laugardagur, 19. júlí 2008

Fastgengisstefna gagnvart evrunni

Þann 9. nóvember síðastliðinn birtist eftirfarandi pistill eftir undirritaðan í Fréttablaðinu:

Nýr valkostur hvað varðar gjaldeyris- og gengismál Íslendinga er smátt og smátt að koma í ljós. Undanfarið hefur verið deilt um hvort halda eigi krónunni eða ekki, og þá hvort hægt sé að taka upp evru einhliða eða aðild að Evrópu­sambandinu sé þar frumskilyrði.

Ófrávíkjanleg staðreynd mála er sú að Evrópusambandið er okkar stærsti og mikilvægasti viðskiptaaðili. Við ríki ESB eigum við yfir 70% okkar milliríkjaviðskipta. Þorri Evrópuþjóða tekur þátt í myntsamstarfi þess og gjaldmiðlar þeirra ríkja innan sambandsins sem ekki hafa tekið upp evru njóta gengisstöðugleikaáhrifa aðildar. Sum ríki með beinum samningum, s.s. Danmörk, en danska krónan er múlbundin við evru þ.a. verulegt gengisflökt dönsku krónunnar gagnvart evru er óhugsandi. Danska krónan er þannig í reynd evra í dulargervi.

Einn valkostur Íslands, á meðan áfram er þrefað um aðild eða ekki aðild, evru eða ekki evru, er að taka upp fastgengisstefnu gagnvart evrunni.

Fastgengisstefna verður hins vegar að njóta verulegs trú­verðug­leika ef hún á að ganga upp og viðkomandi gjaldeyrir á ekki að verða endalaust skotmark spákaupmanna. Sá trú­verðug­leiki mun fyrst og fremst byggjast á grundvallarstyrk íslenska efnahagskerfisins til þess að standa undir því gengi sem miðað er við. En því til viðbótar er hægt að styrkja og styðja slíka stefnu með beinum og óbeinum hætti.

Það færi fram með beinum hætti ef hægt væri að ná fram gagnkvæmnissamningi við seðlabanka Evrópu um að styðja við gengi krónunnar. Vissulega væri slíkur samningur óvenjulegur, en þarf ekki að vera óhugsandi. Slíkan samning má m.a. rökstyðja með vísan til aðildar Íslands að innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn.

Fastgengisstefna yrði einnig studd óbeinum hætti ef fleiri íslensk fyrirtæki feta í fótspor þeirra fyrirtækja sem þegar hafa skipt úr krónum í evrur hvað varðar uppgjörsmynt og skráningu hlutabréfa. Sú einfalda staðreynd að stærsta fyrirtæki Íslands, Kaupþing, ætlar að taka upp evru sem rekstrar, uppgjörs og hlutabréfaskráningarmynt um næstu áramót, mun ein og sér hafa áhrif til þess að auka trúverðugleika fastgengisstefnu, ef slík stefna yrði tekin upp.

Fastgengisstefna myndi auk þess kalla á ákveðna tiltekt í íslenskri tölfræði, og þá fyrst og fremst hvernig verðbólga er hér mæld, en verðþróun húsnæðis er hvergi í Evrópu tekin inn í verðbólgumælingar með sama hætti og hér.

Auk þess þyrfti að sjálfsögðu að viðhalda hér ráðdeild í ríkissrekstri, vinna áfram að því að draga úr viðskiptahalla og halda viðunandi hagvexti. Í þeim efnum hefur það sýnt sig að tölfræðin og túlkun hennar hefur ekki haldið í við hraða þróun og útrás íslensks efnahagslífs.

Fastgengisstefna myndi leiða af sér lægri vaxtamun við evruríkin, eyða að miklu leyti gengisóvissu, auka stöðugleika og jafna út verðsveiflur vegna gengis­þróunar. Krónan myndi hins vegar lifa áfram, bæði sem reiknieining og sem táknmynd ímyndaðs fullveldis í ólgusjó alþjóðavæðingarinnar.

Fannst alveg viðeigandi að rifja þennan upp og halda til haga hér á blogginu í ljósi umræðunnar undanfarið þó tilvísun í fyrirætlan Kaupþings að taka upp evruna um síðustu áramót sé pínu "dated", en ekkert varð af því þá - hvað sem síðar verður.

4 ummæli:

  1. Hefur land eins og Ísland (þ.e. með stöðugan vöruskiptahalla) efni á að halda uppi fastgengisstefnu?

    Argentína reyndi það (bundið við USD) - og það mistókst með skelfilegum afleiðingum fyrir efnahag landsins...

