laugardagur, 26. janúar 2008

Dagblöðin: Twilight zone?

Hér fyrir langa löngu horfði ég á þættina Twilight zone. Voru þeir þeir dulúðlegir og gerðist þar ýmislegt á mörkum hins yfirnáttúrulega.

Að fletta dagblöðum dagsins í morgun var eins og að vera orðinn þátttakandi í einum slíkum þætti. Eftir á að hyggja byrjaði þátturinn í gær, en þá var ég ennþá grunlaus.

Þáttur þessi er um hvernig þrjú dagblöð, sem eiga að gefa þér til kynna að þú getir lesið þrjú mismunandi sjónarhorn á atburði líðandi stundar, eru í raun eitt og sama blaðið. Í gær birtist þetta í því að þau birtu öll sama leiðarann. Tveir svo að segja alveg eins (Morgunblaðið og 24 stundir) en sá þriðji með smá bragðbreitingum til að villa áhorfandanum sýn.

Veita okkur falska öryggiskennd!

Í dag dýpkar hins vegar plottið. Öll birta þau nokkurn veginn sama viðtalið við nýja borgarstjórann. Tilbrigðin á milli þeirra er hins vegar ekki nægileg til þess að við Twilight Zone aðdáendur látum gabbast.

Tökum dæmi:

Morgunblaðið:

“Nýi borgarstjórinn tekur innilega í höndina á blaðamanni og vísar honum inn á skrifstofu sína.”

24 stundir:

“Blaðamaður hitti Ólaf á skrifstofu hans daginn eftir og spurði eftir að hafa tekið í hönd borgarstjóra...”

Fréttablaðið:

“Hann tekur þéttingsfast í hönd blaðamanns en lítur svo um á skrifstofunni.”

Það var hérna sem stefið úr Tvilight zone þáttunum fór í gang í bakgrunninum!

Eru yfirnáttúleg öfl að verki? Eða ristir plottið dýpra! Er samsæri í gangi?

Ég bíð spenntur eftir framhaldinu...

...eða eru dagblöðin einfaldlega orðin svona samdauna? Ef þetta er það sem koma skal er varla þörf á þeim öllum þremur, eða hvað?

2 ummæli:

  1. Mann grunar nú að blaðamennirnir hafi allir lesið grein um nýja borgarstjórann í DV á föstudag. Þar kemur fram að Ólafur F. vilji helst ekki taka í höndina á fólki, sökum sýklahættu.

    En svo getur það einnig verið að Ólafur hafi sjálfur - í yfirlestri þá - komið setningunni fyrir í viðtölum blaðamanna, s.s. til að hrekja meintar dylgjur DV.

    Alla vega skarplega athugað.

    SvaraEyða
  2. Þetta er þéttingsfastur pistill hjá þér...

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.