þriðjudagur, 7. apríl 2009

Eftirlits ESB

Það er nett ESB-grýlufrétt á pressan.is þar sem segir frá nýrri "...tilskipun frá Evrópusambandinu til aðildarlanda sinna gerir netþjónustuaðila skylduga til að vista gögn um netnotkun áskrifenda sinna og eru þeir skuldbundnir til að geyma gögnin í að minnsta kosti ár." Samkvæmt fréttinni er tilskipunin umdeild og er m.a. vitnað í "...Jim Killock sem er forsvarsmaður samtakanna Open rights group sem beita sér fyrir einstaklingsfrelsi segir tilskipunina vera "brálæðislega" og að hún geti mögulega verið skaðleg einstaklingsfrelsinu."

Það sem veldur þessum titringi er m.a. að í "reglugerðinni felst meðal annars að skrár um hvert fólk sendir tölvupóst og við hverja talað er í netsímtali verða vistaðar. Innihald tölvupóstsins og símtalanna er þó ekki vistað."

Upplýsingar af þessu tagi geta vissulega verið viðkvæmar og við almenningur eigum að sjálfsögðu að vera meðvituð og vakandi yfir eftirlitsheimildum stjórnvalda.

Fréttin á pressan.is hefði hins vegar aukist að gæðum ef eftirfarandi hefði komið fram:

Í fyrsta lagi er umrædd reglugerð ekki ný. Hún var sett árið 2006 og tók gildi í september 2007.

Í öðru lagi settu margar þjóðir fyrirvara um gildistöku hennar, eða ákveðinna þátta hennar eins og þess sem vísað er til í fréttinni, þegar hún var sett. Þá má sjá í lok reglugerðarinnar.

Í þriðja lagi var nákvæmlega samskonar heimild sett í íslensk lög með breytingu á fjarskiptalögum árið 2005, en þar segir í 42.gr. 3.mgr.:

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna sakamála og almannaöryggis, varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notandanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, dagsetningar þeirra, hverjum var tengst og magn gagnaflutnings til viðkomandi notanda. Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja vörslu framangreindra gagna og er óheimilt að nota eða afhenda umræddar upplýsingar öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi í samræmi við ákvæði 3. mgr. 47. gr. Eyða ber umferðargögnunum að þessum tíma liðnum enda sé ekki þörf fyrir þau á grundvelli 2. mgr.

Evrópureglugerðin setur geymslukröfuna upp í eitt ár sem er að vísu hálfu ári lengri tími en skv. fjarskiptalögum.

Íslensku lögin eru sett ári áður en Evrópureglugerðin var sett og því má segja að ESB hafi með henni verið að fylgja okkar fordæmi í þessum efnum.

4 ummæli:

  1. Eggert Herbertsson7. apríl 2009 kl. 11:34

    Sæll,

    Óháð þessari færslu þinni. Hvað fannst þér um málflutning Gunnars Braga um ESB í gær? Hann er klárlega ekki á því að fara í neinar viðræður.
    Bendi á bloggfærslu Gunnars Axels um það: http://gunnaraxel.blog.is/blog/gunnaraxel/entry/847218/

    SvaraEyða
  2. Eggert,

    Mér var ekki skemmt yfir þessari þvoglumæltu þvælu Gunnars Braga varðandi ESB stefnu flokksins. Hann veit betur. Stefna flokksins er ekki einhverjar óskilgreindar "viðræður" við ESB heldur að farið verði í aðildarviðræður, eða eins og segir í alyktun flokksþings: "Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi..." Þokkalega skýrt ekki satt?
    Gunnar Bragi var jú einn af þeim sem kokm að samningu ályktunarinnar og fékk jú í gegn á þinginu að "markmiðum" yrði breytt í "skilyrði". Svona málflutningur er honum ekki til sóma. Hann hefði vel getað farið rétt með stefnu flokksins, en hins vegar tekið fram sínar persónulegu efasemdir. En fyrir oddvita lista að skrumstkæla stefnu flokksins með þessum hætti var óásættanlegt.

    SvaraEyða
  3. Eggert Herbertsson7. apríl 2009 kl. 13:45

    Takk fyrir heiðarlegt svar.

    SvaraEyða
  4. bla bla bla. Sástu ekki mótmælin í gær þar sem sjómenn í ESB voru að mótmæla hversu mikið er búið að þrengja að þeim? Er ekkert að óttast í þeim efnuM?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.