laugardagur, 6. júní 2009

ICESAVE björgun

630 milljarðar eru miklir peningar.

630.000.000.000,- krónur.

Og 5,5% vextir hljóma háir, sérstaklega í ljósi þess að stýrivextir Englandsbanka eru ekki nema 0,5% og stýrivextir Evrópska seðlabankans ekki nema 1%.

En lánið vegna ICESAVE er til 15 ára. Vextir á 15 ára skuldabréfum í breskum pundum samkvæmt Financial Times eru í dag 4,38%.

Vextir á 10 ára ríkisskuldabréfum Bretlands eru 3,94% og Hollands 4,11% og höfum í huga að vextir eru í sögulegu lágmarki.

Það er eðlilegra að horfa á þessar vaxtatölur þegar rædd eru vaxtakjör vegna ICESAVE, enda þurfa bæði breska og hollenska ríkið að fjármagna útgjöld vegna ICESAVE. Höfum einnig í huga að Bretland og Holland greiða innstæður umfram 20 þúsund evrur, að 100 þúsund. Niðurstaðan er því þannig að beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna ICESAVE verður hverfandi í samanburði við útgjöld breska og hollenska ríkisins og er að auki frestað um allt að 15 ár, á meðan að Bretland og Holland leggja út fyrir kostnaðinum strax.

Vaxtakjör þessi eru auk þess umtalsvert betri en bjóðast íslenska ríkinu á alþjóðamörkuðum.

Auk þess virðist íslenska ríkið, ef marka má Morgunblaðið, ekki að taka á sig þessa skuldbindingu, nema með óbeinum hætti, en samkvæmt frétt blaðsins á bls. 6 í dag segir:

"Samkomulag íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga vegna ICESAVE-reikninganna gerir ráð fyrir að skilanefnd Landsbankans gefi út skuldabréf upp á tæplega 630 milljarða króna á núverandi gengi sem tryggt verður með veði í öllum eignum bankans í Bretlandi."

Hér er sem sagt hvorki talað um að ríkið gefi út þetta skuldabréf, né að ríkisábyrgð hvíli að baki þessari skuldbindingu. Hún verður væntanlega áfram óbein í gegnum innistæðutryggingasjóð og mun að öllum líkindum ekki reyna á hana fyrr en sígur á seinni hluta tímalengdar skuldabréfsins, þ.e. eftir 12 til 15 ár.

Þannig má gera ráð fyrir að þessi skuldbinding vegna ICESAVE verði ekki hluti af skuldayfirliti íslenska ríkisins.

Tvennt verður jafnframt til að lækka þessa skuld, annars vegar allt að 300 milljóna punda inneign Landsbankans í Englandsbanka sem mun að mestu leyti fara til greiðslu hluta ICESAVE-skuldbindinga fljótlega í kjölfar samkomulagsins. Ef við gerum ráð fyrir að 250 milljón pund verði nýtt til þess lækkar ICESAVE skuldbindingin við það strax um 50 milljarða, í 580 milljarða.

Framtíðarstyrking krónunnar mun jafnframt leika lykilhlutverk, en hver prósentustyrking hennar héðan í frá lækkar ICESAVE skuldina um 6 milljarða.

Hagsmunir hvorutveggja íslenska ríkisins og erlendra kröfuhafa af styrkingu hennar eru þannig orðnir miklir og augljósir þar sem sterkari króna þýðir meiri greiðslugetu.

Hvað varðar síðan þá þrálátu goðsögn um að Ísland þurfi ekki að borga neitt vegna ICESAVE vísa ég í fyrri pistla mína hvað það varðar, annars vegar "ICESAVE goðsögnin" frá 15. janúar sl. og hins vegar "ICESAVE raunveruleikapróf" frá 26. Febrúar sl. En þar segir meðal annars:

"Vandinn við goðsögnina um að ekki þurfi að borga vegna Icesave er að hún horfir fram hjá tveimur meginatriðum, í fyrsta lagi að stofnað var til Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi að íslenskum lögum og er þannig samkvæmt sömu lögum enginn munur á innistæðureikningum í útibúi Landsbankans í London eða útibúi sama banka á Laugavegi 77. [...]

