laugardagur, 26. apríl 2008

Dómsdagur nú?

Ég horfði áðan með öðru auganu á svissnesku heimildarmyndina A Crude Awaking: The Oil Crisis. Í stuttu máli eru skilaboð myndarinnar þau að olían er að verða búin og innan skamms verðum við öll farin að keyra um á Amish-hestvögnum.

Flugið verður munaður hinna fáu ríku.

Myndin er þokkalega vel gerð, búin að fá haug af verðlaunum á kvikmyndahátíðum og af einhverjum nefnd (henni til hróss) “The other Inconvenient Truth.”

Sjálfum þótti mér hún falla í sömu gryfju og mynd Al Gore að vera allt of einhliða. Hreinlega algerlega einhliða. Bjarta hliðin er þó sú að ef við tökum þessar tvær saman að þá þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af hlýnun jarðar. Ef allt er satt og rétt í Crude Awakening er sá vandi sjálfleystur þar sem olían er að verða búin hvort eð er!

Kolefnahagkerfið er komið að endimörkum og ekkert nema hrun framundan skv. boðskap myndarinnar. Tíminn er hlaupinn frá okkur og tæknigeta mannsins er ekki nægileg til að bjarga okkur á þeim stutta tíma sem er til stefnu.

Þ.a. lítið á víst að gefa fyrir tækniþróun á sviði annarra orkugjafa eða þróun á sviði lífeldsneytis.

Þróunin er hins vegar mjög athyglisverð á því sviði. Sífellt er víst að verða fjölbreyttara fóður sem nota má til framleiðslu lífeldsneytis, eins og sjá má t.d. af þessari frétt frá Danmörku þar sem nýlega var opnuð svokölluð annarrar kynslóðar lífeldsneytisverksmiðja.

Hér eru tenglar á eldri fréttir á National Geographic, annars vegar um framleiðslu lífeldsneytis í Svíþjóð og hins vegar á slíkri framleiðslu úr hundaskít í San Franscisco.

Framleiðsla lífeldsneytis úr dýrafitu vekur hins vegar óneitanlega upp ákveðnar siðferðilegar spurningar. Það er eitt að nota dýraúrgang og hræ til slíkrar framleiðslu, en ég get ekki varist þeirri hugsun að í þeim efnum eigi eftir að koma upp Soylent Green vinkill á endanum.

En aftur að Crude Awakening. Hún vekur mann vissulega til umhugsunar, en af því að hún er þetta einhliða missir hún marks. Þeir eru full margir Malthus-arnir og virðast yfirleitt alltaf hafa rangt fyrir sér á endanum.

Ætli dómsdegi verði ekki frestað enn um sinn?

Viðsnúningur Magasin du Nord

Uppáhalds stórverslun íslendinga í útlöndum hefur án efa lengst verið Magasin du Nord við kóngsins nýja torg í Kaupmannahöfn. Það er ekki ofsagt að staða, útlit og álit á versluninni, og útibúum hennar hér og hvar í danaveldi, hafi verið orðið frekar dapurt þegar íslenskir athafnamenn með Baug í broddi fylkingar keyptu verslunina árið 2004.

Þau kaup voru á þeim tíma hluti af hinni óforskömmuðu íslensku "innrás" í danskt viðskiptalíf.

Reyndar var ekki skortur á bolsýnismönnum sem sögðu fyrirætlanir um viðsnúning og endurreisn á fyrri glæsileik og virðingu verslunarinnar borna von.

Á þeim rúmlega þremur árum sem liðin eru frá hinni al-íslensku yfirtöku á Magasin hefur verslunin, og útbú hennar, tekið miklum breytingum til hins betra. Hún hefur endurheimt sinn fyrri virðingarsess.

Þessi viðsnúningur kemur núna fram í rekstrarstöðu verslunarinnar, en þar er um að ræða byltingu frá fyrri tíð. Í Berlingske Business í dag er sagt frá því í frétt undir fyrirsögninni "Magasin du Nord vender skuden".

