miðvikudagur, 1. júní 2011

Gjaldmiðill án framtíðar

Íslenska krónan var eitt af fórnarlömbum íslenskra viðskiptahátta í aðdraganda bankahrunsins. Markaðsmisnotkun banka og lykilaðila íslensks viðskiptalífs á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði, með dyggri aðstoð peningaprentunaráhrifa almennrar verðtryggingar og peningastefnu Seðlabankans, margfaldaði peningamagn í umferð á árunum 2001 til 2008.

Þessi aukning var án innistæðu. Má jafnvel halda því fram að með háttsemi sinni hafi þessir aðilar stundað peningafölsun og komist upp með það. Verðlausum pappírum var gefið verðgildi með markaðsmisnotkun á skulda- og hlutabréfamarkaði m.a. í svokölluðum „endurhverfum viðskiptum“ bankanna við Seðlabankann. Þannig gátu bankarnir og velvildarmenn þeirra, sem voru fyrst og fremst í eigendahópnum, í reynd skipt út platkrónum fyrir alvöru krónur.

Í dag sitja þessar „alvöru“ krónur á bókum Seðlabankans og fjármagnseigenda í formi aflandskróna og skuldabréfa.

Þessar krónur eru ein aðalorsök gjaldeyrishaftanna. Í áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta er helsta hindrunin á þeirri vegferð hið mikla magn króna í umferð sem gert er ráð fyrir að eigendur vilji skipta yfir í gjaldeyri. Semsagt, að mati bankans bíða fjármagnseigendur í röðum og vilja taka næsta skref og skipta þessum krónum yfir í gjaldeyri.

Í áætlunum bankans eru kynntar tvær hugsanlegar leiðir til þess að losa um þá spennu sem hið mikla krónumagn veldur. Báðar byggja á því að beitt verði mismunandi gengi fyrir krónueignir fjármagnseigenda sem vilja losna úr helsi íslensku krónunnar. Annars vegar að gjaldeyrir verði seldur á uppboði og hins vegar að gjaldeyrisútflæði verði skattlagt þannig að raungengi liggi í reynd við aflandsgengi en ekki álandsgengi (opinbert skráningargengi Seðlabankans). Einungis uppboðsleiðin er komin til framkvæmda með því tilraunauppboði sem Seðlabankinn hefur þegar tilkynnt.

Ljóst er að leiðir Seðlabankans munu taka langan tíma, enda er nú gert ráð fyrir að gjaldeyrishöft verði viðvarandi a.m.k. til 2015.

Einn stór galli við aðferðarfræði Seðlabankans er að samkvæmt henni verður ekki dregið úr heildar peningamagni. Of margar krónur þýða að varanlega hefur dregið úr verðgildi gjaldmiðilsins og hætta er á annarri aðför að högum heimilanna vegna þess undirliggjandi verðbólguþrýstings sem myndast þegar þessar krónur án undirliggjandi verðmætasköpunar komast í umferð eins og áætlun Seðlabankans gerir ráð fyrir.

Seðlabankinn gerir s.s. ráð fyrir að allar þær krónur sem hann kaupir á uppboði verði endurunnar inn í hagkerfið á ný. Virðist bankinn þannig ekki sjá krónumagnið sem slíkt sem sérstakt vandamál, heldur eigendur krónanna. Það er mikill misskilningur, því ætla má að margur íslendingurinn vilji gjarnan skipta út krónunum sínum fyrir erlendan gjaldmiðil, líka þessar endurunnu þegar þær verða komnar í almenna umferð.

Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir landsmanna verði helstu kaupendur á þessum krónum. Tæpast getur það talið heillandi fyrir núverandi og verðandi lífeyrisþega þessa lands að enn frekar eigi að binda trú og traust lífeyriskerfisins á íslensku krónuna.

Með þessari aðferðarfræði er hætta á að gengi krónunnar nái sér ekki á strik á ný, og haldi áfram að vera undir neikvæðum þrýstingi. Þessi aðferðarfræði gæti þannig hugsanlega haft takmörkuð áhrif á afnám hafta, þvert á það sem ætlað er.

