fimmtudagur, 31. júlí 2008

Bergsson til bjargar

Ástand mála í borgarstjórn Reykjavíkur er orðin hið vandræðalegasta - ekki aðeins fyrir meirihlutann heldur borgarstjórn í heild sinni. Jafnframt er þetta ástand farið að hafa neikvæð áhrif á nágrannasveitarfélögin.

Bergsson bjargaðu okkur!

Það er ljóst að mjög fáir möguleikar eru í stöðunni til að bjarga því sem eftir lifir af þessu kjörtímabili. Tjarnarkvartetinn á ekki afturkvæmt, enda vandséð hvernig Framsókn, Samfylking og Vinstri-Græn gætu eða vildu eiga samstarf við Ólaf F. eftir að að hafa horft upp á framgöngu hans í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.

Pólitískir útreikningar S og VG ganga jafnframt út á það að vandræðagangurinn muni skila þeim góðum meirihluta í næstu kosningum. Tveggja ára öngþveiti til viðbótar við stjórn borgarinnar er þeim flokkum þannig lítt á móti skapi - sama hver fórnarkostnaðurinn verður.

Merkja má jafnframt í þeim áætlunum að ekki er verið að gera ráð fyrir Framsóknarflokknum sem samstarfsaðila eftir næstu kosningar. Sumpart skiljanlega, enda eru skoðanakannanir í augnablikinu ekki að gefa flokknum miklar vonir um að halda sínum fulltrúa.

Hollusta gagnvart þeim ágætu flokkum í stjórnarandstöðu í borginni á því ekki að vera Óskari Bergssyni, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, sérstakt umhugsunarefni. Hann á að hafa að leiðarljósi einungis tvennt, annars vegar hvað er best fyrir borgina, og hins vegar hvað er best fyrir flokkinn.

Svarið við hvoru tveggja er að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn.

Málefnasamningurinn liggur fyrir.

Meiri líkur en minni eru á því að a.m.k. einhverjir kjósendur í Reykjavík muni kunna Óskari miklar þakkir í næstu borgarstjórnarkosningum fyrir slíkt framtak.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.