Í greininni kemur m.a. greinilega fram að viðsnúningur á rekstri Magasin byggir á grunni breyttra viðskiptahátta í rekstri verslunarinnar. Á nútímamáli myndi það útleggjast þannig að áhersla á kjarnastarfsemi Magasin hafi skilað árangri. Viðsnúningurinn byggir s.s. ekki á tilfærslum milli efnahags- og rekstrarreiknings, heldur á árangri í grunnrekstri fyrirtækisins - fleiri og ánægðari viðskiptavinir sem versla meira en áður. Enda kemur fram í greininni að á síðustu þremur mánuðum síðasta árs varð um 10% veltuaukning hjá Magasin m.v. árið áður, á meðan að 2% samdráttur varð á sama tíma í þessum anga verslunar- og þjónustugeirans.

Full ástæða er til að óska eigendum og stjórnendum Magasin til hamingju með þennan árangur.

sunnudagur, 20. apríl 2008

Villur Seðlabankans

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er í heilsíðu viðtali í Fréttablaðinu í dag. Þar kallar hann eftir því að Seðlabankinn viðurkenni villu sína í ofmati á skuldastöðu þjóðarbúsins. Vísar hann í niðurstöðu úttektar Daníels Svavarssonar, hagfræðings á hagfræðisviði Seðlabankans sem birt er í síðustu útgáfu peningamála bankans í greininni “Áætlað markaðsverðmæti erlendra eigna og skulda og
áhrif breytinga á ytri skilyrðum á hreina erlenda stöðu”.


Hér er einn hængur á. Greinin er vissulega skrifuð af einum af hagfræðingum bankans og birt í riti bankans. Hins vegar er jafnframt tekið fram að skoðanir sem fram komi í greininni séu höfundar og þurfi þannig ekki endilega að enduspegla skoðanir bankans.

Það hangir s.s. ekkert í loftinu að Seðlabankinn muni hér eftir beita þeirri aðferð sem kynnt er til sögunnar í greininni.

En það er full ástæða til þess að beina því til Seðlabankans að taka til í tölfræðinni hjá sér. Eins og m.a. Alan Greenspan bendir á sinni ágætu bók The Age of Turbulence að þá er mjög mikilvægt fyrir seðlabanka að beita tölfræðilíkönum þannig að hægt sé að aðlaga þau sem mest þeim efnahagslega veruleika sem búið er við.

Sumpart er þetta eins og veðrið – spárnar og staðreyndirnar eru oft ekki alveg í takt!

Það er því full ástæða til þess Seðlabankinn viðurkenni villur sínar, eins og Vilhjálmur kemst að orði, en það á ekki einungis við um erlenda stöðu þjóðarbúsins.

Seðlabankinn mætti líka viðurkenna villu sína í því að hafa miðað við verðgbólgumælingu sem tekur fullt tillit til verðþróunar á húsnæðismarkaði – einn vestrænna Seðlabanka. Helst ætti að leiðrétta þá villu svona u.þ.b. fimm ár aftur í tímann. (Hagstofa Íslands þyrfti að vera hluti af þessari verðbólguleiðréttingu).

Jafnhliða þeirri leiðréttingu ætti Seðlabankinn að viðurkenna villu sína hvað varðar ákvörðun skammtímavaxta. Verðbólgan var vitlaust mæld, þ.a.l. voru vaxtaákvarðanirnar teknar á röngum forsendum. Þetta hefur verið bent á áður. Ég gerði það í grein í Fréttablaðinu vorið 2005, og sama gerði Illugi Gunnarsson, nú alþingismaður nokkrum vikum síðar. Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur bankans ritaði í kjölfarið svargrein þar sem hann lýsti flotgengisstefnunni sem tilraun. Um þá staðreynd að húsnæðisverðið væri tekið beint í verðbólguna svaraði hann til að innri rannsóknir bankans bentu til að þróun húsnæðisverðs gæfu ákveðna vísbendingu um framtíðarþróun verðbólgu, ef ég man rétt. Það eru hins vegar ekki rök fyrir því að telja verðið beint inn í verðbólgu.

Rétt er að minnast á í tengslum við þetta atriði að í fréttaskýringaþættinum Kompás þar sem fjallað var um efnahagsmálin (í janúar sl. að mig minnir) var Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri spurður um þetta atriði. Hann svaraði þessari gagnrýni ekki efnislega en sagði með þjósti að hægt væri að taka alla liði úr verðbólgunni og þá myndi ekki mælast nein verðbólga!

