föstudagur, 15. ágúst 2008

Marsibil

Marsibil Sæmundardóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur lýst því yfir að hún geti ekki stutt nýjan meirihluta. Hvergi hefur komið fram í hennar málflutningi að hún geri athugasemdir við málefnasamstarf flokkanna og í engu virðist andstaða hennar snúast um bresti í samstarfi við Óskar Bergsson, eða framkomu félaga hennar í Framsóknarflokknum. Andstaða hennar snýst þannig ekki um pólitík - hvorki Framsóknarflokksins né hins nýja meirihluta.

Þvert á móti hefur skýrt komið fram í hennar máli að sjónarmiðum hennar sé sýndur fullur skilningur og full tillitsemi innan flokksins.

Afstaða Marsibil, eins og t.d. er haft eftir henni á forsíðu Fréttablaðsins í morgun er að mörgu leyti skiljanleg, en þar segir hún: "Með stuðningi við það væri ég að samþykkja framgöngu sjálfstæðismanna á kjörtímabilinu og hvernig pólitík þeir hafa ástundað. Ég get bara ekki kvittað upp á það".

Hér er vísast til tvennt sem situr í Marsibil - annars vegar framkoma sjálfstæðismanna í garð framsóknarmanna við meirihlutaslitin í október síðastliðnum og hins vegar hin ótrúlega barbabrella sem framkvæmd var við stofnun meirihlutasamstarfs þeirra við Ólaf F.

Af þessu tvennu geri ég ráð fyrir að orðræður sjálfstæðismanna í október sl. vegi þar þyngra. Þar misstu margir sig gersamlega í fúkyrðaflaumi - annað eins hafði varla sést fyrr og sést vonandi ekki aftur.

Toppnum náði væntanlega þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem lýsti yfir í fjölmiðlum að það væri "leitun að spilltari og siðlausari stjórnmálamanni en Birni Inga". Aðrir fulltrúar flokksins í starfi borgarinnar urðu fyrir barðinu á fúkyrðaflaumnum, Óskar og Marsibil þar með talin.

Það er varla nema mannlegt að eiga erfitt með að setja slíkt á bak við sig.

Í stjórnmálum er það hins vegar svo, sérstaklega í fjölflokkakerfi eins og hér á Íslandi, að pólitískur andstæðingur gærdagsins getur verið orðin samherji morgundagsins. Að jafnaði gerast þessar umbreytingar eftir kosningar, en augljóslega eru á því undantekningar!

Það þýðir annars vegar að menn þurfa að hafa sæmilega þykkan skráp ef þeir vilja leggja þetta starf fyrir sig. Hins vegar ætti það einnig að þýða það að stjórnmálamenn temdu sér hófsamara orðalag - a.m.k. leggðu sig fram um að halda hinni pólitísku umræðu málefnalegri og halda sig frá persónulegum ávirðingum og gífuryrðum.

Ætla má að stjórnmálamennirnir sjálfir hafi dregið íslensk stjórnmál á lægra plan og gefið henni illt orð með ofnotkun á "spillingar"-, "svika"- og "klækja"-frösum.

Í þessu samhengi er hollt að lesa aftur leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu frá því fyrr í vikunni, en þar sagði meðal annars:

Fyrsti meirihluti kjörtímabilsins fylgdi hins vegar allt fram að októberslysinu skynsamlegri stefnu bæði um orkunýtingu og skipulagsmál. Lengst af naut hann auk þess trausts og ágætra vinsælda. Endurnýjun á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn er satt best að segja líklegt til þess að leysa borgina úr þeirri málefnaklípu sem hún er í.
...
Mest er þó um vert að ríkir almannahagsmunir kalla á breytt ástand. Að því virtu er svarið við spurningunni um málefnalega þörf á nýjum borgarstjórnarmeirihluta: Já.


Nýr meirihluti snýst þannig um málefnalega samstöðu í mikilvægum málum. Ef Marsibil á pólitíska samleið með þeirri málefnalegu samstöðu þá er ekki ástæða til annars en að starfa með nýjum meirihluta, eða a.m.k. tryggja honum hlutleysi.

