föstudagur, 29. ágúst 2008

Fréttablaðið færist nær!

Á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag er að finna eftirfarandi frétt:

Breytt dreifing Fréttablaðsins:
Blaðið fært nær lesendunum

Fréttablaðinu verður komið fyrir í dreifikössum á Selfossi, í Hveragerði, Reykjanesbæ, Akranesi og Borgarnesi í stað dreifingar á hvert heimili.
„Með þessu erum við að færa blaðið nær lesendunum,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365-miðla. Þannig sé til dæmis hægt að hengja kassana á ljósastaura í hverfinu, að sögn Ara. Þetta bæti þjónustuna á stöðum þar sem dreifing var aðeins á sölustöðum. Breytingarnar taka gildi á næstu þremur mánuðum. Blaðberum hefur í kjölfarið verið sagt upp störfum á fyrrnefndum stöðum. - vsp


Já, það liggur í augum uppi, sérstaklega núna þegar haustlægðirnar eru farnar að berja á okkur, að það mun standa mér mun nær að staulast mót vindi út að einhverjum ljósastaur í stað þess að fá blaðið í lúguna heima!

föstudagur, 22. ágúst 2008

Lame dudes og utanríkisráðuneytið


Ég mæli með opnu húsi utanríkisráðuneytisins á menningarnótt og tónleikum vina minna í blússveitinni The Lame Dudes í Clarks skóbúðinni, Laugavegi 65, kl: 16:00 og 21:00.
Sjáumst á menningarnótt...!




Island i jubel

Hér er frétt um leikinn á sporten.dk.

...og hér hjá Verdens Gang í Noregi...

..og ef einhver skilur spænsku að þá er hér frétt El Pais!

"España pierde ante Islandia y se jugará la medalla de bronce con Croacia
Los hombres de Pastor acusan algunas lagunas defensivas y can ante los islandeses por 30-36 "

Ég skil að vísu ekki orð, en það er aukaatriði.

Hreint út sagt stórkostlegt!!!

Svandís?

Ég viðurkenni fúslega að vera laumuaðdáandi Svandísar Svavarsdóttir sem stjórnmálamanns. Styð lítt hennar pólitík, en það er aukaatriði. Hún hefur staðið sig fantavel í oddvitahlutverki VG í borginni og ekki ástæðulaus sú spá margra að hér fari framtíðarformaður þess flokks.

Því vöktu tvær fréttir af Svandísi í fjölmiðlum gærdagsins sérstaka athygli mína, og ekki af góðu.

Fyrri fréttin birtist á vef Viðskiptablaðsins, en þar er haft eftir Svandísi að hún hafi spurt "...í ræðu sinni hvort rétt væri að athuga að stjórnmálaflokkar þyrftu minnst tvo fulltrúa til að taka ákvarðanir á sveitastjórnarstigi." Oddviti grasrótarlýðræðisflokksins í borgarstjórn virðist s.s. telja fulla ástæðu til þess að skerða lýðræðislega möguleika kjörinna fulltrúa til pólitískra áhrifa! Öðruvísi mér áður brá.

Hin fréttin var um furðu hennar á skipan fulltrúa Óskars Bergssonar og Framsóknarflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. "Enn eitt dæmið um einkavinavæðingu Framsóknarflokksins segir oddviti Vinstri grænna" segir í fréttinni.

Nú hefur Svandís, rétt eins og ég og fleiri, heldur búist við að Óskar myndi skipa í það sæti einhverja pólitíska poppstjörnu, núverandi eða fyrrverandi. Hann velur hins vegar að skipa sem fulltrúa sinn náin samstarfsmann og, ógn og skelfing, vin.

Og hvað?

Svandís gefur í skyn að þar fari í raun einhver "spilling", önnur og meiri en að skipa einfaldlega sjálfan sig, en fulltrúi VG í stjórn OR er Svandís Svavarsdóttir.

Á meðan Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki og því er þannig fyrirkomið að stjórn þess er skipuð pólítískum fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að fyrirtækinu er engin málefnaleg forsenda fyrir þessu tuði Svandísar. Annað fyrirkomulag á stjórn OR fengist tæpast án einkakvæðingar fyrirtækisins.

Hverfandi líkur eru á því að oddviti Vinstri Grænna í borgastjórn leiði baráttuna fyrir því!

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Krónukrítik Anno 1998

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 15. janúar 1998 birtist viðtal við Þórð Magnússon, þáverandi framkvæmdastjóra Eimskips – nú stjórnarformann Eyrir Invest.

