þriðjudagur, 28. september 2010

Ef Hreiðar segir satt...

Það er athyglisvert að lesa bréf Hreiðars Más til forsætisráðherra, frá því í síðustu viku. Þar fullyrðir hann að niðurstaða rannsóknar breska fjármálaeftirlitsins, FSA, eftir rannsókn á starfsemi Kaupthing Singer and Friedlander hafi ekki leitt neitt saknæmt í ljós, ef frá er talin þriggja daga töf á veitingu upplýsinga um lausafjárvandræði móðurfélagsins. Sátt um þá sök munu fyrrum stjórnendur KSF hins vegar ekki fallast á og krefjast fullrar sýknu.

Hreiðar virðist telja þessa niðurstöðu FSA vera allsherjar syndaaflausn fyrir sig og aðra stjórnendur Kaupþings og notar tækifærið til að gagnrýna sérstaklega Fjármálaeftirlitið (FME) fyrir rannsóknarhætti þess og fyrir að leka trúnaðarupplýsingum bankans til wikileaks. Lekaásökunin er mjög alvarleg, en hana er væntanlega hvorki hægt að sanna né afsanna. Ásökun Hreiðars um það að FME hafi aldrei séð ástæðu til þess að ræða beint við fyrrum stjórnendur Kaupþings um meint brot er hins vegar ekki hafnað af FME. Ef rétt er þá kallar það á skýringar. Það hlýtur að vera eðlilegur hluti rannsóknar FME, áður en mál eru send til saksóknara, að óska skýringa frá meintum brotaaðila, eða hvað? Vart getur verið eðlilegt að fyrstu andsvör fyrrum stjórnenda Kaupthings hafi farið fram við yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara.

Á móti kemur að rétt er að hafa í huga að rannsókn FME og sérstaks saksóknara eru ekki sambærilegar við rannsókn FSA. Íslenska rannsóknin snýr m.a. að markaðsmisnotkun og hvort fyrrum stjórnendur Kaupþings hafi með ólögmætum hætti haft áhrif á verð hlutabréfa í bankanum með innri viðskiptum og ótæðilegum lánum til starfsmanna til hlutabréfakaupa í bankanum.

En þetta er ekki það sem er athyglisverðast við bréf Hreiðars. Fullyrðingar hans um annars vegar að rannsókn FSA hafi leitt í ljós að enginn fótur hafi verið fyrir sögusögnum um gífurlegar tilfærslur fjármuna frá KSF til Íslands og hins vegar að um og yfir 90% fáist upp í kröfur á KSF eru tíðindi sem þarfnast nánari skoðunar og umfjöllunar.

Sögusagnirnar um fjármagnsflutninganna voru eflaust megin ástæðan fyrir því að Kaupþing féll. Hvaðan kom sá orðrómur? Hreiðar rekur í bréfi sínu að fyrrverandi forsætisráðherra breta, Gordon Brown, hafi fullyrt þetta við Geir Haarde. Mig rámar í að fyrrum formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands hafi jafnframt haldið þessu fram. Tóku bresk stjórnvöld ákvörðun um aðgerðir gegn KSF á grunni órökstuddra gróusagna?

Lengi vel stóð von til þess að Kaupthing gæti staðið af sér hrunið, en yfirtaka FSA á KSF gerði það að verkum að verkum að móðurfélagið féll. Síðasti stóru bankanna þriggja á Íslandi hrundi með látum, með ómælanlegum skaða fyrir Ísland. Nú þegar þessi niðurstaða liggur fyrir frá FSA, þarf ekki að ræða þetta mál sérstaklega við bresk stjórnvöld? Hvernig verður eigendum og kröfuhöfum Kaupthings bætt tjónið af tilhæfulausri innrás FSA í KSF? Hvernig verður Íslandi bætt það tjón? Er þetta eitthvað til að ræða t.d. í tengslum við ICESAVE?

Að auki, ef rétt er hjá Hreiðari að um og yfir 90% fáist upp í kröfur á KSF er nokkuð ljóst að rekstur bankans, útlán og annað var ekki í neinum molum. Þrotabú með slíkar heimtur, sérstaklega í þessu árferði, var ekki gjaldþrota. KSF hefur þannig ekki verið rændur innanfrá.

Töluverð gagnrýni hefur komið fram á Kaupthing vegna þess hversu mikil áhætta var í lánum til einstakra viðskiptavina. Virðist gleymast í þeirri umfjöllun að það var einmitt hluti af stefnu bankans að vinna með færri en stærri kúnnum og það mjög náið, í lánveitingum og í fjárfestingaverkefnum. Á meðan að allt lék í lindi var það mjög árangursrík og arðbær stefna, en vissulega reyndist bankanum erfið þegar að lausafjárkreppan skall á. Þá var í reynd hver kúnni það mikilvægur að bankinn átti of mikið undir hugsanlegu þroti, eða vandræðum, hvers og eins þeirra. Það hugsanlega skýrir af hverju bankinn reyndi um of að koma þeim kúnnum til bjargar.

Aðalatriðið er þó að þessi niðurstaða FSA og fullyrðingar Hreiðars Más verði teknar til gaumgæfilegrar skoðunar hér heima og áhrif þeirra vegin, metin og skýrð. Ef það hefur verið gert hefur það því miður farið framhjá mér og væru ábendingar vel þegnar.

2 ummæli:

  1. Hvaða bull er þetta? Til hvers ertu að hlaupa til varnar mönnum sem settu landið á hausinn og stuðluðu að einu af stærstu gjaldþrotum sögunnar?

    Þú segir:
    "Virðist gleymast í þeirri umfjöllun að það var einmitt hluti af stefnu bankans að vinna með færri en stærri kúnnum og það mjög náið, í lánveitingum og í fjárfestingaverkefnum"

    Virðist það gleymast? Stefna bankans var kolröng og heimskuleg og fól í sér glæpsamlega áhættu. Stefnan var sett af glæpamönnum eins og Hreiðari og Sigurði sem stýrðu bankanum í þrot. Bankinn hefði farið í þrot algerlega óháð því hvað bretar gerðu. Þeir eru verri en Skilling og Lay sem stýrðu Enron. Sem betur fer drapst annar þeirra og hinn fór bak við lás og slá.

    SvaraEyða
  2. Ég er ekki að hlaupa í varnir fyrir hvorki einn né neinn. Ég er einfaldlega að benda á athyglsiverða punkta í bréfi Hreiðars sem ég tel rétt að séu skoðaðir nánar. Jafnframt tek ég fram að þrátt fyrir að hann telji niðurstöðu FSA allsherjar syndaaflausn þá er hún það tæplega, enda ekki verið að rannsaka sömu hluti og hér heima. Það verður að vera hægt að fjalla um þessi mál af skynsemi, en ekki með upphrópunum!

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.