Vegna lagalegrar stöðu Icesave að íslenskum lögum hefði eina leiðin til að komast undan ábyrgðum vegna þeirra og að beita þeim rökum að innistæðutryggingar ættu ekki við í tilfelli kerfishruns verið sú að þau rök hefði gilt um alla innistæðureikninga bankanna.

Að skilja Icesave-reikninga frá öðrum innlánsreikningum Landsbankans með þeim hætti sem nú er fullyrt að hægt hafi verið brýtur nefnilega gegn meginreglu íslensks réttarfars, þ.e. jafnræðisreglunnar…"

Í stuttu máli þýðir þetta að innistæðueigendur í Hollandi og Bretlandi eru í fullum rétti til þess að fara í mál fyrir íslenskum dómstólum og krefjast þess að fá alla upphæð ICESAVE innistæða greidda að fullu. Það er skuldbinding upp á líklega 12 – 14 hundruð milljarða, eða rúmlega tvöfalt meira en þetta samkomulag gerir ráð fyrir – og allt með fullri ríkisábyrgð!

Hvað varðar þá röksemdafærslu að hugsanlega, mögulega, kannski sé hægt að komast undan ICESAVE ábyrgðum fyrir dómstólum:

"Þrátt fyrir að lagatæknilega sé hægt að halda því fram að hugsanlega megi komast undan þessum ábyrgðum eru líkur á því að sú lagatæknilega túlkun næði fram að ganga hverfandi. Hagsmunum þeim sem yrði fórnað til lengri tíma, ekki bara á meðan að málaferlum stæði, heldur einnig til langrar framtíðar í kjölfarið, væru miklu mun meiri en svo að slíkt gæti talist ábyrgt."

Endalega greiningu á kostum og göllum ICESAVE-samkomulagsins verður hins vegar ekki hægt að gera fyrr en hún liggur fyrir og er orðin opinber.

21 comments:

  1. Bretar og Hollendingar eru 250 sinnum fleiri en við. Og því betur í stakk búnir til að takast á við IceSave. Hvað varðar lagatæknina. Til þess eru dómstólar að taka á ágreiningi, ekki spekúlasjónir og vangaveltur. Okkur ber skylda til að láta reyna á lagavarnir. Allt sem þú nefnir, sem gæti orðið okkur til happs, t.d. styrking krónunnar, gæti farið á hinn veginn. Krónan gæti líka veikst. Einsog Sigmundur Davíð benti á í gær.
    Eins má spyrja: Skiptir greiðslugeta þjóðarinnar engu máli í þessu samhengi? Hvað ef ábyrgð okkar hefði verið 6 þúsund milljarðar en ekki 6 hundruð? Er raunveruleg greiðslugeta bara smáatriði? Stóra málið er að við höfum enga möguleika á að greiða allar þær skuldir, sem hafa lagst á þjóðina vegna bankahrunsins.
    Doddi D

    SvaraEyða
  2. Viðbót. Það gefur ranga mynd að segja að Bretar og Hollendingar þurfi að bæta tap frá 20-100 þús Evrum. Það var ekki nema að brot af innistæðunum sem var umfram 20 þúsund Evrum og hvorki Bretar né Hollendingar hyggjast bæta "fagfjárfestum" meðal annars bæjarstjórnum og öðrum slíkum, þeirra tap.
    Doddi D
    PS Að tala um "óbeina ábyrgð" er heldur ekki rétt. Við (ríkið) erum ábyrg fyrir allri upphæðinni.

    SvaraEyða
  3. segðu þig nú úr söfnuðu lýðskrumaranna

    SvaraEyða
  4. Takk fyrir skilmerkilegan pistil. Ákveðinn léttir að lesa texta sem er jarðtengdur og ekki fullur af afneitunum og óskhyggju. Innihaldið er að vísu ekkert fagnaðarefni.

