miðvikudagur, 29. júní 2011

Gjaldeyrisvildarkjör

Þá er lokið seinni hluta gjaldeyrisútboðs Seðlabankans.

Keyptar voru rúmlega 61,7 milljón evrur á "special deal just for you my friend" genginu 210 krónur hver evra. Við dauðlegir fáum í kringum 166 krónur fyrir okkar evrur, sem við verðum að selja, annars getum við átt von á sektum, eða jafnvel fangelsi.

Fyrir u.þ.b. þremur vikum síðan seldi Seðlabankinn að því er mér reiknast til rétt rúmlega 61 milljón evra þ.a. nettó er bankinn með tæpar 700 þúsund evrur í plús, auk þess að "græða" á gengismuninum.

Athyglisvert er að bera saman framboð og eftirspurn í þessum tveimur uppboðum. Í fyrra uppboðinu, þegar evrur voru boðnar fyrir krónur (og verulega takmarkaðar krónur þar sem tilboðsgjafar urðu að geta fært sönnur á samfellda eign á þeim krónum frá því fyrir hrun), var umframeftirspurnin rúmlega 450%.

Umframeftirspurnin þegar krónur voru boðnar fyrir evrur var 11%.

Bendir þetta því miður til lítils annars en gífurlegs flóttaþrýstings úr krónum í evrur.

Fréttatilkynning Seðlabankans frá í gær segir síðan ekkert um það hverjir voru að kaupa þessar krónur á þessum vildarkjörum. Voru það lífeyrissjóðir að láta undan þrýstingi og losa erlendar eignir fyrir íslensk krónubréf? Eða voru það aðrir aðilar á innlendum markaði sem njóta þegar sérkjara undir núverandi gjaldeyrishöftum en gátu núna fengið ennþá betri díl. Voru það mögulega erlendir fjárfestar?

Tæplega voru það Tortólapeningar...

Það er vonandi að fjölmiðlar og greinendur á markaði leiti frekari upplýsinga.

12 ummæli:

  1. Það er ljóst að þeir sem stóðu að þessum viðskiptum eru ekki búnir að gleyma neinum "2007" bókhaldsbrellum.

    Ég hef kvartað yfir þessu til ESA og Samkeppniseftirlitsins(tvö ótengd mál en tengjast aflandskrónum) og vona að þau grípi í taumana.

    SvaraEyða
  2. „Það er vonandi að fjölmiðlar og greinendur á markaði leiti frekari upplýsinga.“

    Áttu von á því?

    Þorsteinn Úlfar Björnsson.

    SvaraEyða
  3. Eins og oft áður er það Viðskiptablaðið sem er með bestu umfjöllunina um þetta á vb.is og mun betri en bæði FB og MBL:

    http://www.vb.is/frett/64324/

    Þar er að vísu ekki fjallað um hlutföllin, en reynt að grennslast fyrir um kaupendur sem neitað er að upplýsa um að öðru leyti en því að lífeyrissjóðir séu þar á meðal...

    SvaraEyða
  4. Sæll Friðrik. Ef við gefum okkur að niðurstaðan í næstu gjaldeyrisútboðum Seðlabankans verði svipuð, væri það þá að þínu viti nóg til að álykta að rétt gengi krónunnar sé hér um bil 210 hver evra? („Rétt“ í þeim skilningi að gengið myndi nálgast þessa tölu ef krónunni væri sleppt lausri.)

    SvaraEyða
  5. Segorian nei, veistu, því miður þá held ég að það væri full mikil bjartsýni. Hins vegar er það vísbending um að núverandi gengi er AÐ MINNSTA KOSTI of lágt skráð, þ.e. gengið þarf að falla um rúman fjórðung í viðbót til að ná þessu gengi. Málið er hins vegar að bæði var í upphaflega útboðinu mjög takmarkaður aðgangur að því, þ.e. hvaða krónueigendur máttu sleppa út, og hins vegar peningaprentunaráhrif verðtryggingarinnar. Hvoru tveggja mun valda frekara hruni gjaldmiðilsins óttast ég. Ef t.d. gjaldeyrishöftin yrðu afnumin á morgun, yrði "rush to the exit" og krónan myndi falla mjög hratt, og eflaust ekki stabiliserast við 210 kallinn, heldur falla mun meira. Það mun valda snarhækkun vöruverðs, sem mun skila sér í hækkun lána, sem aftur mun skila sér hærra vöruverði, auknu peningamagni í umferð (á pappírnum), grafa undan grunni gjaldmiðilsins o.s.frv. o.s.frv.

