mánudagur, 30. júní 2008

Hvað vill BHM?

Nýr kjarasamningur BHM við ríkið er komin á heimasíðu samtakanna. Samkvæmt BHM felur samningurinn m.a. í sér eftirfarandi: 20.300 króna hækkun á allar launatölur, ásamt 2,2% hækkun; hækkun persónuuppbótar í 44.100 kr. á samingstímanum; auk þess sem réttur vegna veikinda barna er aukinn í 12 vinnudaga.

Að auki er "framlag vinnuveitanda í vísindasjóði aflagt en þess í stað var gert samkomulag um tilhögun sí- og endurmenntunar háskólamanna ." Ekki liggur fyrir hvað þetta þýðir nákvæmlega, en unnið verður frekar í nánari skilgreiningu á næstunni.

Gildistími samningsins er til loka mars á næsta ári, sem verður að teljast mjög skammur samningstími. Meðaltalshækkuninn er sögð liggja á bilinu 4 - 8 prósent eftir því hvar menn eru staðsettir innan launatöflunnar. Ef hliðsjón er höfð af þeirri staðreynd að skv. gildandi kjarasamningi hækkuðu laun um síðustu áramót um 2% er heildarhækkun á einu ári á bilinu 6 - 10 prósent.

Þetta er á sama tíma og mæld verðbólga fyrir síðustu tólf mánuði er í tæpum 13 prósentum og því miður fá teikn á lofti um að dragi úr henni á næstunni.

Formaður BHM, Guðlaug Kristjánsdóttir, lætur hafa eftir sér í frétt samtakanna um að samningar hafi náðst að “Með þessum samningi eru háskólamenn að taka á sig kjaraskerðingu þar sem hækkun launa er engan veginn næg til að vega upp á móti verðbólguspá næstu mánaða."

Hún segir þar jafnframt að samninganefndin hafi valið "skásta kostinn í þeirri þröngu stöðu sem um var að ræða." Ekki er hægt að skilja orð hennar öðruvísi en svo að hún sé síður en svo sátt við niðurstöðuna. Kosturinn var s.s. væntanlega að gera þennan samning, eða engan, eða hvað?

Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að formaður BHM sé með þessum orðum frekar að hvetja en letja umbjóðendur sína til þess að fella samninginn í væntanlegum atkvæðagreiðslum sem eiga að fara fram innan tveggja vikna. A.m.k. er það skrýtin söluaðferð að kynna samninginn sem beina kjaraskerðingu.

Það hefur líka legið fyrir að samninganefnd BHM hefur verið mjög ósátt við saminganefnd ríkisins og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við umkvörtunum þess efnis. Það getur þannig verið ákveðin aðferðafræði að ljúka þessum skammtímasamningi, kynna hann sem lélegan samning og þannig vinna að því að hann verði felldur. Þannig gæti BHM talið sig standa sterkari fótum í frekari kröfum gagnvart ríkinu í næstu samningaviðræðum.

Því velti ég því fyrir mér hvað það er sem forystumenn BHM raunverulega vilja frá sínum umbjóðendum. Ekki hef ég ennþá séð eða heyrt neinn þeirra beinlínis hvetja til þess að við samþykkjum. Eða hvað?

fimmtudagur, 26. júní 2008

Kolefnis-Björn

Björn Lomborg ritar grein í Washington Post í dag þar sem hann færir rök fyrir því að upptaka kolefnisskatta og skilgreining takmarkanna á losun gróðurhúsalofttegunda sé dýr leið til þess að draga úr losun þeirra og væntanlegur árangur nánast ómerkjanlegur. Í grein sinni færir hann rök fyrir þessari skoðun sinni og að auki leggur hann til að fé sé betur varið til stóraukinna rannsókna og þróunar á öðrum orkugjöfum en olíu til orkuframleiðslu.

Fullyrðir hann m.a. að án stóraukinna framlaga til rannsókna og þróunar á öðrum orkugjöfum verði umhverfisvæn orka, eins og t.d. sólarorka, dæmd til þess að verða aldrei annað en leiksoppur sýndarmennsku sterkefnaðra til að sýnast umhverfisvænir!

