sunnudagur, 5. apríl 2009

Val Evrópusinnaðs sjálfstæðisfólks

Það hefur ekki farið dult að það sjálfstæðisfólk sem hlynnt er umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu á erfiða daga. Landsfundurinn um síðustu helgi varð þeim gríðarleg vonbrigði, eins og endurspeglast vel í leiðara ritstjóra Fréttablaðsins, Þorsteins Pálssonar, frá því síðasta þriðjudag, 31. mars.

Í þeim leiðara segir meðal annars um landsfund Sjálfstæðisflokksins:

Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði algjörlega aðild að Evrópusambandinu.

Málamiðlunartillaga fráfarandi formanns var útvötnuð. Fari svo að ríkisstjórn taki málið upp á Alþingi leggur landsfundur Sjálfstæðisflokksins til að farin verði flókin tafaleið með tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum.

Að því leyti sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins lokar ekki á aðild er framvinda málsins og frumkvæði lagt í hendur VG. Þannig hafa bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, með gagnstæðum formerkjum, gert Steingrím Sigfússon að leiðarstjörnu landsins í Evrópumálum og um leið um lausn peningastefnunnar.

Ljóst er af þessum orðum ritstjórans, sem orðinn er einn skeleggasti talsmaður umsóknar Íslands um aðild að ESB, að hann telur stefnu flokks síns í Evrópumálum hreint fíaskó.

Og að framtíð málsins, og þar með þjóðarinnar, sé þannig algerlega í höndum Vinstri-grænna og Steingríms J. Sigfússonar.

Eins merkilegt og það nú er að þá er að finna innan Sjálfstæðisflokksins eldheitustu stuðningsmenn aðildar Íslands að ESB. Þetta ágæta fólk stendur nú frammi fyrir þeim valkosti að taka þjóðarhag fram yfir flokkshagsmuni.

Ef Evrópusinnuðu sjálfstæðisfólki er alvara með þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu, á það ágæta fólk að beina atkvæði sínu þessar kosningar til annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins.

Þau eiga tvo skýra valkosti – þá flokka sem hafa aðildarumsókn skýrt og afdráttarlaust á sínum stefnuskrám – Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna.

Útkoma þessara tveggja flokka í kosningunum verður það sem fyrst og fremst ræður því hvort sótt verði um aðild að Evrópusambandinu strax í kjölfar kosninga.

Það liggur þegar fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn er úti í kuldanum að minnsta kosti næsta kjörtímabil. Allir aðrir flokkar hafa lýst því yfir að þeim hugnist ekki stjórnarþátttaka með flokknum – og eins og áður sagði, Evrópustefna flokksins er algert fíaskó.

Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum verður þannig atkvæði með áhrifaleysi.

Atkvæði greitt Samfylkingunni mun styrkja ESB málstaðinn, en mun ekki draga úr úrslitaáhrifum Vinstri grænna.

Atkvæði greitt Framsóknarflokknum mun hins vegar hvorutveggja styrkja ESB málstaðinn og draga úr líkum á ægivaldi Vinstri grænna í Evrópumálum, og reyndar öðrum þjóðþrifamálum.

Evrópusinnað Sjálfstæðisfólk getur með atkvæði greitt Framsóknarflokknum þannig haft mun meiri áhrif á bæði hvernig ríkisstjórn verður mynduð hér á landi eftir kosningar og aukið verulega líkurnar á því að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið strax í kjölfar þeirra.

Skynsamlegast kostur Evrópusinnaðs sjálfstæðisfólks hlýtur því að vera að kjósa Framsóknarflokkinn á kjördag þann 25. Apríl næstkomandi.

X-B fyrir ESB.

16 ummæli:

 1. Það er ekki skrýtið að fylgið hrynji af Framsókn vítt og breitt um landið þegar trúnaðarmenn flokksins skrifa svona. En útaffyrir sig athtyglisvert að nú sé viðurkennt að Framsóknarflokkurinn stefni að því að koma Íslandi í ESB.

  SvaraEyða
 2. Nafnlaus: Það hefur greinlega farið framhjá þér, en á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins var samþykkt sérstaklega áð sækja ætti um aðild að ESB. Alvöru trúnaðarmenn flokksins hljóta að vinna stefnu flokksins framgang!