    Við Dodda D segi ég: Það er ekki hægt að vera stór kall (Íslenska þjóðin á útrásartímum) og segja svo æ æ við erum svo lítil þegar kemur að skuldadögum.
    Björg Sveinsdóttir

    SvaraEyða
  5. Ég sagðist aldrei vera stór kall, Björg mín. Það var ekki í mínu nafni og ekki mínu umboði. Ef ég þarf að bera ábyrgð á öllu sem íslensk einkafyrirtæki gera, þá vil ég að þeim sé skipaður tilsjónarmaður, einsog stendur til að gera við allar þær fjölskyldur sem munu tapa aleigunni í kjölfarið á þessum hörmungum. Það er engin leið jafn fljótleg til fátæktar og vera "fattigfin". Við erum að falsa stöðuna til að geta verið í selskapnum. Betra er að horfast í augu við raunveruleikann. Það er ávallt borin meiri virðing fyrir þeim sem það gerir.
    Lögfræðiprófessorar á launum hjá okkur, einsog Stefán Már Stefánsson og Björg Thorarensen halda því fram að okkur beri ekki skylda til að greiða IceSave skuldirnar. Því er ekki hlustað á þau? Hvers vegna er verið að borga þessu fólki laun og láta þau kenna í Háskóla, ef rök þeirra og sjónarmið eru einskis metin? Réttast væri að leggja niður lagadeildina, og brenna allar bækurnar. Rökin sem notuð eru, eru öll á þá leið að sennilega hafi þetta nú verið besta leiðin, af því að við vorum lagalega skuldbundin. En af hverju eru lagasérfræðingar ekki kallaðir til? Og þegar þeir æpa í blöðum og viðtölum, þá er ekki hlustað.
    Doddi D

    SvaraEyða
  6. Doddi D víst var þetta í þínu og mínu umboði, alvega sama þrátt fyrir að þú hafir ekki gefið persónulega leyfi fyrir því. Held að þú skiljir ekki alveg hvað felst í hugtakinu umboð. Ég er ekki alltaf sammála Friðrik, en Friðrik hefur hann kost umfram marga aðra að hann er jarðtengdur og málefnalegur (eiginlega alltaf).

    SvaraEyða
  7. Til þeirra sem gaspra um að okkur beri ekki skylda til að greiða innistæðutrygginguna - lesið lögin. Þetta er klárt mál að okkur ber það.

    Leiðinlegt, en satt.

    Og ef við viljum ekki vera sett undir sama hatt og Nígeríusvindlarar þá er okkur best að gangast við þessu.

    SvaraEyða
  8. Mergurinn málsins er þrátt fyrir skrif Friðriks sem eflaust er mjög málefnalegur að hann hefur töluvert minni og ég meina töluvert minni þekkingu á lögum og relgum en lagaprófessorar við virtustu lagadeild landsins. EF það er mat okkar helstu lagasérfræðinga að fara eigi í mál því þeir telji að ábyrgðin sé ekki okkar þá á auðvitað að hlusta á slíka SÉRFRÆÐINGA.

    Forsendur sem Friðrik gefur sér þ.e. að krónan styrkist og til séu nægar eignir eru forsendur sem hann getur einungis getið sér til um. Eignasöfn banka um allan heim eru minna virði en menn töldu áður og krónan hefur ekkert styrkst þrátt fyrir spár um annað. Hér finnst mér Friðrik vera að verja samning sem er okkur skattgreiðendum afar óhagstæður.

    Kv Andri

    SvaraEyða
  9. Nafnlaus ertu að halda því fram að lagaprófessorarnir hafi ekki lesið lögin?

    og hvaða lög eigum við að lesa sem mestu lögspekingar landsins hafa greinilega yfirsést.

    SvaraEyða
  10. Í rauninn óskiljanlegt þetta upphlaup tjórnarandstöðunnar núna. Ja, kannski upphlaupið eitt en með hvaða hætti er fyrir neðan allar hellur og ég segi fyrir mig að ég efast stórlega um hæfni þessa fólks til að vera á alþingi og þeirra vera þar ætti að vera áhyggjuefni fyrir alla þjóðina. Slíkur er skrípaleikurinn í þessu alvarlega og erfiða máli.

