fimmtudagur, 3. júlí 2008

ESB-umræða á villigötum

Reglulega er eins og umræða um aðild Íslands að ESB fari að snúast um prósentur. Stuðningsmenn aðildar vísa til þess að Ísland sé meira og minna orðinn aðili hvort eð er þar sem 80-90 prósent regluvirkis ESB hvað varðar innri markaðinn sé leitt í lög og reglugerðir á Íslandi fyrir tilstilli EES-samningsins. Andstæðingar aðila telja þetta hina mestu fyrru þar sem fram hafi komið í svari utanríkisráðherra 2005 við fyrirspurn þingmannsins Sigurðar Kára Kristjánssonar að einungis 6,5% gerða ESB væru leidd í landslög fyrir tilstilli EES-samningsins.

Þetta er tilgangslaust debatt þar sem í fyrsta lagi báðir hafa rétt fyrir sér og í öðru lagi hefur þetta prósentustagl lítið með kjarna málsins að gera.

Hvernig geta fylgismenn og andstæðingar ESB-aðildar báðir haft rétt fyrir sér? Jú vegna þess að þeir eru ekki að tala um sama hlutinn. Hvað varðar innri markaðinn þá fer langstærstur hluti regluvirkis ESB inn í EES – 80-90%. Innri markaðurinn og EES nær hins vegar ekki til sameiginlegrar stefnu ESB hvað varðar landbúnað, sjávarútveg og tollamál. Eins og kemur fram í svari utanríkisráðherra, er langstærstur hluti “gerða” ESB vegna þessara þriggja þátta, enda um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar ákvarðanir sem varðað geta t.d. ýmsar smálegar rútínuafgreiðslur, s.s. varðandi ákveðið kjúklingabú í Normandí, svo dæmi sé tekið. Slík afgreiðsla fær samt gerðanúmer og telur í pakkann, þó sú gerð hafi aldrei áhrif á neinn annan en fyrrnefnt kjúklingabú!

Fyrirspurn Sigurðar Kára var þannig snilldarherbragð sem færði andstæðingum aðildar gott tölfræðivopn gegn aðildarsinnunum með sín 80-90%!

Þetta prósentustagl hefur hins vegar eins og áður sagði lítið með kjarna málsins að gera. Sá kjarni hlýtur að snúast fyrst og fremst um hver eðlismunur er á EES-aðild annars vegar og ESB-aðild hins vegar. Í hnotskurn felst sá munur helst í aðild að fjórum viðbótarþáttum ESB umfram EES: landbúnaðarstefnunni, sjávarútvegsstefnunni, tollabandalagi sambandsins og mynstsamstarfinu.

Hvern þessara þátta ættum við að geta vegið og metið saman og sitt í hvoru lagi á forsendum grundvallarhagsmuna. Það hugsa ég að verði bæði athyglisverðara og skemmtilegra debatt en prósentustagl.

1 ummæli:

  1. Þegar umræðan verður of flókin og erfið fyrir stjórnmálamennina fer hún út í svona rugl.
    Atvinnulífið og flestir Íslendingar eru löngu búnir að afgreiða málið langt á undan stjórnmálamönnunum eins og jafnan með stór mál.
    Það er skelfilegt að hagsmunir heillar þjóðar séu í helgreipum eins arms í einum stjórnmálaflokki.
    IG

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.