    SvaraEyða
  6. Það sem kemur mest á óvart í þessum hlutföllum enda er að umframeftirspurn eftir Evrum skuli ekki vera meiri, enda var útboðið eina tækifærið sem hefur myndast fyrir hrjáða krónueigendur í þessu "sovéska" kerfi.

    En það er annað sem aldrei hefur komið skýring á. Hvers vegna í ósköpunum hefur ríkið í samvinnu við bankana ekki farið í útgáfu langtímabréfa í Evru eða annarri erlendri mynt til þessara óþolinmóðu aðila, losað spennuna og farið í kjölfarið beint í afnám haftanna. Það er margbúið að benda á þessa leið enda er áhættan líklega miklu minni en að halda fjárfestunum, sem og öllum landsmönnum, í mikilli óvissu. Krónan mun að sjálfsögðu taka sveiflum í kjölfarið en hún mun gera það hvort eð er.

    SvaraEyða
  7. Nafnlaus, ég held að það sé vegna annars vegar hina miklu takmarkana á það hvaða krónur máttu taka þátt, og hins vegar eflaust einhverjir sem vildu bíða og sjá. En rúmlega 60 milljarðar í eftirspurn samt eru engir smápeningar.

    Útgáfa langtímabréfa í evrum er partur af planinu, en annars vegar eru markaðsaðstæður ekki góðar fyrir slíkt (of há ávöxtunarkrafa) og hins vegar varast menn eins og heitan eldin að fara í þvingunaraðgerðir sem markaðurinn gæti túlkað sem eiginlegt greiðslufall...

    SvaraEyða
  8. Friðrik, hugmyndin gengur einfaldlega út á að semja við þá eigendur krónueignanna sem endilega vilja úr krónunni (þeir eru að mestu þekktir) um að fá Evrubréf til langs tíma á umsömdu gengi og vöxtum. Þeir geta losað sig við bréfin á markaði og afföllin skipta í raun engu máli og hafa engin áhrif á íslenskt hagkerfi. Þetta er ekki meiri þvingun en núverandi gjaldeyrisútboð. Eina áhættan er að erlend endurfjármögnun verði íslenska ríkinu og bönkunum lokuð næstu 5 ár, sem er afar ólíklegt, sbr nýlegt útboð. Ekki er ólíklegt að ECB og AGS myndu verða tilbúnir til að veita stuðning við slíka endurfjármögnun ef svo ólíklega vildi til að þörf yrði á.

    Það er aftur á móti mikil áhætta fólgin í að treysta á núverandi fyrirkomulag, þ.e. að lífeyrissjóðirnir verði tilbúnir til að selja meira af erlendum eignum í næstu útboðum.

    SvaraEyða
  9. Nafnlaus, ég tel mjög líklegt að eitthvað sé búið að kanna í þessum efnum. Ég hugsa að vandamálið séu fyrst og fremst kjörin. Ef nýlegt útboð sýndi eitthvað, þá er það að kjör á markaði eru ekki sérlega kræsileg. Svo er önnur áhætta t.d. vegna þess að málið-sem-ekki-má nefna er að fara dómstólaleiðina...

    SvaraEyða
  10. Þeir sem seldu evrur fengu greitt í löngu verðtryggðu ríkisskuldabréfi sem þeir eru skuldbundnir til að eiga í 5 ár. Það er því ekki skrýtið að gengi í slíkum viðskiptum sé annað en þegar um reiðufé er að ræða.

    SvaraEyða
  11. Vilhjálmur, þátttaka var takmörkuð með ýmsun þátttökuhindrunum. Þess vegna var eftirspurn takmörkuð, þess vegna fékkst annað verð og þess vegna er þetta óeðlilegt. Vegna þess að þátttaka var takmörkuð þá er ekki hægt að álykta nema "takmarkað" út frá þessu útboði.

    SvaraEyða
  12. Vilhjálmur, í fyrsta lagi er 5 ára bréf ekki sérlega langt. Í öðru lagi jafngildir gengismunurinn því að viðkomandi hafi fegnið rúmlega 25% vexti "up-front" og í þriðja lagi ágæta vexta allan tíman á fullt afsláttarverð. Ætli sé til "betri" díll á ríkisskuldabréfum einhversstaðar í veröldinni? Samt er eftirspurnin ekki merkilegri en þetta...

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.