miðvikudagur, 8. júní 2011

Markaðurinn velur misgengi

Þá liggja fyrir niðurstöður úr fyrsta gjaldeyrisuppboði Seðlabankans, og eins og við er að búast vill bankinn setja þær niðurstöður í sem jákvæðast ljós. Vel heppnað útboð, ágæt eftirspurn, og verðið sem fengið var undir aflandsgengi.

Gott og vel. Ég sé hins vegar niðurstöðuna í aðeins öðru ljósi.

Útboð Seðlabankans endurspeglar gríðarlegan undirliggjandi þrýsting á útstreymi gjaldmiðils.

Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að útboð þetta var bundið verulegum takmörkunum. T.d. máttu einungis þeir taka þátt sem gátu sýnt fram á að krónueign þeirra væri „varanleg“ frá a.m.k. október 2008.

Í öðru lagi flaggaði Seðlabankinn því að hér væri um mjög takmarkað útboð að ræða, einungis 15 milljarðar, og gaf ekkert upp um sínar væntingar, þ.m.t. um hugsanlegt gengi.

Hvoru tveggja var til þess að takmarka hugsanlegt tilboðaflóð.

Þrátt fyrir þessar takmarkanir bárust engu að síður tilboð fyrir rúmlega fjórfalda þá upphæð sem var í boði.

Einnig kemur í ljós að fyrst og fremst var hér um jafngildi reiðufjár, þ.e. peninga á innlánsreikningum að ræða, því skv. Morgunkorni Íslandsbanka „...voru nær allar þær krónur sem Seðlabankinn keypti í útboðinu geymdar á innlánsreikningum.“

Meðalgengið, reynist tæpar 219 krónur fyrir hverja evru, eða rúmlega 30% hærra gengi evru en skráð gengi Seðlabankans. Í kjölfar útboðsins kemur hins vegar í ljós að Seðlabankinn hafði sett sér tilboðsgólf upp á 215 krónur fyrir hverja evru.

Næsta skref seðlabankans verður svo að koma þessum krónum aftur í umferð, með því að bjóða þær til sölu innlendum aðilum, og þá væntanlega fyrst og fremst lífeyrissjóðunum, í skiptum fyrir gjaldeyri.

Nettóáhrif þessarar aðferðarfræði Seðlabankans verður því ekki til að draga úr krónumagni í umferð. Það verða nákvæmlega jafnmargar krónur innan hagkerfisins, en nettó erlendar eignir þjóðarbúsins munu lækka. Hvernig þá? Jú, gjaldeyririnn sem seldur var í gær er farinn, og líkast til kemur ekki aftur. Til þess var jú leikurinn gerður. Bólukrónurnar lifa áfram, og verðbólguþrýstingur vegna þeirra verður áfram til staðar.

Ef Seðlabankanum er alvara með því halda fram árangri þessarar aðferðarfræði, verður þess væntanlega skammt að bíða að næsta uppboð fari fram. Væntanlegt dollaraskuldabréfaútboð ríkisins þarf líklega að fara fram fyrst svo að tryggt sé að nægur gjaldeyrir sé til bæði fyrir uppboð og afborganir lána. Ekki er að sjá að nýtt skuldabréfaútboð ríkisins verði, nema hugsanlega að litlum hluta, til að fjármagna ný verkefni, s.s. vegaframkvæmdir.

Athyglisverðustu skilaboðin sem felast í þessu uppboði eru hins vegar þau að markaðurinn sættir sig við og beinlínis velur misgengisleið út úr krónuvandanum. Í þessari fyrstu umferð, sem var mjög takmörkuð eins og áður segir, var markaðurinn tilbúin til að losa sig við krónur með u.þ.b. fjórðungs afslætti. Hvaða tilboð hefði bankinn fengið ef það hefði verið opið og hver sem er, með hvaða krónueignir sem er, hefði fengið að gera tilboð? Að öllum líkindum mun meiri afslátt, eða fleiri krónur per evru, en varð.

