fimmtudagur, 17. janúar 2008

Öll él...

Í núverandi ástandi alþjóðafjármálamarkaða, þar sem lítið lát virðist vera á afleitum tíðindum vegna sérstaklegra undirmálslána tengdum bandarískum fasteignum, er kannski ekki auðvelt að finna ljósið í myrkrinu.

Sumar þær tölur og það tap sem fjármálastofnanir eru að taka á sig þessu tengt eru hreint stjarnfræðilegar, eins og sjá má af tíðindum að fjármálastórveldum eins og Merrill Lynch, Citigroup og JP Morgan.

Vissulega lítur þetta illa út og ekki er hægt að draga fjöður yfir þá staðreynd að um er að ræða alvarlegt ástand. Það er hins vegar huggun harmi gegn að það er einn megin styrkur vestræns markaðshagkerfis hvernig það bregst við áföllum af þessu tagi.

Þó tapið sé mikið, tölurnar háar, og langt í frá ljóst að allir muni lifa af það gjörningaveður sem nú gengur yfir er þó a.m.k. verið að bregðast við vandanum. Viðbrögðin eru harkaleg, en þá má væntanlega segja og vona að þannig verði best hreinsað til og rýmt fyrir næstu uppsveiflu.

Að vissu marki má gera samanburð á núverandi ástandi á fjármálamörkuðum við það ástand sem varð á japansmarkaði undir lok níunda áratugarins og í upphafi þess tíunda. Sambærilegt við núverandi ástand er sú staðreynd að hún tengdist m.a. fasteignabólu á japansmarkaði, offjárfestingum og lélegum lánum veittum af japönskum bönkum. Japanir hins vegar brugðust við með því að forðast það að takast á við vandan og veltu honum í raun á undan sér í rúman áratug með tilheyrandi samdrætti og viðvarandi hagvaxtarleysi. Hér kom ýmisleg til, m.a. menningarmunur en ekki er hægt að segja að japanskur fjármálamarkaður sé fyllilega sambærilegur hefðbundnum vestrænum mörkuðum. Þar t.d. skiptir máli, eins og m.a. Alan Greenspan bendir á í ævisögu sinni “The Age of Turbulence” og koma í veg fyrir að menn tapi andlitinu. Hefðbundin vestræn viðbrögð, eins og við sjáum á á markaði í dag, eru að afskrifa lán og setja fyrirtæki sem ekki er viðbjargandi í gjaldþrot.

Hin tafsömu viðbrögð japanska fjármálageirans við fasteignabólu, offjárfestingum og lélegum lánum gerðu það s.s. að verkum að hagvöxtur stóð þar nánast í stað í einn og hálfan áratug og fór ekki að hreyfast upp á við á ný fyrr en 2006. Um tíma gekk Japan í gegnum tímabil neikvæðrar verðbólgu og raunsamdráttar í efnahagslífinu. Í því ljósi má færa rök fyrir því að hörð, en sársaukafull viðbrögð lánastofnanna á vesturlöndum við hinni svokölluðu undirmálslánakrísu sé til meðal- og lengri tíma í reynd mjög jákvæð. (Það er að sjálfsögðu síðan verðugt rannsóknarefni og víti til varnaðar hvernig þessi undirmálslánalangavitleysa náði að vinda upp á sig og verða jafn víðtæk og raun ber vitni, en það er önnur saga.) Aðgerðir samanber þær sem þegar hafa verið tilkynntar af Citigroup og hjá öðrum lánastofnunum þar sem miskunarlausar tiltektir og afskriftir eiga sér stað ættu að skila mönnum fyrr á lygnari sjó og þá vonandi í átt að nýrri uppsveiflu fyrr en ef gripið hefði verið til "japanskra" viðbragða, þ.e. reynt að afneita, fela eða velta vandanum á undan sér.Í stuttu máli, þó aðgerðirnar séu harkalegar og sársaukafullar, því fyrr sem hreinsað er út því betra fyrir alþjóðahagkerfið og því fyrr má búast við að hjól alþjóðafjármálamarkaðar geti farið að snúast með eðlilegum hætti að nýju.

Öll él styttir jú upp um síðir og því fyrr og betur sem vorhreingerningin er kláruð, því fyrr getum við öll vonandi farið út og notið sumarsins.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.