miðvikudagur, 16. júní 2010

ESB segi nei

Ég er ekki viss um að þetta lið hjá ESB geri sér grein fyrir hvurslags mistök það er að fara að gera með því að hefja aðildarviðræður við Ísland.

Ég meina nóg er nú á þetta samband lagt nú á meðan átt er við efnahagskrísur og annan óskunda.

Því af tíðindum á Íslandi að dæma eru hörmungarnar bara rétt að byrja, þ.e. ef aðildarviðræður hefjast við Ísland.

Fyrst ber að telja að þau 27 aðildarríki sambandsins sem þar eru fyrir munu umsvifalaust tapa öllum sérkennum sínum og sjálfstæði. Ríki, sem eru í dag jafn fjölbreytt í menningu, stjórnarháttum og lífstíl og Svíþjóð, Austurríki, Portúgal, Bretland, Lúxemborg og Slóvakía, munu á einni nóttu umbreytast í grá og stöðluð leiðindalönd þar sem allir og allt er eins samkvæmt staðli andlitslausra skriffinna í Brussel.

Einnig mun það gerast að hið núverandi Evrópusamband mun á svipstundu breytast í "stórríki" og núverandi aðildarlönd breytast í áhrifalaus fylki, með littla sjálfstjórn og littla von. Á sama tíma mun reyndar þetta stórríki liðast í sundur vegna innri átaka, ósamstæðrar stefnumörkunar, t.a.m. í efnahagsmálum, og evran, hin sameiginlega mynt, hverfa af yfirborði jarðar.

Augljós viðbótarafleiðing af aðild Íslands verður jafnframt aukið áhrifaleysi smærri ríkja innan sambandsins og aukin áhrif þeirra stærri. Aðild Íslands mun auk þess hafa veruleg áhrif á stöðu allra ríkjanna innan Sameinuðu þjóðanna, en þar munu raddir þeirra að mestu þagna. Aðildarríki ESB myndu að auki tapa miklu af því sjálfsforræði sem þau nú hafa yfir eigin auðlindum, allt vegna aðildar Íslands.

Við aðild Íslands mun miðstýring innan ESB einnig stóraukast og fyrirsjáanlegt að fram mun fara "...sívaxandi valdasamþjöppun í miðstýrðum stofnunum ESB sem að litlu leyti lúta eftirlitsvaldi kjósenda...". Fjarlægð embættismannakerfis ESB frá hinum almenna ESB borgara mun einnig stóraukast og skilningsleysi embættismanna ESB að sama skapi á högum og háttum einstakra aðildarríkja sömuleiðis. Hugsanlega mun almennt tillitsleysi stóraukast um alla álfuna. Biðraðamenning mun almennt leggjast af og um alla Evrópu munu Evrópubúar framvegis leggja bílum sínum upp á gangstétt fyrir framan dyr þeirrar verslunar eða stofnunar sem þeir eiga erindi við hverju sinni.

Almennt atvinnuleysi upp á a.m.k. 20 prósent mun einnig hellast yfir alla álfuna. Slíkt atvinnuleysi, sem hingað til ekkert ríki ESB hefur þurft að þola, en Spánn hefur komist næst (18%), verður við aðild Íslands landlægt. Gott ef ekki fyrirskipað af embættismönnum í Brussel. Það verða jú allir að marsera í takt í öllu, alltaf, við aðild Íslands! Slæmar afleiðingar af þessu yrðu svo frekar magnaðar af hinni sameiginlegu mynt sem allt um lykur, þrátt fyrir yfirvofandi upplausn hennar.

Við aðild Íslands aukast einnig verulega líkur á að ESB taki yfir allar auðlindir innan ríkja sambandsins. Núverandi reglur um "hlutfallslegan stöðugleika" og almennt virðing fyrir eignarrétti og þjóðarhagsmunum mun hverfa sem dögg fyrir sólu. Tillitsleysið verður algert.

Einnig munu þjóðirnar allar sem ein tapa yfirráðum yfir lífi og limum borgara sinna og Brusselveldið mun hefja stórkostlega hernaðaruppbyggingu og herkvaðningu saklausra íbúa ESB-ríkjanna. Já, sameiginleg öryggis- og varnarstefna sem þjóðirnar taka nú þátt í eftir efnum, aðstæðum og áhuga verður við aðild Íslands skylduverk án undantekninga.

Auk þess er rétt að halda því til haga að "erlendir aðilar" munu um alla Evrópu eignast allt og allur virðisauki innan sambandsins flytjast eitthvað annað.

Og já, rétt er einnig að hafa í huga að við aðild Íslands mun afstaða ESB til landbúnaðar gerbreytast og verður hann lagður af eins og hann leggur sig. Hin ríka hefð ESB að styðja við og sýna landbúnaði aðildarríkjanna sérstaka tillitssemi verður lögð af við aðild Íslands.

Mikil er ábyrgð þín, Ísland, og ykkar Evrópuríkja ef þið samþykkið að hefja aðildarviðræður.