Seðlabankinn ætti jafnframt að viðurkenna að vaxtastefna þeirra hefur ýtt undir ójafnvægi í þjóðarbúskapnum með því að laða að óhemjumikið skammtíma áhættufjármagn til vaxtamunaviðskipta. Það leiddi m.a. til ofursterkrar krónu sem var úr takti við raunstöðu íslensks efnahagslífs og ýtti þannig undir bæði einkaneyslu og viðskiptahalla. Skemmst er að minnast þess þegar að tilkynnt var um verulegan niðurskurð aflaheimilda á síðasta ári að þá styrktist krónan.

Seðlabankinn ætti jafnframt að horfast í augu við það að núverandi hávaxtastefna þeirra hefur snúist upp í andhverfu sína – ofurvextirnir hafa aukið svo rekstrarkostnað fyrirtækjanna að vextirnir ýta beinlínis undir verðbólgu.

Seðlabankinn ætti jafnframt að viðurkenna að hávaxtastefna – hvers tilgangur er að draga úr aðgengi á lausafé – getur ekki gengið upp á sama tíma og lausafjárþurrð ríkir á mörkuðum. Að þessu leyti er Seðlabankinn í núverandi aðgerðum sínum í hróplegu ósamræmi við sjálfan sig.

Viðurkenning á mistökum er fyrsta skrefið í átt að bata.

laugardagur, 19. apríl 2008

Hrátt mat

Í forundran hlustar maður, horfir og les formann Framsóknarflokksins og lénsvein hans Bjarna Harðarson skrifa um inntöku matvælareglugerðar Evrópusambandsins í íslensk lög í gegnum bókun við EES-samninginn.

Hrært er upp gamaldags hræðsluáróðri um áhættu af innflutningi erlendra matvæla - heilbrigði manna og dýra standi hér veruleg ógn af. Viðbúið sé að matvælaframleiðsla í landinu leggist af. Ísland skal vera lokað innan verndar- og tollamúra hvað sem það kostar.

O.s.frv.

Það kostulega í þessu er síðan sú staðreynd að allur undirbúningur málsins var unnin í tíð Guðna Ágústssonar sem landbúnaðarráðherra eins og ritstjóri 24 stunda bendir réttilega á í leiðara sínum í dag.

Hættan af erlenda matnum, þ.e.a.s. hrávörunni er líkast til hverfandi og tæpast meiri en er af innlendri framleiðslu nú þegar. Þar fyrir utan er engin að fara að flytja inn hrátt kjöt til þess að gefa það íslenskum kúm eða sauðfé.

Ótti kjötvinnslunnar er án efa ofmetinn – reyndar felast í þessu ný tækifæri þar sem íslensk matarvinnsla mun geta flutt inn hrávöru til fullvinnslu hér á landi. Höfum jafnframt í huga að ekki er verið að draga úr tollverndinni á sama tíma, hvað sem síðar verður.

Heilbrigðisáhættan er því stórlega ofmetin og reyndar er það svo að umbætur á sviði matvælaheilbrigðisreglna hér á landi má að miklu leyti rekja til áhrifa frá Evrópu. Einnig eru í hinum nýju reglum varnaglar hvað varðar heilbrigðismál og heimildir til viðeigandi aðgerða.

Staðreyndin er einnig sú að tími innflutningsverndar landbúnaðarins er að líða hjá og tollverndin mun á endanum fara sama veg. Viðgangur heillar atvinnugreinar eins og landbúnaðarins getur ekki byggt framtíð sína á slíku verndarumhverfi til framtíðar.

Í stað þess að hanga í örvæntingu í úreltu verndarkerfi ætti núverandi forysta bændasamtakanna (og þeirra sem starfa að kjötvinnslu) að vinna ötullega að því að koma með hugmyndir um hvernig íslenskur landbúnaður getur dafnað við breyttar aðstæður. Til þess hafa þeir alla burði. Það ætti að vera hlutverk slíkra hagsmunasamtaka að greina fyrir um framtíðarþróun og hvernig megi bregðast við henni. Það á ekki að stinga við og berjast á móti því óumflýanlega, heldur finna tækifæri og auðkenna nýjar leiðir að því sameiginlega markmiði allra að á Íslandi fái þrifist landbúnaður með þeirri aðstoð sem til þarf, en þannig að flestir geti verið sáttir.

