sunnudagur, 19. apríl 2009

Enginn trúverðugleiki

Á blaðsíðu 5 í Morgunblaði dagsins er heilsíðu auglýsing með mynd af formanni Sjálfstæðisflokksins.

Yfirskrift auglýsingarinnar er "Trúverðug leið að upptöku evru."

Í texta er síðan lagt upp með þá hugmynd að hægt sé að taka upp evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðin og í "sátt og samvinnu" við ESB.

Á blaðsíðu 35 í sama Morgunblaði er í Reykjavíkurbréfi fjallað um þessa tillögu Sjálfstæðisflokksins. Full ástæða er til að staldra við þá umfjöllun, en þar segir:

Sjálfstæðisflokkurinn kemur hins vegar með nýtt útspil. Hann vill samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að Ísland fái að taka upp evru. Rökstuðningurinn fyrir því er eftirfarandi: "Helsti kostur þess að taka upp nánara samstarf við Evrópusambandið er að mati flestra sá efnahagslegi stöðugleiki er fælist í að geta tekið upp hinn sameiginlega gjaldmiðil Evrópusambandsins, evruna. Evrópusambandið hefur hins vegar ekki verið til viðræðu til þessa um að önnur ríki taki upp evru án fullrar aðildar að sambandinu. Sú staða virðist hins vegar vera að breytast.

Í nýlegri skýrslu á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hvatt til að Evrópusambandið slaki verulega á þeim skilyrðum sem sett eru fyrir evruaðild þannig að ríki í Mið- og Austur-Evrópu geti tekið upp evru í stað núverandi gjaldmiðla."

Hvaða heimildir ætli fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Evrópunefndinni hafi fyrir því að afstaða ESB til evruupptöku ríkja utan sambandsins sé að breytast? Hinn 6. apríl birti Financial Times eina frétt um skýrslu IMF (sem talsmenn sjóðsins neita reyndar að tjá sig um). Samkvæmt fréttinni leggur sjóðurinn til að slakað verði á skilyrðum fyrir upptöku evrunnar gagnvart ríkjum, sem þegar eru gengin í Evrópusambandið. Þar kemur ekkert fram um breytta afstöðu ESB gagnvart evruupptöku ríkja utan sambandsins. Og raunar kemur skýrt fram í fréttinni að evruríkin og Seðlabanki Evrópu séu á móti því að slaka þannig á kröfum gagnvart aðildarríkjum ESB í Austur-Evrópu.

Sérálit sjálfstæðismanna virðist því reist á hæpnum forsendum. Það athyglisverðasta við það er að með því viðurkennir Sjálfstæðisflokkurinn að krónan dugi ekki og Ísland þurfi evru. Hvað gerist þá eftir að látið verður á það reyna hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti hjálpað okkur að fá evruna án þess að ganga í ESB? Ef það gengur ekki, hvaða ályktun ætla sjálfstæðismenn að draga af því? Að krónan verði að duga? Eða að eina leiðin til að fá nothæfan gjaldmiðil sé að ganga í Evrópusambandið? Af hverju geta menn ekki horfzt í augu við staðreyndir í stað þess að reyna að kaupa sér tíma með því að skálda einhvern gerviraunveruleika í utanríkismálum?

Feitletranir eru mínar.

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins veitir þessu útspili Sjálfstæðisflokksins hreint náðarhögg. Hún er afskrifuð sem veruleikafirring – endurpeglar "gerviraunveruleika í utanríkismálum."

Það er kannski huggun harmi gegn að þessi aðferðafræði "samstarfs, sátta og samvinnu" er snöggtum skárri en þjófsleiðin, einhliða upptaka evru, sem hingað til hefur verið mál málanna.

Það er þó gott að menn eru búnir að átta sig á því að það er ekki hægt að stela sér stöðugleika úr vasa annarra.

-------------------

Í þessu samhengi er líka rétt að rifja upp orð Bjarna Benediktssonar í viðtali við Fréttablaðið í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins:

Bjarni er efins um að hægt sé að auka stöðugleika hér á landi með krónunni og ekki verði lengur umflúið að taka afstöðu til ESB aðildar. „Rætt hefur verið um einhliða upptöku annarrar myntar, en ég tel að í gjaldmiðilsmálum sé enginn kostur jafn sterkur og evran með ESB-aðild í stað krónunnar," segir hann.

4 ummæli:

  1. Jóhannes:
    Það er merkilegt hvað Sjálfstæðisflokkurinn mætir máttlaus til kosninga. Skýringin gæti verið bullandi ágreiningur innan flokksins í veigamiklum málum. Það er t.d. kostulegt að lesa blogg eins af frammámönnum flokksins í ESB málum:

    http://altice.blog.is/blog/altice/entry/856702/

    Hann vill einfaldlega afhausa alla þá sem vilja fara í aðildarviðræður við ESB, væntanlega Benedikt Jóhannesson og Vilhjálm Egilsson þar á meðal.

    Þar sem mér er sagt að þessi ágæti maður eigi stóran hóp skoðanabræðra innan Sjálfstæðisflokksins er hugsanlegt að stefnu flokksins sé raunverulega að finna á vefsíðu hans.

    SvaraEyða
  2. Er eyðandi orðum á þennan FLokk?

    SvaraEyða
  3. Sammála, þetta nýjasta "útspil" þeirra í Evrópu/gjaldmiðlamálum er hreinasti dónaskapur við upplýsta umræðu.
    Þeir hljóta jú að vita betur. En með þessu er verið að reyna að rugla kjósendur á allra síðustu metrunum fyrir kosnginar. Tvennt er mjög alvarlegt við þessa "tillögu":

    1. Hún hefur aðeins verið reifuð af hálfu IMF fyrir þau ríki sem þegar eru ÞEGAR ORÐIN AÐILDARRÍKI ESB. Sem sagt, engan veginn í boði fyrir Ísland (nema þá að ganga í ESB, en það vilja Sjallar auðvitað ekki...)

    2. Hugmyndin var strax slegin út af borðinu sem raunhæfur möguleiki, af sjálfum Evrópska seðlabankanum.

    Þetta eiga Illugi og Bjarni Ben að vita. Ég veit varla hvort er annars verra, ef þeir vita eða vita ekki...

    En þeir eru engu að síður að drepa málum á dreif, að koma með fullkomlega óraunhæfar hugmyndir - og það korteri fyrir kosningar!

    Sorry, strákar, þetta er bara ekki boðlegt.

    SvaraEyða
  4. Er fólk byrjað að lesa moggann eins og Pravda i den? Óljós skilaboð, dæmisögur og textrýni. Ekki gera hlutina flókna. Mogginn er flokksblað, x-D er íslenska fjármagnið. Íslenska fjármagnið vill ekki samkeppni frá erlenda fjárnmagninu (Evrópusambandinu).

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.