Í rauninni eru einungis tvær skilvirkar aðferðir til þess að draga raunverulega úr heildar peningamagni á Íslandi, m.v. núverandi stöðu. Annars vegar með hreinum afskriftum lána og skulda og hins vegar með því að skipta um gjaldmiðil með mismunandi skiptigengi. Hvor um sig er aðferð sem mun hjálpa til við að ýta íslenska hagkerfinu í gang á ný.

Ekki virðist pólitískur vilji til gjaldmiðilsskipta, en ljóst er að verið er að afskrifa skuldir töluvert. Gagnsæi skuldaafskrifta, hverjir njóta þeirra helst og hvernig þær dreifast er hins vegar það sem endalaust er og verður deilt um. Sértækar aðgerðir eru þar helst tortryggðar, ásamt því að vera seinvirkar, og ber því að fagna fjölgun almennra úrræða á breiðum grunni, svo sem þeirra sem Landsbankinn hefur kynnt.

Framtíðarsýnin hlýtur hins vegar að vera að landið hafi skilvirkan gjaldmiðil og losni úr viðjum hagfræðilegra “barbabrellna” eins og gjaldeyrishöftum og verðtryggingu. Ekki verður séð að núverandi gjaldmiðill geti verið trúverðugur hluti af þeirri framtíðarsýn.

8 ummæli:

 1. Sæll Friðrik,

  má ekki segja að spákaupmennirnir sem keyptu krónuna okkar fyrir hrun séu eins og menn sem hafi haft mök við sýkta mellu smokkalausir og geti því sjálfum sér um kennt?

  Önnur spurning er að ef of mikið er af peningum í umferð á Íslandi hvers vegna er ekki hægt að koma þeim til þeirra sem skapa verðmæti og vilja skiptast á verðmætum í stað þess að senda fyrirtæki í gjaldþrot?

  SvaraEyða
 2. Sæll Gunnar,

  Þetta er sterk samlíking!

  Ástæða þess að peningarnir fara ekki í vinnu er jú m.a. peningastefnan, sem einblínir m.a. á verðbólgu sem er tiltölulega ómarktæk hvort eð er í haftaumhverfi. Auðvitað ætti hér að lækka vexti niður í núll, og jafnvel hafa stýrivexti neikvæða, til þess að þvinga fjármagnið í vinnu. Núna er engin áhætta af því að hafa peninga á bók í seðló og það gefur þér trygga ávöxtun. Þ.a.l. er enginn ástæða til að fjárfesta í atvinnulífi og uppbyggingu...

  SvaraEyða
 3. það er mjög sérstakt að peningar sem eru í raun verkfæri til viðskipta ráði sínum hvílustað sjálfir, eða hvað?
  Það er svipað og að ekki sé hægt að halda landsmót hestamanna vegna þess að allir hnakkarnir vilja frekar verða í Seðlabankanum.
  Það verður að teyma þessa peninga af stað og afhenda þá viljugum höndum til verðmætasköpunar.

  SvaraEyða
 4. Saell Fridrik, thessi pistill thinn um allar aflandskrónurnar á bak vid "stíflu" sem mun fyrr eda sídar bresta, flaeda út í hagkerfid og valda ofsa-verdbólgu ( "hyper-inflation" ) - de facto ; gengishruni - er med thví skilmerkilegasta sem ég hef lesid um efnid undanfarid. Ef vid berum opinbert Sedlabankagengi - 1€ = 166 ISK - saman vid tad gengi sem gefid er upp í "Cross-Rates" - dálki "Frankfurter Allgemeine Zeitung"
  ( www.faz.de / waehrungen )er augljóst ad krónan er ekki mikils metin í fjármálaheiminum ; í FAZ er gengid 1 € = 294 ISK ( ! ) Med ödrum ordum krónutetrid myndi hrapa um nánast 100% fyrsta daginn sem gengid vaeri gefid frjálst. Einsog thú réttilega bendir á, er krónan í rauninni innistaedulaus "pappír" Ad baki allra thessarra milliarda sem skrádar eru sem aflands-inneign hjá Sedlabankanum - standa engin verdmaeti sem festa má hendi á. Thetta er óbrigdul formúla fyrir gengishruni einsog vard í Thýskalandi eftir Heimstyrjöldina Fyrri 1923. Thegar til lengri tíma er litid, er ég smeykur um ad Ísland verdi ekki fordad frá slíku hruni med sama áframhaldi. E.t.v. gaetu landsmenn bjargad einhverju af peningaeign sinni, ef takmarkadri upphaed króna yrdi skipt í evrur - skipulega líkt og thegar ónýtri DDR-Mark ( austurthýska markinu ) var skipt í DM vid samruna landanna 1989 / 1990 Slík skipti myndu vitaskuld kosta thad ad Íslendingar yrdu ad lítast í augu vid blákaldan raunveruleikann í stad thess ad vera í feluleik med krónuna og fegra fyrir sér ástandid. Orri Ólafur Magnússon - Thýskalandi

