafi verið velt upp, í ljósi þess að stjórnvöld höfðu þegar ákveðið síðastliðið haust að ábyrgjast innistæðutryggingasjóð hvað varðar ICESAVE, að nýta einfaldlega heimild neyðarlaganna svonefndu.
Í IV. Kafla laganna, a.lið 8. Greinar, var m.a. eftirfarandi breyting gerð á lögum um innistæðutryggingasjóð: "Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt."
Innistæðutryggingasjóður, vopnaður ríkisábyrgð, hefði þannig getað sótt um fyrirgreiðslu til Seðlabanka Íslands um t.d. 15 – 25 ára lán á þessum 630 milljörðum í íslenskum krónum og einfaldlega staðgreitt þá upphæð til Hollendinga og Breta. Í ljósi gjaldeyrishafta hefði þeim verið nauðugur sá eini kostur að leggja andvirðið inn á bók, t.d. hjá Nýja Landsbankanum!
sunnudagur, 7. júní 2009
Icesave: pólitík og lögfræði
Í þeirri miklu gagnrýni sem fram er komin vegna samkomulags íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda er töluvert horft til lögfræðiálits Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors, og Lárusar Blöndal, hæstaréttarlögmanns. Í einni af greinum sínum, "Í hvaða liði eru stjórnvöld?", sem birt var í Morgunblaðinu þann 3. mars síðastliðinn, lýsa þeir skoðun sinni (lögfræðiáliti) á eftirfarandi hátt:
"Skoðun okkar er í stuttu máli sú að við höfum fullnægt skuldbindingum okkar með því að koma á fót innstæðutryggingakerfi sem hefði dugað undir öllum venjulegum kringumstæðum. Í tilskipun ESB er hvergi kveðið á um ríkari skyldur en að koma á fót slíku kerfi... Einhverjir kunna að segja að það sé markmið laganna að innstæðueigendum sé a.m.k. tryggt ákveðið lágmark sem nefnt er í tilskipuninni og í lögunum, hvað sem á gengi og að aðildarríkin beri ábyrgð á því að markmiðin náist. Þessi sjónarmið koma hins vegar hvorki fram í tilskipuninni né lögunum og því verður ekki á þeim byggt."
Hér er sterkt tekið til orða, en mikilvægt er að hafa í huga að þó þessi afstaða þeirra félaga sé sem slík ágætis lögfræðiálit, og stutt ágætis rökum, þá er það ekki eina lögfræðiálitið um þetta mál. Staðreyndin er sú að túlkun þeirra félaga er, eins og fram hefur komið, í andstöðu við opinbera lagatúlkun allra aðildarríkja Evrópusambandsins, auk Noregs. Án efa er það svo að töluverður fjöldi lagaspekinga bæði íslensku stjórnsýslunnar og innan akademíunnar tekur undir með túlkun þessara ríkja, þó án efa einhverjir taki undir túlkun Stefáns og Lárusar.
Í deilumálum sem þessum hvílir sú ríka ábyrgð og skylda á herðum stjórnvalda, í okkar tilfelli fyrst og fremst á ríkisstjórninni, að meta þau rök og þær áætlanir um samningsaðferðir sem hægt er að nýta í stöðunni. Ekki efa ég að túlkunartillögur Stefáns og Lárusar hafi verið lesnar gaumgæfilega, þó þeim hafi á endanum verið ýtt til hliðar.
Þar kemur án efa ýmislegt til.
Í fyrsta lagi geri ég ráð fyrir að réttmæti túlkunar þeirra á bókstaf laganna hafi verið vegin og metin. Í þeim efnum hefur ekki einungis verið horft á bókstafinn, heldur einnig verið t.d. horft til með hvaða hætti lögin hafa verið framkvæmd, hvert markmið löggjafans var með setningu þeirra og hvernig framkvæmdin hefur verið í sambærilegum tilfellum. Þessi breiðari aðferð við túlkun á laganna hljóðan er sérstaklega mikilvæg þegar kemur að framkvæmd laga er byggja á alþjóðlegum skuldbindingum. Hún er að auki meginreglan í almennri lögfræði, enda væri tæpast þörf fyrir dómstóla, lagaprófessora eða hæstaréttarlögmenn, ef lögin væri þess eðlis að túlkun þeirra væri ætíð óumdeild!