Ávallt umdeildur, en ætíð áheyrilegur. Og vart verður annað sagt en að við íslendingar hljótum að geta tekið undir að frekari framþróun annarra orkugjafa en olíunnar sé af hinu góða.

föstudagur, 20. júní 2008

Framsóknar-Nína

Það er sárt að sakna einhvers. Lífið heldur áfram. - Til hvers?
(úr Nínu, höf. Eyjólfur Kristjánsson)

Nostalgía virðist vera farin að heltaka margan sjálfstæðismanninn. Það brýst út með ýmsum hætti eins og berlega má sjá í færslu þeirra andríkis-liða í gær ("...líklega hefði verið sterkara bein í nefinu á einum Framsóknarmanni en öllum þingflokki Samfylkingarinnar") og leiðara ritstjóra Fréttablaðsins í dag ("Framsóknarflokkurinn... [er] eini orkunýtingarflokkurinn sem fylgir á því sviði sömu stefnu á Alþingi og í borgarstjórn og hefur þar af leiðandi sömu viðhorf varðandi hlutverk tveggja stærstu orkufyrirtækjanna sem bæði eru alfarið í opinberri eigu. Það opnar flokknum óneitanlega ýmis pólitísk sóknarfæri.").

Meira að segja iðnaðarráðherrann virtist gripinn sambærilegri nostalgíu í bloggfærslu fyrir viku síðan þegar hann sagði að það væri "...Hanna Birna sem beri mesta pólitíska ábyrgð á því að slitnaði upp úr prýðilega starfhæfum og öflugum meirihluta Framsóknar og íhalds".

Er það jafnframt pínulítið íronískt að til þessa hafa allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, seint og um síðir, komið úr hugmyndasmiðjum Framsóknarflokksins.

Þó Framsóknarflokkurinn standi óneitanlega höllum fæti í skoðanakönnunum virðist fátt annað blasa við en að eftir því sem lengra líður frá því að flokkurinn hvarf úr stjórn, fyrst landsmálanna og síðan borgarmálanna, verði söknuðurinn meiri. Það á ekki bara við um mótleikara flokksins í pólitík heldur og einnig hjá kjósendum. Framsóknarflokkurinn er jú, þrátt fyrir allt spott og spé sem flokkurinn hefur mátt þola og að mestu tekið með góðlátlegu jafnaðargeði, stjórnmálaflokkur sem hefur þjóðarhagsmuni ávalt í fyrirrúmi og lætur þá hagsmuni ganga framar öðrum, þ.m.t. eigin skammtímafylgishagsmunum.

Í því ljósi má gera ráð fyrir, þrátt fyrir að það geti verið skynsamlegast fyrir flokkinn til uppbyggingar fylgis (og aukinnar nostalgíu!) að standa áfram utan stjórnar lands og borgar, að Framsóknarmenn geti tæpast vikist undan verði til þeirra leitað.

Pólitísk sóknarfæri?

"Þegar þú í draumum mínum birtist allt er ljúft og gott..."

föstudagur, 13. júní 2008

Hví hverfur Baugur? (kannski!)

Það var athyglisverð fréttasyrpan sl. fimmtudag um hugsanlegt brotthvarf Baugs og tengdra fyrirtækja úr landi. Fréttavefurinn visir.is (í eigu Baugs) reið á vaðið með frétt þar sem áreiðanlegar heimildir voru hafðar fyrir því að Baugur væri á leið úr landi. Skömmu síðar kom frétt hjá Rúv þar sem forstjóri Baugs sagði lítið hæft í frétt visir.is. Í markaðnum á Stöð 2 um kvöldið var hinsvegar höggvið í sama knérum og hjá visir.is fyrr um daginn og fullyrt að brottflutningur Baugs gæti verið yfirvofandi. Næstu skref í málinu yrðu ákveðin á stjórnarfundi í næstu viku.

Þessi tíðindi voru öll sett í samhengi við niðurstöðu hæstaréttar í Baugsmálinu þar sem staðfestur var 3 mánaða skilorðsbundin dómur yfir stjórnarformanni og aðaleiganda Baugs, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.

Þetta er í sjálfu sér ágætis vangavelta um hugsanlegar ástæður mögulegs brottflutnings Baugs og tengdra fyrirtækja úr landi. Hins vegar hefur einn stjórnarmanna í Baugi nýlega tjáð sig mjög skýrt um möguleikan á því að hverfa með fyrirtæki úr landi og hvaða ástæður myndu liggja þar að baki. Sagði stjórnarmaðurinn m.a. eftirfarandi:

"Ekki er víst að fyrirtækin geti starfað áfram við óbreyttar aðstæður. Þá gæti þeim orðið nauðugur sá kostur að færa sig úr landi. Það er ekki flókin aðgerð. Flest eiga þau dótturfélög í útlöndum, sem lítill vandi er að breyta í móðurskip."

Við sama tilefni sagði stjórnarmaðurinn einnig eftirfarandi:

"Það sér hver maður, að það gengur ekki til lengdar að hér búi menn við verðbólgu, sem stefnir í tveggja stafa tölu, 15 komma 5 prósenta stýrivexti og gjaldeyrisskort."

