fimmtudagur, 2. júní 2011

Ísland úr NATO?

Ögmundur Jónasson á skilið sérstakt hrós. Sér þvert um geð ber hann að hluta ábyrgð á varnarsamstarfi Íslands innan NATO og þ.m.t. á varnaræfingunni Norður Víkingur, sem er nýhafin.

Í dag er það svo að Ísland er aðili að þessu bandalagi, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Að sama skapi er ljóst að sterkur þingmeirihluti er fyrir áframhaldandi veru landsins í bandalaginu. Ögmundi er því nauðugur sá kostur að fylgja meirihlutavilja þingsins í sínu starfi sem ráðherra, hvað svo sem hans innri sannfæring býður honum. Í slíkt þarf sterk bein.

Einnig er það svo að Ögmundur og flokkur hans, Vinstri-Græn (VG), eiga aðild að ríkisstjórn sem styður hernaðaraðgerðir sama bandalags í Líbýu, í umboði og samkvæmt ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þær aðgerðir eru einnig Ögmundi og VG þvert um geð, en þinglegur meirihluti virðist hins vegar að baki málinu. Ákall til þess að VG segi sig úr ríkisstjórn vegna þessa af prinsipástæðum eru hjóm eitt. Eins og Ögmundur bendir réttilega á í grein í Morgunblaðinu í morgun (skv. eyjan.is) myndu stjórnarslit vegna þessa máls engu breyta: „Ekkert myndi breytast hvað NATÓ áhrærir við brotthvarf VG úr stjórninni að því undanskildu að stuðningurinn við hernaðarbandalagið yrði eindregnari í Stjórnarráðinu.“

Það er því ekkert nema heiðarlegt við það að VG leggi nú loks fram þingsályktunartillögu um úrsögn Íslands úr NATO. VG er á móti þessu bandalagi og aðild Íslands að því. Þingsályktunartillaga af þessu tagi er því fullkomlega eðlileg, sama hvort VG á aðild að ríkisstjórn eða ekki.

Hverfandi líkur eru hins vegar á því að þingsályktunartillaga þessi verði samþykkt, hvað þá að hún fái einhverja raunverulega umræðu sem væri hreint ágætt.

Eflaust hefði verið mun nær að tefla fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að bandalaginu. Þá þjóðaratkvæðagreiðslu mætti tvinna saman við væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að ESB – sem VG er reyndar líka mótfallið. Myndi atkvæðagreiðsla um aðild að þessum meginstofnunum samstarfs Evrópuþjóða falla vel saman þar sem rökin fyrir aðild að hvorri stofnun um sig eru um margt samhljóða á breiðum grunni. Snúa þau m.a. að mikilvægi þátttöku þjóða í fjölhliða samstarfi með líkum þjóðum, sambærilega þenkjandi og með sambærilega og samþætta hagsmuni, hvort heldur sem er á sviði stjórn-, efnahags-, öryggis- eða varnarmála.

Slík samtvinnuð þjóðaratkvæðagreiðsla yrði þannig auðveld fyrir bæði þá sem hugnast aðild landsins að báðum stofnunum eða eru á móti. Eitthvað yrði hún erfiðari fyrir þá sem væru til í aðra en ekki hina, en það yrði væntanlega yfirstíganlegur vandi, ef sannfæring manna er í þokkalegu lagi.

Eftir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu myndi fækka um tvö stórmálin sem ekki þyrfti að rífast um, að því gefnu að menn virði niðurstöðuna möglunarlaust. Fram að henni eiga og verða ráðherrar hins vegar að fylgja vilja meirihluta þingsins – í báðum málum. Að því leiti mætti Jón Bjarnason taka flokksbróður sinn Ögmund sér til fyrirmyndar.

1 ummæli:

  1. Já, sem betur fer eru innan um skynsamt fólk hjá VG.

    Síðan er það auðvitað þannig að þegar menn komast í ráðherrastólana, þá verða þeir að takast á við raunveruleikann, sem þýðir að þeir verða af og til að taka ákvarðanir sem eru þeim ekki að skapi.

    Síðan halda þeir áfram í pólitísku keiluspili...

    Guðbjörn Guðbjörnsson

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.