fimmtudagur, 17. júlí 2008

Niðurstaða BHM-samninga

Tölulegar niðurstöður atkvæðagreiðslu félagsmanna félaga innan BHM eru komnar á heimasíðu samtakanna. Það er sannarlega athyglisverð lesning og óhætt að taka undir með formanni BHM, en hún lætur hafa eftir sér að "Atkvæði greitt með samningnum verður þó tæpast túlkað sem yfirlýsingu um sátt við innihald hans."

Í ljósi þess að einungis tók rúmur þriðjungur félagsmanna þátt í kjörinu og þar af var samningurinn studdur af tveimur þriðja þeirra sem tóku þátt eru það orð að sönnu. Það þýðir aftur að einungis fjórðungur félagsmanna BHM sá ástæðu til þess að samþykkja samninginn - aðrir (75%) sögðu nei, skiluðu auðu eða sátu hjá.

Verkefni félaga innan BHM er að hefja nú þegar, og þá helst sameiginlega undir merkjum Bandalagsins, undirbúning að gerð nýs heildarkjarasamnings sem taki gildi þegar þessi framlenging rennur sitt skeið í lok mars á næsta ári. Kjarasamningar opinberra starfsmanna eru orðnir átta ára gamlir og tími til þess að fara yfir allan pakkan, en ekki einungis horfa á launatölur.

Launatölurnar eru hins vegar aðalatriðið, sérstaklega í ljósi þeirrar gríðarlegu kjaraskerðingar sem félagsmenn innan félaga BHM hafa verið að taka á sig á undanförnum árum, að lágmarki um 15% á fjögurra ára samningstíma, frá febrúar 2005 til mars 2009, gangi verðbólguspár Seðlabanka Íslands eftir.

Reynsla samningamanna af nýloknum viðræðum ætti að þjóna sem hvatning til þess að byrja snemma og vinna saman. Það þarf að tryggja að næstu samningaviðræður verði raunverulegar kjaraviðræður, en ekki sýndarviðræður.

Almennir félagsmenn verða jafnframt að vera duglegir að láta í sér heyra og styðja vel við bakið á þeim sem munu leiða þær viðræður fyrir þeirra hönd.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.