Og þetta:

"... ótæpilegar vaxtahækkanir Seðlabankans undanfarið hafa ekki unnið á verðbólgu heldur verið undirrót ójafnvægis og gengissveiflna sem hafa valdið íslensku atvinnulífi miklum skaða..."

"Fyrirtækin eru að sligast, hvort sem litið er til verðbólgu, vaxta eða gengis gagnvart öðrum gjaldmiðlum."

"Við getum ekki haldið úti galopnu hagkerfi með flöktandi örmynnt."

"Við náum ekki þeim stöðugleika sem þarf með krónunni."

"Hvernig getum við brugðist við þessu ástandi? ...við eigum að horfa til Evrunnar og aðildar að Evrópusambandinu."

Hver mælti svo djarft? Það gerði Kristín Jóhannesdóttir á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þann 18. apríl síðastliðinn. Samkvæmt þessu þarf ekki þriggja mánaða skilorð stjórnarformannsins til þess að aðrir stjórnarmenn velti upp möguleikanum á brotthvarfi úr landi. Sá möguleiki var skýrt settur fram fyrir tveimur mánuðum síðan og allar ástæðurnar tilgreindar. Það þurfti ekki að nefna skilorð.

laugardagur, 7. júní 2008

Veggjald í og úr Reykjavík

Haft er eftir varaformanni fjárlaganefndar í fréttum hjá Rúv að nú þurfi að draga verulega úr ríkisútgjöldum. Nefnir hann þar sérstaklega til að “fresta byggingu nýs Háskólasjúkrahúss og lagningu Sundabrautar.”

Sök sér með Háskólasjúkrahúsið, sem hér áður var alltaf talað um sem “Hátæknisjúkrahús.” Það hefur væntanlega verið til að aðgreina það frá þessum “low-tech” sjoppum sem nú eru reknar, eða hvað? Tæplega, enda íslensk sjúkrahús langt í frá einhver lágtækniviðundur.

Einhvern veginn bar “Hátæknisjúkrahúsið” það alltaf með sér að frægur maður varð veikur, fór á spítala og náði bata. Fljótlega þar á eftir hélt hann opin fund og lýsti reynslu sinni og sagði þar m.a. eitthvað á þessa leið: “Hátæknisjúkrahús, góð hugmynd!”

Áður en maður vissi af var búið að mynda starfshóp, halda samkeppni og búið að teikna og skipuleggja pakkann.

Að vísu hafði engin þarfagreining farið fram, en það var hálfgert aukatriði. Sem betur fer hefur hins vegar málið dregist og er það vel. Frestun á byggingu hátækniháskólasjúkrahúss er ekki það versta sem fyrir okkur getur komið. Vel má færa rök fyrir því að brýnni verkefni bíði í heilbrigðisþjónustu landsmanna en spítalabyggingingar, þó ekki væri nema að tryggja mönnun og rekstur núverandi stofnanna og lagfæringu kaups og kjara innan þeirra.

Um Sundabaut gegnir öðru máli. Lagningu hennar þarf ekki að fresta – þvert á móti væru stórar samgönguframkvæmdir af því tagi sjaldan skynsamari en við núverandi efnahagsaðstæður – að því gefnu að fjármögnun og framkvæmd verði í formi einkaframkvæmdar og framkvæmdin fjármögnuð með veggjöldum.

Sama á að gilda um breikkun Suðurlandsvegar og, fyrst ég er byrjaður, Reykjanesbraut. Það á að rukka veggjald fyrir akstur um allar þessar þrjár stofnbrautir inn og út úr Reykjavík. Þannig er hægt að tryggja fjármögnun þeirra óháð stöðu ríkissjóðs.

Hin góða reynsla sem fengist hefur af framkvæmd, fjármögnun og rekstri Hvalfjarðarganga ætti að vera okkur hvatning í þessum efnum. Stórframkvæmdir af þessu tagi yrðu jafnframt ágætis vítamínsprauta inn í efnahagslífið, hefðu jákvæð áhrif á ríkissjóð og ynnu á móti atvinnuleysi.

fimmtudagur, 5. júní 2008

ESB óhress með Northern Rock björgun

Financial Times birtir grein á vefsíðu sinni í gærkvöldi um það að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins geri verulega fyrirvara við björgun breska ríkisins á Northern Rock húsnæðislánabankanum. Um er að ræða fyrsta álit og er birt í "Official Journal" Evrópusambandsins, sem eru nokkurs konar stjórnartíðindi þess.

