laugardagur, 18. apríl 2009

Milljón á mánuði

Fyrir 21 mánuði átti ónefnd fjölskylda í ónefndum svefnbæ í grennd við ónefnda höfuðborg ónefnds lands lítið hús.

Það var verðmetið á 35 milljónir og á því hvíldu lán að upphæð samtals 28 milljónir.

Eigið fé hinnar ónefndu fjölskyldu var því 7 milljónir, 20% af markaðsvirði eignarinnar.

Í dag er húsið verðmetið á 25 milljónir.

Lánin, verðtryggð í íslenskum krónum, eru komin í 34,5 milljónir.

Heildarafborganir lánanna þennan 21 mánuð var um 4,5 milljónir.

Eiginfjárrýrnunin á 21 mánuði 16,5 milljónir.

Heildarkostnaður við að búa í húsinu síðastliðin 21 mánuð 21 milljón.

Milljón á mánuði.

Hvað kostaði að búa í þínu?

11 ummæli:

 1. Það kostar mun minna að búa í mínu húsi, enda tek ég ekki 28 milljónir króna í lán.

  Ég horfði á þátt á stöð2 um daginn þar sem ungt fólk var að tjá sig. Það hafði keypt sér íbúð sem kostaði 27 milljónir og tók til þess 36 milljón króna lán.

  Það hefur því tekið 100% lán fyrir 135fm íbúð og Lexus, nýskriðið úr námi.
  Ég vorkenni ekki svoleiðis fólki.

  Ég á líka bágt með að vorkenna fólki sem hugsar ekki út í að aðstæður geti breyst og veður út í lífsstíl sem það hefur engin efni á.

  Á þessum 21 mánaðar tímabili sem þú nefnir, hefur greiðslubyrði mín lækkað úr 60.000kr/mán í 30.000kr/mán því ég hef verið að greiða niður af mínum höfuðstól. Það get ég vegna þess að ég ana ekki út í meira en ég ræð við og reikna með því að aðstæður geti breyst.

  Ég legg til að skoðað verði hvort fólk eigi í raun að halda fjárræði sínu því mér sýnist sem ansi margir hafi ekki hugsað nokkurn skapaðan hlut annan en að vera fínni en nágranninn.

  SvaraEyða
 2. Nafnlaus, ég er glaður fyrir þína hönd, en þú virðist alveg misskilja punktinn með pistlinum...
  Hafa einvherjir reist sér hurðarás um öxl? Vissulega.
  Hafa þeir sem lánuðu viðkomandi verið óábyrgir í sínum lánveitingum? Án efa.
  En fyrir þorra landsmanna sem á umliðnum árum gert lítið annað en að lifa lífinu í þokkalegri sátt við sig og sína er veruleikinn sá sem lýst er hér að ofan. Það er algert aukaatriði hvort lánið var 8, 18, eða 28 milljónir. Hlutfallslega hefur fólk verið að lenda í nákvæmlega þessu: kaupa fasteign með hefðbundnu hlutfalli lánsfjár á móti eigin fé og situr nú uppi með, á innan við tveimur árum, eigið fé sitt horfið, skuldirnar margfaldaðar, sér ekki högg á vatni eftir skilvísar afborganir allan tíman (sem hafa bara farið hækkandi) og eignin sjálf hefur fallið um tugi prósenta í verði.
  Þetta hefur ekkert með Lexusa að gera eða það að vera fínni en nágranninn.

  SvaraEyða
 3. Auðvitað hefur það með Lexusa og stíl að gera þegar fólk kaupir sér 135fm íbúð nýkomið úr námi og tekur sér 36 milljón króna lán fyrir 27 milljón króna íbúð.

  Fólk verður að skoða dæmið til enda og reikna með því að hlutirnir fari ekki alltaf eins og excel segir til um.

  Fólk getur veikst, börn þeirra geta veikst, verðbólga getur skollið á, náttúruhamfarir, atvinnumissir o.s.frv... þetta nennti fólk bara ekki að hugsa um að því er virðist.

  nú skall á 18% verðbólga, árið sem ég keypti skall á 11% verðbólga, þ.e. rúmlega helmingi minni. ekki hvartaði ég, ég man ekki til þess að neinn hafi kvartað þá. Og af hverju kvartaði enginn, því fólk réði við þetta, það tók ekki lán sem það réði ekki við og reiknaði með áföllum.

  SvaraEyða
 4. Eiga menn sem sagt að lifa lífinu miðað við worst case scenario, eða öllu heldur fullkomið hrun?

  Gera öll plön miðað við gengishrun, verðbólgu, fjöldaatvinnuleysi, lánsfjárþurrð, hrun í verðmæti allra eigna, engisprettufaraldra og farsóttir?

  Ekki fara með svona vitleysu.