Í öðru lagi var íslenska ríkið þegar í framkvæmdinni búið að sýna á spilin hvað varðaði sína eigin túlkun á lögunum. Þrátt fyrir bankahrun skyldu allar innlendar innistæður útibúa bankanna tryggðar að fullu, og gott betur, þar sem ákveðið var að tryggja heildarupphæð innistæðna en ekki aðeins að því hámarki sem kveðið var á um í lögum um innistæðutryggingar. Eins og frægt er orðið var hins vegar ákveðið að undanskilja erlend útibú bankanna og var það kjarni Icesave-deilunnar.
Í þriðja lagi var án efa horft til heildarhagsmuna Íslands í málinu. Sú gagnrýni sem fram er komin hefur í mörgu ekki greint málið út frá stærra samhengi. Í sérhverjum félagskap gilda ákveðnar reglur og félagi sem ekki fellur sig við þær hefur þannig tæpast annan kost en að yfirgefa félagið.
Margir hrópa nú að með Icesave-samkomulaginu sé hugsanleg framtíðaraðild Íslands að Evrópusambandinu dýru verði keypt. Það er mikil þröngsýni. Með Icesave-samkomulaginu er framtíðaraðild Íslands að alþjóðasamfélaginu ákveðnu verði keypt. Hversu dýru nákvæmlega á eftir að koma í ljós, en ákveðin mörk hafa verið sett.
Það hefur legið ljóst fyrir frá því fyrir bankahrunið að ef Ísland vildi fá hjálp frá sínum nágrannaþjóðum þá varð Ísland að spila eftir þeim leikreglum sem aðrir spiluðu eftir. Ísland hafði ekki þann kost að fríspila. Upphafslán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var ekki samþykkt fyrr en fyrir lá að Ísland myndi semja um Icesave. Frágangur lána annarra þjóða, þar með talið okkar norrænu vinaþjóða, hefur beðið eftir því að niðurstaða kæmi í Icesave. Niðurstaða sem gat ekki orðið önnur en sú að Ísland gengist við sinni ábyrgð hvað varðar lágmarksinnistæðutryggingar.
Það er fullkomlega óábyrgt að tala með þeim hætti að trúverðugleiki innistæðutryggingakerfisins á Evrópska efnahagssvæðinu kæmi okkur ekki við eftir hrunið. Að fara dómstólaleiðina með þetta mál, byggt á túlkun Stefáns og Lárusar, hefði þýtt að á meðan málið hefði verið rakið fyrir dómstóli, að því gefnu að þjóðirnar hefðu getað komið sér saman um einhvern dómstól og gefið honum lögsögu í málinu, hefði öll efnahagsaðstoð beðið á meðan. (Efnahagsaðstoð sem líklega hefði af mörgum þjóðum verið dregin til baka, enda vel hægt að líta á þá aðgerð íslenskra stjórnvalda að skapa meiriháttar réttaróvissu um innistæðutryggingarkerfið sem jafngildi meiriháttar efnahagslegs hryðjuverks, til viðbótar við arðrán útrásarvíkinga og "þjófnaði" á innistæðum evrópskra innistæðueigenda í íslenskum bankaútbúum erlendis.)
Úrlausn þessa máls fyrir dómstóli hefði án efa tekið 3 til 8 ár. Á meðan, engin erlend lán, ekkert uppgjör á gömlu bönkunum, engin frágangur gagnvart kröfuhöfum vegna nýju bankanna, engar nýjar erlendar fjárfestingar og að öllum líkindum algert hrun þess sem þó eftir lifir af íslenska hagkerfinu.
Engin vissa hefði verið um hagfellda niðurstöðu í því dómsmáli. Ef eitthvað, hefðu sigurlíkur verið mjög takmarkaðar, svo ekki sé meira sagt, í ljósi algers sammælis allra annarra aðildarþjóða að regluvirki um evrópskar innistæðutryggingar og í ljósi þeirrar túlkunarframkvæmdar sem íslensk stjórnvöld höfðu þegar haft við.
Að hafna samkomulagi um Icesave og fylgja ráðum Stefáns og Lárusar hefði verið, því miður, það alversta sem íslensk stjórnvöld hefðu gert í núverandi stöðu.
Þó vissulega sé erfitt að kyngja samkomulaginu um Icesave, þá er það engu að síður illskásti kosturinn í stöðunni.
Samningstaða varðandi öll önnur mál er auðveldari í kjölfarið.
