fimmtudagur, 15. janúar 2009

Icesave goðsögnin

Hún er þrálíf goðsögnin um það að Ísland þurfi ekki að greiða neitt vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Nú er m.a. dregin upp setningarbotn eftir kommu úr 9 ára gamalli franskri skýrslu sem “sönnun“ þess að Ísland þurfi ekki að borga.

Þetta er falleg goðsögn fyrir hnípna þjóð í vanda sem ekki sér fram úr skuldafeni því sem fyrst alþjóðleg fjármálakrísa, síðan hrun gjaldmiðils og loks fall bankakerfis hefur steypt henni í. 

Vandinn við goðsögnina um að ekki þurfi að borga vegna Icesave er að hún horfir fram hjá tveimur meginatriðum, í fyrsta lagi að stofnað var til Icesave-reikninga Landsbankans í  Bretlandi að íslenskum lögum og er þannig samkvæmt sömu lögum enginn munur á innistæðureikningum í útibúi Landsbankans í London eða útibúi sama banka á Laugavegi 77. Gildir í þeim efnum einu þó uppruni laganna séu gerðir eða regluvirki ESB og innleiðing þeirra í íslenskan rétt sé vegna EES-samningsins. Með innleiðingu lagaheimilda í íslenskan rétt sem heimiluðu stofnun íslenskra bankaútibúa erlendis varð ábyrgðin okkar, eða íslenska ríkisins, þ.m.t. fjármálaeftirlits og seðlabanka að sjá til þess að tryggingar væru nægar.

Ef út í það er farið er það jafn mikil rökleysa að fullyrða að hægt væri að neita að standa undir ábyrgðum vegna innistæðureikninga í útibúum Landsbankans í Vestmannaeyjum þar sem einungis ætti að tryggja innistæður á meginlandi Íslands!

Vegna lagalegrar stöðu Icesave að íslenskum lögum hefði eina leiðin til að komast undan ábyrgðum vegna þeirra og að beita þeim rökum að innistæðutryggingar ættu ekki við í tilfelli kerfishruns verið sú að þau rök hefði gilt um alla innistæðureikninga bankanna.

Að skilja Icesave-reikninga frá öðrum innlánsreikningum Landsbankans með þeim hætti sem nú er fullyrt að hægt hafi verið brýtur nefnilega gegn meginreglu íslensks réttarfars, þ.e. jafnræðisreglunnar, eins og hún er sett fram í 65. grein stjórnarskrárinnar:

“Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Eftir að íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að tryggja allar innistæður varð ekki komist hjá því að eiga við skuldbindingar vegna Icesave, annað hvort með samningum við stjórnvöld þeirra ríkja þar sem útibúin voru rekin, eða með málaferlum innistæðueiganda fyrir íslenskum dómstólum.

Slík málaferli hefðu að öllum líkindum aldrei farið á nema einn veg: að jafnræðisreglan yrði látin gilda og greiða þyrfti innistæðueigendum erlendra útibúa með sama hætti og innistæðueigendum innlendra útibúa.

Til þess gæti jafnvel komið þrátt fyrir samkomulag milli íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda þeirra ríkja þar sem útibú íslenskra banka voru starfrækt, þ.e. í þeim tilvikum þar sem innistæður viðkomandi reikningseiganda voru hærri en sem nemur samanlagðri innistæðutryggingu að hálfu Íslands og þess ríkis sem útibú íslenska bankans var starfrækt.

Samningar vegna Icesave gera það að verkum Ísland þarf þó líklega ekki að standa undir meiri ábyrgðum en vegna lágmarkstryggingar upp á allt að rétt rúmar 20 þúsund evrur fyrir hvern innistæðureikning. Samtala þeirra eru engu að síður óhugnanlega stórar upphæðir.

Ef íslenska ríkið hefði viljað komast hjá því að greiða ábyrgðir vegna innistæðureikninga hjá erlendum útibúum íslenskra banka og beita rökum, sem m.a. koma fram í fyrrnefndri franskri skýrslu og haldið hefur verið fram af sumum íslenskum lögfræðingum, að þær ábyrgðir ættu ekki við í tilfelli kerfishruns hefði jafnt þurft yfir alla að ganga. Sú röksemd er þannig ekki beinlínis röng, en á ekki lengur við eftir að Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir að allar innistæður hér á landi yrðu tryggðar. Í ljósi íslenskra laga og jafnræðisreglunnar átti sú yfirlýsing jafnt við útibú Landsbankans á Laugavegi 77, í Vestmannaeyjum og í London.