Engu að síður eru skilaboð markaðarins til íslenskra krónueigenda skýr. Krónan er á bilinu fjórðungi til helmingi minna virði en opinbert skráningargengi að mati markaðarins, eftir því hvort horft er til uppboðsgengis eða aflandsgengis. Það er mikilvægt að hafa í huga þegar framtíðarkostir Íslands í gjaldmiðilsmálum eru ræddir.

9 ummæli:

 1. þetta var eitt af þeim atriðum sem ég lagði áherslu á í umsögn minni um lögfestingu gjaldeyrishaftanna.

  Þetta atriði þarf miklu meiri umræðu enda munu þessar "aflandskrónur" skapa gríðarlegan óstöðugleika þegar þær koma fram í eftirspurn eftir gjaldeyri sem er ekki til í hagkerfinu.

  SvaraEyða
 2. Andri Haraldsson9. júní 2011 kl. 12:25

  Ef þetta verð er raunhæft jafnvægisverð væri skynsamlegt að athuga að lyfta höftunum. En líklega er þetta betra verð en jafnvægisverð, þar sem þetta er rjóminn af toppnum.

  Varðandi of margar krónur, þá er ein hugmynd að aftengja veðlán frá neysluvísitölu og láta verðbólguna rjúka upp með lægra gengi. Önnur væri að selja krónur fyrir langtíma dollara/euros bréf (með einhverjum sykri ofaná), og létta á skammtímavanda þannig.

  En eitthvað verður að gera þessi höft eru alger katastrófa.

  SvaraEyða
 3. Sæll Friðrik,

  góð grein hjá þér.
  Hversu mikinn gjaldeyri á Ísland til að skipta fyrir allar þessar krónur, dugar gjaldeyrisforðinn?
  Ef gjaldeyrisforðinn klárast áður en krónurnar klárast hvert fer þá krónan?

  SvaraEyða
 4. Sammála ályktunum thínum Fridrik ; Skilabodin sem thetta krónu-uppbod Sedlabankans sendir til fjármálaheimsins, - ef á annad bord má kalla slíkan fyrirfram bundinn gjörning uppbod -, eru einfaldlega thau, ad krónutetrid er ad minnsta kosti 30% of hátt skrád. Thessi einföldu sannindi koma reyndar ljóslega fram í verdlagi á naudsynjavarningi og thjónustu; allt slíkt er naer undantekningalaust 30% dýrara á Íslandi en á EU-svaedinu. Ad líkindum er ágiskad krónugengi Frankfurter Allgemeine Zeitung ( www.faz.de )
  mjög naerri raungengi: 1 € = 294 ISK. Med ödrum ordum ; íslenska ríkid - vulgo: skattgreidendur -greida nidur ( gjaldeyris-)kostnad vid utanlandsferdir theirra sem á annad bord hafa efni á thví ad láta sig hverfa í mildara loftslag og thaegilegra umhverfi
  Orri Ólafur Magnússon - Thýskalandi

  SvaraEyða
 5. Lúðvík, já - það þarf meiri umræðu. Vert að lesa líka Ólaf Margeirs á Pressunni, sérstaklega nýjasta pistil hans um verðtrygginguna og hvernig hún grefur undan gjaldmiðlinum.

  Andri, það er með þetta "eitthvað". Höftin eru náttúrulega að gera "eitthvað" og fellur innan normsins. En það er augljóslega ekki að virka og er eiginlega dæmi um að lækningin geti verið verri en sjúkdómurinn!

  Gunnar, Ísland "á" helling af gjaldeyri í augnabliknu, tala nú ekki um eftir að hafa fegnið milljarð dollara að láni. Málið er að yfir 90% forðans er einmitt allur á lánum þ.a. nettó gjaldeyrisinnstreymi sem þarf á að halda næstu árin til að mæta afborgunum og því sem menn losa í gegnum t.d. uppboðsleið mun ekki nægja, nema einmitt með höftum.

  Orri, ferðagjaldeyririnn er kannski bara brauðmolar til friðþægingar?

