Leiðari Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í morgun er eilítið sérstakur. Hann er samtímis hvatning til aðgerða í Evrópumálum og vegvísir til tafar málsins.
Leiðarinn leggur út frá grein Ólafar Nordal í Fréttablaðinu frá því í síðustu viku og tekur undir mikilvægi þess að breyta þurfi stjórnarskrá til þess að aðild að ESB geti orðið að veruleika. Það sé hið nauðsynlega fyrsta skref í átt að aðild.
Skv. þessari forskrift á að leggja fram tillögur um stjórnarskrárbreytingar í lok þessa kjörtímabils, kjósa um það samfara næstu alþingiskosningum 2011, og síðan á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um aðild strax haustið þar á eftir, eða það er a.m.k. tillaga Þorsteins.
Þetta þýðir að rúm þrjú ár eru í þetta fyrsta skref og a.m.k. þrjú og hálft ár í það að þjóðin fái eitthvað að segja um það hvort hún hafi yfirhöfuð einhvern áhuga á ESB-aðild. Væri ekki nær að byrja á því?
Ef þjóðin hefur engan áhuga á ESB aðild, er þá ekki best að koma því á hreint sem fyrst? Er ekki tillaga t.d ungra framsóknarmanna í þeim efnum allrar athygli verð? Væri það ekki verðugt verkefni Alþingis að taka þá umræðu núna hvort ekki sé rétt að kanna huga þjóðarinnar til aðildarumsóknar sem fyrst?
Ef þjóðin hefur engan áhuga á aðildarumsókn er málið dautt og hægt er að einbeita sér að fullum krafti að öðrum verkefnum. Breyting á stjórnarskrá vegna ESB yrði am.k. tæpast jafn aðkallandi.
Ef hins vegar þjóðin samþykkir aðildarumsókn er ekkert því til fyrirstöðu að vinna samhliða samningaviðræðum að nauðsynlegum úrbótum, þ.m.t. breytingu á stjórnarskrá, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðu samningaviðræðnanna. Slíkt væri t.d. hægt að afgreiða samhliða í alþingiskosningunum 2011 ef menn vilja.
Reyndar er Þorsteini Pálssyni í lófa lagið að halda áfram undirbúningi á breytingu stjórnarskrárinnar þegar í stað. Hann er ennþá varaformaður stjórnarskrárnefndar forsætisráðherra og ætti að vera í lófa lagið að hringja í formanninn, Jón Kristjánsson, og óska eftir fundi nefndarinnar um málið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.