Úr þessu er þannig samningaleiðin eina leiðin til þess að lágmarka bótaskyldu íslenska ríkisins.

2 ummæli:

 1. Setti þetta inn hjá Sigmundi áðan:

  Ágæti Sigmundur

  Þú hefur sótt skýrsluna sem lögfræðingarnar Stefán Már og Karl Blöndal vísuðu í þegar þeir færðu fyrir því býsna langsótt rök að Íslendingar þyrftu ekki að standa við þær lágmarks tryggingar innstæðna sem þeir höfðu þó formlega undirgengist og fært í íslensk lög. Þetta gagn hefur verið þekkt og fyrirliggjandi býsna lengi.

  Vandinn við að draga af því ályktanir á borð við þá sem þú gerir felst í því að þarna, líkt og í sjálfri tilskipuninni um innstæðutryggingarnar er gerður skýr greinarmunur á milli þeirrar skyldu annars vegar að tryggja innstæður að tilteknu og þekktu lágmarki á öllu EES svæðinu og hins vegar á útfærslum þeirra tryggingakerfa sem komið er á fót til að fjármagna lágmarkið. Í tilskipuninni er meira að segja tekið skýrt fram að ekki sé þörf á að samræma tryggingakerfin eða fjármögnun þeirra.

  Enda snúast áhyggjur sérfræðinganna sem rituðu þessa skýrslu alls ekki um hvort í gildi sé lágmarks innstæðutrygging á öllu EES svæðinu sem ríki bera ábyrgð á að framfylgja heldur að fjármögnun tryggingakerfanna muni ekki standa undir öllum kostnaði komi til víðtækara hruns. Við slíkt þurfi aðrar aðgerðir.

  Hefði ætlunin verið sú að innleiða samræmd tryggingakerfi hefði tilskipunin væntanlega útlista þau og gert ráð fyrir að lágmarks innstæðutryggingaverndin í hverju landi byggðist á greiðslugeti viðkomandi tryggingasjóða. En það var ekki gert: Lágmarksupphæðin var fest í tilskipuninnni, leidd í lög í öllum aðildarríkjum ásamt því sem kveðið var á um að öll fjármálafyrirtæki þurfi að vera aðildar að tryggingarkerfi sem hvert ríki skyldi koma á fót.

  Ef þú finnur einhvers staðar einhver gögn um annað en að það hafi frá upphafi verið skilningur allra sem komu að gerð tilskipunarinnar eða innleiðingu hennar í lög allra aðildarríkja að innstæður að lögfestu lágmarki væru tryggðar óháð peningalegri stöðu innstæðutryggingakerfanna er rétt að þú birtir þau sem fyrst.

  Hefur einhvern tímann einhver Íslendingur efast um að innstæður upp á lögbundnu lágmarki séu tryggðar? Í lögunum er meira að segja gert ráð fyrir að ef innstæðutryggingasjóðurinn dugi ekki þá megi hann taka lán til að standa við lágmarkið. Þar er hvorki stafkrók né vísbendingu að finna um að lögbundna lágmarkið sé ekki lágmark í raun. Enda liggur fyrir yfirlýsing forsætisráðuneytisins frá 8. október þar sem segir: „Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.“ Taktu eftir að þetta er ítrekun á fyrri stöðu. Af hverju hefði forsætisráðherra gefið út slíka skriflega yfirlýsingu ef það væri skilningur einhverra að þakið á innstæðutryggingunum miðaðist við fjármuni í tryggingasjóðnum?

  Mér finnst það satt að segja frekar ljótur leikur að skapa fullkomlega óraunhæfar væntingar og spila þannig á réttmæta reiði og gremju fólks yfir ástandinu til að afla sér vinsælda.

  Arnar

  SvaraEyða
 2. Ég er enginn lögfræðingur og veit ekki hvað er upp og niður í þessu máli en ég tel að það hefði verið gagnlegt fyrir íslenska þjóðarsál að fá úr því skorið fyrir dómstól. Það mun skaða okkur í marga ættliði ef það rótfestist sú trú (sönn eða fölsk) að þjóðin hafi verið svikin til að taka á sig byrðar sem hún þurfti ekki að taka á sig.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.