föstudagur, 10. júní 2011

Dollaramilljarður, Icesave og þess háttar...

Það voru jákvæð tíðindi að takast skyldi að ganga frá milljarðsdollara láni í gær fyrir ríkissjóð. Hér eiga fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, starfslið ráðuneytanna og Seðlabankans hrós skilið.

Vel gert.

En...

...við þurfum engu að síður að anda með nefinu í fagnaðarlátunum. Þessi tíðindi eru vissulega jákvæð, en í þeim felast ákveðin hættumerki. Ein eru þau að 320 punktar ERU engu að síður hátt álag á ríkisskuldabréf, þó að kjörin séu vel ásættanleg m.v. ástand á markaði. Önnur eru þau að þó fagna megi því að ríkið geti gefið út skuldabréf á alþjóðamarkaði, þá er það hins vegar í augnablikinu EINI al-íslenski aðilinn sem það getur. Landsvirkjun, OR, sveitarfélögin, o.s.frv. eru allir "utan þjónustusvæðis". Einu aðilarnir sem eiga þess kost að sækja fé á alþjóðamarkaði eru þau fyrirtæki sem eru með umtalsverða starfsemi erlendis OG umtalsvert erlent eignarhald.

Svo má spyrja frekar, þar sem að þessi næstum því 5% lánakjör eru einungis til skamms tíma, 5 ára, hvað þau þýða fyrir hinn almenna markað EF hann skyldi opnast? Þetta er s.s. gólfið þ.a. betri kjör bjóðast ekki. Hvert verður álagið fyrir t.d. virkjunarframkvæmdum, sérstaklega til lengri tíma? Eitthvað sem slík framkvæmd gæti borið?

Og svona rétt til að klára gleðispillinn þá erum við ekki sloppin undan ICESAVE. Málaferlin eru öll eftir og þar getur brugðið til beggja vona. Eins sérkennilegt og það hljómar, þá gæti áhætta þjóðarinnar af ICESAVE líkast til verið meiri nú vegna höfnunar samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu en ef hann hefði verið samþykktur. Nú t.d. taka allir andstæðingar samningsins undir það að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af ICESAVE af því að þrotabúið muni borga, en töldu það fráleita áhættu í aðdraganda kosninga.

Áhættan sem við stöndum ennþá frammi fyrir er hins vegar á því að ekki þurfi einungis að greiða 20 þús evrur, heldur hugsanlega 100 þús evrur, og kannski allt í botn, ef jafnræðisregla telst hafa verið brotin. Að sama skapa er ólíklegt að vaxtakjörin verði sambærileg og í samningnum, ef málið tapast. Eins og þegar hefur komið fram í fréttum hefur ESA gefið 3 mánaða frest til að greiða ICESAVE, og þar er miðað við lágmarkstryggingu. Ef Bretland og Holland gerast aðilar að málarekstri ESA, sem er því miður líklegra en ekki, verður þar að öllum líkindum a.m.k. farið af stað með fullar kröfur.

En málið gæti hugsanlega unnist og þá þarf ekki að hafa neinar áhyggjur, nema jú það að óleyst ICESAVE mun þvælast fyrir okkur þar til endanleg niðurstaða er fengin.

Með þessum ábendingum er ég vissulega að vera nokkur gleðispillir. Auðvitað vonar maður hið besta, en það er rétt samhliða því að vera viðbúin verri tíðindum.

Hafið einnig í huga, að sama hvað manni má finnast um stjórnvöld, hafa sem betur fer allir lagst á eitt við það að fara í meiriháttar "damage control" í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um ICESAVE. Enginn lagðist í kör eða fór í fýlu, heldur lögðu allir dag við nótt við að lágmarka skaðann. Ekkert af því jákvæða sem þó er að gerast kemur til af sjálfu sér. Hingað til hefur það gengið þokkalega, og mun betur en þeir svartsýnustu hefðu þorað að vona, ég sjálfur þar með talinn.