Í viðtalinu ræðir Þórður um ýmsa þá erfiðleika sem eru samfara því að nota séríslenska krónu. Í kynningu viðtalsins er eftirfarandi útdráttur:

Krónan er minnsti gjaldmiðill í heimi
Miklar gengissveiflur krónunnar valda fyrirtækjum erfiðleikum
Háir raunvextir halda launum niðri
Fjárstýring fyrirtækja eins og ferðalag í rússíbana
Óhjákvæmilegt að krónan tengist öðru myntkerfi

Viðmælandi Þórðar er Kjartan Magnússon og segir hann m.a. eftirfarandi í inngangi sínum:

Gjaldeyrismál eru tvímælalaust eitt mikilvægasta svið íslenskra efnahagsmála. Um áratugaskeið var íslenska hagkerfið mjög lokað og krónan hefur þá sérstöðu að vera minnsti gjaldmiðill í heimi. ...vegna hárra vaxta kjósa mörg fyrirtæki að leita út fyrir landsteinana eftir lánsfé... Hækkandi vextir draga úr möguleikum fyrirtækja til fjárfestinga og nýsköpunar og skortur á lánsfé getur á skömmum tíma haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur þeirra.

Þetta eru augljóslega gömul sannindi og ný.

Í viðtalinu sjálfu kemur m.a. eftirfarandi fram í máli Þórðar:

Telur hann einsýnt að Íslendingar þurfi að tengja krónuna við annað myntkerfi fyrr eða síðar. Lítur hann helst til væntanlegs Efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU) í þessu sambandi enda eru um 70% utanríkisviðskipta Íslendinga við aðildarríki Evrópubandalagsins og EFTA, Fríverslunarbandalags Evrópu...

Þórður segir gengissveiflur valda fyrirtækjum verulegum óþægindum og skekkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum sem búa við sterkari gjaldmiðla. "Íslensk fyrirtæki ná ekki að fjármagna starfsemi sína í innlendum gjaldmiðli í hagkerfinu vegna smæðar þess. Mörg þeirra, einkum stórfyrirtæki, grípa því til þess ráðs að fjármagna sig að verulegu leyti í erlendum myntum. Þau verða því mjög háð gengissveiflum en þau reyna að vinna gegn því með virkri fjárstýringu með það að markmiði að vera óháð innbyrðis gengisbreytingum erlendra mynta. Krónan er svo lítil mynteining að tiltölulega litlar hreyfingar á gjaldeyrismarkaðnum valda óeðlilega miklum sveiflum. ...áhrif þeirra á rekstur íslenskra fyrirtækja oft meiri en sem nemur afkomu af reglulegri starfsemi þeirra. Flest erlend fyrirtæki fjármagna sig hins vegar í sinni heimamynt og verða því ekki fyrir sambærilegum skakkaföllum vegna gengissveiflna."

"Fjárstýring í íslensku fyrirtæki er því oft líkust ferðalagi í rússíbana."

"Íslenski fjármálamarkaðurinn er svo agnarsmár að aðgerðir einstakra fyrirtækja geta haft töluverð áhrif á markaðinn. Ef við tökum Eimskip sem dæmi þá nema skuldir fyrirtækisins í erlendum gjaldmiðlum um níu milljörðum króna en gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans er aðeins um 25 milljarðar. Geta bankans til að grípa til aðgerða á þessum markaði og jafna út sveiflur er því afar takmörkuð svo ekki sé meira sagt."

"[Háir vextir hafa] þau áhrif að fjármagnskostnaður fyrirtækjanna verður miklu hærri en hann þyrfti að vera og mætti tala um gjaldmiðilsskatt eða átthagaskatt í því sambandi. "

"Allar líkur eru á að vaxtaálag vegna óvissu, svokallað óvissuálag krónunnar, muni vaxa eftir stofnun EMU og auka enn frekar á þennan mun."

"Það má færa ýmis rök fyrir því að lág laun hérlendis megi m.a. rekja til hárra vaxta vegna sjálfstæðrar gengisskráningar krónunnar. Það er ekki viðunandi að mínu mati."

"...tenging [við EMU] eða aðild [að ESB] yrði líkleg til að hafa aukna samkeppni í för með sér. Allt verð yrði sýnilegra, enda væri mestallur verðútreikningur fyrirtækja miðaður við sömu myntina og gengisáhætta væri því hverfandi. Bankar og aðrar fjármálastofnanir fyndu einna mest fyrir aukinni samkeppni enda yrðu þær að laga sig að lántöku og vaxtastigi erlendra banka, þ.e.a.s að lækka vexti. Með lægri vöxtum gætu íslensk fyrirtæki aukið arðsemi sína."

