mánudagur, 27. apríl 2009

Elítan

Mummi fór til læknis. Hann var illa haldinn eftir áralangt sukklíferni. Hann var skoðaður af fjölda sérfræðinga, sendur í blóð-, þvag- og önnur próf.

Niðurstaða sérfræðinganna í læknastétt var svo að segja einróma. "Mummi, þú verður að hætta að drekka. Þú verður að hætta að reykja. Þú verður að taka upp hollari lifnaðarhætti, fara í líkamsrækt og borða hollari mat, annars endar þetta illa hjá þér fyrr en síðar."

Þetta var ekki niðurstaðan eða ráðleggingin sem Mummi vildi heyra. "Ég verð bara að segja það ég gagnrýni einhliða, elítukennda umfjöllun ákveðinnar hirðar hér í læknaheiminum í þessu máli" sagði Mummi og strunsaði út.

Reyndar var einn grasalæknir sem hafði aðra skoðun og sagði Mumma að hann gæti nagað ákveðna tegund ýlustráa til að vinna gegn meintum vondum áhrifum meint sukklífernis.

Skömmu síðar mátti sjá legsteinn Mumma í nálægum kirkjugarði með áletruninni "Hér hvílir Mummi, frá okkur tekinn langt fyrir aldur fram. Hann var sjálfstæður og fullvalda allt til enda og lét engan segja sér fyrir verkum. Síst af öllu einhverjar elítur!"

8 ummæli:

 1. Nokkrir laeknar sem sótt höfdu námskeid í motivation taekni voru bednir ad tala vid Mumma. Their útskýrdu fyrir honum ad svona breytingar eru oft kvalafullar og taka tíma. Their bentu honum á ýmis medferdarúrraedi er lutu ad motivation taekni og postiv reinforcment. Á reykningarhópa, lyfjamedferdir og einkathjálfara. Mumma fansst thessi haega nálgun áhugaverd og úr vard ad thverfaglegur hópur var stofnadur til ad adstoda Mumma. Vola! Til vard nefnd og Mummi hélt áfram ad leita til laeknanna.......og líka sukka....um sinn :)

  SvaraEyða
 2. Kannski sá Mummi bara í gegnum það hverskonar skottulækni hann var hjá. Kannski ákvað hann sjálfur að leita sér upplýsinga og komst að því að meðferðarúrræðin sem að læknirinn lagði til voru fjarri því óumdeild og að margir sem höfðu undirgengist sömu meðferð voru fjarri því heilbrigðari á eftir, jafnvel þvert á móti í sumum tilfellum.

  SvaraEyða
 3. Við bókmenntafræðingarnir viljum alltaf hafa á hreinu hver sameiginlegur grundvöllur viðlíkinga í allegórískum texta. Af ummælum og eftirmælum Mumma finnst mér augljóst að hann á að vera SJS. Hins vegar eru forsendur dauða hans ekki í samræmi við pólistískan feril hans. SJS hefur ekki staðið fyrir sukkinu í samfélaginu. Þess vegna er ég svolítið ringlaður og spyr: Er Mummi kannski Framsóknarflokkurinn? :)

  Tryggvi Már

  SvaraEyða
 4. Mummi hins vegar skilur auðvitað ekki að þó hann hafi ekki sukkað þá þarf samt að taka til eftir partýið og það verður ekki gert með því að sópa draslinu til og frá innan íbúðarinnar. Hér þurfa væntanlega einhver utanaðkomandi afskipti að vera t.d. er gott í slíkum tilfellum að fara út með ruslið - það kemur ruslabíll og hirðir draslið. Þess ber að geta að um rekstur ruslabílsins standa einmitt mörg heimili sem bera sameiginlegan hag af því að reka þessa þjóðþrifaþjónustu - og taka sameiginlega ákvörðun um hvenær þjónustan fer fram. Þau standa líka sameiginlega að kostnaði hennar.

  Ægir

  SvaraEyða
 5. Mummi er áreiðanlega framsóknarmaður. Hann vildi ekki breyta um lifnaðarhætti nema að sérfræðingurinn gerði það líka og fengi sér grænt bindi að auki. Svo vildi hann fá það vottfest að hann yrði 250 ára ef hann færi að ráðum sérfræðingsins og ......

  SvaraEyða
 6. Svo þú ert sammála Steingrími. Á sama hátt og sauðsvartur almúginn ekki er hæfur til að gefa Mumma sjúkdómsgreiningu er hann heldur ekki hæfur til að greina um ESB samninginn, og verður þá væntanlega að treysta á sérfræðingana eins og Mummi.

  SvaraEyða
 7. Halló!
  Mummi er íslenska þjóðin! Þetta er spá um að við munum ekki fara í aðildaviðræður (þökk sé VG) og fá yfir okkur annað hrun.

  SvaraEyða
 8. Orð læknanna var ekki niðurstaðan eða ráðleggingin sem Mummi vildi heyra. Hann hafði engan áhuga á að lækna sig sjálfur og vildi miklu fremur láta aðra sjá um það. Fyrir lifrarskemmdir alkóhóldrykkju vildi hann frekar fá lifur annars staðar, fyrir sykursýkina ýmiss konar sykursýkislyf og nógu mikið af þeim svo hann geti haldið uppteknum hætti, útaf reykingunum púst er hjálpuðu mæðinni og hjartalyf til verndunnar æðaþrengsla í hjarta. Fyrir brjóstsviðann offitunnar vegna bara nóg af magalyfjum.

  Mummi varð krónískur sjúklingur háður ýmisskonar lyfjum og var almennt upp á góðmennsku og greiðvirkni annarra kominn. Lyfin kostuðu hann fugl og marga fiska. Lyfjafyrirtækjunum þóttu fiskarnir góðir. Mumma fannst hann vera fórnarlamb.

  Ég held að Íslendingum sé best borgið með því að taka sjálfir til heima hjá sér og lækna sín mein pillulaust með hollari þjóðarlífsstíl og ábyrgð á eigin þjóðheilsu.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.