Höfum í huga að samkomulag um Icesave er gífurlegt hagsmunamál stærstu kröfuhafanna í gömlu bankanna. Þeir eru meira og minna stórir evrópskir bankar sem áttu verulegra hagsmuna að gæta að ekki kæmi upp réttaróvissa vegna evrópskra innistæðutrygginga. Vegna þessa munu þeir að öllum líkindum fella sig við þá breytingu í forgangi kröfuhafa sem varð með neyðarlögunum, og Icesave-samkomulagið virðist í reynd staðfesta.
Icesave-samkomulagið er þannig ein af forsendum þess að hægt verði að klára samninga við kröfuhafa. (Þar af leiðir má færa rök fyrir því að Icesave-samkomulagið sé alger forsenda þess að hægt verði að fara 20% leiðréttingarleið Framsóknarflokksins!)
Icesave-samkomulagið greiðir, eins og áður segir, fyrir öðrum þeim lánum sem beðið hafa frágangs, þ.m.t. við Norðurlöndin. Hvað þau lán varðar skulu menn ekki láta sér koma á óvart að þau verði á sambærilegum, eða jafnvel hærri vaxtakjörum, en lán breta og hollendinga vegna Icesave.
Að síðustu eilítið þankastrik. Í fyrrnefndri grein Stefáns og Lárusar er fullyrt að ríkisábyrgð verði einungis til með þrennum hætti: "...á grundvelli laga, þar sem ábyrgð ríkisins er skýrt sett fram, á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga með heimild í lögum eða með því að ríkið verður bótaskylt vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis á grundvelli sakar." Lögfræðilega er þetta líkast til rétt hjá þeim, en praktískt og pólitískt er lífið eilítið flóknara. Ljóst er að sú ábyrgð sem ákveðin var síðastliðið haust um að tryggja allar innlendar innistæður að fullu, án þaks, var ekki í samræmi við þessa fullyrðingu þeirra félaga. Að sama skapi dettur engum í hug hvað varðar atvinnuleysistryggingasjóð, að þegar hann tæmist í haust, að annað verði uppi á teningnum en að ríkið bætti í sjóðinn það sem upp á mun vanta, þrátt fyrir að engar lagalegar kvaðir séu um slíkt.
Lögfræði er eitt ( og í raun svo margt), en pólitík er annað.
Í Icesave-málinu lágu fyrir ýmis lagaleg efni og misvísandi lagatúlkanir.
Endanleg ákvörðun um niðurstöðuna er hins vegar fyrst og fremst pólitísk – og tekin út frá breiðum heildarhagsmunum, en ekki þröngum lagatúlkunum.
laugardagur, 6. júní 2009
ICESAVE björgun
630 milljarðar eru miklir peningar.
630.000.000.000,- krónur.
Og 5,5% vextir hljóma háir, sérstaklega í ljósi þess að stýrivextir Englandsbanka eru ekki nema 0,5% og stýrivextir Evrópska seðlabankans ekki nema 1%.
En lánið vegna ICESAVE er til 15 ára. Vextir á 15 ára skuldabréfum í breskum pundum samkvæmt Financial Times eru í dag 4,38%.
Vextir á 10 ára ríkisskuldabréfum Bretlands eru 3,94% og Hollands 4,11% og höfum í huga að vextir eru í sögulegu lágmarki.
Það er eðlilegra að horfa á þessar vaxtatölur þegar rædd eru vaxtakjör vegna ICESAVE, enda þurfa bæði breska og hollenska ríkið að fjármagna útgjöld vegna ICESAVE. Höfum einnig í huga að Bretland og Holland greiða innstæður umfram 20 þúsund evrur, að 100 þúsund. Niðurstaðan er því þannig að beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna ICESAVE verður hverfandi í samanburði við útgjöld breska og hollenska ríkisins og er að auki frestað um allt að 15 ár, á meðan að Bretland og Holland leggja út fyrir kostnaðinum strax.
Vaxtakjör þessi eru auk þess umtalsvert betri en bjóðast íslenska ríkinu á alþjóðamörkuðum.