(PS. Ef þið trúið mér ekki má fræðast betur á vefjum Heimssýnar, sérstaklega hér, og Evrópuvaktarinnar.)

14 ummæli:

  1. Viltu nú ekki fara að koma þér yfir í Samfylkinguna þar sem þú átt heima svo við hin getum farið að kjósa Framsóknarflokkinn með bros á vör?

    SvaraEyða
  2. Þessi grein er snilldarleg kaldhæðni! Takk!

    SvaraEyða
  3. Ja. Þessi grein sýnir fyrst og fremst vaxandi vonleysi EB sértrúarfólks. Vel ritað en kaldhæfni þurfum við varla í þessu mikilvæga máli.

    Sigmar Þormar, Kópavogi

    SvaraEyða
  4. Sigmar talar um sértrúarfólk..... Ha Ha Ha.. :-)

    Það er til gamalt og gott íslenskt málstæki..

    "Þeir sletta skyrinu sem eiga það"!!!

    Kv. Jón H. Eiríksson

    SvaraEyða
  5. LOL HEHE frábær grein og flott nálgun á þessu máli.

    SvaraEyða
  6. Frábær grein. Sýnir glögglega fram á heimskuna og þröngsýnina í einangrunarsinnunum. Þetta aumingja fólk er á svo miklum villigötum og skilur svo fátt og er þar af leiðir mjög tortryggið gagnvart útlendingum og uppfullt af almennri hræðslu við það sem það þekkir ekki.

    Dude

    SvaraEyða
  7. Eina og talað úr mínu hjarta. Merkilegt að Schuman og Monnet skuli ekki hafa fattað þetta á sínum tíma!

    SvaraEyða
  8. Mér er fyrirmunað að skilja hvaða fróun Heimsýnarmenn og þeirra líkar fá úr því að steypa svona og bölmóðast yfir ESB.

    Góð grein Friðrik og treystu því að þó þú finnir ekki samleið með Framsókn lengur þá eru margir jákvæðir gagnvart ESB þar enn.

    Ég er amk. ekki að fara neitt - enda ekki líkt Eyfirðingi að leyfa Skagfirðingunum að vaða um eins og þeir eigi pleisið ;)

    SvaraEyða
  9. Rúnki,

    Menn geta alltaf notað vinstri hendina ef sú hægri er upptekinn. En grein höfundar lýsir sjúklegri fáfræði og beinlínis heimsku. Samt er hann obbofðslegaa mikið menntaður og með fínar alþjóðagráður í alþjóðaviðskiptum.

    Höfundur ætti að lesa greinar eftir Erík Bergmann um ESB. Sá kall veit allt um ESB enda launaður verktaki sem fær laun fyrir verk sín.

    SvaraEyða
  10. Kristján Sverrisson17. júní 2010 kl. 08:13

    sæll Friðrik. Mér þykir heldur leiðinlegt að sjá að þú ert að falla í sömu gryfjuna og flestir í EU umræðu, þ.e. að hæðast að mótrökum og kalla alla fífl og fávita sem ekki eru sannanlega á einu máli við skoðanabræður sína. Þetta er ekki sú umræða sem þarf.
    Ég hef engar verulegar áhyggjur af því hvað verður um Ísland ef svo fer að landið gangi í EU. Á hinn bóginn hef ég heldur ekki fengið séð hvað ætti svo sem að batna við inngönguna og enginn hefur getað skýrt fyrir mér hvernig landið mundi geta spjarað sig ef það stendur utan EU.
    Mér dettur ekki í hug að íslensk menning tapist á einu augabragði eða allt tapist í hendur glórulausra vitleysinga í Brussel. Ég trúi því ekki heldur að á Íslandi verði allt í kaldakoli og við töpum eitthvað stórkostlega á því að standa utan EU og halda núverandi yfirráðum yfir landi, auðlindum og efnahagslegum stjórntækjum.
    Enginn hugsar út fyrir kassann og reynir að skoða hvaða möguleika Ísland á í stöðunni. Það þarf annars vegar skammtíma-lausnir (sem EU aðild hjálpar engan veginn) og hins vegar langtíma stefnumótun fyrir íslenskt þjóðfélag (og þar getur alveg verið að EU aðild spili hlutverk).
    Endalaust skítkast andstæðra fylkinga er fullkomlega gagnslaust. Róum liðið niður og reynum að skilgreina kosti og galla og kynna síðan þjóðinni ítarlega og án upphrópana.
    Sumir hengja sig í að EU sé alvont vegna þess að við fáum þá ekki að veiða hval. Er það svo? Aðrir telja EU nauðsynlegt vegna þess að þá höfum við svo mikil áhrif á fiskveiðstefnu sambandsins. Er það svo? EU stuðli að öruggari efnahagsstjórn. Er það svo? EU drepi íslenskan landbúnað. Er það svo? Ísland utan EU verði einangrað og áhrifalaust á alþjóðavettvangi og í viðskiptum. Er það virkilega svo?
    Spurningamerkin eru mörg en sleggjudómar og fullyrðingar án rökstuðnings eru því miður fleiri. Ég lýsi eftir vandaðri röksemdafærslu og yfirvegaðri umræðu. Bestu kveðjur. Kristján

    SvaraEyða
  11. Ágæti Kristján,

    Gott að heyra frá þér, en leitt þykir mér að þú teljir mig vera fallinn í gryfju skotgrafahernaðar. Ég veit ekki til þess að ég hafi kallað nokkurn mann fífl og fávita, ekki einu sinni þá sem eru á móti aðild að ESB. Þvert á móti hef ég endurtekið kallað eftir því að umræðan fari fram á vitrænni grunni en einhverra sleggjudóma, þjóðernisofstækis eða halelúja trúboðs.