  SvaraEyða
 5. Góð greining hjá þér varðandi aflandskrónuvandann.

  Ég stakk upp á því að svo lengi sem aflandskrónur eigi að fara í útboð að þá ættu sem flestir að geta keypt þær. Með þeim hætti þá mun ávinningurinn fara til fleiri aðila og verðbólgan sem mun koma í kjölfarið myndi því ekki vera eins skaðleg.

  Ég skrifaði stutt blogg um þetta í gærkvöldi. Þar bendi ég á að útboðsmarkaður Seðlabankans veldur því að fjárfestar bíða með fjárfestingar þangað til þeir geta keypt aflandskrónur með afslætti. Loforð Seðlabankans um ávinning til kaupenda aflandskróna sé því að skaða hagkerfið.

  SvaraEyða
 6. Friðrík.

  Þú ættir reyndar að vita það, að gjaldmiðill sérhvers ríkis endurspeglar efnahagslegan raunveruleika þess.

  Sé engin efnahagsleg framtíð hér á landi, þá á gjaldmiðilinn sér enga framtíð.

  Að taka upp Evru er því engin lausn, því hún endurspeglar efnahagslegan raunveruleika Þýskalands og Frakklands, ekki litla Íslands.

  Ef Ísland væri með Evru, þá þyrfti landið að aðlaga sig efnahagslegum raunveruleika Frakklands og Þýskalands, en það er ómögulegt, því þessi lönd eru efnahagslega og að stærð gerólík Ísland.

  Taki Ísland upp Evru, þá þarf landi á greiða verulegan fórnarkostnað.

  Sá fórnarkostnaður er t.d. viðvarnadi atvinnuleysi, því þar með er vinnumarkaðurinn orðinn efnahagslegt sveiflujöfnunartæki í staðinn fyrir krónuna.

  Til að getað lifað með atvinnuleysi, þá þurfa t.d. skattar að hækka, því aukið álag yrði á félagslega kerfið vegna atvinnuleysis.

  Annar fórnarkostnaður er t.d. niðurskurður, en til að halda sig innan ramma um fjárlagahalla að kröfur ESB, þá mega fjárlög landsins ekki fara úr böndunum.
  Þetta var nokkuð sem Grikkir svindluðu á, en nú er það að koma i bakið á þeim.

  Af þessu hlytist talsvert tap af velferð, sem yrði spinn-off kostnaður af þessum fórnarkostnaði.

  Ef þessu má leiða að það að taka upp Evru hér á landi er engin patent-lausn.
  Etv. leysir það einhvern vanda, en leið býr þetta til önnur og ný vandamál fyrir Ísland.

  SvaraEyða
 7. Nafnlaus
  2. júní 2011 11:44

  Það er ekki alveg rétt að gjaldmiðillinn endurspegli efnahagslegan styrk á einum tímapunkti. Styrkur gjaldeyrisins er mat markaðarins á bæði langtímastyrk, en ekki síður (eins og Friðrik bendir á) mati á peningalegu virði eigna hagkerfisins og heildarmagni peninga í því hagkerfi.

