mánudagur, 30. júní 2008

Hvað vill BHM?

Nýr kjarasamningur BHM við ríkið er komin á heimasíðu samtakanna. Samkvæmt BHM felur samningurinn m.a. í sér eftirfarandi: 20.300 króna hækkun á allar launatölur, ásamt 2,2% hækkun; hækkun persónuuppbótar í 44.100 kr. á samingstímanum; auk þess sem réttur vegna veikinda barna er aukinn í 12 vinnudaga.

Að auki er "framlag vinnuveitanda í vísindasjóði aflagt en þess í stað var gert samkomulag um tilhögun sí- og endurmenntunar háskólamanna ." Ekki liggur fyrir hvað þetta þýðir nákvæmlega, en unnið verður frekar í nánari skilgreiningu á næstunni.

Gildistími samningsins er til loka mars á næsta ári, sem verður að teljast mjög skammur samningstími. Meðaltalshækkuninn er sögð liggja á bilinu 4 - 8 prósent eftir því hvar menn eru staðsettir innan launatöflunnar. Ef hliðsjón er höfð af þeirri staðreynd að skv. gildandi kjarasamningi hækkuðu laun um síðustu áramót um 2% er heildarhækkun á einu ári á bilinu 6 - 10 prósent.

Þetta er á sama tíma og mæld verðbólga fyrir síðustu tólf mánuði er í tæpum 13 prósentum og því miður fá teikn á lofti um að dragi úr henni á næstunni.

Formaður BHM, Guðlaug Kristjánsdóttir, lætur hafa eftir sér í frétt samtakanna um að samningar hafi náðst að “Með þessum samningi eru háskólamenn að taka á sig kjaraskerðingu þar sem hækkun launa er engan veginn næg til að vega upp á móti verðbólguspá næstu mánaða."

Hún segir þar jafnframt að samninganefndin hafi valið "skásta kostinn í þeirri þröngu stöðu sem um var að ræða." Ekki er hægt að skilja orð hennar öðruvísi en svo að hún sé síður en svo sátt við niðurstöðuna. Kosturinn var s.s. væntanlega að gera þennan samning, eða engan, eða hvað?

Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að formaður BHM sé með þessum orðum frekar að hvetja en letja umbjóðendur sína til þess að fella samninginn í væntanlegum atkvæðagreiðslum sem eiga að fara fram innan tveggja vikna. A.m.k. er það skrýtin söluaðferð að kynna samninginn sem beina kjaraskerðingu.

Það hefur líka legið fyrir að samninganefnd BHM hefur verið mjög ósátt við saminganefnd ríkisins og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við umkvörtunum þess efnis. Það getur þannig verið ákveðin aðferðafræði að ljúka þessum skammtímasamningi, kynna hann sem lélegan samning og þannig vinna að því að hann verði felldur. Þannig gæti BHM talið sig standa sterkari fótum í frekari kröfum gagnvart ríkinu í næstu samningaviðræðum.

Því velti ég því fyrir mér hvað það er sem forystumenn BHM raunverulega vilja frá sínum umbjóðendum. Ekki hef ég ennþá séð eða heyrt neinn þeirra beinlínis hvetja til þess að við samþykkjum. Eða hvað?

2 ummæli:

  1. Ég var núna rétt áðan að fá tölvupóst sem hvetur mig til að samþykkja samninginn á þeirri forsendu að meira náist ekki án aðgerða og að það sem þannig næðist mundi að líkindum ekki borga upp muninn á því að semja strax til svo skammst tíma og að vera samningslaus einhverja mánuði í viðbót + launatap í verkfalli. Ég er ekki enn búinn að ákveða mig.

    SvaraEyða
  2. Þetta er ekki auðvelt. Prósentuhækkanirnar undanfarin þrjú hafa ekki heldur haldið í við verðbólguþróun þ.a. samþykkt á þessum samningi er samþykkt á áframhaldandi kjaraskerðingu. Er hægt að segja já við því?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.