  SvaraEyða
 3. Gott ef satt væri...

  Framsóknarflokkurinn hefur alls ekki ákveðna stefnu hvað þetta varðar, hefur slegið úr og í, auk þess sem fyrirvarar hans fyrir aðild eru í raun svo miklir, að við ættum að þurfa að segja okkur úr EES...!

  Auk þess hefur formaður ykkar ítrekað sagt að það liggi ekkert á þessu, ESB sé ekki stóra málið næstu misserin, osfrv. (m.ö.o. hugsanlega ekkert á öllu kjörtímabilinu...) Samsagt, atkvæði með Framsókn þýðir alls ekki atkvæði með inngöngu í ESB.

  Það er í raun rannsóknarefni út af fyrir sig, að aðeins einn flokkur á Íslandi vill afdráttarlaust sækja um aðild að Evrópusambandinu; Samfylkingin. Það er í raun ótrúlegt og sorglegt að íslenskir stjórnmálaflokkar skuli enn vera staddir á nítjándu öldinni; kjósa höft og einangrun umfram allt annað.

  Þeir sem telja að aðild að Evrópusambandinu skipti höfuðmáli í endurreisn Íslands, hljóta allir sem einn að kjósa Samfylkingina. Aðild að Evrópusambandinu hefur aldrei verið mikilvægari en nú, og því er það þjóðþrifamál að kjósa þann eina flokk sem stefnir að því undanbragðalaust.

  SvaraEyða
 4. Nafnlaus 2: Fyrirgefðu, en stefnan er ósköp skýr: "Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar."

  Skilyrðin eru sömuleiðis hófleg og skynsamleg, eða hvað af þessu viltu gefa frá þér, tala nú ekki um fyrirfram:

  Skilyrði
  - Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.
  - Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB
  um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði
  sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
  - Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum
  vegna fámennis þjóðarinnar.
  - Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
  - Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.
  - Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar
  varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.
  - Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
  - Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
  - Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.

  ...og allt var þetta nú ítrekað í gær á kynningu á kosningastefnuskrá flokksins, þ.m.t. að sótt verði um aðild að ESB sem fyrst.

  SvaraEyða
 5. Gott innlegg hjá þér Friðrik.
  Hvernig væri að Samfylkingin færi að skilgreina samningsmarkmiðin. Ég held reyndar að þeir þori ekki að gefa þau upp fyrir kosningar þar sem þeir vilja fara inn hvað sem það kostar. Markmið og skilyrði Framsóknar eru skýr, það er lágmarks kurteisi við kjósendur að koma hreint fram. Það gerir Samfylkingin ekki. Hún er bara í því að hanna atburðarásir. Ótrúlegt að fólk sjái ekki í gegnum það.

  SvaraEyða
 6. Eggert Herbertsson5. apríl 2009 kl. 12:08

  Friðrik. Ég hef lesið þín skrif og tel þig af heilum hug vija fara í aðildarviðræður við ESB. Það á hins vegar ekki við um Framsóknarmenn almennt á landsbyggðinni, ég hef heyrt þá nokkra tala og þeir eru ALGJÖRLEGA á móti ESB umsókn. Ég veit að þú, Gummi Steingríms, Hallur Magg og nokkrir fleiri vilja fara þessa leið en þið eruð því miður of fáir. Því hvet ég alla stuðningsmenn þess að fara í aðildarviðræður, sem er brýnasta mál nútímans, að styðja Samfylkinguna til að leiða það mál

  SvaraEyða
 7. Allt rétt nema það sem þú segir um Framsókn.

  Eini valkostur ALLRA þeirra sem vilja koma í veg fyrir einangrun, atvinnuleysi og gjaldþrot heimilanna er Samfylkingin.

  Þangað fer atkvæði mitt en fram til þessa (25 ár) hef ég kosið Sjálfstæðisflokkinn. Það get ég ekki gert á meðan núverandi afstaða er ríkjandi gagnvart krónunni og ESB.
  Ég er ekki einn um þetta, því við, 40 karlar, hittumst einu sinni á mánuði og borðum saman. Allir sem einn hafa kosið X-D fram til þessa.
  Við tökum púlsinn á samfélaginu og flestir okkar eru með sjálfstæðan rekstur í millistórum fyrirtækjum.

