laugardagur, 7. júní 2008

Veggjald í og úr Reykjavík

Haft er eftir varaformanni fjárlaganefndar í fréttum hjá Rúv að nú þurfi að draga verulega úr ríkisútgjöldum. Nefnir hann þar sérstaklega til að “fresta byggingu nýs Háskólasjúkrahúss og lagningu Sundabrautar.”

Sök sér með Háskólasjúkrahúsið, sem hér áður var alltaf talað um sem “Hátæknisjúkrahús.” Það hefur væntanlega verið til að aðgreina það frá þessum “low-tech” sjoppum sem nú eru reknar, eða hvað? Tæplega, enda íslensk sjúkrahús langt í frá einhver lágtækniviðundur.

Einhvern veginn bar “Hátæknisjúkrahúsið” það alltaf með sér að frægur maður varð veikur, fór á spítala og náði bata. Fljótlega þar á eftir hélt hann opin fund og lýsti reynslu sinni og sagði þar m.a. eitthvað á þessa leið: “Hátæknisjúkrahús, góð hugmynd!”

Áður en maður vissi af var búið að mynda starfshóp, halda samkeppni og búið að teikna og skipuleggja pakkann.

Að vísu hafði engin þarfagreining farið fram, en það var hálfgert aukatriði. Sem betur fer hefur hins vegar málið dregist og er það vel. Frestun á byggingu hátækniháskólasjúkrahúss er ekki það versta sem fyrir okkur getur komið. Vel má færa rök fyrir því að brýnni verkefni bíði í heilbrigðisþjónustu landsmanna en spítalabyggingingar, þó ekki væri nema að tryggja mönnun og rekstur núverandi stofnanna og lagfæringu kaups og kjara innan þeirra.

Um Sundabaut gegnir öðru máli. Lagningu hennar þarf ekki að fresta – þvert á móti væru stórar samgönguframkvæmdir af því tagi sjaldan skynsamari en við núverandi efnahagsaðstæður – að því gefnu að fjármögnun og framkvæmd verði í formi einkaframkvæmdar og framkvæmdin fjármögnuð með veggjöldum.

Sama á að gilda um breikkun Suðurlandsvegar og, fyrst ég er byrjaður, Reykjanesbraut. Það á að rukka veggjald fyrir akstur um allar þessar þrjár stofnbrautir inn og út úr Reykjavík. Þannig er hægt að tryggja fjármögnun þeirra óháð stöðu ríkissjóðs.

Hin góða reynsla sem fengist hefur af framkvæmd, fjármögnun og rekstri Hvalfjarðarganga ætti að vera okkur hvatning í þessum efnum. Stórframkvæmdir af þessu tagi yrðu jafnframt ágætis vítamínsprauta inn í efnahagslífið, hefðu jákvæð áhrif á ríkissjóð og ynnu á móti atvinnuleysi.

5 ummæli:

  1. Sammála þessu með veggjöldin. Reyndar finnst mér líka að það eigi að innheimta veggjöld af veginum frá Akureyri til Dalvíkur, frá Fáskrúðsfirði til Reyðafjarðar (í gegnum göngin). Milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar og svo má ekki gleyma spottanum milli Hveragerðis og Selfoss. Þannig innheimtum við nóg af peningum í vegaframkvæmdir. Skítt með alla milljarðana sem bíleigendur borga þegar í ríkissjóð og fara í eitthvað allt annað en vegaframkvæmdir. Látum helvítin borga meira, MEIRA!!

    SvaraEyða
  2. En hvað um þá sem t.d búa í Mosfellsbæ og þurfa daglega að sækja vinnu til Reykjavíkur? Eiga þeir að borga fyrir að aka til Reykjavíkur vegna vinnu sinnar? Er ekki verið að mismuna fólki eftir búsetu?

    SvaraEyða
  3. er einhver að gleyma Héðinsfjarðargöngum nú eða Vaðlaheiðargöngum. Af nógu er af taka til að rukka alveg í botn fyrir.

    SvaraEyða
  4. Í núverandi efnahagsumhverfi er einkaframkvæmdar- og veggjaldaleiðin skársta leiðin til að ná framkvæmdirnar fari yfirhöfuð af stað. Þegar betur árar má síðan að sjálfsögðu endurskoða málið, t.d. greiða upp einkaframkvæmdina, eins og fullt tilefni hefi verið til að gera með Hvalfjarðargöngin einhverntíma á mesta uppgangstímanum 2004-2007.
    Mosfellsbær liggur utan Sundabrautar þ.a. það er ekki sérstakt vandamál. Hins vegar er lítið mál að stilla veggjöldum þannig að maður greiði eftir vegalengd. Ég á Akranesi greiddi þannig hærra gjald fyrir notkun á Sundabraut en sá sem færi af veginum á Kjalarnesi svo dæmi sé tekið.

    SvaraEyða
  5. Rukka meira Rukka meira.

    Það sést nú best á Hvalfjarðargöngunum að vegatollur sem fer á fer aldrei af aftur. Kanski lækkar hann um nokkur prósent en hann fer ekki af frekar en bifreiðagjöldin sem voru sett á tímabundið til veglagningar.
    Vegakerfið er í eigu skattgreiðenda og á að vera svoleiðis, afhverju að margborga sama hlutinn, fyrst með skattpeningum til framkvæmdaraðila og svo með gjaldtöku um ókomna framtíð.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.