  Það er ekkert óeðlilegt við það að taka 28 milljón króna langtímalán við kaup á 35 milljón króna eign, þannig séð. Skal fúslega viðurkenna að það er galið að slá 36 milljón króna lán fyrir 27 milljón króna kaupum, en það er ekki vandamál dagsins.

  Vandamál dagsins er hvernig ætlum við að koma okkur út úr þessu. Ef fólk er hneppt á klafa þess að geta aldrei selt fasteign sína og fengið fyrir skuldum og er þar með neytt til að borga of hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir lána, þá verður ósköp langt þangað til rofar til í efnahagslífinu og við töpum öll.

  Eflaust er fullt af liði sem keypti of dýrt og fékk of há lán miðað við tekjur - og það verður bara að sníða sér stakk eftir vexti og flytja í minna - en í augnablikinu er fasteignaverð þannig að við þessu fólki blasir ekkert annað en fjandsamlegt gjaldþrot, þar sem eignin er á brunaútsölu.

  Eignir annars fólks á brunaútsölu lækkar síðan verð eigna þeirra sem hegðuðu sér skynsamlega og bindur þá þar með á klafa.

  Það er málið. Þetta snýst um meðaltöl og það að hrein eign almennings sé að meðaltali að þurrkast út er alvöru vandamál sem kallar á lausnir (helst án smjörklípa um að einhverjir einhvers staðar hafi gert einhverja gloríu).

  SvaraEyða
 5. Vissulega er eignarýrnunin skelfileg, en samt frekar popúlískt að setja þetta fram með þessum hætti.

  Fyrir utan bankahrunið, þá var hér mjög óeðlileg fasteignabóla á árunum 2003-2007, aðallega í boði framsóknarflokksins en auðvitað spiluðu sjallarnir með og bankarnir bættu svo um betur.

  Á þeim tíma hækkaði húsnæðisverð meira en góðu hófi gegnir, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hversu margir skyldu þá hafa átt húseignir sem tvöfölduðust í verði? - þá mætti með sömu rökum segja að þeir hafi haft meira en milljón á mánuði í tekjur fyrir það eitt að eiga húseign sem hækkaði í verði...

  Og nú vilja sömu framsóknarmenn (eða er það nýir framsóknarmenn...?) seilast í vasa þeirra sem fóru gætilega í fjármálum og færa þeim sem tóku óhófleg lán hundruð milljarða í formi 20% leiðarinnar.

  Sem betur fer sjá flestir í gegnum þetta og vita að þessi 20% koma ekki af himnum ofan, heldur yrðu sótt til okkar á öðrum vígstöðvum.

  SvaraEyða
 6. Lausnin felst í því að koma okkur út úr efnahagsvanda þjóðarbúsins. Með því að slá lán eða víxla á skammtímavandann, einsog 20% afskriftir eru, myndum við gera viðsnúning efnahagslífsins erfiðari og fresta framförum um nokkur ár. Það græðir enginn á því til lengri tíma litið.

  Þeir sem eiga erfitt með að borga hærri afborganir geta nú lengt í lánum og borgað svipaðar mánaðagreiður og fyrir hrun. Auðvitað er fúlt að þurfa að lengja í lánum, en ef vel tekst til í að rétta af þjóðarskútuna mun a) fasteignaverð hækka á ný, b) með minni verðbólgu mun vertryggingin verða hverfandi og c) með sterkara gengi munu myntkörfulánin ganga til baka.

  Það er því alltof snemmt að tala um svona mikla eignarýrnun, ef vel er haldið á spilum er alveg eins líklegt að hún gangi til baka á einhverjum árum.

  En til að svo verði, þurfum við auðvitað að sækja um aðild að Evrópusambandinu!

  SvaraEyða
 7. Evreka, ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að tala fyrir 20% leiðinni.

  Held hins vegar að eignarýrnunin sé staðreynd, að fasteignaverð hér hafi verið komið í tóma dellu og að það eigi (og þurfi) að lækka verulega enn til að ná skynsamlegum stað.

  Önnur eignarýrnun í fjárfestingum og lífeyrissparnaði er hins vegar staðreynd.

  Það sem ég óttast er að allar leiðir til lengingar lána verði greiddar með minni umsvifum atvinnulífs vegna of hás hlutfalls ráðstöfunartekna í nauðþurftabúskap.

  SvaraEyða
 8. Eignarrýrnunin verður miklu meiri. Það er því kannski nær að spyrja hvað mun kosta að búa í þínu húsnæði næsta kjörtímabil. Við á höfuðborgarsvæðinu erum ekki að fara aftur í tíman fyrir einkavæðingu bankanna varðandi eignarverð, heldur erum við að færast yfir í eignarverð það sem hefur haldist í sveitarfélögum úti á landi þar sem engin efnahagsleg forsenda er fyrir fjölda húsnæðis.