  Við gerðum skoðanakönnun okkar á meðal í fyrradag um hvað menn ætluðu sér að kjósa og þetta var niðurstaðan.

  Sjálfstæðisflokkinn = 3
  Vinstri Græna = 1
  Framsókn = 1
  Samfylkinguna = 35

  Svona er nú komið fyrir flokk einkaframtaksins, Sjálfstæðisflokknum, og er þetta hræðilegt í raun, að flokkurinn skuli ætla sér að einangra landið og fyrirtækin um leið og gjörbylta haga allra um leið.

  En þetta var niðurstaðan og mjór er mikils vísir.

  Menn ættu að fara girða sig í brók og hætta þessarri vitleysu áður en það verður of seint.

  SvaraEyða
 8. Nafnlaus 3: Þakka þér, og já, þetta er soldið svoleiðis.

  Eggert: Það er mikil og þéttur meirihluti fyrir því innan Framsóknarflokksins að sækja um aðild að ESB. Það er hins vegar morgunljóst að það er hávær og kröftugur minnihluti, sérstaklega af landsbyggðinni, sem er alfarið á móti og svífst einskis í þeirri andstöðu. Ég fann það nú á eigin skinni þegar ég tók þátt í póstkosningunni hjá Framsókn hér í Norðvestur. Meirihlutinn fyrir málinu innan Framsóknar er hins vegar traustur.

  Nafnlaus 4: Þetta er athyglisvert innlegg frá þér og endurspeglar það sem ég hef á tilfinningunni gagnvart mörgum minum ESB-sinnuðu vinum úr Sjálfstæðisflokknum. Margir hverjir hafa horft til þriggja kosta: kjósa sinn flokk samt, kjósa Samfó eða skila auðu/sitja heima. Ég vil hins vegar benda þeim á þann góða kost að kjósa Framsókn og auka þannig líkurnar á bæði ESB umsókn og tryggja a.m.k. borgaralegri ríkisstjórn en hér verður ef Samfó og Vg sitja ein í stjórn. Reyndar tel ég að hrein miðjustjórn B og S væri lang heppilegasti kosturinn.

  SvaraEyða
 9. Jóhannes:
  Innganga í ESB og tenging krónunnar við Evru gegnum ERM 2 er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar í dag. Ég hef kosið Sjálfstæðisflokkinn í mörg ár en ætla að sleppa því núna þar sem ég tel að ESB aðild sé langstærsta hagsmunamál þjóðarinnar í dag. Ég hef upplifað hið sama og Nafnlaus hér að ofan að margir sjálfstæðismenn í kringum mig munu sleppa því að kjósa flokkinn eða eru mjög efins. Mönnum líkar ekki hvernig heimastjórnararmi flokksins undir herstjórn Styrmis Gunnarssonar hefur tekist að binda og kefla flokkinn í Evrópumálum, þar með talið formann og varaformann flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga stefnu í peninga- og gjaldmiðilsmálum enda bullandi ágreiningur innan hans.

  Framsóknarflokkurinn má eiga það að hafa verið virkastur flokka í að koma með góðar tillögur í stjórn efnahagsmála. Ef hann væri gegnheill í stefnu sinni í Evrópumálum, í samræmi við það sem þú skrifar Friðrik, þá myndi ég kjósa Framsóknarflokkinn. Hinsvegar er vitað að það er mikill ágreiningur innan flokksins í ESB málum og óvíst hvað yrði ofan á ef á reyndi, sbr. reynsluna innan Sjálfstæðisflokksins. Ef Framsóknarflokkurinn myndi taka jafn afdráttarlausa afstöðu og Samfylkingin í Evrópumálum myndi flokkurinn vinna fylgi bæði frá Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni. Í dag er Samfylkingin eini flokkurinn sem ESB sinnar geta treyst í þeim málum.

  SvaraEyða
 10. Hægri sinnaðir evrópusinnar sem ekki vilja kjósa ljósbleika samfylkingu og uppskera stjórn heilagrar Jóhönnu og Steingríms eru í vandræðum. Það kann að vera að þeim þyki Framsókn álíka óstöðug í trúnni og sjálfsstæðisflokkurinn, - og svo er maddaman kannski bara ekki nógu hægri sinnuð.

