Í kvöld leggur maður allt krepputal til hliðar og fer á Classic Rock Sportbar í Ármúla 5 og tekur lagið.
Þar verður s.s. haldið í kvöld “The first annual Lame Dudes Jukejoint Festival/Party” en það er viðburður skipulagður af vinum mínum í blússveitinni The Lame Dudes, eða eins og það útleggst á ástkæra og ylhýra, hljómsveitin Slappir Tappar. Húsið opnar klukkan 21:00 og mér skilst að það verði krepputilboð á stórum bjór á meðan að birgðir endast
Viðburðinum er lýst svona á Facebook: “Hljómsveitarpartý að hætti Mississippi blúsara (hvað eru mörg s í því?). Árlegt Jukejoint Partý The Lame Dudes. Jakob Viðar trúbador og hljómsveitin Naboens Rockband taka þátt í skemmtilegheitunum.”
Sjálfur er ég í þeirri hljómsveit sem enn kallar sig Naboens Rockband. Það er hljómsveit sem stofnað var til að mig minnir 1984 eða 5 þegar þrír af okkur voru í MR, en einn var ennþá í Hagaskóla.
Við vorum á þeim tíma band sem æfði mikið, en spilaði svo að segja aldrei. Við vorum með án efa eitthvert besta æfingahúsnæði landsins á þeim tíma – við Kleppsmýrarveg í Reykjavík – og þar fengu hjá okkur skjól ýmsar merkar sveitir s.s. Geiri Sæm og Hunangstunglið, og Nýdönsk.
Reyndar voru okkar fyrstu opinberu tónleikar haldnir vorið 1988 á þáverandi Duus-hús og var það 9 mánuðum eftir að hljómsveitin hafði formlega lagt upp laupana. Við komum svo aftur saman og spiluðum á tónleikum á Hótel Borg á milli jóla og nýárs 1988, þremur dögum áður en ég gekk í heilagt hjónaband, þann 31. desember 1988. (Um áramótin fögnum við hjónin s.s. 20 ára brúðkaupsafmæli. Það er spurning hvort maður þurfi ekki stofna félag lang-giftra af því tilefni!)
Tónleikarnir í kvöld eru þannig fyrstu opinberu tónleikar Naboens Rockband í 20 ár þar sem við frumflytjum eigið efni.
Bandið kom að vísu fram að nýju í fyrsta sinn fyrir 2 árum í fertugsafmæli aðal-gítarleikara hljómsveitarinnar. Sú uppákoma var það vel heppnuð að lögreglan var kvödd á staðinn vegna kvartanna nágranna um hávaða. Það þótti okkur rokkað!
Og í október sl. tróð bandið upp á árshátíð og tók 10 lög, 9 ábreiður og eitt frumsamið. Frá þeim viðburði hefur ein upptaka ratað á YouTube, en þar tökum við félagarnir ábreiðu af lagi Nirvana, Smells Like Teen Spirit:
Í kvöld er hins vegar komið af því að prófa nýtt frumsamið efni á opinberum vettvangi í fyrsta sinn í 20 ár eins og áður sagði. Einhverjar ábreiður munu jafnframt fylgja með til uppfyllingar.
Auk undirritaðs skipa bandið Ægir Sævarsson á bassa, sem dagana langa að jafnaði sinnir tekjuöflun fyrir Skýrr, Ingi Ragnar Ingason á trommur, sem starfar sem pródúsent á Stöð 2 og er þar límið í besta fréttaskýringarþætti íslandssögunnar, Kompás, og Arnar Már Ólafsson á gítar og raddbönd, en hann er mikill ferðamálafrömuður og kennir ferðafræði í einhverjum háskólum landsins, auk þess að stunda jeppaakstur með ferðamenn um fjöll og firnindi á 44” breyttum Land Rover Defender.
Á undan okkur í kvöld mun trúbadorinn Jakob Viðar stíga á stokk, en í kjölfar okkar koma svo The Lame Dudes. Bráðskemmtileg blússveit sem spilaði m.a. á síðustu menningarnótt í Clarks skóbúðinni á Laugavegi við mikinn fögnuð. Hér er upptaka af lagi þeirra “Þriðjudagsbíóblús” sem að mínu mati ætti að gefa út hið fyrsta. Instant klassík hér á ferð:
Viðburður kvöldsins fer að sjálfsögðu fram í opinni dagskrá og allir velkomnir. Þetta er ópólitískur viðburður þ.a. ekki er gert ráð fyrir að ég tilkynni um framboð til formanns Framsóknarflokksins við þetta tilefni!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.