    Í fyrsta lagi, það er búið að vera ljóst síðan síðasta haust að ísland mundi boga þetta en nú er látið eins og það séu alveg splunku ný tíðindi.

    Í öðru lagi lítur þetta mun betur út en ætlað var í fyrstu. Talað um að eignir dekki 75-95% af upphæðinni.

    Ég trúi ekki að margir íslendingar taki undir lýðrskrum stjórnarandstöðu og sérstaklega eru vonbrigði með framgöngu O flokksins. Ég er farinn að setja spurningarmerki við ýmislegt hjá þeim flokki.

    Það er algjörlega klárt að íslandi bar að greiða lágmarksupphæðina og skiptir í sjálfu sér engu hvað einhver þrætubókarsérfæðingur uppí háskóla lætur frá sér fara.

    SvaraEyða
  11. 1. skv. lögum um innistæðutryggingarsjóð GETUR ríkið lagt sjóðnum til fé,en VERÐUR EKKI að gera það. Að skrifa að við séum lagalega skuldbundin til að greiða þetta stenst því ekki.

    2. jafnræðisreglan er eitthvað sem þjóðir innan ESB halda á lofti þegar það hentar, en vilja stinga undir stól þegar vindar blása í hina áttina. Það er hægt að finna ótal dæmi um að jafnræði hafi ekki verið gætt hjá einstaka ESB þjóðum. Ef jafnræði hefði verið gætt, þá hefði Kaupthing í Bretlandi t.d. verið látið í friði og fengið breska ríkisaðstoð eins og aðrir breskir bankar einum degi eftir að Bretar lokuðu fyrirtækinu með hryðjuverkalögum . Hvar voru lög og reglur og jafnræði þar?

    3.Það hefur komið fram að skuldabréfið er með ríkisábyrgð. Svo virðist sem að samkomulagið sé líka án allra fyrirvara. Sem sé íslenska ríkið tekur alla áhættu sem hægt er að taka. Áhættu með virði útlánasafna Landsbankans, en fyrirtæki í Bretlandi standa höllum fæti vegna kreppunnar, gengisáhættu, áhættu með lögsóknir annarra kröfuhafa bankanna o.s.frv. Með öðrum orðum virðist ríkið vera komið út í fjárhættuspil með þessum samningi.

    4. Það voru þingmenn ESB m.a. breskir sem að samþykktu lögin sem að gerðu IceSave mögulegt. Það er langsótt að gera íslenskan almenning ábyrgan fyrir afleiðingum gallaðra laga sem að fulltrúar okkar tóku engan þátt í hvorki að semja né samþykkja.

    5. Það hefur komið fram í máli Kristrúnar Heimisdóttur og 2 lagaprófessora að lagalega ber okkur ekki skylda til að greiða þetta. Hins vegar erum við bullyuð á alþjóðapólitískum vettvangi og reynt að þvinga okkur til að undirskrifa okkar eigin gjaldþrot

    6. Talað var um að við yrðum fyrsta þjóðin sem kæmist á lappirnar í þessari kreppu. Halda menn því fram í dag?

    7. Sama hvernig á það er litið, vextirnir eru mun hærri en markaðsvextir í Bretlandi og Hollandi fyrir sambærileg skuldabréf. Við eigum ekki að greiða þetta og við eigum svo sannarlega ekki að greiða vexti í 7 ár sem að gera höfuðstólinn að ókleyfu bjargi.

    SvaraEyða
  12. Gott ef einhverjir eru sáttir með að borga þetta 2 milljónir á haus hvers Íslendings af þessu sukki bjögganna. Gott ef þú ert sáttur með það.

    Count me out amk. ég er ekki að fara að borga þeirra skuldir. Fer niður á hagstofu á morgun og skila vegabréfinu mínu. Þá þarf ég ekki að borga þetta sukk þeirra. Þú og hinir aumingjarnir með þessa þrælslund að láta þetta yfir sig ganga geta þá bara bætt þessu á ykkar reikning. Ég er farinn.