Enn og aftur, um að gera að fagna þessum áfanga, þ.m.t. jákvæðri umfjöllun bæði í Financial Times og Wall Street Journal. Það er líka vonandi að þetta auðveldi framhaldið, hvort heldur sem er varðandi gjaldeyrishöft og aðra erlenda fjármögnun. En þetta er ekki búið og mun kalla á áframhaldandi mikla vinnu og árverkni - stjórnvalda sem annarra.

8 ummæli:

 1. Sæll Friðrik,

  er þessi milljarður dollara ekki lán sem þarf síðar að borga, og þá með hvaða peningum?

  Lengi lifi 2007!

  Gunnar Skúli-gleðispillir hinn meiri.

  SvaraEyða
 2. Jú það held ég nú. Eilífir skuldadagar...

  SvaraEyða
 3. sonasona, látum rústirnar af Landsbanka hinum gamla borga ÆSVEI - búið að gefa út að það sé til fyrir honum. Hefði samt gjarnan vilja hafa aðeins lengri tíma til að klára að selja Iceland Foods, ekki gott að þurfa að hlaupa til.

  SvaraEyða
 4. Bara að hunsa ESA og hvaða dómsniðurstöðu sem þar kemur... Þeir hafa hvort sem er enda lögsögu á Íslandi.

  SvaraEyða
 5. Það er vonandi að eignir Landsbankans dugi fyrir Icesave, en það er ekki víst fari málið á versta veg. Krossleggjum fingur og vonum hið besta.

  Það þýðir hins vegar lítt að hunsa ESA. Jú, jú kannski vill einhver vera svo bjartsýnn að telja að íslenskir dómstólar muni leiða hjá sér niðurstöðu EFTA dómstólsins, verði hann Íslandi ekki í vil, og leiða þannig hjá sér skuldbindingar skv. alþjóðarétti, en það hefur afleiðingar. Rétt er svo líka að hafa í huga að um leið og dómur er fallinn Íslandi í óhag, það er eftir einhver upphæð sem þrotabúið dugar ekki fyrir og Ísland neitar að fara að dómnum, þá er Ísland líkast til sjálfvirkt komið í greiðslufall, sem gæti leitt til gjladfellingar flestra erlendra lána ríkisins og orkufyrirtækjanna t.d.
  En, þetta kemur allt í ljós. Aðalatriðið er að halda áfram að vinna landið úr vandanum og taka þetta skref fyrir skref.
  Og rótttækari efnahagsumbætur, takk...!

  SvaraEyða
 6. Það er bara fínt og losna þá við allar aðrar skuldir í leiðinni - hafa bara vit á að koma erlendum eigun heim (í formi seðla) fyrst. Staðgreiða (og krefjast) staðgreiðslu í nokkur ár fyrir okkar viðskipti.

  SvaraEyða
 7. Friðrik.."rótækari efnahagsumbætur" ?
  Hversu mikið hveiti, sykur og hve mörg egg þarf í þá uppskrift ? (stór pöntun að kalla eftir þeim svörum....en forvitinn er ég samt)

  SvaraEyða
 8. Haddi, mínar hugmyndir um róttækar efnahagsumbætur kalla eiginlega á sérstakt blogg. Einfaldara og skilvirkara skattkerfi er eitt, nýta frekar skattaafslætti en bætur til millifærslna innan skattkerfisins er annað, leggja niður íbúðalánasjóð og stofna húsbanka í sameign ríkis og banka án ríkisábyrgðar sem tæki yfir hlutverk grunnlánveitinga til húsnæðiskaupa, afnám verðtryggingar eins og hún er framkvæmd í dag, afnám ábyrgðarmannakerfisins, upptöku nýrrar myntar, tímabundið afnám "sjálfstæðis" Seðlabankans og keyra vexti niður í núll, innkalla öll verðtryggð skuldabréf, o.s.frv.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.