  SvaraEyða
 6. Gunnar og Friðrik,
  þessar aflandskrónur sem Seðlabankinn var að kaupa munu verða boðnar aðilum sem eiga gjaldeyri erlendis. Seðlabankinn mun ekki nota gjaldeyrisvaraðforðann til að kaupa aflandskrónurnar, nema til að brúa þann tíma sem þær verða í höndum Seðlabankans.

  Þessu er lýst nánar í Áætlun um losun gjaldeyrishafta sem Seðlabankinn gaf út 25. mars 2011 og hægt er að finna á heimasíðu hans.

  SvaraEyða
 7. Með hvaða ráðum mætti dempa þrýstingin á verðbólgu ?
  Verði þetta til að búa til gervi þrýsting, er þá ekki óhjákvæmilegt að koma krónunni nær raungengi hennar ?
  Hvaða leiki þætti þér, með öllum fyrirvörum um skort á upplýsingum, vera réttir leikir fyrir Seðlabankann í núverandi stöðu ?
  Kveðja
  Haraldur Baldursson, Hæðarseli 2, 109 Reykjavík

  SvaraEyða
 8. Haddi, klassíska leiðin til að dempa verðbólgu er hækkun stýrivaxta. Það er hins vegar eitur inn í okkar hagkerfi í núverandi ástandi. Verðbólga væri heldur kannski ekki stórvandamál, og eðlileg hagfræðileg leið til að lagfæra skekkjuna í kerfinu, ef ekki væri fyrir verðtrygginguna.
  Ég tel t.a.m. ýmsa kosti í stöðunni fyrir Seðlabankann aðra en þessa klassísku. Hef nefnt myntbreytingarleið, en þar fyrir utan er t.d. að keyra niður vextina í núllið til að mynda þrýsting fyrir það fé sem er til að fara í umferð til að ýta undir hagvöxt (setja peningana í vinnu). Jú, það yrðu af því verðbógluáhrif, en þau yrðu þá að minnsta kosti með einhverju innihaldi, þ.a. vegna umsvifa í hagkerfinu sem leiddu af sér aukna atvinnu, en ekki eins og í dag, þar sem peningamagn eykst og eykst sjálfkrafa vegna hárra vaxta og verðtryggingar.
  Ég tel líka að það verði að afnema verðtryggingu, a.m.k. í því formi sem hún er framkvæmd. Þessi heróínsaðferðarfræði er skelfileg fyrir þjóðarbúið.
  Ég tel líka að menn eigi að vera aggressívari í samskiptum við krónubréfahafa og aflandskrónu eigendur. En mun eflaust skrifa um það síðar.

  SvaraEyða
 9. Ég er þér mjög sammála um að smá verðbólga væri í lagi ef ekki væri þessi draugur sem verðtrygginingin væri. Ísland er orðið svo gegnsýrt af henni að auðvelt er að örvænta. Ég skal ekki fullyrða um hvað þarf að gera til að afnema hana, en likleg skref yrðu að vera :
  -afnema arðssemikröfu lífeyrissjóðanna (eða lækka verulega)
  -afnema síðan verðtrygginguna með öllu (Lagaboð)
  Þetta tæki líka til verðtryggingar lífeyrisréttinda opnberra starfsmanna og verkalýðsleiðtoga
  -gefa fjármálastofnunum færi á að fara með sitt lánasafn í gegnum skilmálabreytingar (ég sé ekki í fljótheitum að annað væri hægt, þó ærnir sé vextirnir ofan á verðtrygginguna)

  Sé hitt staðreynd að krónan muni ekki lifna við að nýju, myndi ég harma það (því helst vill ég halda henni).
  Ég spyr mig samt... hví Kanadamenn (með tilvísun í nýjustu fréttabrot) ættu að vilja okkur undir sinn gjaldmiðil, sinn seðlabanka og sitt fjármálaeftirlit...eina sem mér dettur í hug er að þarna séu fleiri hvíslarar hinu megin við skákborðið...að þarna sé ESB löndunargengið að ná fram hröðum stöðugleika á myntinni svo Evran komist inn sem lokamarkmiðið...en hvað veit ég svo sem :-)

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.