Sem fyrr segir virðist andstaða Marsibil ekki byggja á málefnaágreiningi og byggir því á persónulegum og tilfinningalegum rökum. Þau rök eru í engu léttvæg. Þau eiga hins vegar ekki að þurfa að koma í veg fyrir pólitískt samstarf. Í því samhengi getur hið persónu- og tilfinningalega verið geymt, en ekki gleymt.

14 ummæli:

 1. Hvaða rugl er í þér?
  Marsibil sýnir að hún er ærleg og ekki til í að vinna með óheilindafólki.

  Það er ekki alltaf sem tilgangurinn helgar meðalið.

  SvaraEyða
 2. Er það málefnaleg afstaða - að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins samanstandi af tómu óheilindafólki?

  SvaraEyða
 3. Er til einhver formúla um hvernig stjórnmálamenn eiga að vinna?
  Stjórnmálamenn eru fulltrúar fólksins sem kaus það, þeir eiga fyrst og fremst að fylgja samfæringu sinni umfram allt annað. Að fjórum árum liðnum eru störf þeirra borin undir kjósendur sem segja álit sitt á störfum þeirra með kostningu.

  SvaraEyða
 4. Ef þú hefur eitthvað fylgst með Marsibil í gegnum tíðina, séð hvernig pólitík hún hefur stundað í ræðu og riti þá ættirðu að sjá að hún er vel á vinstri væng Framsóknarflokksins og hefur alla tíð verið mikil R-lista kona.

  Þess vegna get ég vel skilið að henni finnist pólitískri sannfæringu sinni ekki samboðið að ganga í stjórn með Sjálfstæðismönnum þegar annar möguleiki er í stöðunni.

  SvaraEyða
 5. Hún vill bara ekki vera kúkalabbi. Hvað verður óskar búinn að ráða sig í mörg djobb, ætli hann toppi sig?

  SvaraEyða
 6. Nafnlaus 2: Engar formúlur, en gífuryrði og persónulegar árásir eru leiðigjarnar og skemma fyrir alvöru pólitík. Enda ná menn yfirleitt betri árangri með góðum húmor og myndmáli, sbr. "bakdyradúets" athugasemd ungra jafnaðarmanna og notkun utanríkisráðherra á samlíkingunni við uppvakninga.

  Guðrún Birna: R-lista konan Marsibil stóð með myndun fyrsta meirihlutans og gerði við hann engar athugasemdir. Sat í nefndum og ráðum og tók að fullu og öllu leyti þátt í starfi hans. Enn hefur hvergi komið fram að hún geri málefnalegan ágreining við nýjan meirihluta. Það getur þó breyst.
  Fyrst þú minnist á R-listan að þá er ekki verra að rifja upp að það voru jú engir aðrir en Vinstri Grænir sem rufu það samstarf með Árna Þór í broddi fylkingar. Framsóknarflokkurinn stóð þar vaktina lengst og heilast.

  Geir: "Kúkalabbar" eru líka fólk!

  SvaraEyða
 7. Ef manni ofbýður framganga einhvers, þá er það fullkomlega málefnaleg afstaða að vilja ekki vinna með honum. Vilja fremur vinna með einhverjum öðrum.

  Fleiri stjórnmálamenn mættu fara að dæmi Marsibilar. Taka siðferðilega afstöðu til mála.

  Rómverji

  P. S. Það er líka skiljanlegt að menn spyrji, eins og Geir, hvort Óskar muni maka krókinn duglega.

  SvaraEyða
 8. Friðrik ertu ekki að skilja það að viðbrögð Marsibilar eru örugglega eina von Framsóknar til að fá kjörfylgi í næstu borgarstjórnarkosningum.

  Þó að menn eigi að sjálfsögðu að geta tekist á í pólitík eiga þeir alls ekki að gleyma öllu ef þeim eru réttir stólar og tímabundin völd.

  Óskar Bergsson og Framsóknarflokkurinn minnir á konu sem sættir sig við barsmíðar karls síns vegna þess að hann kom aftur, baðst fyrirgefningar og gaf henni Porche og pels.

  SvaraEyða
 9. Mér sýnist Marsibil hafa það yfir marga Framsóknarmenn að hafa vott að sómakennd og ríka réttlætistilfinningu...