    By the way, hvernig væri að ná í yngri bjöggann, og hirða af honum hverja krónu? Hann keypti jú landsbankann og hlýtur þess vegna að vera ábyrgur fyrir þessu. Er ekki hægt að kæra mann helvítið fyrir landráð og stinga honum í grjótið þangað til búið er að hafa af honum hverja krónu upp í þetta helvíti?

    SvaraEyða
  13. Friðrik - jafnræðisreglan styður málstað Íslands að við eigum ekki að borga ef eitthvað er. Sjá: http://www.stiklur.blogspot.com/

    SvaraEyða
  14. Það er aumt að sjá menn fórna svona hagsmunum Íslands og geta ekki gætt upp á hagsmunina. Það þarf að koma í veg fyrir að Alþingi samþykki þetta enda algerlega fráleitur aumingjaskapur.

    SvaraEyða
  15. Mótmæli kl 15:00 á austurvelli!!! (7juni)

    SvaraEyða
  16. Blessaður Friðrik.
    Þú ferð með rangt mál í grundvallaratriðum.
    ICEsave reikningarnir voru ekki eins og hverjir aðrir reikningar í útibúi Landsbankans á Laugavegi. Þó bankinn hafi verið í eigu íslenskra aðila þá starfaði hann á breskum (og seinna meir Hollenskum)innlánsmarkaði. Það voru bretarnir sem fóru með alla umsjón og settu öll skilyrði um solid eignir og svo framvegis. Eina sem íslenska fjármálaeftirlitið gerði og mátti gera samkvæmt lögum var að gefa bankanum starfsleyfi til að reka þessa reikninga og ef bankinn hafði leyfi á Íslandi þá mátti ekki meina honum að reka starfsemi í öðrum löndum EES. Væri eitthvað til í því sem þú segðir þá hefðu bretarnir mátt setja útibúi Landsbankans á Laugavegi reglur og skilyrði en auðvitað mega þeir það ekki á íslensku fjármálamarkaði frekar en við á þeirra.

    Munurinn á þér og Stefáni Má er sá að þú vísar í fullyrðingar sem "allir vita" en Stefán Már vitnar í lagatexta og reglugerðir Evrópusambandsins.
    Og ef þú ert læs á íslenskan lagatexta þá getur þú flett upp á lögunum á vef stjórnarráðsins og þar kemur skýrt fram að Tryggingasjóður innlána er sjáfseignastofnun með sjálfstæðan fjárhag. Og íslenska ríkið er ekki í ábyrgð fyrir honum. Ef lögin okkar eru gölluð þá bar Evrópusambandinu skylda til að gera athugasemdir við þau og krefjast breytinga. Fyrir þessu hefur Stefán fært skýr og skilmerkileg rök.
    Vitir þú betur þá skalt þú útskýra skoðun þína opinberlega í opnu bréfi til Stefáns í Morgunblaðinu. Ef maðurinn fer með fleipur og kann ekki að lesa lög, þá þarf að afhjúpa hann.
    En gættu að því að lög eru lög en þjóðsögur eins og þær sem þú heldur fram órökstuddar (þú vitnar ekki í lagatexta máli þínu til stuðnings) eru ekki lög.
    Kveðja að austan.

    SvaraEyða
  17. Ómar skýrðu mál þitt betur. Ert þú að segja að íslenska ríkistjórnin geti ábyrgst innistæður íslenskra sparifjáreigenda í íslenskum bönkum án þess að um leið ábyrgjast innistæður erlendra sparifjáreigenda í íslenskum bönkum?
    kveðja að norðan
    Bjarni