Slíkt verkefni ættu þeir Guðni og Bjarni að geta stutt líka.

Það var hins vegar athyglisvert að fylgjast með formanni Framsóknarflokksins í þinginu að skammast út af þessum málum brúnn og sællegur, nýkominn frá Kanarí. Hin augljósa spurning í ljósi málflutningsins er hvort að þegar hann flaug þangað - tók hann með sér nesti?

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Þvælan í Þorvaldi

Þorvaldur Gylfason skrifar fyrir stuttu grein á voxeu.org. Vox býður lesendum upp á “research based policy analysis and commentary from leading economists” og er Þorvaldi þannig sýnd nokkur virðing. Hvernig hann notfærir sér það í pólitísku neðanbeltisboxi er prófessornum hins vegar ekki til hróss.

Í greininni kveðst prófessorinn vilja setja atburði undanfarinna vikna í pólitískt samhengi, eða í hans eigin orðum “A bit of political history may help illuminate recent developments.”

Það er athyglisvert að lesa þessa grein og ekki síður langan lista athugasemda frá Friðriki Má Baldurssyni, prófessors við Háskólann í Reykjavík. Greinin grautar saman misgóðum fræðilegum athugasemdum við pólitískar samsæriskenningar sem saman gera lítið til að varpa ljósi á stöðuna í íslenskum efnahagsmálum.

Athugasemdir nafna míns í HR taka vel á fræðilegu göllunum á röksemdafærslum Þorvaldar. Í fyrstu undirmálsgrein slær Þorvaldur hins vegar tóninn þegar hann líkir einkavæðingu bankanna við einkavæðingar í Rússlandi Jeltsíns.

Þetta er þreytt, klisjukennd og kjánaleg samsæriskenning sem aldrei hefur verið hægt að færa vitræn rök fyrir. Rökin hafa öll verið í ”mér finnst” og ”aþþíbara” stílnum. Margoft hefur verið farið yfir þess einkavæðingu bankanna, m.a. annars af ríkisendurskoðun og aldrei nokkuð komið fram sem hefur stutt við samsæriskenningarnar. Meira að segja hinn ágæti Egill Helgason, konungur pólitískra spjallþátta á Íslandi, sem öllu jöfnu er ekki ginnkeyptur fyrir samsæriskenningum tönglast á þessari eins og þar fari hið heilaga orð. Einkavæðing bankanna er alls ekki yfir gagnrýni hafin, en að hún hafi verið ”hreinræktað SPILLINGARMÁL” eins og Egill heldur fram heldur ekki vatni.

Í þessari grein Þorvaldar er ekki, frekar en fyrri daginn, boðið upp á haldbær rök fyrir því að eitthvað hafi verið athugavert við einkavæðingu bankanna. Vitnað er í ríkisendurskoðun að verðið á bönkunum hafi verið ”modest”. Já það var og!

Það er nú reyndar svo í hagfræðinni að rétt verð er einfaldlega það verð sem einn er til í að selja á og annar til í að kaupa! Bankarnir voru seldir á réttu verði á þeim tíma sem þeir voru seldir og á því verði sem markaðurinn var til í að greiða. Eftir-á-vit að hugsanlega hefði verðið geta verið eitthvað öðruvísi er til lítils. Reyndar má færa fyrir því rök að verðið hafi síst verið of hátt þar sem það varð ekki það íþyngjandi fyrir nýja eigendur að þeir gætu ekki tekið bankana á flug í vexti og hagnaði. Bankasalan frá sjónarhóli ríkissjóðs var t.d. gríðarlega vel heppnuð í ljósi þess hvað hún hefur skilað bæði í tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti frá bönkunum sjálfum og starfsmönnum þeirra í kjölfar einkavæðingar.

Sama verður t.d. varla sagt um einkavæðingu símans, sem var seldur háu verði, en hugsanlega það dýrt að þess verður mun lengra að bíða að hinn einkavæddi sími skili viðlíka tekjuaukningu í ríkissjóð og einkavæðing bankanna hefur gert.