"Ég held að einhliða tenging krónunnar við annan gjaldmiðil, t.d. evró, yrði ekki trúverðug við ríkjandi aðstæður."

"Mér finnst eðlilegt að Íslendingar leiti eftir einhvers konar samstarfi eða aðild að EMU en í mínum huga er það ekki valkostur að standa algerlega utan við bandalagið eftir að það kemst til framkvæmda. Mér finnst að það ætti að láta á það reyna hvort unnt sé að ná tvíhliða samningi við bandalagið um gengismál þótt engin fordæmi séu fyrir slíku."

Þess má geta að í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þann 18. jánúar 1998, eða helgina eftir að viðtalið var birt, er að miklu leyti tekið undir með sjónarmiðum Þórðar, en hins vegar er þar m.a. kveðið upp úr með það að "aðild að myntbandalaginu kemur ekki til greina án aðildar að ESB."

Það er óneitanlega áhugavert að lesa þessi viðhorf Þórðar frá því fyrir rúmum tíu árum síðan m.t.t. þess hvernig þróunin hefur verið og hvernig ástandið er í íslensku efnahagslífi í dag.

(Heimild: Gagnasafn Morgunblaðsins)

ESB: Reynsla Finna 1995

Gagnasafn Morgunblaðsins á netinu er til fyrirmyndar. Stór hluti af því er með opin aðgang þ.a. hægt er að grafa upp ýmislegt athyglisvert sem ritað hefur verið í áranna rás.

Hér er t.d. gömul grein eftir Þorstein M. Jónsson, þá hagfræðingur Samtaka iðnaðarins - nú stjórnarformaður Vífilfells, frá því 16. maí 1995 um reynslu Finna af aðild sinni að Evrópusambandinu. Finnar hlutu aðild í ársbyrjun 1995 og fjórum mánuðum síðar var Dr. Kari Jalas, þáverandi fastafulltrúi Finna hjá Evrópusamtökum atvinnu- og iðnrekenda í Brussel mættur á Iðnþing á Íslandi til að segja frá þeirra reynslu.

Eins og sjá má í grein Þorsteins taldi Dr. Jalas upp fjóra meginþætti sem hefði reynst Finnum jákvæðir í tengslum við aðild: auknar erlendar fjárfestingar sem skiluðu sér í meiri efnahagsbata; veruleg lækkun matvælaverðs sem reyndist mikil kjarabót og skilaði sér í auknum kaupmætti; aðildin leiddi jafnframt til gerbreyttrar stöðu Finnlands varðandi áhrif á stefnu og ákvarðanir í ESB í málaflokkum sem skiptu Finnland miklu máli; og að síðustu taldi hann það mikilvægasta kost aðildarinnar, bæði í bráð og lengd, áhrif hennar til markvissari hagstjórnar.

Athyglisvert er að Þorsteinn hefur eftir Dr. Jalas að Finnska þjóðin hafi verið "...klofin í afstöðu sinni til Evrópusambandsaðildar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, en nú sér þess ekki merki. Þeir sem harðast deildu hafa slíðrað sverðin og efasemdaraddir hafa þagnað."

Athyglisvert.

Ég er að hugsa um að grúska meira í gagnasafninu!

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Frjálslynt fjör

Það held ég hljóti að vera rífandi stemning í Austurstræti 14, 2. hæð eftir ævintýri morgunsins - Ólafur F. orðin Frjálslyndur á ný!

Varaformaður Frjálslyndaflokksins og pólitískur aðstoðarmaður formannsins, Guðjóns Arnar, hafði þetta að segja um samstarf við Ólaf í athugasemd við eigin bloggfærslu þann 15. ágúst sl:

"Það er ekki hægt að eiga samstarf við Ólaf F. Magnússon í pólitík. Slíkt er gersamlega fullreynt."

Sjáum hvað setur...

sunnudagur, 17. ágúst 2008

15 framsóknarmenn!

Skoðannakönnun Fréttablaðsins er athyglisverð og sýnir að það verður ærið verkefni fyrir nýjan meirihluta að vinna sig í áliti hjá borgarbúum.

Fyrir okkur framsóknarmenn var könnunin ekki sú versta sem við höfum séð - stígandi lukka og allt það...

M.v. þátttökuna í könnuninni voru það 15 svarendur sem lýstu yfir stuðningi við flokkinn. Í Capacent-Gallup um daginn voru þeir ekki nema 10 og þar var úrtak og svarhlutfall hærra.

