mánudagur, 4. ágúst 2008

Bankar, tilviljanir og sveigjanleg hagkerfi með eigin mynt

Það er huggun harmi gegn fyrir íslensku bankanna að röð ótrulegra tilviljanna skuli verða þeim til bjargar á þessum síðustu og verstu tímum. Í erfiðu árferði gerist fyrst sú ótrúlega tilviljun að gengið fellur í kjölfar massífrar uppkaupa þeirra á erlendum gjaldeyri. Það varð aftur til þess að bjarga afkomutölum fyrsta ársfjórðungs, sem annars hefðu líklega endað í tapi, því að þau uppkaup skiluðu verulegum bókfærðum gengishagnaði. Svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Næsta tilviljun varð þess valdandi að þessi sama gengilækkun skilaði sér í hressilegu verðbólguskoti sem keyrði upp vaxtatekjur þeirra á öllu verðtryggða lánasafninu. Þessi tilviljun tryggði fína afkomu á öðrum ársfjórðungi. Frekari gengislækkun á þeim ársfjórðungi hjálpaði enn frekar til og á einnig eftir að tryggja góða afkomu á þriðja ársfjórðung. Svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Þar sem verðbólguskotið mun vara a.m.k. nokkra mánuði er tryggt að vaxtatekjurnar verða óvenju háar út árið og afkoman einnig, a.m.k. í Excel!

En erfið staða á alþjóða fjármálamörkuðum samhliða þessu hefur neytt bankana til að loka á erlend lán til íslenskra fyrirtækja sem þurft hafa á endurfjármögnun að halda. Fyrirtæki (og einstaklingar) sem þannig er statt fyrir þurfa því að hverfa úr gjaldeyrislánum á lægri vöxtum (sem tekin voru þegar að gengi krónunnar var hátt) yfir í dýr krónulán

Samtímis neyðast bankarnir til að taka yfir eitthvað af fyrirtækjum, eða hluta þeirra, sem þeir telja eiga sér viðreisnar von í framtíðinni, en önnur eru sett í gjaldþrot. Þetta er víst það sem kallað er að “hengja eða lengja.”

Þetta er þó ekki alvont, a.m.k. ekki fyrir þá sem að nýttu sér ásókn erlendra fjárfesta í krónubréf á undanförnum árum. Staðreyndin er nefnilega sú að þau sem hafa komið til gjaldaga á þessu ári eftir gengisfall hafa í reynd skilað neikvæðri ávöxtun.

Tökum dæmi:

Erlend fjármálastofnun ákvað fyrir ári síðan að gefa út krónubréf fyrir 10 milljarða með 12% ávöxtunarkröfu. Krónubréfið gert upp ásamt vöxtum að 12 mánuðum liðnum, þ.a. uppgjörið hljómar upp á 11,2 milljarða.

Ágætis ávöxtun hefði maður haldið.

Þar sem hin erlenda fjármálastofnun á engar krónur, er hið raunverulega fé á bakvið krónubréfið erlendur gjaldmiðill, t.d. evra. Þá horfir dæmið öðru vísi við. Þegar krónubréfið var gefið út var virði þess í evrum u.þ.b. 116 milljónir (gengi evrunnar í kringum 86 krónur). Þegar krónubréfið kom til endurgreiðslu var endurgreiðslan ekki nema u.þ.b. 90 milljón evrur (gengi evru komið í u.þ.b. 124 krónur). Ávöxtun krónubréfsins varð þannig ekki 12%, heldur neikvæð um 16%. Að auki bætist við töpuð ávöxtun vegna þess að 116 milljón evrurnar voru ekki að fá 4% evruvextina sem hægt var að fá á sama tíma.

Það er spurning hvernig þessi viðskipti koma út í gjaldeyrisumreiknuðum þjóðhagsviðskiptum. Í fyrra kom sem sagt inn í landið erlendur gjaldmiðill upp á 116 milljónir evra, en í ár þegar að þau viðskipti voru gerð upp fór úr landinu erlendur gjaldmiðill að upphæð 90 milljón evrur. Þýðir það að nettó hagnaður íslenska þjóðarbúsins varð 26 milljón evrur á þessum viðskiptum? Svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Þegar þessi röð ótrúlegra tilviljanna er búin að ganga sitt skeið, þ.e. gengisfall, verðbólguskot og verðfall krónubréfa, er spurning hvort styttist ekki í enn eina tilviljunina og gengi krónunnar fari að rjúka upp á ný. Ef það gerist myndi sá hagnaður sem þegar er orðinn vegna þessa í íslenskum krónum umreiknast yfir í alvöru gjaldmiðla á betri kjörum.