Auk þess virðist íslenska ríkið, ef marka má Morgunblaðið, ekki að taka á sig þessa skuldbindingu, nema með óbeinum hætti, en samkvæmt frétt blaðsins á bls. 6 í dag segir:
"Samkomulag íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga vegna ICESAVE-reikninganna gerir ráð fyrir að skilanefnd Landsbankans gefi út skuldabréf upp á tæplega 630 milljarða króna á núverandi gengi sem tryggt verður með veði í öllum eignum bankans í Bretlandi."
Hér er sem sagt hvorki talað um að ríkið gefi út þetta skuldabréf, né að ríkisábyrgð hvíli að baki þessari skuldbindingu. Hún verður væntanlega áfram óbein í gegnum innistæðutryggingasjóð og mun að öllum líkindum ekki reyna á hana fyrr en sígur á seinni hluta tímalengdar skuldabréfsins, þ.e. eftir 12 til 15 ár.
Þannig má gera ráð fyrir að þessi skuldbinding vegna ICESAVE verði ekki hluti af skuldayfirliti íslenska ríkisins.
Tvennt verður jafnframt til að lækka þessa skuld, annars vegar allt að 300 milljóna punda inneign Landsbankans í Englandsbanka sem mun að mestu leyti fara til greiðslu hluta ICESAVE-skuldbindinga fljótlega í kjölfar samkomulagsins. Ef við gerum ráð fyrir að 250 milljón pund verði nýtt til þess lækkar ICESAVE skuldbindingin við það strax um 50 milljarða, í 580 milljarða.
Framtíðarstyrking krónunnar mun jafnframt leika lykilhlutverk, en hver prósentustyrking hennar héðan í frá lækkar ICESAVE skuldina um 6 milljarða.
Hagsmunir hvorutveggja íslenska ríkisins og erlendra kröfuhafa af styrkingu hennar eru þannig orðnir miklir og augljósir þar sem sterkari króna þýðir meiri greiðslugetu.
Hvað varðar síðan þá þrálátu goðsögn um að Ísland þurfi ekki að borga neitt vegna ICESAVE vísa ég í fyrri pistla mína hvað það varðar, annars vegar "ICESAVE goðsögnin" frá 15. janúar sl. og hins vegar "ICESAVE raunveruleikapróf" frá 26. Febrúar sl. En þar segir meðal annars:
"Vandinn við goðsögnina um að ekki þurfi að borga vegna Icesave er að hún horfir fram hjá tveimur meginatriðum, í fyrsta lagi að stofnað var til Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi að íslenskum lögum og er þannig samkvæmt sömu lögum enginn munur á innistæðureikningum í útibúi Landsbankans í London eða útibúi sama banka á Laugavegi 77. [...]
Vegna lagalegrar stöðu Icesave að íslenskum lögum hefði eina leiðin til að komast undan ábyrgðum vegna þeirra og að beita þeim rökum að innistæðutryggingar ættu ekki við í tilfelli kerfishruns verið sú að þau rök hefði gilt um alla innistæðureikninga bankanna.
Að skilja Icesave-reikninga frá öðrum innlánsreikningum Landsbankans með þeim hætti sem nú er fullyrt að hægt hafi verið brýtur nefnilega gegn meginreglu íslensks réttarfars, þ.e. jafnræðisreglunnar…"
Í stuttu máli þýðir þetta að innistæðueigendur í Hollandi og Bretlandi eru í fullum rétti til þess að fara í mál fyrir íslenskum dómstólum og krefjast þess að fá alla upphæð ICESAVE innistæða greidda að fullu. Það er skuldbinding upp á líklega 12 – 14 hundruð milljarða, eða rúmlega tvöfalt meira en þetta samkomulag gerir ráð fyrir – og allt með fullri ríkisábyrgð!
Hvað varðar þá röksemdafærslu að hugsanlega, mögulega, kannski sé hægt að komast undan ICESAVE ábyrgðum fyrir dómstólum:
"Þrátt fyrir að lagatæknilega sé hægt að halda því fram að hugsanlega megi komast undan þessum ábyrgðum eru líkur á því að sú lagatæknilega túlkun næði fram að ganga hverfandi. Hagsmunum þeim sem yrði fórnað til lengri tíma, ekki bara á meðan að málaferlum stæði, heldur einnig til langrar framtíðar í kjölfarið, væru miklu mun meiri en svo að slíkt gæti talist ábyrgt."
Endalega greiningu á kostum og göllum ICESAVE-samkomulagsins verður hins vegar ekki hægt að gera fyrr en hún liggur fyrir og er orðin opinber.