laugardagur, 20. desember 2008

Þrír valkostir

Ok, ok, ok. Það eru þrír megin valkostir í stöðunni í gjaldmiðilsmálum og þar með efnahagslegri og pólitískri stöðu Íslands í alþjóðlegu umhverfi.

Í fyrsta lagi er það að sjálfsögðu valkostur að halda núverandi kerfi. Halda íslenskri krónu, vera áfram í EES-samstarfinu, sem mun aðlagast í framtíðinni, sem hingað til, í samræmi við óskir og vilja ESB-ríkjanna. Ísland og Noregur munu nú sem fyrr geta sótt ákveðin mál – breytingar, aðlögun og/eða viðbætur – en þær fást ekki fyrir ekki neitt. Reyndar gerðu þær það aldrei. Enduruppbygging íslensks þjóðfélags mun taka langan tíma og alls óvíst hvort slíkt takist, a.m.k. að því marki sem við hljótum að sækjast eftir. Gera má hins vegar ráð fyrir að einhverju leyti verði settar takmarkanir til að draga úr áhrifum “eiturkokteilsins” eins og Jónas Haralz nefnir það. Ísland mun þannig verða lengi í efnahagslegri gjörgæslu sem hefur neikvæð áhrif á pólistíska stöðu landsins í alþjóðlegu samhengi.

Í öðru lagi er sá valkostur að sækja um aðild að ESB með upptöku evru sem markmiðs til meðallangs tíma. Með þessum valkosti mun uppbygging taka skemmri tíma en að halda í óbreytt kerfi. Það mun hins vegar ekki leiða til umbreytingar á einni nóttu. Tilkynning um aðildarumsókn mun að öllum líkindum hafa jákvæð áhrif á markaði, en ákveðin óvissa mun hanga yfir – og óvissa hefur jafnan neikvæð áhrif á markaði og efnahagsmál – þar til niðurstaða úr aðildarviðræðum og þjóðaratkvæðagreiðslu liggja fyrir.

Vegvísirinn til ESB-aðildar er að verða til. Hann markast af þeirri gerbreyttu pólísku stöðu sem orðin er í íslenskum stjórnmálum með opnun málsins hjá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokknum, en líka Framsóknarflokknum, að skoða hugsanlega aðildarumsókn að ESB. Ef niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins í lok janúar n.k. verður sú að samþykkja – eða í reynd heimila – aðildarumsókn, verður ekki eftir neinu að bíða.

Aðildarumsókn verður ekki lögð fram daginn eftir landsfund. Tvennt þarf að framkvæma í aðdraganda aðildarumsóknar, annars vegar að skilgreina meginsamningsmarkmið og stilla upp samningsteymi Íslands, og hins vegar að undirbúa aðildarríki ESB og framkvæmdastjórn sambandsins undir umsókn Íslands. Það verður gert með heimsóknum og tvíhliða fundum þar sem í stuttu máli Ísland mun upplýsa um væntanlega umsókn og áherslur í viðræðum.

Hvorugt þarf að taka langan tíma og jafnvel má gera ráð fyrir að aðildarumsóknin verði lögð fram formlega svo fljótt sem í marsmánuði á næsta ári. Ekki er ólíklegt að aðildarviðræður taki skamman tíma, eins og Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála sambandsins hefur ítrekað haldið fram. Jafnvel má sjá fyrir sér að skrifað verði undir aðildarsamning í Stokkhólmi að ári, undir lok formennskutímabils Svíþjóðar í sambandinu. Í framhaldi tæki við fullgildingarferli, þ.m.t. þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild.

Aðild Íslands yrði þannig í fyrsta lagi að veruleika, að því gefnu að ásættanlega niðurstaða fáist úr viðræðum og sú niðurstaða verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, um mitt ár 2010. Jafnvel það er þó hæpið þar sem á einhverjum tímapunkti þarf að koma við alþingiskosningum vegna þeirra breytinga á stjórnarskrá sem aðild óneitanlega kallar á.

Efnahagsleg áhrif af aðild að ESB yrðu til meðal langs og lengri tíma jákvæð. Jákvæð áhrif aðildarumsóknar yrðu einhver, en þó væntanlega minni en margir binda vonir við vegna viðvarandi óvissu um endanlega niðurstöðu eins og áður segir. Pólitísk áhrif til skemmri og lengri tíma yrðu hins vegar veruleg og að mati þess sem hér ritar að langmestu leyti jákvæð.

Þriðji valkosturinn er einhliða upptaka annars gjaldmiðils. Sá kostur myndi hafa líkast til hafa hröðust skammtímaáhrif, en pólitískar og efnahagslegar afleiðingar til lengri tíma eru ótryggar. Einhliða upptaka Evru er það sem ýmsir horfa til, en getur vart talist skynsamleg í ljósi þess að Evrópusambandið og helstu aðildarríki þess hafa gefið það skýrt til kynna að slík lausn fyrir Ísland væri illa séð. Slíkur gjörningur í augljósri andstöðu við eigendur þess gjaldmiðils er ósæmandi og mun grafa undan öllu samstarfi til framtíðar, þ.m.t. vegna Icesave skulda og hvað varðar frekari þróun EES-samningsins.

