miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Krónukrítik Anno 1998

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 15. janúar 1998 birtist viðtal við Þórð Magnússon, þáverandi framkvæmdastjóra Eimskips – nú stjórnarformann Eyrir Invest.

Í viðtalinu ræðir Þórður um ýmsa þá erfiðleika sem eru samfara því að nota séríslenska krónu. Í kynningu viðtalsins er eftirfarandi útdráttur:

Krónan er minnsti gjaldmiðill í heimi
Miklar gengissveiflur krónunnar valda fyrirtækjum erfiðleikum
Háir raunvextir halda launum niðri
Fjárstýring fyrirtækja eins og ferðalag í rússíbana
Óhjákvæmilegt að krónan tengist öðru myntkerfi

Viðmælandi Þórðar er Kjartan Magnússon og segir hann m.a. eftirfarandi í inngangi sínum:

Gjaldeyrismál eru tvímælalaust eitt mikilvægasta svið íslenskra efnahagsmála. Um áratugaskeið var íslenska hagkerfið mjög lokað og krónan hefur þá sérstöðu að vera minnsti gjaldmiðill í heimi. ...vegna hárra vaxta kjósa mörg fyrirtæki að leita út fyrir landsteinana eftir lánsfé... Hækkandi vextir draga úr möguleikum fyrirtækja til fjárfestinga og nýsköpunar og skortur á lánsfé getur á skömmum tíma haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur þeirra.

Þetta eru augljóslega gömul sannindi og ný.

Í viðtalinu sjálfu kemur m.a. eftirfarandi fram í máli Þórðar:

Telur hann einsýnt að Íslendingar þurfi að tengja krónuna við annað myntkerfi fyrr eða síðar. Lítur hann helst til væntanlegs Efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU) í þessu sambandi enda eru um 70% utanríkisviðskipta Íslendinga við aðildarríki Evrópubandalagsins og EFTA, Fríverslunarbandalags Evrópu...

Þórður segir gengissveiflur valda fyrirtækjum verulegum óþægindum og skekkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum sem búa við sterkari gjaldmiðla. "Íslensk fyrirtæki ná ekki að fjármagna starfsemi sína í innlendum gjaldmiðli í hagkerfinu vegna smæðar þess. Mörg þeirra, einkum stórfyrirtæki, grípa því til þess ráðs að fjármagna sig að verulegu leyti í erlendum myntum. Þau verða því mjög háð gengissveiflum en þau reyna að vinna gegn því með virkri fjárstýringu með það að markmiði að vera óháð innbyrðis gengisbreytingum erlendra mynta. Krónan er svo lítil mynteining að tiltölulega litlar hreyfingar á gjaldeyrismarkaðnum valda óeðlilega miklum sveiflum. ...áhrif þeirra á rekstur íslenskra fyrirtækja oft meiri en sem nemur afkomu af reglulegri starfsemi þeirra. Flest erlend fyrirtæki fjármagna sig hins vegar í sinni heimamynt og verða því ekki fyrir sambærilegum skakkaföllum vegna gengissveiflna."

"Fjárstýring í íslensku fyrirtæki er því oft líkust ferðalagi í rússíbana."

"Íslenski fjármálamarkaðurinn er svo agnarsmár að aðgerðir einstakra fyrirtækja geta haft töluverð áhrif á markaðinn. Ef við tökum Eimskip sem dæmi þá nema skuldir fyrirtækisins í erlendum gjaldmiðlum um níu milljörðum króna en gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans er aðeins um 25 milljarðar. Geta bankans til að grípa til aðgerða á þessum markaði og jafna út sveiflur er því afar takmörkuð svo ekki sé meira sagt."

"[Háir vextir hafa] þau áhrif að fjármagnskostnaður fyrirtækjanna verður miklu hærri en hann þyrfti að vera og mætti tala um gjaldmiðilsskatt eða átthagaskatt í því sambandi. "

"Allar líkur eru á að vaxtaálag vegna óvissu, svokallað óvissuálag krónunnar, muni vaxa eftir stofnun EMU og auka enn frekar á þennan mun."

"Það má færa ýmis rök fyrir því að lág laun hérlendis megi m.a. rekja til hárra vaxta vegna sjálfstæðrar gengisskráningar krónunnar. Það er ekki viðunandi að mínu mati."

"...tenging [við EMU] eða aðild [að ESB] yrði líkleg til að hafa aukna samkeppni í för með sér. Allt verð yrði sýnilegra, enda væri mestallur verðútreikningur fyrirtækja miðaður við sömu myntina og gengisáhætta væri því hverfandi. Bankar og aðrar fjármálastofnanir fyndu einna mest fyrir aukinni samkeppni enda yrðu þær að laga sig að lántöku og vaxtastigi erlendra banka, þ.e.a.s að lækka vexti. Með lægri vöxtum gætu íslensk fyrirtæki aukið arðsemi sína."

"Ég held að einhliða tenging krónunnar við annan gjaldmiðil, t.d. evró, yrði ekki trúverðug við ríkjandi aðstæður."

"Mér finnst eðlilegt að Íslendingar leiti eftir einhvers konar samstarfi eða aðild að EMU en í mínum huga er það ekki valkostur að standa algerlega utan við bandalagið eftir að það kemst til framkvæmda. Mér finnst að það ætti að láta á það reyna hvort unnt sé að ná tvíhliða samningi við bandalagið um gengismál þótt engin fordæmi séu fyrir slíku."

Þess má geta að í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þann 18. jánúar 1998, eða helgina eftir að viðtalið var birt, er að miklu leyti tekið undir með sjónarmiðum Þórðar, en hins vegar er þar m.a. kveðið upp úr með það að "aðild að myntbandalaginu kemur ekki til greina án aðildar að ESB."

Það er óneitanlega áhugavert að lesa þessi viðhorf Þórðar frá því fyrir rúmum tíu árum síðan m.t.t. þess hvernig þróunin hefur verið og hvernig ástandið er í íslensku efnahagslífi í dag.

(Heimild: Gagnasafn Morgunblaðsins)

1 ummæli:

  1. svo eru ráðherra að tala um að við eigum í timabundnum erfiðleikum með krónuna. Eftir þessu að dæma þá hafa þessi tímabundnu erfiðleikar varað í meira en áratug!

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.