En aftur að Þorvaldi. Viðbótarskandallinn sem Þorvaldur telur til, auk þess að verðið hafi verið ”modest”, er að tveir að þeim sem komu kaupunum hafi verið einhverskonar skúrkar. Af hverju voru þeir skúrkar? Jú af því að annar var fyrrverandi pólitíkus sem hafði unnið í nokkra mánuði á prjónastofum og hinn lét Elton John syngja í afmælinu sínu. Þetta nægir fyrir Þorvald til að sanna að Ísland hafði breyst í Rússland!

Með vini eins og Þorvald þarf íslenska hagkerfið líkast til ekki óvini, eða hver var annars punkturinn?

Þessi skrif Þorvaldar eru í raun á lítið merkilegra plani en skrif Extra blaðsins þess danska um Kaupþing. Og í ljósi þess að þessar aðdróttanir eru skrifaðar á ensku er kannski full ástæða fyrir þá sem fyrir barðinu verða að fara í meiðyrðamál í Bretlandi...! Þorvaldur nefnir að vísu engin nöfn, en ekki þarf mikið hugmyndarflug til að sjá við hverja er átt. Kannski íslenska ríkið ætti að fara í mál við hann líka?

mánudagur, 7. apríl 2008

Leiguflug í "den"

Hér í gamla daga fannst stundum einstaka þingmanni að ráðamenn þjóðarinnar færu fullfrjálst með þau fríðindi að geta fengið lánaða flugvél flugmálastjórnar. Hafa ber í huga að það var þó ætíð gegn sanngjörnu gjaldi, skv. upplýsingafulltrúa þeirrar ágætu stofnunar á þeim tíma. Um þetta var rætt á þingi og fluttar fréttir í fjölmiðlum.

Allt reyndist það nú varla stormur í vatnsglasi.

Athyglisvert er þó að þar voru að munnhöggvast núverandi forseti Alþingis og núverandi bæjarstjóri Akranes. Þeir voru þá úr sama kjördæmi en í sitthvorum flokknum.

Tímarnir breytast og mennirnir með. Nú er einungis annar þeirra á þingi, en báðir eru í sama flokknum.

Ekkert hefur hins vegar heyrst af afnotum ráðamanna af vél flugmálastjórnar árum saman, enda tæpast ástæða til.

miðvikudagur, 2. apríl 2008

ESB: Northern Rock rannsókn

Eins og ég minntist á í pistli her í síðustu viku um þjóðnýtingu banka þá hefur Evrópusambandið verið með þjóðnýtingu breta á Northern Rock bankanum í sérstakri athugun. Í dag var tilkynnt um að hafin væri formleg rannsókn á þjóðnýtingunni og þeirri markaðsaðstoð sem veitt var í aðdraganda hennar og hvort hún samræmist reglum sambandins um ríkisaðstoð og markaðsmismunun.

Breska ríkið þarf nú að veita ESB mun fyllri og nákvæmari upplýsingar um í hverju aðstoð þess til Northern Rock hefur falist, auk þess sem þriðju aðilum, þ.e. ríkjum og fyrirtækjum í fjármálageiranum á öllu Evrópska efnahagsvæðinu er gert kleift að koma á framfæri athugasemdum. Þegar hafa t.a.m. danskir bankar gert um það athugasemdir að í þjóðnýtingunni felist óeðlilegur ríkisstuðningur sem hafi samkeppnistruflandi áhrif á markaði, en Northern Rock hefur keppt á dönskum lánamarkaði.

Það verður athyglisvert að fylgjast með hvernig þessi mál þróast, en eins og ég nefndi í fyrri pistli er aðstoð þýskra stjórnvalda til þarlendra banka einnig í athugun. Fyrir Ísland skiptir þetta verulegu máli þar sem þær reglur sem ESB hefur til hliðsjónar í þessum rannsóknum gilda einnig hér vegna EES. Hugsanlegur stuðningur íslenska ríkisins við bankanna verður þannig að vera í samræmi við meginreglur EES/ESB-réttarins í þessum efnum.

BBC fréttavefurinn var með stutta frétt um málið í dag.