Þetta er 50% fjölgun á örstuttum tíma. Ef ég ynni í banka og stundaði "trend analysis" með Excel þá væri framtíðarspágreiningin mjög fín og ég myndi ráðleggja hlutabréfakaup í Framsóknarflokknum í Reykjavík fyrir næstu sveitastjórnarkosningar!

föstudagur, 15. ágúst 2008

Marsibil

Marsibil Sæmundardóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur lýst því yfir að hún geti ekki stutt nýjan meirihluta. Hvergi hefur komið fram í hennar málflutningi að hún geri athugasemdir við málefnasamstarf flokkanna og í engu virðist andstaða hennar snúast um bresti í samstarfi við Óskar Bergsson, eða framkomu félaga hennar í Framsóknarflokknum. Andstaða hennar snýst þannig ekki um pólitík - hvorki Framsóknarflokksins né hins nýja meirihluta.

Þvert á móti hefur skýrt komið fram í hennar máli að sjónarmiðum hennar sé sýndur fullur skilningur og full tillitsemi innan flokksins.

Afstaða Marsibil, eins og t.d. er haft eftir henni á forsíðu Fréttablaðsins í morgun er að mörgu leyti skiljanleg, en þar segir hún: "Með stuðningi við það væri ég að samþykkja framgöngu sjálfstæðismanna á kjörtímabilinu og hvernig pólitík þeir hafa ástundað. Ég get bara ekki kvittað upp á það".

Hér er vísast til tvennt sem situr í Marsibil - annars vegar framkoma sjálfstæðismanna í garð framsóknarmanna við meirihlutaslitin í október síðastliðnum og hins vegar hin ótrúlega barbabrella sem framkvæmd var við stofnun meirihlutasamstarfs þeirra við Ólaf F.

Af þessu tvennu geri ég ráð fyrir að orðræður sjálfstæðismanna í október sl. vegi þar þyngra. Þar misstu margir sig gersamlega í fúkyrðaflaumi - annað eins hafði varla sést fyrr og sést vonandi ekki aftur.

Toppnum náði væntanlega þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem lýsti yfir í fjölmiðlum að það væri "leitun að spilltari og siðlausari stjórnmálamanni en Birni Inga". Aðrir fulltrúar flokksins í starfi borgarinnar urðu fyrir barðinu á fúkyrðaflaumnum, Óskar og Marsibil þar með talin.

Það er varla nema mannlegt að eiga erfitt með að setja slíkt á bak við sig.

Í stjórnmálum er það hins vegar svo, sérstaklega í fjölflokkakerfi eins og hér á Íslandi, að pólitískur andstæðingur gærdagsins getur verið orðin samherji morgundagsins. Að jafnaði gerast þessar umbreytingar eftir kosningar, en augljóslega eru á því undantekningar!

Það þýðir annars vegar að menn þurfa að hafa sæmilega þykkan skráp ef þeir vilja leggja þetta starf fyrir sig. Hins vegar ætti það einnig að þýða það að stjórnmálamenn temdu sér hófsamara orðalag - a.m.k. leggðu sig fram um að halda hinni pólitísku umræðu málefnalegri og halda sig frá persónulegum ávirðingum og gífuryrðum.

Ætla má að stjórnmálamennirnir sjálfir hafi dregið íslensk stjórnmál á lægra plan og gefið henni illt orð með ofnotkun á "spillingar"-, "svika"- og "klækja"-frösum.

Í þessu samhengi er hollt að lesa aftur leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu frá því fyrr í vikunni, en þar sagði meðal annars:

Fyrsti meirihluti kjörtímabilsins fylgdi hins vegar allt fram að októberslysinu skynsamlegri stefnu bæði um orkunýtingu og skipulagsmál. Lengst af naut hann auk þess trausts og ágætra vinsælda. Endurnýjun á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn er satt best að segja líklegt til þess að leysa borgina úr þeirri málefnaklípu sem hún er í.
...
Mest er þó um vert að ríkir almannahagsmunir kalla á breytt ástand. Að því virtu er svarið við spurningunni um málefnalega þörf á nýjum borgarstjórnarmeirihluta: Já.


Nýr meirihluti snýst þannig um málefnalega samstöðu í mikilvægum málum. Ef Marsibil á pólitíska samleið með þeirri málefnalegu samstöðu þá er ekki ástæða til annars en að starfa með nýjum meirihluta, eða a.m.k. tryggja honum hlutleysi.