    Um þetta finnur þú t.d. fjölmörg dæmi í mínum fyrri bloggskrifum. Ég hins vegar fer ekki ofan af þeirri skoðan minni að því miður eru það mun frekar andstæðingar aðildar sem halda umræðunni í gíslingu klósettmálfars með hræðsluáróðri, ósannindum og dylgjum um föðulandssvik. Ég hef a.m.k. ekki séð þess mörg dæmi að þeir sem eru hlynntir aðildarumræðum tali um andstæðinga aðildar sem föðulandssvikara, Quislinga, andans trúða og, já, fífl og fávita. Gallinn við umræðuna, og minn pistill er dæmi um það, er að mestur tími okkar sem hlynnt erum aðildarviðræðum fer um of í að einblína á fullyrðingar andstæðinga aðildar en að útskýra hvað við teljum áunnið með að fara í þessa vegferð. Það er eitthvað sem þarf að bæta úr, en endurspeglar líka þá staðreynd að í augnablikinu að minnsta kosti eru það frekar andstæðingar aðildar og aðildarviðræðna sem hafa frumkvæðið og leiða umræðuna.

    Ég er þar fyrir utan fyrst og fremst hlynntur aðildarumsókn og aðildarviðræðum. Endanleg afstaða mín til aðildar mun fyrst og fremst ráðast af því hver niðurstaða samninga verður.

    Í þokkabót tel ég að framtíð Íslands sé ekki að veði eins og hún leggur sig. Ég trúi því að Íslandi muni farnast vel hvort heldur sem er innan eða utan ESB. Aðild hins vegar tel ég hafa í heildina fleiri kosti en galla.

    Aðild mun hins vegar ekki breyta því að land vort og þjóð verða fyrst og fremst sinnar eigin gæfu smiðir.

    Kannski er mér helst fyrirmunað að skilja af hverju tiltölulega leiðinlegt batterí eins og Evrópusambandið er, vekur svona heitar tilfinningar. Þetta er fyrst og fremst praktískt milliríkjasamstarf sem snýst um að efla verslun og viðskipti og hagnýtt og friðsamlegt samstarf nágrannaþjóða í millum.

    Vissulega hafa verið gerðar tilraunir til þess að umpakka Evrópu"samrunanum" í eitthvað annað og meira en hann er, en þær tilraunir hafa nú flestar runnið út í sandinn, enda snúist frekar um umbúðir er innihald. Á endanum hefur Evrópusamstarfið snúist um praktíska hluti, samþættingu þjóðarhagsmuna og þá jafvægislist sem þarf til að stórar og smáar þjóðir fái þrifist saman án þess að troða hvorum öðrum um of um tær.

    Verði aðild Íslands að veruleika mun hún ekki valda þeim straumhvörfum sem æstustu andstæðingar né stuðningsmenn aðildar sjá fyrir, enda er það svo að aðild að ESB snýst fyrst og fremst um lítt spennandi hluti er snúa að tiltölulega þurrum efnahagsmálum eins og markaðsaðgangi fyrir vörur og þjónustu, peninga- og gjaldmiðilsmálum, samþættingu reglugerða og þess háttar.

    Kveðja til Köben

    Friðrik

    SvaraEyða
  12. Björn,

    Kannski er mér alveg fyrirmunað að skilja af hverju Friðrik vill ganga í ESB fyrst hann segir að það sé svona óskaplega leiðinlegt og óspennandi. Kannski er það veðrið eða Búlgaría?

    SvaraEyða
  13. Af því "at the end of the day" þá tel ég kostina fleiri en gallana og að reynsla Íslands af alþjóða samstarfi hefur undantekningalaust verið þannig að það hefur verið betra fyrir okkar hagsmuni aða taka í því fullan þátt en að standa fyrir utan...

    SvaraEyða
  14. Björn

    ESB er að þróast í átt að meiri samruna/samvinnu landanna sbr. Lissbon sáttmálinn og ýmis ummæli Barroso og áhrifamanna innan sambandins. Þú gerir viljandi lítið úr þessu.

    Er það vegna þess að þú hefur ekki kynnt þér málin eða er þetta áróður handa þeim sem ekki nenna að kynna sér þetta leiðinlega og óspennandi sambands. Áróður handa þeim sem eru á móti frekari samruna ESB.

    Nei, nei vatnið er ekkert blaut og það tekur því ekki að fara úr fötunum, elsku vinur.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.