  Vel upplýstur fjárfestir metur pengingalegt virði eigna á Íslandi á undirverði vegna þess að það er mjög lítill og grunnur markaður um þær í dag, og ekki síst vegna þess að það er ekki hægt að færa peningalegar eignir úr íslenska hagkerfinu í önnur hagkerfi. Af þessum sökum er aflandsgengi krónunnar lægra en eðlilegt raungengi.

  Þegar ofaná bætist að væntingar allra upplýstra einstaklinga eru að gengi þurfi að falla frá handstýrðu gengi Seðlabankans vegna þess að magn íslensku krónanna sé svo mikið að allir upplýstir fjármagnseigendur á Íslandi myndu kjósa að selja krónur fyrir erlenda mynt á núverandi gengi, þá er augljóst að arðsemiskröfur af fjárfestingum í áhættureksri á Íslandi þurfa að vera mjög háar til að binda fjármagn (innanlands eða erlendis frá) í rekstri. T.d., ef gengið er skráð 20% of hátt, þá þyrfti nýtt fjármagn sem kemur til landsins að reikna með því að verðmæti fjárfestingarinnar í upprunamyntinni gæti lækkað á einni nóttu um 20%.

  Varðandi Evruna, þá held ég ekki að Friðrik, eða nokkur sem nefnir Evruna sem lausn, sé að segja að hún sé patentlausn. Þvert á móti þá líta margir á það sem grundvallar hag að gera stjórnvöldum erfiðara að keyra á fjárlagahalla til lengdar, og að það sé miklu skynsamlegra að allir atvinnuvegir geti treyst verðmæti gjaldmiðilsins, en ekki þurft að eiga það á hættu að gengið sé fellt til að auka hagnað af ákveðnum atvinnugreinum. Afnám verðtryggingar og skynsöm verðlagning lánsfés eru svö önnur atriði sem væru mikið gæfuspor fyrir Íslendinga sem hafa lengi búið við miklar blekkingar um raunkostnað af lánsfé.

  Persónulega held ég að það væri einnig skynsamlegt að kanna möguleika á að ganga aftur inní ríkjasamband við Danmörku. Ísland gæti verið sjálfstætt um flest innanríkismál, en treyst á samstarf við stærri þjóð um ýmis önnur mál. Hvað sem öðru líður, þá er núverandi ástand ekki stöðugt og óvissan er mjög dýr. Íslendingar þurfa að taka erfiðar ákvarðanir um gengismál, en líklegt er að núverandi stefna að bíða í 4-5 ár með að aflétta gjaldeyrishöftum muni valda svo miklum varanlegum skaða á íslensku atvinnulífi að heil kynslóð ungs fólks muni missa trúna á Íslandi og því að þar sé best að búa.

  Andri Haraldsson

  SvaraEyða
 8. Nafnlaus kl. 11:44

  Nú starfa ég sem gjaldeyrismiðlari og veit að markaðurinn metur gjaldmiðla út frá væntingum um efnahagslega stöðu viðkomandi myntríkis. Það er undirliggjandi þáttur í mati á stöðu gjaldmiðla.

  Séu efnahagslegar horfur slæmar í viðkomandi ríki, rýrnar trú manna á gjaldmiðli þess ríkis og þá vilja þeir selja hann sem velur gengislækkun gjaldmiðilsins.

  Það er m.ö.o. ekki hægt að meta styrk gjaldmiðils út frá gjaldmiðlinum einum og sér sem slíkum, heldur út frá því efnahagslega umhverfi sem liggur að baki viðkomandi gjaldmiðils.

  Skilgreinið annars hugtakið "alvöru gjaldmiðill"?

  Ég get hjálpað ykkur með smá samlíkingu.

  Við höfum tvo bíla; Jpanska smábílin Daihatsu Coure og Porsche Cayanne.
  Allir myndur segja að Porsche Cayanne væri "alvöru bíll".

  En þá þarf maður að meta það, hefur maður efni á að eiga og reka Porsche Cayanne, og hver er fórnarkostnaðurinn við það?  Gott og vel, það er heilmikið í þessu, en báðir gera sama gagn, en það er meiri prestige að eiga Porsche Cayanne.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.