Sem fyrr segir virðist andstaða Marsibil ekki byggja á málefnaágreiningi og byggir því á persónulegum og tilfinningalegum rökum. Þau rök eru í engu léttvæg. Þau eiga hins vegar ekki að þurfa að koma í veg fyrir pólitískt samstarf. Í því samhengi getur hið persónu- og tilfinningalega verið geymt, en ekki gleymt.

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Léttir

Þrátt fyrir að ég búi ekki í Reykjavík, þá þarf ég að keyra í gegn á leiðinni í vinnuna...

...nú verður vonandi bjartar yfir á þeirri leið!

Óska ég nýjum (gömlum) meirihluta farsældar á sinni vegferð.

föstudagur, 8. ágúst 2008

2,1%

Ekki er það glæsileg tala fyrir félaga mína í Framsóknarflokknum í Reykjavík sem fram kemur í nýrri skoðanakönnun Stöðvar 2 og alls ekki í samræmi við það góða starf sem Óskar Bergsson hefur verið að vinna í borgarstjórn.

Vandinn endurspeglar annars vegar erfiðleika Framsóknarflokksins í landsmálapólitíkinni, en þar er flokkurinn ekki að ná að draga til sín fylgi í skoðanakönnunum þrátt fyrir fallandi fylgi ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna, og hins vegar kristallar þessi staða þann ósýnileika sem felst í því að vera minnsti aðilinn í þriggja flokka stjórnarandstöðu.

Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins væri þannig ekki bara að bjarga Sjálfstæðisflokknum (og borginni og landinu!) með því að endurnýja fyrra samstarf heldur einnig að byggja undir bjargvon eigin flokks í borginni fyrir hvorutveggja næstu sveitastjórnar- og alþingiskosningar.

Í endurnýjuðu samstarfi þarf borgarfulltrúi Framsóknarflokksins ekki að biðja um mikið, nema kannski að Sjálfstæðisflokkurinn viðurkenni að fyrsti meirihlutinn þetta kjörtímabilið hafi verið til fyrirmyndar og biðjist velvirðingar á því að hafa klúðrað honum!

Og tæpast myndu framsóknarmenn í Reykjavík gera athugasemdir við Hönnu Birnu í stól borgarstjóra. Ekki nema upp komi ósamstaða innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna - og þá má leysa málið með því að ráða borgarstjóra utan frá.

Kannski ónefndur ritstjóri Markaðar Fréttablaðsins væri til í að taka starfið að sér?

mánudagur, 4. ágúst 2008

Bankar, tilviljanir og sveigjanleg hagkerfi með eigin mynt

Það er huggun harmi gegn fyrir íslensku bankanna að röð ótrulegra tilviljanna skuli verða þeim til bjargar á þessum síðustu og verstu tímum. Í erfiðu árferði gerist fyrst sú ótrúlega tilviljun að gengið fellur í kjölfar massífrar uppkaupa þeirra á erlendum gjaldeyri. Það varð aftur til þess að bjarga afkomutölum fyrsta ársfjórðungs, sem annars hefðu líklega endað í tapi, því að þau uppkaup skiluðu verulegum bókfærðum gengishagnaði. Svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Næsta tilviljun varð þess valdandi að þessi sama gengilækkun skilaði sér í hressilegu verðbólguskoti sem keyrði upp vaxtatekjur þeirra á öllu verðtryggða lánasafninu. Þessi tilviljun tryggði fína afkomu á öðrum ársfjórðungi. Frekari gengislækkun á þeim ársfjórðungi hjálpaði enn frekar til og á einnig eftir að tryggja góða afkomu á þriðja ársfjórðung. Svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Þar sem verðbólguskotið mun vara a.m.k. nokkra mánuði er tryggt að vaxtatekjurnar verða óvenju háar út árið og afkoman einnig, a.m.k. í Excel!

En erfið staða á alþjóða fjármálamörkuðum samhliða þessu hefur neytt bankana til að loka á erlend lán til íslenskra fyrirtækja sem þurft hafa á endurfjármögnun að halda. Fyrirtæki (og einstaklingar) sem þannig er statt fyrir þurfa því að hverfa úr gjaldeyrislánum á lægri vöxtum (sem tekin voru þegar að gengi krónunnar var hátt) yfir í dýr krónulán

Samtímis neyðast bankarnir til að taka yfir eitthvað af fyrirtækjum, eða hluta þeirra, sem þeir telja eiga sér viðreisnar von í framtíðinni, en önnur eru sett í gjaldþrot. Þetta er víst það sem kallað er að “hengja eða lengja.”

