þriðjudagur, 15. júlí 2008

Evra, EES og efldur innri markaður

Í þeim miklu umræðum sem fara fram þessa dagana um möguleikan á upptöku evru sem gjaldmiðil fyrir Ísland hefur þeim rökum verið beitt að upptaka evru eða binding krónunnar við hana sé rökrétt framhald og ákveðin fullnusta á innri markaði EES. Fjórfrelsinu verði þannig veittur betri byr undir báða vængi, sérstaklega hvað varðar frjálst flæði fjármagns, með tengingu við evruna.

Ef skilvirkni innri markaðarins er raunveruleg ástæða þá vantar að ræða skref í þeim efnum sem jafnvel mætti telja nauðsynlega forsendu sem þurfi að uppfylla áður en myntsamstarfsskrefið er stigið.

Aukinni skilvirkni innri markaðarins verður fyrst náð með myndun tollabandalags meðal þátttökuríkjanna.

Munurinn á innri markaði EES annars vegar og ESB hins vegar er s.s. tvíþættur, annars vegar tollabandalagið og hins vegar myntsamstarfið. Tollabandalagið er án undanþága, þ.e. öll aðildarríki ESB eru þátttakendur í því. Það er ein grunnforsenda ESB samstarfsins. Raunverulegur innri markaður næst fyrst með tollabandalagi. Myntsamstarf er ekki nauðsynleg forsenda tollabandalags, en velta má fyrir sér hvort tollabandalag, í samstarfi eins og EES, væri ekki nauðsynleg forsenda myntsamstarfs.

Þess eru dæmi að ESB geri tollbandalagssamninga við þriðju ríki, s.s. Tyrkland.

--------------

Í viðskiptablaðinu þriðjudaginn 15. júli skrifar Andrés Magnússon úr glerhúsinu í pistli sem nefnist "Annað hvort eða". Þar er fjallað um evruumræðuna. Andrés veltir upp eftirfarandi valkosti:

En svo er enn einn kosturinn í þessari stöðu – telji menn að evran feli í sér lausn Íslendinga – sem af einhverri ástæðu hefur ekki verið ræddur. Í stað þess að Ísland gangi í Evrópusambandið, í Myntbandalagið eða taki evruna upp einhliða, væri einfaldlega unnt að samþykkja lög þess efnis að evran sé lögeyrir á Íslandi jafnhliða krónunni. Það hefði í för með sér nánast alla kosti aðildar að Myntbandalaginu, fyrir utan það að Seðlabanki Evrópu er ekki skuldbundinn til þess að vera lánveitandi til þrautavara. Slík aðgerð brýtur ekki gegn stofnsáttmála og reglum Myntbandalagsins og er ekki einhliða evruupptaka.
***
Því skal á engan hátt haldið fram að slík aðgerð væri hin eina rétta. Frekar en aðrar. En það er máske mergurinn málsins, að í þessum efnum sem flestum öðrum er ekki annað hvort eða.


Þetta er fín vangavelta hjá Andrési og hana mætti þess vegna taka skrefinu lengra og heimila notkun fleiri gjaldmiðla sem lögeyris, og þá til viðbótar bæði dollar (fyrir forsætisráðherra) og svissneskan franka (fyrir Björgúlf Thor og Guðna Ágústsson). Þetta mætti gera án mikillar fyrirhafnar og án þess að fá "leyfi" að utan. Jafnhliða á að gefa öllum fyrirtækjum kost á því að gera upp og skrá sitt hlutafé í þeirri mynt sem þeim sýnist, án sérstakra afskipta hins opinbera. Hið opinbera gæti hins vegar stutt slíka fjölmyntavæðingu, m.a. með því að heimila uppgjör skatta og annarra opinberra gjalda í erlendum gjaldmiðli.

Gamla góða samkeppnin myndi þannig á endanum skera úr um hvaða mynt hugnast okkur best - krónan eða eitthvað annað. Fjölmyntavæðingin yrði hins vegar án efa til þess að styrkja bæði krónu og hagkerfi til lengri tíma litið þar sem raunverulegir alþjóðlega viðurkenndir verðmiðar myndu fást á fleiri þætti hins íslenska hagkerfis.

4 ummæli:

  1. Góð hugmynd. Það vantar einmitt meira fútt í íslenska peningastefnu. Meira fjaðrafok.

    Rómverji

    SvaraEyða
  2. Skynsamlegt og þörf ábending um tollabandalagið og ekki má gleyma virðisaukaskattssamstarfi. Þá fyrst er kominn innri markaður
    Þórður

    SvaraEyða
  3. Það er enginn gjaldmiðill bannaður á Íslandi. Í lögeyri felst að þá mynt er skilt að taka sem greiðslu í viðskiptum.

    Jón Þór

    SvaraEyða
  4. Með lögeyri má inna hvers konar greiðslu, hvort heldur ræðir um kaup á einni með öllu, greiðslu lána eða greiðslu skatta. Þetta síðastnefnda myndi sjálfsagt ríða baggamuninn.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.