    SvaraEyða
  18. Samkvæmt tilskipuninni um innistæðutryggingar er gert ráð fyrir að mismunandi víðtæk vernd sé á innistæðutryggingum milli landa. Jafnræði í þessu efni er því ekki rétt. Við kerfishrun verður þjóðin gjaldþrota reyni á allar innistæðutryggingar á sama tíma. Sjálfstæð ríki eiga rétt á því að verja fullveldi sitt og grípa til neyðarréttar. Hann á við í tilviki Íslands að mínu mati. Fullvalda ríki eiga líka rétt á því að leggja ágreining fyrir dómstóla. Fari allt á versta veg sem það gerir oftast erum við illa gjaldþrota þjóð. Mesta kæruleysi íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu tilviki er að semja um þessar skuldbindingu áður en það er ljóst hvort neyðarlögin haldi gagnvart erlendum kröfuhöfum en þeir halda því fram að ekki megi breyta þeirra réttarstöðu eftirá eins og gert var í haust með neyðarlögunum. Ef það færi líka illa þá þurfum við að greiða alla skuldbindingu auk vaxta. Þá vantar í málið öryggt mat á virði eigna Landsbankans. Leiði þessar skuldbindingar til þess að gengið veikist sem það ætti að gera þar sem greiðslugeta er nánast ekki til staðar gæti gjaldmiðillinn hrunið og þá hækka skuldirnar sem því nemur eins og allir þekkja sem hafa erlend lán á bakinu. Þetta eru því afar sorglegir atburðir sem eru að eiga sér stað á Íslandi og Guð hjálpi okkur nú því að við þurfum svo sannarlega á hans hjálp að halda gangi þetta samkomulag eftir.

    SvaraEyða
  19. Blessaður Bjarni.
    Googlaðu Moggann á greinina "Í hvaða liði eru stjórnvöld" eftir Stefán Már og Lárus Blöndal. Mikið af þeiri vitleysu sem Friðrik heldur fram er hrakið þar og í öðrum greinum þeirra félaga. Og þeir vitna í lög, ekki þjóðsögur.
    Neyðarlögin ábyrgjast innstæður á íslenska fjármálamarkaðnum, hjá skattgreiðendum Íslands og það er gert með ábyrgð ríkisins, ekki Tryggingasjóðs innlána. Pólskir ríkisborgarar, enskir ríkisborgarar eða íslenskir ríkisborgarar fá sínar innstæður greiddar. Íslenskir ríkisborgarar sem eiga innstæðu á ICEsave reikningunum, fá ekki meira í sinn hlut en breskir, þ.e. ef farið er eftir lögum Tryggingasjóðs innlánseiganda. Hann mismunar ekki eftir þjóðerni, hann greiðir hlutfallslega eftir innstæðu.

    Og ég ítreka að það er rangt að ICEsave hafi verið íslenskir innlánsreikningar, þeir lutu ströngum reglum og eftirlit breska og hollenska fjármálaeftirlitsins. Afhverju??????

    Mikið af þeirri vitleysu sem ESB sinnar halda fram byggist af þeirrri einföldu staðreynd að þeir vitna í almannaróm en nenna ekki að lesa þau lög og reglur sem um ræðir. Það gerir Stefán Már hinsvegar.
    Kveðja að austan

    SvaraEyða
  20. Björn S. Lárusosn7. júní 2009 kl. 14:00

    Sæll Friðrik. Þú gleymir einu grundvallaratriði. Við vorum beittir hryðjuverkalögum í Bretlandi til að frysta eigur Landabankans OG Singer og Friedlander (sem var breskur banki). Þegar þessi lög voru sett áttum við leik á borði; Gott og vel, hirðið allar eignirnar og ráðstafið þeim að vild. Kjarni málsins er að við biðum úr í það óendalega eftir einhverju kraftaverki án þess að aðhafast neitt. Þess vegna nauðarsamningar nú.

    SvaraEyða
  21. Björn S. Lárusson8. júní 2009 kl. 09:52

    Sæll Friðrik
    Eftir að hafa lesið viðtalið við Svavar Gestsson í mbl í dag skil ég vörn þína fyrir Icesave. Það voru samstarfsmenn þínir í ráðuneytinu sem gerðu hann. Erfitt að gagnrýna samstarfsmenn sína.
    Björn S. Lárusson

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.