  Með komandi fermetraverði upp á 100 þúsund krónur verður verðið á þessarri eign komið niður í 10-15 milljónir á nokkrum árum og í slíkri stöðu verða fáir sem geta selt og því enginn sem getur keypt.

  Markaðsmekanisminn hefur reynst okkur mjög slappt verkfæri við útdeilingu húsnæðis þess sem samfélagið byggir. Þegar að ÍLS tekur yfir stóran hluta íbúða á höfuðborgarsvæðinu á komandi kjörtímabili þarf að koma þeim fyrir í félagslegu íbúðarkerfi sem getur gert okkur kleyft að búa á þessarri fallegu eyju án þess að setja okkur í yfirvofandi gjaldþrotahættu.

  SvaraEyða
 9. Það er dálítið merkilegt að sjá viðbrögð Íslendinga við þessu ástandi. Allt þetta var hægt að sjá fyrir og þegar fólk fer út í stórar fjárfestingar þá verður það að skoða þann möguleika að allt fari á versta veg. Að vísu er glæpsamlegt að húsnæðislán séu verðtryggð en ekki launin, en þetta vita allir þegar þeir taka lán hér á landi. Burtséð frá því þá á fólk ekki að kaupa fasteign nema það sé tilbúið til að eiga hana til lengri tíma ef þess þarf. Á þeim tíma geta allar breyturnar sveiflast, verð á húsnæði - verðbólga - gengi. Það gerist í öllum löndum. Það þurfti ekki mikla sérfræðinga til að sjá að þessi mikla þensla í húsnæðisverði var bóla sem þyrfti að leiðréttast og auk þess þurfti bara að fara 6-7 ár aftur í tímann tl að sjá dæmi um að USD fór í 110 kr. Samt sem áður var fólk til í að taka þessi lán, líka erlend, og borga þessi háu verð fyrir húsnæði. Verð á húsnæði hefði ekki farið svona hánn nema fólk hefði verið tilbúið að borga þessi háu verð. Héldu allir að verð á húsnæði mundi bara hækka endalaust þeir mundu bara græða endalaust á því að taka svona áhættu? Verður fólk ekki að taka ábyrgð gerða sinna? Þegar allt var á uppleið þá varaði enginn við þessum miklu hækkunum. Þar sem ég þekki til hafa hús sveiflast frá milljón USD niður í hálfa milljón og svo upp í eina milljón aftur á 10 ára tímabili. Hér ætlar allt vitlaust að verða þegar brjálæðið sveiflast í hina áttina. Við högum okkur ekkert sérstaklega gáfulega - ekki heldur í kjörklefanum.

  SvaraEyða
 10. Sigurður Þórðarson19. apríl 2009 kl. 06:51

  Í útlöndum segir einn hér, en í útlöndum er ekki það sem kallast vístala á lán og í útlöndum eru dollarar og pund og evrur, sem talin eru til skárri gjaldmiðla. Hér er allt í einu ónýtur gjaldmiðill, verðtrygging á skuldir, virðisrýrnun eigna og atvinnuleysi. Og við blasir áframhald á því.
  Það fólk sem tók lán í góðri trú á undanförnum árum vissi ekki að landið væri gjaldþrota og bankar lögðu fyrir það útreikninga á "worst case cenario" svo hægt væri að standast lántökur.
  Strax á árinu 2006 og jafnvel fyrr var verið að reyna að benda á vanda þjóðarinnar, en flestir sem ábyrgð höfðu á ástandinu voru allt fram á síðasta dag að halda því leyndu með ýmsum rökum.
  Það er hart fyrir fólk að þurfa að viðurkenna, að tuga ára sérfræðinám og vinna skili ekki því sem upp var lagt með, nema skuldaklafa það sem eftir lifir ævi.
  Ég hvet þá sem kunnu að sníða sér stakk eftir vexti að gefa okkur hinum ráð, sem erum svo einföld, að treysta því sem fyrir okkur er lagt, hvernig þeir fóru að því að halda réttri braut.

  SvaraEyða
 11. Í sept '07 kaupverð 18 millj. lítil íbúð í 101. Útborgun 2 millj. rest myntkarfa í jeny franka og evru, greiðslubyrði 104 þús, gerði ráð fyrir SVEIFLUM allt að 40%. Í dag er lán 36 millj. og fryst, afborgun í okt '08 286 þús. og hækkunin stöðug fra´sept '07. Tekjur hafa lækkað talsvert og varla hægt að segja að greiðslugetan sé meiri en hún var í upphafi.

  Ef íbúðaverð lækkar eins og seðlabankinn spáir þá get ég búist við að lítil eign ( 49 fm. ) í miðbæ rvk. lækki um nálægt 30%. 13 millj. króna eign með áhvilandi 36 millj. miðað við (fals) gengi isk seðlab. en er sennilega yfir 50 millj.
  Ég er kominn í skuldafangelsi næsta áratuginn, eða gjaldþrota. Helv...fokking fokk!!

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.