Einhliða upptaka bandaríkjadollars myndi ekki hafa sambærileg neikvæð alþjóðapólitísk áhrif í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og einhliða upptaka Evru. Bandaríkin eru þekkt af því að hafa frekar afslappað viðhorf gagnvart slíku þó ekki séu þau beinlínis að hvetja til slíks né að veita slíkum gjörningum blessun sína. Bandaríkjadollar hefur verið, og er enn, ráðandi varasjóðsgjaldmiðill heimsins, og Bandaríkin sætta sig við það m.a. af því að alþjóðastaða gjaldmiðils þeirra undirstrikar stöðu þeirra sem stórveldis, auk þess sem hún hefur átt þátt í að fjármagna áratuga langan viðskiptahalla.

Einhliða upptaka bandaríkjadollars myndi hins vegar líklega leiða til stefnubreytingar í viðskiptaáherslum og –tengslum Íslands. Með upptöku bandaríkjadollars væri eðlilegt að draga úr áherslu á Evrópu sem megin viðskiptasvæðis Íslands og leggja áherslu á Bandaríkin, Kanada og Mexíkó. Frekari þróun EES-samningsins væri væntanlega ekki lengur viðeigandi, og að öllum líkindum eðlilegra að draga sig úr EES-samstarfinu, en sækjast eftir einfaldari annarrar kynslóðar fríverslunarsamningi í staðinn. Fríverslunarsamningur við Bandaríkin yrði hins vegar meira aðkallandi markmið, en þar væri á brattann að sækja m.a. vegna þeirrar áherslu sem Bandaríkin leggja á fríverslun með landbúnaðarvörur. (Ísland hefur þegar fríverslunarsamninga við Kanada og Mexíkó.)

Langtíma pólitísk- og efnahagsleg áhrif einhliða upptöku bandaríkjadollars yrðu líkast til einnig þau að Ísland myndi fjarlægjast hefðbundnar vina- og bandalagsþjóðir í Evrópu. Fullveldisáhrifin gætu orðið þau að rödd Íslands sem sjálfstæðs ríkis á alþjóðavettvangi yrði ósköp hjáróma. Ísland yrði þannig á endanum orðið í reynd Bandarískt verndarsvæði í bæði efnahagslegu-, stjórnmálalegu og varnarlegu tilliti. Nýtt Puertó Ríkó – þó við hefðum áfram að nafninu til okkar eigin þjóðhöfðingja!

Fullveldisáhrif til lengri tíma af einhliða upptöku Bandaríkjadollars gætu þannig orðið mun víðtækari en aðild Íslands að ESB – sem er óumdeilanlega samband fullvalda og sjálfstæðra þjóðríkja, þó þau hafi ákveðið að samþætta ákveðna þætti hefðbundins fullveldisvalds og framselja framkvæmd þess til sameiginlegra stofnanna.

3 ummæli:

  1. Ágætis yfirlit þangað til þú leiðir að því rök að upptaka Bandaríkjadollars mundi hafa það í för með sér að við mundum fjarlægast Evrópu... Það er ekkert því til fyrirstöðu að taka upp dollar strax til að bjarga skammtímaástandinu og síðan sækja um í ESB í framhaldinu, ef þjóðin kýs að gera það og hugsanlega að taka síðan upp Evru eftir 3-5 ár. Núna er tíminn til að styrkja stoðir okkar bæði til Evrópu og Norður Ameríku.

    SvaraEyða
  2. Góður punktur Róbert, við getum kallað þetta valkost 3,5...!!!

    SvaraEyða
  3. Það hafa nú verið færð mjög góð rök fyrir því að upptaka evru myndi ekki hafa slæmar pólitískar afleiðingar og það nægir að horfa til Svartfjallalands sem er nú boðið velkomið í Evrópusambandið þrátt fyrir einhliða evruupptöku fyrir nokkrum árum. (Það dugir ekki sem röksemd að aðstæður séu gjörólíkar þar sem söguleg tengsl hafi verið fyrir hendi hjá Svartfjallalandi en ekki okkur.)

    Það er nokkuð ljóst að EES-samningnum yrði t.a.m. ekki sagt upp við slíkt uppátæki Íslendinga; ekki væru forsendur fyrir því og eins þyrfti samhljóða samþykki allra ESB-ríkjanna til þess. Ég á nú síður von á því að vinaþjóðir okkar myndu gera okkur slíka skráveifu.

    Ég hef ennfremur tilhneigingu til að trúa Daniel Gros (sem hefur einmitt innsýn frá báðum hliðum) þegar hann segir að þrátt fyrir ítrekuð ummæli embættismanna Evrópusambandsins um að einhliða evruupptaka sé litin slæmum augum, muni slíkt ekki hafa miklar neikvæðar pólitískar afleiðingar í raun og veru.

    Og ef valið stendur á milli upptöku evru og dollars lítur evran mun betur út, a.m.k. við fyrstu sýn.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.