Þetta er þó ekki alvont, a.m.k. ekki fyrir þá sem að nýttu sér ásókn erlendra fjárfesta í krónubréf á undanförnum árum. Staðreyndin er nefnilega sú að þau sem hafa komið til gjaldaga á þessu ári eftir gengisfall hafa í reynd skilað neikvæðri ávöxtun.

Tökum dæmi:

Erlend fjármálastofnun ákvað fyrir ári síðan að gefa út krónubréf fyrir 10 milljarða með 12% ávöxtunarkröfu. Krónubréfið gert upp ásamt vöxtum að 12 mánuðum liðnum, þ.a. uppgjörið hljómar upp á 11,2 milljarða.

Ágætis ávöxtun hefði maður haldið.

Þar sem hin erlenda fjármálastofnun á engar krónur, er hið raunverulega fé á bakvið krónubréfið erlendur gjaldmiðill, t.d. evra. Þá horfir dæmið öðru vísi við. Þegar krónubréfið var gefið út var virði þess í evrum u.þ.b. 116 milljónir (gengi evrunnar í kringum 86 krónur). Þegar krónubréfið kom til endurgreiðslu var endurgreiðslan ekki nema u.þ.b. 90 milljón evrur (gengi evru komið í u.þ.b. 124 krónur). Ávöxtun krónubréfsins varð þannig ekki 12%, heldur neikvæð um 16%. Að auki bætist við töpuð ávöxtun vegna þess að 116 milljón evrurnar voru ekki að fá 4% evruvextina sem hægt var að fá á sama tíma.

Það er spurning hvernig þessi viðskipti koma út í gjaldeyrisumreiknuðum þjóðhagsviðskiptum. Í fyrra kom sem sagt inn í landið erlendur gjaldmiðill upp á 116 milljónir evra, en í ár þegar að þau viðskipti voru gerð upp fór úr landinu erlendur gjaldmiðill að upphæð 90 milljón evrur. Þýðir það að nettó hagnaður íslenska þjóðarbúsins varð 26 milljón evrur á þessum viðskiptum? Svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Þegar þessi röð ótrúlegra tilviljanna er búin að ganga sitt skeið, þ.e. gengisfall, verðbólguskot og verðfall krónubréfa, er spurning hvort styttist ekki í enn eina tilviljunina og gengi krónunnar fari að rjúka upp á ný. Ef það gerist myndi sá hagnaður sem þegar er orðinn vegna þessa í íslenskum krónum umreiknast yfir í alvöru gjaldmiðla á betri kjörum.

Sem fyrr sagði má gera ráð fyrir að vegna fyrrgreindra tilviljanna muni gengis- og vaxtahagnaður bankanna einnig skila þeim hagnaði á þriðja ársfjórðungi. Uppreiknaður hagnaður í íslenskum krónum verður þannig orðinn verulegur þegar kemur fram í síðasta ársfjórðung. Stór hluti hans hvílir hins vegar ekki á raunverulegu tekjuinnstreymi, heldur á verðtryggðum vaxtatekjum sem bætast við höfuðstól útlánasafnsins. Það er helst þessi staða sem að setur þá tilviljun að gengið rjúki upp á ný í ákveðin bobba. Er betra að sú tilviljun eigi sér stað fyrir áramót, eða eftir? En, höfum í huga, að svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Fyrir viðskiptavini bankanna sem neyðast til að taka rándýr skammtímalán í íslenskum krónum núna þýðir þetta vonandi að á næsta ári geti þeir skipt aftur yfir í erlend lán með lægri vöxtum. Eini gallinn er sá að 100 þúsund evru yfirdrátturinn sem þeir fengu í fyrra þegar gengið var 86 krónur og fengu þ.a.l. 8,6 milljónir íslenskar til að vinna með, þarf að greiða fyrir með nýjum yfirdrætti í íslenskum krónum núna sem er m.v. núverandi gengi 12,5 milljónir. Þegar gengið hefur hækkað á ný og evran verður komin í t.d. 100 krónur, þá mun bankinn hugsanlega, fyrir tilviljun, geta boðið viðskiptavinum sínum að skipta yfir í yfirdrátt/lán í erlendum gjaldmiðli að nýju. Þá verður evruupphæðin á því 125 þúsund í stað 100 þúsund áður. Í evrum talið 25% hækkun á höfðustól lánsins. Svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Svo efast menn um snilld íslenskra bankamanna?