föstudagur, 11. janúar 2008

Kaupþing: Komið að kveðjustund?

Í litlum pistli sem ég skrifaði og birtist í Fréttablaðinu fyrir rúmum mánuði tók ég m.a. svo til orða:

Það mikla álag sem viðskiptabankarnir, og önnur íslensk fjármálafyrirtæki, sæta um þessar mundir mun verulega hefta frekari vöxt þeirra og útrás ef ástandið verður viðvarandi. Má leiða að því líkur að sá kostur muni koma til alvarlegrar skoðunnar hjá a.m.k. einhverju þeirra, í ljósi hagsmuna bæði hluthafa og viðskiptavina, að flytja höfuðstöðvar sínar frá Íslandi til annars lands, t.d. Bretlands eða Hollands. Sumum þeirra verður sú ákvörðun auðveldari en öðrum í ljósi umfangs og eðlis rekstrar þeirra. Það hefði hins vegar án efa afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf.

Þessu til viðbótar má nú ætla að neikvæð viðbrögð Seðlabankans við evruuppgjörsáformum Kaupþings, svo og skilyrt leyfi Ársreikningaskráar til bankans til hins sama geri það nánast óumflýjanlegt fyrir stjórnendur Kaupþings að íhuga alvarlega að færa höfuðstöðvar Kaupþingssamstæðunnar úr landi.

Framtíð Kaupþings sem íslensks banka hvílir þannig í höndum fjármálaráðherra, en hann getur veitt leyfið án skilyrða. Ekki er að efa að þessi möguleiki mun hvíla þungt á ráðherranum og ráðuneytinu í mati þeirra á afstöðu til stjórnsýslukæru Kaupþings á hinni skilyrtu heimild Ársreikningaskráar.

Hafni fjármálaráðherra ósk Kaupþings, gæti farið svo að innan tíðar yrði Kaupþing fyrsti erlendi bankinn með alhliðabankaþjónustu á Íslandi í gegnum útibú sitt á Íslandi...!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.