Samkvæmt frétt Financial Times hefur ESB einkum áhyggjur af því að aðstoðin hafi verið of víðtæk, nái til of langs tíma og draga hefði mátt úr samkeppnistruflandi áhrifum björgunarinnar. Búast má við endanlegum úrskurði síðar á þessu ári, og ef ESB kemst að þeirri niðurstöðu að björgunin hafi verið á skjön við reglur ESB verður að endurgreiða aðstoðina. Ef sú yrði niðurstaðan má jafnvel búast við að einhverjir samkeppnisaðilar Northern Rock muni fara fram á skaðabætur vegna samkeppnistruflandi áhrifa björgunarinnar.

Athyglisvert er að skv. greininni hefur fjármálaráðherra breta littlar áhyggjur af framkominni afstöðu ESB.

Þess má geta að ég hef áður fjallað um málefni Northern Rock hér og hér.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Eftiröpunarskjall o.fl.

"Imitation is the highest form of flattery"...!!!

Fréttastofa Stöðvar 2 var með þessa frétt í kvöld. Óneitanlega kunnuglegt, alveg upp á krónu!

Góður félagi vakti athygli mína á því að hin hliðin á þessum peningi væri sú staðreynd að vextir án verðtryggingar á húsnæðislánum hefði verið upp undir 18% og þannig hefði vaxtakostnaðurinn verið svipaður ef ekki hærri. Þá hefði lántakandi þurft að greiða þá vexti samstundis, en með verðtryggða láninu fæst í raun greiðslufrestur á verðbólguáhrifunum.

Þetta er að sjálfsögðu kórrétt athugasemd, en hún vekur upp tvennt í mínum huga, annars vegar áhrif verðtryggingar á kostnaðar- og verðbólguvitund, þ.e. við finnum ekki fyrir áhrifunum þar sem verðtryggingin og "greiðsludreifing" hennar í verðtryggðu lánunum er eins og nokkurs konar efnahagslegt deyfilyf. Þá má velta fyrir sér hvort það sé náttúrulögmál að verðbótaþátturinn sé geymdur. Hvað ef hann væri greiddur samstundis, eins og ef um fasta vexti væri að ræða?

Hitt er svo hið augljósa, það er íslenska krónan með verðtryggingu og því sem því tilheyrir samanborið við það sem viðgengst í löndunum í kringum okkur stenst engan samanburð. Þar verður almenningur ekki jafn illilega fyrir barðinu á verðbólgunni (nú eða alþjóðlegu lausafjárkreppunni) og hér þar sem ekki er verðtryggingu fyrir að dreifa.

Almenningur erlendis er ekki að horfa upp á að eigið fé þeirra í fasteignum brenna upp frá báðum endum, þ.e. bæði lækkun húsnæðisverðs OG hækkun á höfuðstóli lána eins og hér verður með verðtryggingunni.

Segja má að með verðtryggingunni sé útlánastofnunum jafnframt gefið ákveðið ábyrgðarleysisvottorð þar sem í sinni útlánastefnu þurfa þær ekki lengur að hafa áhyggjur af því að útlán þeirra brenni upp á verðbólgubáli.

Reyndar má færa fyrir því sterk rök að einmitt verðbólgusamsetningin hafi verkað sem hvati fyrir bankanna að koma með þeim hætti inn á íbúðalánamarkaðinn og þeir gerðu 2004 með 100% lánum og 285% hærri lánum en Íbúðalánasjóður. Stærðfræðin var einföld, meira aðgengi að lánsfé => hækkun íbúðaverðs => hærri verðbóga => hækkun á höfuðstóli/vöxtum.

Ef bankar hér hefði verið að bjóða upp á fasta vexti án verðtryggingar 2004 á 25 ára lánum má gera ráð fyrir að útlánahegðan þeirra hefði verið með allt öðrum hætti.

Efnahagsvandinn í hnotskurn



Fyrir okkur "fólkið í landinu" upplýsist efnahagsvandinn í hnotskurn ef við nennum að lesa smáaletrið á greiðsluseðlunum.

Hér er dæmi um einfalt húsnæðislán upp á 24 milljónir sem tekið var fyrir ári síðan. Nú einungis ári síðar, eftir að greiddar hafa verið afborganir að meðaltali upp á 130 þúsund á mánuði, eða rúmar 1,5 milljónir, eru eftirstöðvar lánsins 26 milljónir 627 þúsund 844 krónur!


Það er hækkun á höfuðstólnum upp á rúmar 2,6 milljónir.


Samtals er lánið búið að kosta á einu ári tæpar 4 milljónir - með lántökukostnaði og stimpilgjöldum u.þ.b. 4,5 milljónir.


Allir sáttir?