þriðjudagur, 25. mars 2008

Þjóðnýting banka

Í sumum erlendum fjölmiðlum hefur því m.a. verið haldið fram að einhverjir íslensku bankanna kunni að vera á barmi þjóðnýtingar. Ekki virðist nokkur vilja kannast við það hér á landi, hvorki fulltrúar stjórnvalda né bankanna.

Vert er jafnframt að hafa í huga að slíkar aðgerðir þurfa að eiga sér verulegan aðdraganda áður en til þeirra gæti komið.

Slíkar aðgerðir eru verulega skilyrtar skv. EES/ESB rétti sem Ísland er skuldbundið að fylgja, þ.m.t. bæði samkeppnisreglur og reglur um ríkisstuðning. Stuðningur breskra stjórnvalda við Northern Rock bankann sl. haust varð t.d. að fá samþykki framkvæmdastjórnar ESB. Var sú aðstoð skilgreind sem neyðaraðstoð, sem bæði var skilyrt og bundin tímatakmörkun, eða í sex mánuði. Ákvörðun um þjóðnýtingu bankans var tekin rétt áður en sá frestur rann út, en hann hafði m.a. verið nýttur til að finna hugsanlega nýja fjárfesta til að taka yfir rekstur bankans.

Þjóðnýtingin á Northern Rock er í skoðun hjá framkvæmdastjórn ESB og ljóst að verulegar takmarkanir eru þegar settar af ESB á frelsi bankans til athafna sig á markaði við núverandi aðstæður. Framkvæmdastjórn ESB er jafnframt með í athugun fleiri dæmi um ríkisstuðning sem hugsanlega gengur á skjön við lög og reglur um ríkisstuðning og samkeppni, t.d. hvað varðar ríkisstuðning Þýskalands við þýsku bankana IKB og Sachsen LB.

Bein peningainnspýting, án þess að um væri að ræða a.m.k. lán á eðlilegum markaðskjörum, myndi t.a.m. að öllum líkindum teljast brot á reglum um ríkisstuðning. Hugsanlega gæti ríkið veitt bönkunum stuðning ef það væri gert í samhengi við verulegar skipulagsbreytingar, samruna eða þ.h. en þá yrði slíkt að fara fram samkvæmt fyrirfram samþykktri endurskipulagningar- og björgunaráætlun sem ætlað er að ná markmiðum sínum innan eðlilegra tímamarka (sjá ESB Official Journal C 244, 1 október 2004, skv. Europolitics, 19/2/08, bls. 5).

Í þessum efnum, eins og svo mörgum öðrum, erum við þannig bundin þeim leikreglum sem EES/ESB rétturinn setur okkur. Þjóðnýting banka gerist þannig tæplega í skjóli myrkurs á meðan að þjóðin borðar yfir sig af páskaeggjasúkkulaði!

1 ummæli:

  1. Menn verða að átta sig á því að það er verið að berjast af fullum krafti við þá staðreynd að það er til fullt af aðilum sem hafa shortað credit default swaps á íslensku bankana. Þessir aðilar eru beinlínis að stóla á það að t.d. Kaupþing geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þessir sömu aðilar munu gera allt til þess að ná sínum hagnaði og þar af leiðandi munu þeir t.d. nota sínar PR deildir til að koma af stað neikvæðum orðrómi í fjölmiðlum. Bara orðrómur án þess að hann sé sannur getur sett banka á hausinn. Þessar aðgerðir eru ekkert annað en efnahagsleg árás á Ísland og þar af leiðandi bein árás á sjálfstæði þjóðarinnar. Menn eiga því að nálgast vandamálið út frá þeim forsendum og nota öll þau vopn sem þarf til að hrinda þessum árásum. Það er alveg ljóst að ef að við töpum þessari baráttu þá er sjálfstæði okkar farið.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.