Sem fyrr sagði má gera ráð fyrir að vegna fyrrgreindra tilviljanna muni gengis- og vaxtahagnaður bankanna einnig skila þeim hagnaði á þriðja ársfjórðungi. Uppreiknaður hagnaður í íslenskum krónum verður þannig orðinn verulegur þegar kemur fram í síðasta ársfjórðung. Stór hluti hans hvílir hins vegar ekki á raunverulegu tekjuinnstreymi, heldur á verðtryggðum vaxtatekjum sem bætast við höfuðstól útlánasafnsins. Það er helst þessi staða sem að setur þá tilviljun að gengið rjúki upp á ný í ákveðin bobba. Er betra að sú tilviljun eigi sér stað fyrir áramót, eða eftir? En, höfum í huga, að svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Fyrir viðskiptavini bankanna sem neyðast til að taka rándýr skammtímalán í íslenskum krónum núna þýðir þetta vonandi að á næsta ári geti þeir skipt aftur yfir í erlend lán með lægri vöxtum. Eini gallinn er sá að 100 þúsund evru yfirdrátturinn sem þeir fengu í fyrra þegar gengið var 86 krónur og fengu þ.a.l. 8,6 milljónir íslenskar til að vinna með, þarf að greiða fyrir með nýjum yfirdrætti í íslenskum krónum núna sem er m.v. núverandi gengi 12,5 milljónir. Þegar gengið hefur hækkað á ný og evran verður komin í t.d. 100 krónur, þá mun bankinn hugsanlega, fyrir tilviljun, geta boðið viðskiptavinum sínum að skipta yfir í yfirdrátt/lán í erlendum gjaldmiðli að nýju. Þá verður evruupphæðin á því 125 þúsund í stað 100 þúsund áður. Í evrum talið 25% hækkun á höfðustól lánsins. Svona tilviljanir gerast ekki nema í sveigjanlegum hagkerfum með eigin mynt!

Svo efast menn um snilld íslenskra bankamanna?

8 ummæli:

 1. Nú væri gaman að sjá svona útreikninga fyrir venjulegt, íslenskt heimili. Meðallaun, meðaleyðsla, íbúða- og bílalán tekin á undanförnum 3 árum.

  SvaraEyða
 2. Til er vinsælt spil sem heitir Mylla
  Þar er kúnstin mikla að byggja upp í spilnu svokallaða svikamyllu-- Þegar ég tengi þetta saman við mjög góða grein þína gengur mér vel að skilja málið... Takk fyrir

  SvaraEyða
 3. Er ég ein um það að verða pissed þegar ég les í hverjum pistlinum á fætur öðrum lýsingu á því hvernig þessir bankamenn spila á íslenska hagkerfið, hirða sjálfir gróðann af uppsveiflunni en láta viðskiptavini sína, mig og þig, borga fyrir niðursveifluna. Og komast upp með það!??? Arrrggg!

  SvaraEyða
 4. HELGI SKRIFA

  Þetta er vel skrifað. Kúrsinn heitir víst alþjóðafjármál sem þessi fræði eru kennd í. Annars er það merkilegt í sjálfu sér að fyrir nokkrum árum vour verðbólgureikningsskyl lögð af hér á landi og ef þeim væri beytt þá kæmi líklega gjaldfærsla sem myndi eyða út verðbólgu ávinningnum hjá bönkunum!

  SvaraEyða
 5. Ertu ekki að gleyma einu, eru það ekki bankarnir sem hafa viljað kasta krónunni ? Þeir fjármagna sig að mestu erlendis og það er ekki fyrir skynsaman erlendan fjármögnunaraðila að skilja bæði örmyntina ISK og verðtrygginguna. Því verð ég að hryggja þig að ég er viss um að bankarnir hefðu glaðir viljað vera lausir við þessar sveiflur.

  SvaraEyða
 6. Takk fyrir góða grein, Friðrik.

  SvaraEyða
 7. Svo eru þessir menn að segja við okkur viðskipta-Vinina, að þeir beri hag okkar fyrir brjósti,---kanntu annann, segi ég bara.

  Hef oftsinnis bent á, að það GETI EKKI staðist Góð Lög, að SAMI AÐILI hafi í hendi sér flesta þætti Verðtryggingar, með því einu ða gera áhlaup á og fella gjaldmiðilinn.

  Svo sverja þessir menn allt af sér en mssa svo út úr sér,--.þegar þeir halda að menn séu uppteknir af því hvað þeir séu ofsa klárir í rekstri banka sinna, með því að hækka GRÍÐALEGA vexti og ,,tekjur af útlánum" sínum á einum ÁRSFJÓRÐUNGI!!!!!!!!!!!!!!!

  Hvernig halda menn, að þetta gangi hjá venjulegu fólki?? Hv´ði getum við ekki haft þessi völd yfir okkar tekjum??

  Hvernig verður svo um BÓNUSGREIÐSLUR TIL BANKASTJÓRA????

  Miðbæjaríhaldið

  SvaraEyða
 8. Bara svona að velta því fyrir mér,,hverjar eru líkurnar á að slík röð "tilviljana" eigi sér stað? og að slík röð "tilviljana" falli saman við fyrirfram ákveðinn tímapunkt?

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.