    SvaraEyða
  2. Þetta er ekki raunhæf leið nema beinn stuðningur Evrópska seðlabankans liggi fyrir. Eins og höfundur greinar segir er slíkt samkomulag ekki óhugsandi en að sama skapi verður það að teljast óraunhæft að svo komnu máli.

    Höfundur svarar ekki meginspurningunni um á hvaða stigi gengisvísitölunnar ætti að tengjast við evruna? Á að taka tillit til innflytjenda, útflytjenda eða fjármálageirans þegar kemur að þeirri ákvörðun?

    Svarið við þessari spurningu er einn liður í að ákvarða hvort að Ísland sé þjónustu- eða útflutningshagkerfi. Sá sem þetta skrifar saknar að heyra ekki meira skrafað um þessar áleitnu spurningar í þessari umræðu um peningamál sem nú sér stað.

    SvaraEyða
  3. Til þess að fastgengisstefna geti gengið upp þarf hún, eins og fram kemur í pistlinum, að vera trúverðug. Hún má heldur ekki vera algerlega ósveigjanleg - það, eins og dæmin sanna - getu komið mönnum í koll. Í því tilfelli sem ég legg upp með er útgangspunkturinn að velja það að halla okkur að evrunni, í stað t.d. myntkörfu. Hægt er að hafa mismunandi skoðanir á því hvert eðlilegt "jafnvægisgengi" krónunnar sé gagnvart evrunni, en væntanlega eru flestir sammála um að gengi hennar sé óeðlilega hátt í dag. Þessar gífurlegu sveiflur sem við höfum búið við undanfarið eru engum í hag, hvorki innflytjendum, útflytjendum né fjármálageirans. Fyrir alla aðila skiptir mestu að það ríki sæmilegur stöðugleiki.
    Afbrigðilegt ástand á alþjóðagengismörkuðum hefur líka áhrif, en færa má rök fyrir því að gagnvart dollar sé gengið í dag á þokkalega "réttu" róli, á meðan að gengi evru er of hátt.
    Stjórnvöldum er hins vegar í lófa lagið að hafa opinbera gengisstefnu, t.d. að vilja að gengi evrunnar sé í kringum 100 krónur og setja sér síðan sveifluviðmið upp á einhverjar fastar prósentur til lengri tíma sem svo mætti þrengja þegar fram í tíma sækir. Það hins vegar setur mönnum þær skorður að það verður að liggja fyrir með hvaða hætti brugðist verður við þegar og ef upp kemur ástand þar sem viðmiðin bresta.

    SvaraEyða
  4. Ég biðst afsökunar á að kveða sterkt að orði Friðrik: Þetta er frámunaleg heimskuleg athugasemd við skrif mín að ofan.

    Ástæðan fyrir að gengi evrunnar er hlutfallslega hærra en dalsins um þessar mundir er sú að Asíuríkin eru að velta áhrifum falls dalsins yfir á evruna:Það er að segja þær (fyrst og fremst Kína og Japan) hafa nægan gjaldeyrisforða til þess að bregðast við falli dalsins með því að færa aukin gjaldeyrisvarasjóðs síns yfir í evrur og þar með vernda útflutningsiðnað sinn.

    Ofangreint er ein af stóru fréttunum í dag og einhver yfirlýsing að hálfu íslenskra stjórnvalda fengju engu um hana breytt.

    Það má vel segja það ástand afbrigðilegt en hinsvegar er um að ræða afleiðingu nauðsynlegrar leiðréttingar á bandaríska viðskiptahallanum. Evran á eftir að lækka gegn dal en leiðréttingin á eftir að eiga ólík birtingarform.

    Hvernig heldur eigandi þessa bloggs að það hefði gengið að verja gjaldeyriskörfu og þar af leiðandi gengismarkmið í þeim hrunadansi sem hefur staðið yfir undanfarið? Hvað hefði það kostað íslenska skattgreiðendur?

    Fyrir utan sjálfstæða krónu er ekki til neinn valmöguleiki en einhverskonar samstarf við stærra myntsvæði: Slíkt er stórpólitískt mál þar sem að það þyrfti að myndast sátt um það í þjóðfélaginu á hvaða gengisstigi slíkt samkomulag yrði innsiglað.

    Sá sem þetta skrifar vill síðan minna á það að eina ástæðan fyrir að bæði Landsbanki og Kaupþing sýndu hagnað á síðasta fjórðungi var að þeir tóku stöðu gegn krónunni - umfram það sem getur talist réttlætanlegt til þess að verja efnahagsreikninginn - og í því ljósi væri gaman að sjæa hver niðurstaðan hefði verið gerðu þeir upp í evrum.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.