sunnudagur, 20. janúar 2008

Trúnaðarmál

Hið trúnaðarmálsmerkta bréf Guðjóns Ólafs til u.þ.b. 2000 félagsmanna framsóknarflokksins í Reykjavík er fádæma pólitískur kjánaskapur. Að merkja bréf „trúnaðarmál” og senda það svo í pósti til slíks fjölda er nokkurn veginn sambærilegt við að vélrita það feitletrað með upphrópunarmerkjum og merkja það kyrfilega „Fréttatilkynning”.

Athyglisverðast í bréfinu er auðvitað nálgunin á meinta misnotkun á fé framsóknar til fatakaupa, eða eins og Guðjón Ólafur kemst að orði: „að forystumenn okkar í borgarstjórn hafi fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 keypt sér föt fyrir hundruð þúsunda á kostnað flokksins".

Nú hefði án efa verið lítið mál fyrir Guðjón Ólaf að kanna það sjálfur með tveimur símtölum hvort eitthvað væri til í þessum orðrómi – í framkvæmdastjóra flokksins og Björn Inga sjálfan – og nota þá jafnframt tækifærið til þess að kveða þennan orðróm niður í bréfinu jafnóðum.

Það kaus hann hins vegar ekki að gera og útkoman er því sú að nú hafa þessar dylgjur fengið sjálfstætt líf.

Sjálfur hafði ég aldrei heyrt þennan orðróm, og enginn, endurtek, ENGINN sem ég er í sambandi við, hvorki innan eða utan flokksins og láta sig mál hans einhverju varða (og jafnvel ekki!!!) höfðu heyrt þennan orðróm. Ekki fyrr en Guðjón Ólafur fjöldasendi „trúnaðarmál” .

Fer þá með þennan orðróm eins og aðra að hann mun lifa með Framsóknarflokknum til frambúðar. Breytir þá engu þó að framkvæmdastjóri flokksins, Sigfús Ingi Sigfússon, formaður flokksins, Guðni Ágústsson, og Björn Ingi sjálfur vísi þessum „orðrómi” á bug.

Björn Ingi lætur síðan hafa það eftir sér í kvöldfréttum sjónvarp að hann íhugi sína stöðu í kjölfar þessa og hvort hann hafi áhuga á að starfa áfram fyrir flokkinn. „Maður missir áhuga á að starfa við þessar aðstæður” er haft eftir Birni Inga, og lái honum hver sem vill.

Auðvitað eru menn, sérstaklega í þessum merkilega samhliða heimi, bloggheimi, farnir að lesa og leggja meira út úr þessum orðum Björns Inga en efni standa til. Jafnvel þegar farnir máta hann við aðra flokka, þegar eflaust bjó lítið meira að baki annað en sú augljósa staðreynd að þegar lengi gefur á, þá getur eitthvað látið undan.

Allt frá því að Björn Ingi „dirfðist” að fara í framboð til borgarstjórnar hefur hann legið undir ámæli og verið undir smásjá. (...og ekki er því að neita að frá því á fyrsta degi er hann birtist sem aðstoðarmaður þáverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, voru einhverjir með horn í síðu hans!)

Innan flokksins þótti mörgum hann fullfrekur til fjörsins að sækjast eftir fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006. Og ennþá frekari fyrir það að ná því markmiði sínu.

Og svo komst hann inn! Þvert á spár og þrátt fyrir meint kosningasvindl, sem aðallega virtist fara fram í villtum hugarheimi Ólafs Hannibalssonar eftir að hann hafði einhverntíma setið of lengi í heita pottinum í vesturbæjarlauginni!

Áfram hélt ósvífni Björns Inga, og næst gerðist það að hann, öllum að óvörum, myndaði meirihluta um borgarstjórn með sjálfstæðisflokknum, þrátt fyrir að það hlutverk hefði verið frátekið fyrir Ólaf Magnússon, fulltrúa Frjálslyndra.

Svo kom REI.

Meirihlutinn sprakk og fyrrverandi samstarfsmenn Björns Inga úr borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins vönduðu honum ekki kveðjurnar. Enda dirfðist hann jú að verða sneggri til en þeir í að mynda nýjan meirihluta.

Og nú þetta.

Björn Ingi er kvæntur maður, með unga fjölskyldu. Segir mér svo hugur að vart hafi meira búið að baki svari Björns Inga en sá möguleiki að fara að gera eitthvað annað.

Allt annað!

4 ummæli:

 1. svo var þetta lið ekki einu sinni smart klætt... og er ekki enn...

  SvaraEyða
 2. Aðalatriðið er að Björn Ingi geri eins og honum sjálfum finnst.
  Það er athyglisvert að jafnvel nafni hans dómsmálaráðherra í bloggi fari að blanda sér í mál annars stjórnmálaflokks. Er það ekki sérstætt. Er þeim það mikil ógn að þeir notfæri sér tækifærið um leið og mögulegt er. Sýnis ánægjulega hæð sómans sem stýrir þeim flokki.

  SvaraEyða
 3. Ath. Síðasta setning í fyrri athugasemd. Sýnir ánægjulega þá hæð sómans sem stýrir þeim flokki.

  SvaraEyða
 4. Nákvæmlega - Lái honum hver sem vill.

  Það vill svo til að Björn Ingi er sá eini í REI-málinu sem hefur haldið haus allan tímann og sagan mun án efa fara mildari höndum um hann þegar til lengri tíma er litið en aðra borgarfulltrúa sem að því máli komu. Það virðist taka langan tíma að lenda því máli enda tel ég að það gangi fyrst og fremst út á að skera Svandísi og félaga niður úr pólitískri snöru án þess að eyðileggja útrásina.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.