  Evrópustefnu sjálfstæðisflokksins má draga saman í: "Við viljum ekki vera með, en ef meiri hluti Alþingis vill það, þá á þjóðin að kjósa um aðildarviðræður og svo aftur um samningsniðurstöðu". Guðni Ágústsson stakk reyndar upp á sömu aðferð (2 x kosningum) í maí, og hlaut skammir víða fyrir.

  Reyndar höfðu gallharðir Evrópusinnar rætt þessa aðferð þá um nokkuð skeið, sbr.
  http://www4.visir.is/article/20080518/SKODANIR03/762857568/0/text

  Það er verst að ekki skuli hægt að afgreiða umsóknarspurninguna í kosningunum 28. apríl. Svo gætum við haldið ferlinu áfram....

  SvaraEyða
 11. Nafnlaus 5: Má nú kannski minna á það að Samfylkingin var fljót að stinga ESB undir stól eftir kosningarnar 2007 þ.a. sporin hræða pínu í þeim efnum. Ég hef nú ekki trú á hins vegar að það gerist aftur. Ítreka hins vegar að stefna Framsóknarflokksins er krítskýr - það á að sækja um aðild.

  Halldór: Mikið rétt, og fyrir ári var alveg tími fyrir svona æfingar en ekki lengur. Reyndar gæti núverandi þing alveg afgreitt þingsályktunartillögu/lög um sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningunum 25. apríl, en það erlíkelga ekki að gerast, enda enginn að berjast fyrir því á þingi.

  SvaraEyða
 12. Jóhannes:
  Framsóknarflokkurinn er í dag með svipað tækifæri gagnvart Sjálfstæðisflokknum og Tony Blair þegar hann tók það bitastæðasta úr stefnu Íhaldsflokksins og gerði að stefnu Verkamannaflokksins. Íhaldsflokkurinn var þá veikur fyrir eins og Sjálfstæðisflokkurinn er nú. ESB sinnum innan Sjálfstæðisflokksins vantar valkost. Margir þola ekki Samfylkinguna og líta einnig svo á að atkvæði greitt SF er ávísun á vinstri stjórn SF og VG. Þetta ætti amk að vera umhugsunarefni fyrir ykkur framsóknarmenn.

  SvaraEyða
 13. X-B fyrir ESB? Frábært. Slagorð Framsóknarflokksins í alþingiskosningum 1991 var X-B, ekki EB. Góð þróun.

  SvaraEyða
 14. Jóhannes: Sammála.

  Steindór Grétar: Batnandi flokkum er bezt að lifa!

  SvaraEyða
 15. Það er fráleitt að halda því fram að Framsóknarflokkurinn hafi skýra stefnu í Evrópumálum. Formannsnefnan hafði áhuga á ESB, en varð að kyngja honum eftir að hafa spjallað við flokksmenn vítt og breytt um landið. Það bendir til þess að hinn almenni framsóknarmaður sé ekki ýkja hrifinn af ESB.

  Samþykkt flokksþingsins ber þetta með sér og er sérlega framsóknarleg - slegið er úr og í - já, já, nei, nei - og hlaðið upp skilyrðum.

  Þeir sem vilja í alvöru leiða þessi Evrópumál til skynsamlegra lykta telja rétt að fara strax í aðildarviðræður og kanna hvað býðst. Síðan greiðir þjóðin atkvæði um samningsdrög.

  SvaraEyða
 16. Framsóknarflokkurinn hefur ekki skýrari stefnu í Evrópumálum en svo, að formaðurinn getur ekki tekið undir stefnuna í umræðuþáttum...
  Hann hefur hvað eftir annað dregið í land, slegið úr og í, sagt að það liggi ekkert á, osfrv.
  Það þýðir á mannamáli, að honum er alveg sama hvort eitthvað mjakast í þessu mesta þjóðþrifamáli samtímans.

  Nei, þeir sem vilja að Ísland mjaki sér í átt til Evrópusambandsins hljóta - og verða! - allir sem einn, að kjósa Samfylkinguna.

  Aðeins þannig verður hægt að koma okkur uppúr hjólförunum.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.