miðvikudagur, 2. apríl 2008

ESB: Northern Rock rannsókn

Eins og ég minntist á í pistli her í síðustu viku um þjóðnýtingu banka þá hefur Evrópusambandið verið með þjóðnýtingu breta á Northern Rock bankanum í sérstakri athugun. Í dag var tilkynnt um að hafin væri formleg rannsókn á þjóðnýtingunni og þeirri markaðsaðstoð sem veitt var í aðdraganda hennar og hvort hún samræmist reglum sambandins um ríkisaðstoð og markaðsmismunun.

Breska ríkið þarf nú að veita ESB mun fyllri og nákvæmari upplýsingar um í hverju aðstoð þess til Northern Rock hefur falist, auk þess sem þriðju aðilum, þ.e. ríkjum og fyrirtækjum í fjármálageiranum á öllu Evrópska efnahagsvæðinu er gert kleift að koma á framfæri athugasemdum. Þegar hafa t.a.m. danskir bankar gert um það athugasemdir að í þjóðnýtingunni felist óeðlilegur ríkisstuðningur sem hafi samkeppnistruflandi áhrif á markaði, en Northern Rock hefur keppt á dönskum lánamarkaði.

Það verður athyglisvert að fylgjast með hvernig þessi mál þróast, en eins og ég nefndi í fyrri pistli er aðstoð þýskra stjórnvalda til þarlendra banka einnig í athugun. Fyrir Ísland skiptir þetta verulegu máli þar sem þær reglur sem ESB hefur til hliðsjónar í þessum rannsóknum gilda einnig hér vegna EES. Hugsanlegur stuðningur íslenska ríkisins við bankanna verður þannig að vera í samræmi við meginreglur EES/ESB-réttarins í þessum efnum.

BBC fréttavefurinn var með stutta frétt um málið í dag.

1 ummæli:

  1. Það verður spennandi að sjá hver niðurstaða rannsóknarinnar verður - enda getur hún haft áhrif á Íslendinga.

    Það skýtur skökku við að þrengt verði að Íbúðalánasjóði á grunni Evrópuréttar - sjóður sem þó er starfræktur á grunni "Almennra efnahagslegra hagsmuna - General economic interest" sem er hugtak í Evrópurétti - ef breska ríkisstjórnin getur þjóðnýtt banka í samkeppnisrekstri.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.