sunnudagur, 14. desember 2008

Vinur réttarins

Fullyrðing Helga Áss Grétarssonar í Silfri Egils í dag um að íslenska ríkið geti líklega ekki orðið aðili að dómsmáli gegn breskum stjórnvöldum hefur vakið athygli. Hún er engu að síður ekki rétt, eða a.m.k. ekki nákvæm. 

Hugsanlega er flókið fyrir íslenska ríkið að verða beinn aðili að slíkum málaferlum og eðlilegra að málsókn fari fram að kröfu t.d. þrotabús, eða skilanefnd, gamla Kaupþings, fulltrúa fyrri eigenda og/eða stærstu kröfuhafa.

Ríkið getur hins vegar alltaf átt aðkomu að slíku málaferlum, og í ljósi hagsmuna sinni ætti það að stefna að því og hefja þegar undirbúning að slíku hafi það ekki verið gert nú þegar.

Ríkið á þess kost í slíkum málaferlum fyrir dómi að setja fram svokallað Amicus Curiae skjal, eða "vinur réttarins", sem teflir fram lagalegum sjónarmiðum íslenska ríkisins í málinu, bæði, innlendum, evrópuréttarlegum og öðrum þjóðréttarlegum lagatúlkunum sem taldar væru viðeigandi vegna málaferlanna. Beiting "vinar réttarins" í málum af þessu tagi er alþekkt og hefur m.a. verið beitt af íslenska ríkinu fyrir ekki svo löngu síðan í málaferlum íslensks fyrirtækis gagnvart erlendu stjórnvaldi

Að nota Amicus Curiae er jafnframt ekki eins líklegt til að valda sambærilegum erfiðleikum í samskiptum ríkjanna og ef íslenska ríkið væri beinn þátttakandi í málaferlum af þessu tagi.

3 ummæli:

  1. Þegar talað er um að eitthvað sé líklegt, þá er varla um fullyrðingu að ræða, eða hvað? Nema þá fullyrðingu þess efnis að eitthvað teljist líklegt ...

    - Hlynur Þór Magnússon.

    SvaraEyða
  2. Ja, nú þori ég ekki að fullyrða neitt, en þetta er líklega rétt hjá þér!

    SvaraEyða
  3. Svo má deila um hvort að "vinur réttarins" geti yfirleitt talist til aðila í dómsmáli.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.