  SvaraEyða
 10. "Er það málefnaleg afstaða - að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins samanstandi af tómu óheilindafólki?"

  Var einhver að tala um Sjálfstæðisflokkinn?

  SvaraEyða
 11. Óskaplega tala margir þeir sem geta ekki haldið vatni yfir nýjum bræðingi í borgarstjórn að allt muni nú ganga betur fyrir sig.

  Það er einfaldlega vegna þess að núna geta Sjálfstæðismenn farið sínu fram eins og þeim sýnist. Framsóknarflokkurinn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn er ekkert nema gólftuska.

  Það var brandari að hlusta á Hönnu Birnu í Kastljósi lýsa því hvernig hún var búin að reyna í sex mánuði að temja Ólaf. Færa skrifstofur saman, fund á hverjum degi, sameiginlega aðstoðarmann.... hlátur ... hlátur.... hlátur. Aumingja Sjálfstæðismenn... Skrattinn hitti fyrir ömmu sína í þessum ólyktargjörningi sem "samstarfið" við Ólaf var.

  Ég tek hattinn ofan fyrir Marsibil. Vonandi hrekja ekki táfýlufúlir hrútar hana úr flokknum núna.

  SvaraEyða
 12. "Andstaða hennar snýst þannig ekki um pólitík - hvorki Framsóknarflokksins né hins nýja meirihluta."

  Er það ekki vandinn ? Pólitík hins nýja meirihluta er henni einkar ógeðfelld. Annars styddi hún gerningin. En hún hefur upplýst að hún sé að endurmeta sína pólitísku stöðu. Kannski á hún ekki heima innan Framsóknar ?

  SvaraEyða
 13. Þetta er engin afstaða. Hvað þá málefnaleg afstaða. Þetta er amatörismi á hæsta stigi.

  Hún fer í fýlu eins og smákrakki, varaborgarfulltrúinn.

  Hún er í sandkassaleik.

  Vandamálin í borginni eru og hafa verið út af fólki eins og henni.

  Enda tók hún þátt í upphaflegu svikunum við Sjálfstæðisfólkið - ærleg? Ertu að grínast. Hún bar ábyrgð á að svíkja samstarfsfólk sitt í fyrsta meirihlutanum.

  Hún er ennþá í einhverjum barnaskólasaumaklúbbi.

  Skilur ekki umhverfi sitt.

  Skilur ekki skyldur sínar.

  Enda brást hún þeim á sínum tíma þegar hún byrjaði ballið med Birni Inga.

  Miklu veldur sá sem upphafinu veldur.

  SvaraEyða
 14. Samfylkingin í borgarstjórn útilokar fólk. Útilokar að vinna með fólki. Sérstaklega Sjálfstæðisfólki.

  Hvers konar fagmennska er það? Hvers konar eigingirni og ofstopi? Hvers konar stjórnmál?

  Útilokunarstjórnmál.

  Og bregst því frumskyldu sinni gagnvart borgarbúum - að mynda meirihluta.

  Björn Bjarnason segir á heimasíðu sinni:

  "Þau [Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir]telja einfaldlega pólitíska hagsmuni sína meira virði en hagsmuni borgarbúa. Þau vilja ekki una því, að sjálfstæðismenn sitji í meirihluta í borgarstjórn. Þeim er andúðin á Sjálfstæðisflokknum mikilvægari en að mynda breiðan meirihluta um stjórn Reykjavíkurborgar."

  Og:

  "Ef einhver stuðlar að glundroða í þessari borgarstjórn, sem nú situr, eru það borgarfulltrúar Samfylkingar og vinstri/grænna. Þau telja sér það helst til framdráttar, en sjálfstæðismenn leggja sig fram um að mynda starfhæfan meirihluta."

  Sem er frumskylda kjörinna borgarfulltrúa.

  Það er kjarni málsins.

  Já og líka það sem fram kemur hér að ofan - að miklu valdi sá sem upphafinu valdi.

  Samfylkingin tók þátt í upphaflegu svikunum með Birni Inga og Marsibil.

  Það voru sannkölluð - og hin raunverulegu - klækjastjórnmál.

  Og ber svo allt í einu enga ábyrgð á neinu.

  Eins og úlfur í sauðskinnsgæru.

  Give me a break.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.