fimmtudagur, 26. febrúar 2009

ICESAVE raunveruleikapróf

Það er ágætt að sjá svar utanríkisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur.

Það er augljóst af því svari að íslenska ríkið er ekki að fara út í málaferli vegna ICESAVE, þ.e vegna túlkunar á ábyrgð innistæðutrygginga.

Það útilokar ekki að einkaaðilar sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna beitingar bresku hryðjuverkalaganna fari í mál fyrir breskum dómstólum. Þar á meðal skilanefndir gamla Kaupþings og Landsbankans. Ríkið getur eftir sem áður komið að slíkum málaferlum til dæmis sem vinur réttarins.

En beinn málarekstur ríkisins um túlkun á ábyrgð innistæðutrygginga er nokkurn veginn útilokaður.

Eins og fram kemur í svari ráðherrans er túlkun sú sem sett er fram af íslenskum stjórnvöldum um takmarkaða ábyrgð á innistæðutryggingasjóði hafnað af öllum okkar nánustu samstarfsþjóðum.

Hér er ekki einungis um að ræða Evrópusambandið sem slíkt.

Hvert og eitt einasta aðildarríki þess, sem sjálfstætt og fullvalda ríki, auk Noregs, hafna lagatúlkun þeirri sem sett hefur verið fram um takmörkun ábyrgða.

Þegar vegið er og metið hvort vit er í því að fara í málarekstur, hvort sem um er að ræða einstakling, fyrirtæki, eða, eins og í þessu tilviki þjóð, er hluti af ákvarðanatökuferlinu kalt mat á möguleikum á því að ná árangri.

Kalt mat myndi líklega leiða í ljós sigurlíkur langt innan við 50%. Bjartsýnt mat væri kannski á bilinu 10 – 20%, ég tel sjálfur þær líkur kannski vera á bilinu 1-2% og byggi það m.a. á því að með því að tryggja allar innistæður íslenskra aðila, án hámarks, hafi íslensk stjórnvöld í reynd sjálf gengið gegn þessari túlkun. Bendi hér á fyrri færslu mína um þetta mál.

Það er hins vegar í sjálfu sér aukaatriði við hlið þess kalda hagsmunamat sem þarf að vera á kostnaði ferilsins sjálfs og á ég þar ekki við lögfræðikostnaðinn.

Málaferli af þessu tagi myndu taka að lágmarki 2 ár og gætu þess vegna tekið allt upp í 7 ár.

Á meðan væri allt stopp.

Í svari utanríkisráðherra segir meðal annars (feitletrun er mín):

...hvorki stofnanir ESB né nokkurt aðildarríki þess, þ.m.t. Norðurlöndin auk Noregs sem er í EES, [eru] reiðubúin að fallast á að lagaóvissa ríki um það hvort ábyrgð á bankainnstæðum sé fyrir hendi. ESB-ríkin og framkvæmdastjórn ESB virtust í október sl. meta það svo að Ísland væri ekki í stakk búið að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt reglum EES og að í aðgerðum íslenskra stjórnvalda gæti falist mismunun á grundvelli þjóðernis. Bretland krafðist þess raunar af framkvæmdastjórn ESB að gripið yrði til sérstakra verndaraðgerða samkvæmt EES-samningnum gagnvart Íslandi, en það var þó ekki gert.

ESB-ríkin hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslands eru í máli þessu og hafa skoðanir verið látnar í ljós um að Ísland sé að virða að vettugi skyldur sínar á innri markaði sambandsins. Það gæti valdið uppnámi á EES-samningum. Að auki verður að geta þess að ein af forsendum fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeirra ríkja sem að henni koma var að samkomulag næðist við Breta, Hollendinga og Þjóðverja vegna uppgjörs innlána í útibúum íslenskra banka í viðkomandi ríkjum.

EES-samningurinn væri í uppnámi, fyrirgreiðslan hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri í uppnámi, viðskiptasambönd okkar við öll okkar helstu samstarfsríki væru í uppnámi og þar með væru pólitísk samskipti okkar við öll okkar helstu samstarfsríki í uppnámi.

Þrátt fyrir að lagatæknilega sé hægt að halda því fram að hugsanlega megi komast undan þessum ábyrgðum eru líkur á því að sú lagatæknilega túlkun næði fram að ganga hverfandi. Hagsmunum þeim sem yrði fórnað til lengri tíma, ekki bara á meðan að málaferlum stæði, heldur einnig til langrar framtíðar í kjölfarið, væru miklu mun meiri en svo að slíkt gæti talist ábyrgt.

Blekkingum um að aðrir kostir séu raunhæfir verður að linna.

1 ummæli:

  1. Takk fyrir vel ígrundaðan pistil. Það er mikilvægt að menn dragi réttan lærdóm af þessu klúðri. Hefði Ísland getað tekið þá afstöðu sem þeir tóku (lágmarks ábyrgð erlendis, en full ábyrgð hérlendis) og jafnframt komið í veg fyrir að bretar færu fram eins og þeir gerðu? Ef svo, hvað hefði átt að gera öðruvísi....

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.